Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Versti samningur ríkisins

Mynd af peningum

Samningur íslenska ríkisins við ríkiskirkjuna árið 1997 er mögulega versti samningurinn sem íslenska ríkisvaldið hefur gert fyrir hönd þjóðarinnar. Það fól í sér að ríkið tók formlega við eignarhaldi á óljósum jarðeignum gegn því að það greiddi prestum og starfsmönnum Biskupsstofu laun um ókomna framtíð.

Jarðir uppá ellefutug brasilljóna virði

Á það hefur verið bent að það sé, vægast sagt, furðulegt að skuldbinda ríkið án nokkurs tímaramma, að engin tilraun hafi verið gerð til þess að meta virði jarðanna sem ríkið fékk og að ekki hafi einu sinni verið vitað með fullri vissu hversu margar jarðir væri um að ræða. Ríkið hefur þegar greitt 28 milljarða til ríkiskirkjunnar síðan 1998.

Fyrir nokkrum árum héldu tveir prestar því fram að virði jarðanna væri vitað og laun sem ríkið greiddi vegna samningsins væri reiknuð sem ákveðið hlutfall af virði þeirra. Miðað við heildarlaunagreiðslur úr ríkissjóði til kirkjunnar það árið hefði virði jarðanna verið sautján þúsund milljarðar. Sem er fráleit tala.

Svar fjármála- og efnahagsráðuneytisins

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur nú tekið af allan vafa um það hversu illa var staðið að samningnum frá árinu 1997. Í svari við fyrirspurn sem Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lagði fram í desember. Þar kemur meðal annars fram að virði jarðanna var hvorki vitað þá né nú:

Ekki var farið í sjálfstæða rannsókn eða verðmat á öllum þeim eignum sem til álita komu enda hefði þurft að rannsaka sögu hverrar landspildu eða jarðar fyrir sig, í sumum tilvikum jafnvel margar aldir aftur í tímann. Þegar forsagan lægi fyrir hefði síðan þurft að taka ákvörðun um lögfræðilega stöðu viðkomandi eignar og komast svo að sameiginlegri niðurstöðu fulltrúa ríkis og þjóðkirkjunnar hvorum megin einstakar eignir áttu að lenda og hvert væri áætlað verðmæti þeirra. Forræði þessara eigna var á hendi fleiri ráðuneyta svo sem landbúnaðar-, menntamála- og dóms- og kirkjumálaráðuneyta. Ómögulegt er því að segja til um verðmæti allra þeirra landspildna, fasteigna og jarða sem tilheyra ríkissjóði samkvæmt samkomulaginu. Þetta á bæði við um verðmæti þessara eigna á þeim tíma og virði þeirra nú.

Fjöldi jarðanna var heldur ekki á hreinu þá frekar en nú:

Af framangreindu er ljóst að það er vandkvæðum bundið að veita tæmandi yfirlit yfir ríkiseignir sem áður voru eign kirkjunnar. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um allar þær jarðir, lóðir og fasteignir sem ríkið hefur selt á þessu tímabili en þar er ekki tilgreint hvort einstakar eignir hafi áður talist kirkjueignir. Hægt væri að ráðast í greiningu á því, en hætt er við að það yrði aldrei tæmandi listi sem gæfi heildstæða mynd af fjölda og verðmæti seldra kirkjueigna.

Enginn ákveðinn listi liggur fyrir yfir þær jarðir og kirkjueignir sem urðu eftir hjá íslenska ríkinu og ríkið fékk við samning sinn við þjóðkirkjuna sem undirritaður var 10. janúar 1997, þótt vísa megi í umfjöllun í áliti kirkjueignanefndar um kirkjujarðir.

Samningurinn er svo hagstæður kirkjunni að ef hver einasti meðlimur hennar gengi úr henni væri hún engu að síður tiltölulega stór ríkisstofnun:

Þessir skilmálar fela í sér að ef meðlimum í þjóðkirkjunni fjölgaði svo mjög að allir landsmenn tilheyrðu henni þyrfti ríkið að greiða fyrir 15 störf presta og eitt starf á Biskupsstofu til viðbótar en á hinn bóginn að ef meðlimum þjóðkirkjunnar fækkaði svo mjög að þeir yrðu engir þá þyrfti ríkið að óbreyttu eftir sem áður að greiða fyrir störf þriggja biskupa, um 90 presta og 13 starfsmanna á Biskupsstofu.

Hér sést það svart á hvítu hversu ósanngjarn og óeðlilegur þessi samningur virkilega er.

Skuldbindingar ríkisins

Ríkið gekkst undir skuldbindingar um greiðslu launa gegn yfirtöku á jörðum sem hún hafði þá þegar haft umsjón með í 90 ár. Það var ekki vitað um hvaða jarðir var að ræða, hversu margar þær voru né hver virði þeirra var. Þá felur samningurinn í sér að jafnvel þó að sjálfur grundvöllur Þjóðkirkjunnar, sóknarbörnin, gengju öll úr kirkjunn fengju 106 manns samt sem áður laun frá ríkinu.

Ráðherrar sitja í skjóli þingsins og þingið situr í skjóli kjósenda, þannig að þegar ríkisvaldið gerir samninga er eðlilegt að sú krafa sé gerð að það hafi hagsmuni borgaranna efst í huga. Þegar samningurinn um kirkjujarðirnar er skoðaður er augljóst að hagsmunir eins kristilegs trúfélags voru settir á oddinn. Hafið það í huga næst þegar prestar og biskupar halda því fram að kirkjan sé ekki kominn upp á ríkið varðandi rekstur hennar og völd.

Ritstjórn 27.01.2014
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Klassík , Kirkjujarðasamningurinn )

Viðbrögð


Magnus S. Magnusson - 27/01/14 14:39 #

Aldeilis ötrúlegt. Næstum eins ótrúlegt og þau makalausu mörgu hindurvitni sem þessi siðblinda stofnun heldur að börnum með stuðningi ríkisvalds kynslóð eftir kynslóð, ár eftir ár og dag eftir dag, alveg fram á daginn í dag. Gersamlega ótrúlegt mál.


Lárus Viðar (meðlimur í Vantrú) - 28/01/14 06:46 #

Ég vona að Birgitta og fleiri fylgi þessu máli eftir. Nú er búið að viðurkenna að þessi samningur var fúsk og ekki pappírsins virði. Tap ríkisins verður reiknað í tugum milljarða þegar upp verður staðið, rifta þarf þessum samning þegar í stað!


Bjarni Tryggvason - 28/01/14 13:14 #

Er ekki hægt að afturkalla svona glæpamennsku og draga menn til ábyrgðar? Ótrúlegt

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.