Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um stjörnuspeki

Mynd af klukki með srjörnumerkjum

Stjörnuspeki er ein þekktust gervivísinda og er ekki hægt að rugla saman við stjörnufræði eða stjörnuvísindi. Margir taka stjörnuspeki sem dægradvöl frekar en sem greiningar- og aðgerðatóli. Þó er samt til stór hópur fólks sem gleypir við þessu og lætur stjörnuspekina jafnvel stjórna ákvarðanatöku þeirra.

Stjörnuspá

Í stjörnuspeki er himinhvolfinu skipt í 12 hluta sem kallast dýrahringurinn, sem hvert spannar 30 gráður. Naðurvaldi er stjörnumerki sem sumir hafa stungið upp á að verði 13. stjörnumerkið en það hefur ekki náð fótfestu.

Stjörnuspár ganga út á það að spá fyrir um atburði/tilfinningar í lífi einstaklinga (og dýra) eftir fæðingartíma og fæðingarstað. Þær fylgja oft þeirri formúlu að koma með persónulýsingar eins og hvaða tilfinningar munu ráða ríkjum, persónuleg vandamál og oft fylgja ráðleggingar. Ef þú greiðir fyrir stjörnuspá sem þú færð yfir netið fylgja stundum myndir með og meiri texti.

Farir þú til stjörnuspekings í eigin persónu gerist það sama og ef þú ferð til miðils, hann mun stunda háttlestur og/eða forlestur. Útkoman er samt hin sama; hún byggir á Forer-áhrifunum og fólk mun ganga langt í tilraun sinni til að tengja spána við sjálft sig.

Áhrif stjarna

Ekki hefur verið sýnd fram á neina tengingu milli stöðu annarra stjarna gagnvart Jörðu og hvernig það á að hafa áhrif á persónuleika okkar eða vera úrslitavald um smáatriði í lífi okkar. Hvernig á staða Úranusar í stjörnumerkinu Bogmanninum í 4. húsi á fæðingardegi greinarhöfundar að hafa áhrif á persónu hans það sem eftir er af hans ævi?

Fæðingartími

Skiptar skoðanir virðast vera um hversu nákvæmur fæðingartíminn þarf að vera. Á meðan stjörnuspár í blöðum og tímaritum eiga við um alla einstaklinga innan ákveðins stjörnumerkis eru sumir stjörnuspekingar sem krefjast jafnvel fæðingartíma upp á mínútu. Vitir þú ekki hvenær þú fæddist eru jafnvel sumir stjörnuspekingar sem bjóðast til þess að finna það út miðað við mikilvæga atburði í þínu lífi.

En af hverju að miða við fæðingu? Það er ekki eins og mæður okkar virki sem öflugur skjöldur sem kemur í veg fyrir öll áhrif stjarna þar til við fæðingu. Röksemdarfærsla stjörnuspekinga ætti að leiða að því að áhrifanna fer að gæta miklu fyrr í lífi fólks en þeir vilja líklegast ekki styggja við þá aldagömlu hefð að miða við daginn sem þú fæddist.

Síðan væri fáránlegt að halda því fram að áhrif stjarnanna séu eingöngu á fyrstu mínútunum sem líða eftir fæðingu og því væri eðlilegt að stjörnurnar héldu áfram að hafa áhrif... út ævina. Þar sem mínútur skipta svo miklu máli og fyrri staða okkar á hnettinum fyrst miðað er við fæðingarstað, þá mætti koma með þau rök að hver og einn einstaklingur þyrfti að skrá niður staðsetningu hans hverja einustu mínútu lífsins til að fá áreiðanlega spá.

Mismunandi stjörnuspár

Ef þú ferð til nokkurra stjörnuspekinga, lætur alla fá sömu (ítarlegu) upplýsingarnar og biður um stjörnuspá muntu án efa fá jafnmargar mismunandi spár og sem nemur fjölda þeirra stjörnuspekinga sem þú spyrð. Skýringin sem stjörnuspekingar myndu beita sér fyrir ef slíkt yrði gert og opinberað er að segja að minnstu frávik geti kollvarpað allri stjörnuspánni ásamt mismunandi túlkun hvers stjörnuspekings á gögnunum.

Ástæðan er einfaldlega sú að hér er um hreina ágiskun að ræða sem hulin er með hugtökum sem fæstir geta og vilja setja sig inn í. Hin yfirlýsta nákvæmni er notuð sem vopn ef fólk gerir tilraun til þess að afhjúpa ágiskunarstarfsemi stjörnuspekinga.

Vísindalegt gildi

Stjörnuspeki hefur ekkert vísindalegt gildi. Hún ber öll þau merki að svala þorsta fólks til þess að vita gagnslausar staðreyndir um sig, jafnvel þótt þær staðreyndir séu uppskáldaðar. Það er hin rómaða nákvæmni sem ljær stjörnuspekinni þann vísindalega brag sem hún hefur nú í dag og vinsældarrökin. Niðurstaðan er samt hin sama: stjörnuspeki er list en ekki vísindi.


Mynd fengin hjá Tony Hisgett

Svavar Kjarrval 03.01.2014
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Þórður Magnússon - 05/01/14 23:52 #

Það allra skemmtilegast við þessa speki er að hún er svona 2-2,5 þúsund ára gömul. Þessu segja stjörnuspekingar frá með talsverðu stolti. En sólmiðjukenningin er ekki nema frá 16. öld. Þannig að öll fræðin miða við að allar pláhnetur vetrarbrautarinnar snúast í kringum jörðu einu sinni á sólarhring! Smá skekkja, en þetta eru leiðinda smáatriði.


Sverrir Ari - 12/01/14 15:57 #

Ef aðdráttar áhrifa frá stjörnum í milljóna ljósára fjarlægð gætir á mannslíkamann þá ættu t.d. þvottavélar og þurrkarar að hafa mun meiri áhrif á okkur, en hvar eru þvottavéla og þurrkara spekingarnir? Sorlegt hversu margir gleypa við þessari þvælu.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?