Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað getur höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð gert fyrir þig?

Röntgenmynd af hálsi

Höfuðbeina-og spjaldhryggsmeðferð (craniosacral therapy) (nefnt HSM hér eftir) er ,,meðferðarform” sem má með einum eða öðrum hætti rekja til þriggja lækna þeirra Stills, Sutherland og Upledger. Í HSM er unnið með bein höfuðs, hryggjar, spjaldhryggs og mjaðma; með himnur í heila og mænu, mænuvökva og líffæri sem tengjast framleiðslu og frárennsli hans.

HSM skýrir virkni sína útfrá kenningu Sutherland um frumöndun (primary respitory mechanism) en henni má í aðalatriðum skipta í eftirfarandi hluta:

  1. Miðtaugakerfi (heili og mæna) hefur einhvers konar innri hreyfingu (motility) óháð annarri líkamsstarfssemi (t.d. hjartslætti).
  2. Heila-og mænuvökvi hreyfist taktfast (6-14 slög á mínútu) og hann er greinanlegur. Óhindrað flæði hans er grundvöllur heilbrigðis. Takturinn telst til hinnar innri hreyfingar miðtaugakerfisins.
  3. Bein höfuðs eru hreyfanleg.
  4. Himnur í heila-og mænu eru hreyfanlegar.
  5. Spjaldhryggurinn er hreyfanlegur.

Til að lýsa meðferðinni í stuttu máli byrjar meðferðaraðilinn á því að greina takt heila-og mænuvökvans með því að þreifa eftir honum á nokkrum stöðum líkamans (oftast á höfði og/eða á hrygg). Er þessi athöfn meðferðaraðilans ýmist nefnd ,,að stilla sig inn” á takt sjúklings eða að nota hina ,,hugsandi fingur” til að greina vanda sjúklings. Þetta er gert til að kanna flæði vökvans og hvort einhverja hindranir séu á leið hans. Auk takttalninga kannar HSM einnig hvort spenna sé í bandvef eða hvort liðir séu stífir en slíkt getur orsakað stíflur eða hindranir sem hefur í för með sér vanlíðan (sbr. lið 2 hér að ofan). Hlutverk HSM er því að greina hindranir, spennu og stíflur, losa um og koma á óhindruðu flæði. Samkvæmt HSM myndast hindranir, stíflur eða spenna vegna veikinda, slysa, streitu, tilfinningavandamála, áfalla eða annarra meina sem mannfólkið glímir við. Aðferð HSM til að koma á eðlilegu flæði er léttur þrýstingur eða tog (gjarnan miðað við 5 gr þrýsting) á bandvefi, liði og bein í höfði og hrygg.

Samkvæmt þeim sem meðferðina stunda er þetta árangursrík meðferð við ýmsum vandamálum, svo sem: frosinni öxl, tognun í ökkla, liðvandamálum, hryggskekkju, langvarandi háls-og bakverkjum, flogaveiki, heilalömun, heilahimnubólgu, heila-og mænuskaða, kjálka-og bitvandamálum, mígreni, sjóntruflunum, augnleti, tannvandamálum, kvíða, svefnleysi, þunglyndi, námserfiðleikum, lesblindu,  einhverfu, hegðunarvandamálum ýmiss konar, meðgönguvandamálum, vandamálum tengdum fæðugjöf barna, samþjöppun á höfuðkúpu vegna erfiðrar fæðingar, ungbarnakveisu, vökva í eyrum, fylgikvillum skurðaðgera,tíðaverkjum, asma, blöðrubólgu, barkabólgu, liðagigt, meltingarvandamálum, þrekleysi, síþreytu, fylgkvillum langvinnra veikinda, vefjagigt og vandamálum tengdum ónæmiskerfinu svo fátt eitt sé nefnt (sjá tæmandi upptalningu á heimasíðum Upledgerstofnunarinnar á Íslandi, Félags höfuðbeina-og spjaldhryggsjafnara og Craniosacral félags Íslands).

Sé tekið mark á þessari upptalningunni má draga þá ályktun að HSM sé góð og yfirgripsmikil meðferð við ýmsum meinum og því þarft og skylt að heilbrigðisstarfsfólk temji sér aðferðir hennar. En hvað segja rannsóknir?

Rannsóknir?

Ágætar samantektir eru til um rannsóknir á HSM, hvort sem um er að ræða mat á árangri við ýmsum vandamálum eða mat á rannsóknum á frumöndunarkenningu Sutherland (Green, Martin, Bassett og Kazanjian, 1999; Hartman og Norton, 2002).

Tvennt stendur uppúr ef rannsóknir á árangri HSM eru skoðaðar. Það fyrra er að í meirihluta rannsókna er aðferðafræðilegum kröfum svo stórlega ábótavant að erfitt eða illmögulegt er að draga ályktanir um gagnsemi meðferðarinnar. Það seinna er að í þeim rannsóknum þar sem aðferðafræðilegum kröfum er mætt, kemur í ljós að árangur HSM er nær enginn og í sumum tilfellum eru vísbendingar um að sjúklingum hraki á meðan meðferð standi (Green, o.fl., 1999; Greenman og McParland, 1995).

Rannsóknir á frumöndunarkenningu Sutherland hafa í flestum tilvikum beinst að því hversu áreiðanlegar mælingar meðferðaraðila eru á takti heila-og mænuvökva. Takturinn eða taktleysi er mælieining HSM á hversu heilbrigður eða sjúkur viðkomandi er og því nauðsynlegt að geta mælt það fyrirbæri. Í öllum tilvikum hefur verið notast við áreiðanleika á milli matsmanna (interexaminer reliability). Með þessari aðferð eru tveir meðferðaraðilar beðnir um að telja takt heila- og mænuvökva hjá sömu einstaklingunum og síðan er athugað hversu mikið samræmi er á milli mælinga þeirra. Í yfirlitsgrein Hartman og Norton (2002) kemur fram að sex rannsóknir hafa verið gerðar með þessari aðferð. Í 5 af þessum 6 rannsóknum var áreiðanleiki ýmist í kringum 0 eða neikvæður sem þýðir að lítið sem ekkert samræmi var á milli meðferðaraðila. Auk þess kom í ljós að tíðni takts fór eftir þeim sem mældi taktinn en ekki sjúklingnum. Einni rannsókn hefur tekist að sýna fram á áreiðanleika á milli matsmanna við taktmælingar. Það var rannsókn Upledger frá 1977 og er oft og iðulega vitnað í hana HSM til stuðnings. Við nánari skoðun kemur hins vegar í ljós að sú rannsókn er svo aðferðafræðilega gölluð að engin leið er að taka mark á henni. Í samantekt sinni komast Hartman og Norton (2002) að eftirfarandi niðurstöðu um þessa ágætu rannsókn: ,,…líkleg skýring fyrir ágætum niðurstöðum Upledger er mjög alvarlegt tilfelli af hroðvirknislegum vinnubrögðum og lélegu tilraunasniði” (bls. 29).

Hughes (2008) tók saman rannsóknir á óhefðbundnum lækningum til að kanna hvort hægt væri að nýta þær í sálfræðilegu starfi og komst að eftirfarandi niðurstöðu um HSM: Ekki eru til nokkrar vísbendingar um nokkurn árangur HSM við nokkrum sjúkdómum, andlegum eða líkamlegum!

Af hverju er svona mikið ósamræmi á milli árangursmælinga, mælinga á frumöndunarkenningu Sutherland og svo staðhæfinga HSM um árangur?

Er vit í frumöndunarkenningu Sutherland?

Sé leitað skýringa á skorti á árangri HSM eða hversu illgreinanlegur taktur heila-og mænuvökva virðist vera, er ágætt að skoða frumöndunarkenningu Sutherland betur.

Hvað segir kenningin?

  1. Samkvæmt kenningu Sutherland hefur miðtaugakerfið einhvers konar innri hreyfingu (motility) óháð annarri líkamsstarfssemi. Þetta gengur ekki upp því þó starfssemi hjarta og lungna orsaki minniháttar hreyfingu í miðtaugakerfinu, skortir taugafrumur (neurons) og fylgifrumur (glial cells) í miðtaugakerfinu þá líffræðilegu uppbyggingu (Carlson, 2007) sem þarf til að hreyfast!
  2. Samkvæmt kenningu Sutherland hreyfist heila-og mænuvökvi taktfast 6-14 slög á mínútu. Það hefur þegar komið fram að tauga-og fylgifrumur í miðtaugakerfinu hafi ekki þá líffræðilegu uppbyggingu sem þarf til að hreyfast. Auk þess benda fyrrgreindar rannsóknir til þess að takturinn sé illmælanlegur.
  3. Samkvæmt kenningu Sutherland eru höfuðbeinin hreyfanleg á líftíma mannsins. Rannsóknir sýna hins vegar, hvort sem um er að ræða aðferðir krufningar eða með tölvusneiðmynd að höfuðbein beingerast á aldrinum 12-19 ára og því er hreyfing hjá fullorðnum illmöguleg. En gefum okkur að um sé að ræða barn þar sem beinin hafa ekki beingerst. Ætti HSM þá ekki að geta hreyft við höfuðbeinum þess? Þrátt fyrir þennan möguleika eru engar rannsóknir sem benda til þess að hægt sé að gera slíkt með léttum þrýstingi eða togi (Green, o.fl., 1999). Enn og aftur gengur kenning Sutherland gegn allri almennri vitneskju um líffræði.
  4. Samkvæmt kenningu Sutherland eru himnur í heila og mænu hreyfanlegar. Ef þær eru hreyfanlegar ættu meðferðaraðilar HSM að geta greint hreyfingarnar og þ.a.l. taktinn áreiðanlega. Líkt og áður hefur komið fram er svo ekki.
  5. Samkvæmt kenningu Sutherland er spjaldhryggurinn hreyfanlegur líkt og höfuðbeinin. Þar sem hvorki er hægt að mæla taktinn áreiðanlega (Hartman og Norton, 2002) né gengur kenning Sutherland upp líffræðilega er óþarft að hrekja þetta atriði frekar.

Hvað stendur þá eftir?

Af hverju mælir fólk einhverju bót þó svo að grunnkenning þess sem mælt er með stangist á við almenna þekkingu í líffræði? Af hverju mælir fólk einhverju bót þó svo ekki sé hægt að mæla það? Af hverju mælir fólk einhverju bót þegar rannsóknir hafi sýnt fram á lítinn sem engan árangur?

Það er efni í annan pistil.


Heimildir
Carlson, N.R. (2007). Physiology of behavior.(9 útgáfa). Needham Hights: Allyn and Bacon.
Green, G., Martin, C.W., Bassett, K., og Kazanjian, A. (1999). A systematic review of craniosacral therapy: biological plausibility, assessment reliability and clinical effectiveness. Complementary Therapies in Medicine, 7, 201-207.
Greenman, P.E., og McParland, J.M. (1995). Cranial findings and iatrogenisis fram craniosacral manipulation in patients with traumatic brain syndrome. Journal of the American Osteopatic Assossiation, 95(3), 192-188.
Hartman, S. E. og Norton, J.M. (2002). Interexaminer reliability and cranial osteopathy. The Scientific Review of Alternative Medicine, 6 (1), 23-34.
Hughes, B.M. (2008). How should clinical psychologists approach complimentary and alternative medicine? Empirical, epistemological, and ethical considerations. Clincial Psychology Review, 28, 657-675.

Ítarefni
www.upledger.is
www.craniosacral.is
www.cranio.cc
http://en.wikipedia.org/wiki/Craniosacral_therapy
http://www.doktor.is/index.php?option=com_d-greinar&do=view_grein&id_grein=1623
http://skepticwiki.org/index.php/Craniosacral_Therapy

Birtist upphaflega á Húmbúkk

Mynd fengin hjá Mark H. Anbinder

Magnús Blöndahl Sighvatsson 10.12.2013
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.