Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Grundvallarmisskilningur um jólasveininn?

Mynd af jólasveini

Það er fátt jólalegra en að fólk kvarti og kveini yfir því að einhver stofni jólasveinatrú íslenskra barna í hættu. Það var sérstaklega eftirminnilegt þegar keppandi í Idol stjörnuleit missti út úr sér að jólasveininn væri ekki til og þurfti síðan að draga þá staðhæfingu til baka eftir auglýsingahlé.

Eftir því sem á líður kemst ég heldur á þá niðurstöðu að það sé grundvallarmisskilningur á grímubúningasiðum að halda að börn þurfi, eða eigi, bókstaflega að trúa á jólasveina til þess að hafa af þeim skemmtun. Ég held að það sé engin þörf á því frekar en að börn trúi að krakkar í öskudagsbúningum séu raunverulega það sem þau leika.

Það væri hægt að nefna mörg dæmi um búningasiði sem krefjast ekki trúar, til að mynda í kringum áramóta- og/eða þrettándabrennur (grímubúningar eru oftast tengdir við millibils- eða jaðartíma). Einfaldara er þó að taka leikhús sem dæmi. Ég veit ekki til þess að nokkrum detti í hug að segja börnunum sínum að persónurnar á sviðinu séu alvöru en ekki bara leikarar í hlutverki. Það hefur þó engin áhrif á gamanið.

Krakkar læra snemma að Prúðuleikararnir séu brúður en hafa samt gaman af ærslunum í þeim. Það er jafnvel stórskemmtilegt að horfa á myndskeið þar Jim Henson stjórnar Kermit og það skrýtna er það að Kermit er áfram sannfærandi karakter sem fær jafnvel fullorðið fólk til þess að spjalla við sig.

Það má segja að búningar krefjist ekki óheftrar trúar heldur geti þeir verið sannfærandi á stað og stund. Fyrirfram og eftir á þá vita allir að þetta er bara leikur en leikurinn hefur slíka "töfra" að hægt er að gleyma sér í augnablikinu.

Út frá því hvernig við komum almennt fram við grímubúninga og vegna þess að við vitum alveg hvernig þessir "töfrar" virka þá er skrýtið að það hafi skapast sú hefð að reyna að sannfæra börn að jólasveinar séu bókstaflega til. Börn sem vita að jólasveininn er bara venjulegur maður í búningi hafa alveg jafn gaman af hefðinni.

Skrýtnast er samt hvernig fólk hefur mótað jólasveinahefðina þannig að hún ali á óheiðarleika í samskiptum barna og foreldra. Börn sem hafa áttað sig á sannleikanum, sem liggur í augum uppi, vita að daglegar skógjafir í desember eru háðar yfirlýstri trú á jólasveininn og reyna því að geyma það sem lengst að láta nokkuð uppi um það sem þau vita.

Af hverju ekki útskýra leikinn fyrir börnum, allavega þeim sem spyrja, og láta þau vita að það er allt í lagi að leika með þó trúin sé ekki til staðar?


Mynd fengin hjá DR04

Óli Gneisti Sóleyjarson 19.12.2013
Flokkað undir: ( Jólin )

Viðbrögð


Tryggvi Hrólfsson - 19/12/13 10:12 #

Ég kann reyndar nokkuð vel að meta allt þetta samsæri kringum jólasveininn, vegna þess að það veitir á vissan hátt mikilvæga lexíu í gagnrýnni hugsun. Börn læra að fullorðnir ljúgi stundum að þeim (í góðum tilgangi) og að það sé ekki hægt að treysta á allt sem þau sjá í sjónvarpinu og víðar. Ef þau geta áttað sig á þessa út frá eigin skynsemi og rökhugsun, frekar en að þeim sé beinlínis sagt að jólasveinninn/sveinarnir sé ekki til, hlítur það að teljast mikilvægt þroskaskref í átt að hollri efahyggju.


Ingileif - 20/12/13 17:54 #

Ég hef alltaf sagt mínum dætrum (2, 4, 6 ára) satt þegar þær spyrja og þær vita að jólasveininn, tannálfurinn, og guð eru bara goðsagnir/þjóðsögur. Þær eru samt rosalega spenntar yfir þessu, finnst gaman að rökræða hvernig jólasveinarnir gætu komist í gegnum lokaðan glugga, og hvernig þeir finna okkur (við búum erlendis) og biðja mig um að "koma skilaboðum" (blikk, blikk) til jólasveinanna!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.