Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúboð og kirkjuheimsóknir

Mynd af barnu að biðja

Í fréttum um daginn var sagt frá því að hópur foreldra í Grafarvogi hefði farið með börnin sín í kirkjuheimsókn um jólin, af því að skólinn vildi ekki gera það vegna nýrra reglna Reykjavíkur.

Fín uppákoma

Er það ekki bara fínt að þeir foreldrar sem vilja að börnin sín fari í kirkju um jólin fari sjálf með þau í kirkju? Er það eitthvað erfitt? Er það ekki eðlilegasta fyrirkomulagið?

Auðvitað fara ekki öll börn í kirkjuna, þau sem vilja lítið sem ekkert með ríkiskirkjuna gera senda einfaldlega ekki börnin sín þangað. Enda er ein ástæða þess að kirkjan vill að skólarnir standi fyrir þessu sú að þannig nær hún til miklu fleiri barna.

Og þegar foreldrarnir fara sjálfir með börnin, þá getur presturinn logið að börnunum eins og hann vill og beitt öllum brögðum sem hann þekkir til þess að sannfæra börnin um sannleika kristinnar trúar.

En því miður er staðan ekki alls staðar jafn góð og í Grafarvogi.

Bænahald

Við höfum verið upplýst um það að í sumum leikskólum leiði presturinn börnin í bæn í kirkjuheimsóknum sem skólinn fer í.

Það ætti að vera öllum ljóst að bænahald hefur ekkert fræðslugildi, heldur er það einfaldlega trúariðkun og trúboð. Tal um fræðslugildi heimsóknanna er eintóm blekking ef þetta er látið líðast og ef einhver vill halda því fram að það sé “hefð” að presturinn leiði börnin í bæn, þá er það einfaldlega hefð sem á ekki að halda við.

Það er reyndar vafasamt að tala um fræðslugildi þessara heimsókna yfir höfuð. Eru börnin það gleymin að það þarf að segja þeim sömu söguna um fæðingu Jesú hverja einustu stund? Jólasagan er einföld (og ósönn) og þau börn sem þekkja hana ekki þegar ná henni alveg í einni kennslustund. Hvað í ósköpunum er verið að þykjast kenna börnunum?

Einbeittur brotavilji

Ef það á annað borð að fara í þessar heimsóknir, þá eiga þær að sjálfsögðu að vera á forsendum skólans, og ef það er ekki hægt vegna trúboðsákafa presta, þá verður auðvitað að sleppa þeim.

Við hvetjum ósátta foreldra og starfsmenn til þess að láta óánægju sína í ljós og vekja athygli á því ef verið er að brjóta reglur sem settar hafa verið (hér eru reglur Reykjavíkurborgar). Ef starfsmenn eða foreldrar vilja af skiljanlegum ástæðum ekki kvarta, þá hvetjum við þau til þess að láta okkur vita (vantru(at)vantru.is), og þá getum við komið þeim kvörtunum á framfæri nafnlaust.


Mynd fengin hjá Cassidy Lancaster.

Ritstjórn 29.12.2013
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Jórunn Sörensen - 29/12/13 23:53 #

Hið besta mál - því það er jú foreldranna að kynna börnum sínum trúarbrögð sín en alls ekki skólans.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.