Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

1891: Matthías Jochumsson áminntur

Merki únitara

Þegar klerkar halda því fram að íslenskt þjóðfélag sé rosalega kristið, þá er þjóðsöngurinn eitt af því sem þeir benda á. Höfundur ljóðsins var jú prestur í ríkiskirkjunni og svo er talað um guð í textanum. En Matthías Jochumsson var ekki eins kristinn og prestarnir halda stundum fram, eins og atburðir ársins 1891 sanna.

Trúboði erlends sértrúarsafnaðar

Matthías var nefnilega alger villutrúarmaður. Hann var únitari: hann afneitaði þrenningarkenningunni og guðdómi Jesú. Þekktasti trúflokkur nútímans sem aðhyllist hálfgerðan únitarisma er líklega Vottar Jehóva, og þeir eru einmitt oft ekki flokkaðir sem kristinn trúflokkur af ríkiskirkjumönnum einmitt vegna þess.

Matthías var meira að segja lengi vel launaður trúboði únitara á Íslandi, og gerðist prestur ríkiskirkjunnar þegar hann varð blankur. Eftir að hann gerðist prestur missti hann næstum því hempuna vegna villutrúar sinnar.

Áminning fyrir villutrú

Matthías trúði nefnilega ekki heldur á eilífar kvalir helvítis. Samkvæmt höfuðjátningu Þjóðkirkjunnar þá er afneitun eilífra kvala í helvíti alger villutrú. Það var auðvitað í lagi fyrir prest að vera villutrúarmaður, svo lengi sem hann sagði ekki frá því. Matthías gerði þau mistök að tjá skoðun sína á helvíti í blaðagrein:

Deilið ekki um lærdóminn ljóta, sem svo voðalega neitar Guðs vísdómi, almætti og gæzku! Sé nokkur kredda til, sem löngu er úrelt orðin og kristindóminum til tjóns og svívirðingar, er það þessi. Og þó menn sakir þrályndis eða hjátrúar trúi ekki vísindamönnunum, ættu menn þó að trúa hinum ágætustu guðsmönnum, sem nú lifa, og allir, eða nálega allir, fordæma lærdóminn um eilífa útskúfun! #

Biskupinn sendi honum alvarlega áminningu og Matthías baðst opinberlega afsökunar á skrifum sínum.

Þó nú séu liðin meira en hundrað ár eiga prestar það enn yfir höfði sér að vera reknir ef þeir opinbera villutrú. Þetta er eflaust ástæðan fyrir því að ríkiskirkjuprestar sem afneita játningunum fást ekki til að játa það opinberlega.

Ritstjórn 16.01.2014
Flokkað undir: ( Baksýnisspegillinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.