Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kerfisbundinn mislestur á jólunum

jólamynd

Á hverju ári heyrist grátkórinn um að ekki megi skylda skólabörn til að mæta í kirkjur og það megi ekki segja þeim söguna af Jesú. Eitt dæmi um það er greinin "Að vera læs á jólin" sem er skrifuð af Sigurvini Jónssyni æskulýðspresti í Neskirkju.

Að þurfa sögu

Það eru nokkur vandamál við grein Sigurvins. Aðallega varða þau fráleita framsetningu hans á samskiptum skóla og kirkju en látum þau vera. Við skulum frekar ræða um nauðsyn þess að vera læs á jólin.

Það kemst varla neitt barn í gegnum grunnskóla á Íslandi án þess að læra um fæðingu Jesú. Því miður fá fæst börn að heyra alla söguna. Stóri punkturinn er augljóslega sá að við vitum að sagan af fæðingu Jesú er uppspuni. Þetta eru líklega þær sögur guðspjallana sem urðu síðast til.

Sögurnar af fæðingu Jesú urðu fyrst og fremst til vegna þess að samfélög í frumkristni þurftu að tengja hann við spádóma Gamla testamentisins um Messías. Það þýddi fyrst og fremst að hann þurfti að fæðast í Betlehem (þó hann hafi verið frá Nasaret).

Jólaguðspjöllin ósamstæðu

Önnur sagan segir frá því að vitringar hafi heimsótt nýfæddan Jesú en hin segir frá fjárhirðum. Önnur sagan endar á fjöldamorðum á ungbörnum og flótta til Egyptalands en hin segir að fjölskyldan hafi bara farið heim til Nasaret. Ein sagan segir að Jesú hafi verið lagður í jötu en hin nefnir það ekki einu orði.

Ef maður er sæmilega læs þá sér maður að hér er ekki um sömu söguna að ræða. Samt láta kirkjunnar menn almennt eins og að skrásetjarar guðspjallana hafi bara sleppt sumum (ótrúlega mikilvægum) köflum úr sögunni og þetta er síðan þrætt saman eins og um eina heild sé að ræða

En það er ekki bara hoggið framhjá veigamiklum atriðum varðandi hin kristilegu jól heldur fá fæst skólabörn að læra um heiðinn uppruna jólanna.

Uppruni jóla og kristsmessu

Orðið jól er komið úr heiðnum sið. Við vitum að á Íslandi voru haldnar miðvetrarhátíðir með þessu nafni fyrir tíð kristni. Við vitum líka að það er næstum sammannlegt að það séu haldnar hátíðir til þess að fagna því þegar dagurinn fer að lengjast.

Í Róm hafði, fyrir tíma yfirtöku kristninnar, verið haldin fæðingarhátíð hinnar ósigrandi sólar sem var líklega síðar breytt í þessa kristsmessu. Við vitum að snemma á sjöundu öld hvatti páfinn til þess að kristnir trúboðar myndu taka yfir (kristna) heiðnar hátíðir í stað þess að reyna að stöðva þær. Mögulega var það meðal annars vegna þess hve vel hafði tekist til við að aðlaga hátíð hinnar ósigrandi sólar að kristinni trú.

Fögnum upprisunni

Það má gera ráð fyrir að næstum hver einasti Íslendingur myndi svara eins þegar hann væri spurður hver sé helsta hátíð Íslendinga: Það eru jólin. Ef kirkjunnar menn eru spurðir hver sé helsta hátíð kristinnar trúar þá er svarið "páskarnir". Hvað veldur þessu?

Svarið er líklega einfalt: Það er nær sammannlegt að vilja fagna þegar dagurinn fer að lengjast á ný. Þetta eru hin raunverulegu áramót. Jólin eru hátíð ljóssins en ljósið er ekki Jesú heldur sólin. Sólin er lífgjafi okkar allra og við fögnum upprisu hennar. Við tendrum ljós til að lýsa upp myrkrið, til þess að gera skammdegið bærilegra og til þess að minna okkur á að það stendur ekki að eilífu.

Það er því hárrétt að margir eru ólæsir á jólin. Það sem kemur hér fram að ofan ætti að vera í öllum kennslubókum sem fjalla um þessa hátíð en þess í stað er sögð uppdiktuð saga af fæðingu Jesú sem skýrir á engan hátt uppruna eða mikilvægi hátíðarinnar.


Sjá einnig:

Óli Gneisti Sóleyjarson 11.12.2013
Flokkað undir: ( Jólin , Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.