Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Á Íslam skilið virðingu?

Mynd af Kóraninum

Fyrir skömmu gaf Reykjarvíkurborg lóð undir byggingu mosku. Moska er bænahús múslima sem aðhyllast íslamstrú. Í stuttri kynningarhandbók frá félagi múslima á Íslandi er ljósi varpað á þeirra trúarbrögð. Hér verður ýmislegt gagnrýnisvert dregið fram úr þeirri handbók og helgiriti þeirra, Kóraninum.

Kóraninn er nefndur sem orðrétt ræða Guðs og að ekki einum stafkróki hafi verið breytt í aldanna rás. Enginn vafi er um annað. Þessi atriði og það að aðeins sannur múslimi trúi því að Kóraninn sé orðrétt eftir Guði gerir Íslam að bókstafstrú. Sem sagt því er trúað bókstaflega sem stendur í Kóraninum.

Í handbókinni er fyrst reynt að sannfæra þá sem efast um þessa staðhæfingu. Það er gert með átta „sönnunum“ sem hver er öðrum hlægilegri. Þar er m.a. vitnað í kafla sem lýsa þróun fóstursvísa, fjöllum og veðri. Allt eru þetta óljósar lýsingar og staðhæfingar sem greinilega er reynt eftir fremsta megni að láta líta út fyrir að vera nákvæmar lýsingar á undrum náttúrunnar og þar með sannanir á tilvist Guðs, því enginn maður átti í þá daga að búa yfir annarri eins þekkingu. Um þróun fósturvísa segir í Kóraninum:

Vér skópum manninn af leir. Settum hann síðan sem lifandi dropa á tryggan stað. Því næst breyttum Vér dropanum í alaquh (hlaupið blóð) og alaqah í mughdah (tuggið efni)...

Í handbókinni er þessu versi svo spunnið áfram um þróun fósturvísa. Hér má nefna að ýmislegt hljóti að hafa verið vitað um þessi mál, bara af athugunum á látnum fóstrum til dæmis. Þetta vers sannar ekkert annað en vitneskju manna á þessum slóðum og á þeim tíma sem þetta var skrifað. Ég er eiginlega hissa á því að ekki hafi verið hægt að skrifa nákvæmari lýsingar. Ýmislegt merkilegt var vitað löngu fyrr í sögunni, eins og eiginleika gufuvélar og að jörðin væri hnöttótt. Löngu síðar var svo gufuvélin byggð og staðfest var að jörðin væri hnöttótt. Ekki heldur neinn því fram að um guðlega vitneskju hafi verið að ræða í þeim efnum.

Sönnun um hinn ósvikna höfund heldur svo áfram. Næst er því haldið fram að engum hafi tekist að semja nokkuð sem jafnast á við kafla Kóraninns í fegurð, málsnilld, stórfengleik, lögvísi, sannleika, spádómsgáfu og fleiru. Það telja handbókarhöfundar að sé góð og gild sönnun. En svo kemur augljós spurning um hver það er sem leggur mat á slíkt? Óþarfi að orðlengja frekar, allir ættu að sjá hversu heimskulegt þetta er og alls engin sönnun á neinu.

Eftir að búið er að „sanna“ fyrir hinum mestu efasemdarmönnum að Kóraninn sé orð Guðs hefst guðspjallið fyrir alvöru. Nú er vitnað í handbókina og beint úr Kóraninum:

Hinum vantrúuðu sem deyja í vantrú sinni dugir ekki jarðarfylli gulls sem lausnargjald. Slíkra bíður sár refsing og enginn mun hjálpa þeim“. (Kóran, 3:91).

Nú mætti halda að handbókarhöfundar reyni að draga aðeins úr þessum orðum Kóransins, því hún er kynning á trúarbrögðum múslima, meðal annars hér á landi og væntanlega er vilji til að koma vel fyrir. En í bókinni stendur:

Eina ráðið til þess að fá inngöngu í Paradís og komast hjá logum vítis er að breyta rétt í lífinu vegna þess að sá sem deyr vantrúaður á engan kost á því að snúa aftur til þessa heims og trúarinnar. Guð sagði í Kóraninum hvað biði hinna vantrúuðu á dómsdegi. (bls. 49).

Á næstu síðu í handbókinni er svo fjallað um hvernig eigi að öðlast hamingju og frið. Að sjálfsögðu er lausnin fólgin í því að lúta valdi Guðs. En um þá sem snúa baki við Kóraninum segir:

En hver sá sem snýr sér frá kenningum Kóransins, hann mun eiga erfitt líf og verður endurreistur sem blindur maður á dómsdeginum.“ (Kóran, 20:124)

Á næstu síðu í handbókinni er svo sagt frá því að með því að snúast til Íslams eru allar fornar syndir fyrirgefnar. Það er ekki góður boðskapur að mega haga sér eins og manni sýnist því allt verður fyrirgefið. Áfram er svo fjallað um „ást“ á vantrúuðum og fylgismönnum annarra trúarbragða:

...Sá sem tilbiður aðra guði fær ekki inngöngu í Paradís og eldurinn verður heimkynni hans í næsta lífi. Enginn kemur þeim misgjörðarmönnum til hjálpar.“ (Kóran, 5:72)

Á blaðsíðu 60 er þessi spurning tekin fyrir: „...Fæ ég ekki, ef ég tek ekki íslamstrú að koma inn í paradís og forðast ég þá ekki vítiseldinn?“

Svarið í handbókinni er: „Þeim sem leitar annarrar trúar en Íslam verður hafnað og mun bíða ósigur í næsta lífi“. Ef við ímyndum okkur að barn hafi spurt. Hvers konar maður gæti svarað þessu svona? (Alls er minnst á helvíti og dómsdag þrettán sinnum í þessari stuttu handbók).

Þegar hér er komið við sögu (bls 69) er stiklað á ýmsu öðru tengdu Íslam, eins og góðvild í garð dýra. Múslimar eru hvattir til þess að fara vel með dýr. Tekin er fyrir dæmisaga af konu sem lokar köttinn sinn inni án matar og drykkjar. Guði mislíkar það og dæmir konuna í logandi vítiseldinn. Það er bæði sorglegt og hreinlega fyndið að sjá hvernig Guði tekst að klúðra hlutunum þegar annars er um góðan boðskap að ræða. Kannski full harkaleg refsing.

Í handbókinni er svo rætt um mannréttindi og stöðu kvenna í Íslam. Þar er vitnað í fallegan boðskap sem er hið besta mál. En ef Kóraninn er skoðaður í heild kemur þó í ljós misræmi. Þar er til dæmis manni gefið leyfi að kvænast þræli sínum (4:3), þar er boðun kvennakúgunar með ofbeldi (4:34) og alið á fordómum í garð kristinna, gyðinga (5:51) og samkynhneigðra (7:80-81).

Er þetta boðskapurinn sem við erum að styðja hér á landi? Ef múslimar eru ekki tilbúnir að taka trúarbrögð sín til gagngerrar endurskoðunar og hreinsa út allan óþverann virðist því miður svo vera. Allt sem hér hefur komið fram er umfjöllun og beinar tilvitnanir úr fræðsluefni um Íslam frá félagi múslima á Íslandi.

Í fyrst lagi eru þessi trúarbrögð hlægilega heimskuleg og í öðru lagi gegnumsýrð af fordómum og ljótum textum. Trúarbrögð eiga enga virðingu skilið ef þau boða fordóma, misrétti og hatur. Ef svo ólíklega vill til að það sé í raun og veru almáttugur og réttlátur Guð sem dæmir á dómsdegi eu það ekki trúleysingjar sem þurfa að óttast heita logana heldur mun Íslam brenna í helvíti.


Mynd fengin hjá Beshr O

Sverrir Ari 28.11.2013
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Íslam )

Viðbrögð


G. - 28/11/13 10:12 #

Aðeins þetta með þekkingu á fósturvísum af því að þú segir að ýmislegt hljóti að hafa verið vitað áður. Hér er Aristóteles, tæplega (kannski rúmlega?) þúsund árum fyrr á ferðinni, með mun betri lýsingu -- að vísu á fósturvísum í eggi á fjórða dagi eftir varp:

Generation from the egg occurs in an identical manner in all birds, though the time taken to termination varies, as we have said. In the case of the hen, the first signs of the embryo are seen after three days and nights; in larger birds it takes more time, in smaller birds less. During this time the yolk travels upwards to the point of the egg—that is where the starting point of the egg is and where it opens up, and the heart is no bigger than just a small blood-spot in the white. This spot beats and moves as though it were alive; and from it, as it grows, two vein-like vessels with blood in them lead on a twisted course to each of the two surrounding membranes. A membrane with bloody fibers already surrounds the white of the egg, at this time coming from the vessel-like channels. A bit later the body can also be distinguished, at first very small and pale. The head is apparent, and its eyes, very swollen; and this continues for a long time, for it is later that they contract and become smaller. (Rannsóknir á dýrum (= Historia animalium) 561a4–21)

Ritið er því miður ekki til á íslensku en hann ræðir allt frá samförum dýranna til getnaðar og fæðingar. Að sjálfsögðu ekki óskeikull eða allt rétt frá sjónarhóli nútíma líffræði. En býsna gott fyrir mann sem átti ekki stækkunargler. Og, já, guð kom vitaskuld hvergi nærri þessum rannsóknum; þetta var ósköp mannleg þekking.


Sverrir Ari - 28/11/13 10:25 #

Mikill snillingur hann Aristoteles. Grikkirnir voru búnir að fatta flest allt í fornöld. Atómkenninguna, sólmiðju, þróun og stærð jarðar. Ætli Seifur hafi ekki fært þeim þessa visku?


Matti - 28/11/13 13:22 #

Ég er hjartanlega sammála þvi að þessi trú eigi skilið nokkra virðingu, en við verðum samt sem áður að tolerate það trúaða fólk sem býr i umhverfinu okkar.

Lykilinn er að setja þeim skilyrði sem þau þurfa að fylgja eins og allir aðrir. Ég trúi þvi að þegar þú reynir að halda einhverju svona niðri þá springur það bara í andlitið á okkur.

Við verðum að taka við þessu fólki og sýna því hvað gildi eru rétt, eftir allt þá eru þau bræður okkar og systur.

Hver veit, kannski lærum við einhvað frá þeim.


G. - 28/11/13 13:45 #

Nú er ég sammála Matta. Það verður að vera leyfilegt að hafa rangt fyrir sér -- þó það nú væri -- líka um gildi. Við höfum almennar leikreglur samfélagsins í formi landslaga og landslög gilda. Maður sem fer eftir þeim hlýtur að mega hafa rangt fyrir sér um jafnvel furðulegustu hluti og meira að segja hafa rangt fyrir sér í friði ef hann treður ekki þessum skoðunum upp á aðra. Höfnum ranghugmyndum -- og gagnrýnum þær, ekkert að því -- en berum virðingu fyrir fólki.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 28/11/13 14:16 #

Það er rétt, ef einhver er ekki með það á hreinu, að Vantrú hefur ávallt stutt rétt fólks til trúfrelsis og að byggja sínar trúarbyggingar. En hin hliðin á trúfrelsinu, eða tjáningarfrelsinu allavega, er rétturinn til að gagnrýna trú eins og aðrar skoðanir.


Sverrir Ari - 28/11/13 14:51 #

Sammála. Fólk hefur að sjálfsögðu rétt að aðhyllast þessi ljótu trúarbrögð ef það kýs svo en það verður að geta tekið gagnrýni og að svarað sé fyrir sig, þessi boðskapur er hreinn viðbjóður, sérstaklega í garð trúlausra. Hér er líka verið að gagnrýna Íslam (eins og er kynnt hér á landi) en ekki múslima.


Kristján - 28/11/13 15:34 #

Múslimi frá Sádi Arabíu reyndi eitt sinn að sannfæra mig með "rökum" að íslamski gvuðinn væri raunverulegur og spurði mig: "Ef guð er ekki til, af hverju deyjum við þá í stað þess að lifa að eilífu". Þar áttaði ég mig að samræður okkar myndu ekki skila neinu, þar sem rökleiðslur okkar voru of ólíkar.


Tinna G. Gígja (meðlimur í Vantrú) - 28/11/13 16:51 #

Það má segja að rétturinn til að gagnrýna trú verði að fylgja trúfrelsinu, þar sem það er jú lykilatriði í afskaplega mörgum trúarbrögðum að þau séu hin einu réttu og hin því röng. Það hlýtur að flokkast undir "gagnrýni" þegar fylgjandi einna trúarbragða segir hin hafa rangt fyrir sér í ákveðnum atriðum, hvað þá þegar predikað er að fylgjendur "villutrúarinnar" muni fara til helvítis eða séu í þjónustu djöfulsins.


Fannar - 28/11/13 23:12 #

Við eigum ekkert að auðvelda svona ljótu fyrirbæri sem Islam er aðgangi hér frekar en í öðrum löndum. Sorglegt að þetta skuli þrífast í nútímasamfélagi. Í grunninn eru islamistar á móti þeim gildum sem vestrænar þjóðir standa fyrir. Við eigum ekkert að bjóða þetta fyrirbæri velkomið hingað til lands nóg er af öðru forneskju bulli í ýmsum myndum fyrir. Islam er ekki bara trúarbrögð heldur jafn mikið stjórnvald. Við þurfum ekki annað en að líta til þeirra ríkja sem kenna sig við Islam þar er ekkert að gerast, frekar afturför. Fólkið er yndislegt en þetta fyrirbæri viðbjóður. Þetta eru ekkert nema fjötrar á fólki.


Sverrir Ari - 29/11/13 00:16 #

Við þurfum ekki að líta lengra en til Bretlands til að sjá hræðilegar afleiðingar Íslams, og það sem er eiginlega enn verra er hvernig látið er undan kröfunum. Þar eru t.d. starfandi Sharia dómstólar (utan Bresks réttarkerfis), halal kjöt er selt án viðvörunar á umbúðum, sumu fólki er meinað að tjá sig um Íslam á meðan morðhótanir hljóma af íslamistum á götum London óáreitt og svo munaði littlu að lögfest væri bann við því að gera grín að Íslam. Meira Íslam = minna frelsi.


Karl - 01/12/13 02:25 #

Islam er samheiti yfir ótal ólík samfélög. Múslimar frá Kirgistan borða nær undantekningalaust Svínakjöt og finna ekki til sektarkenndar. Í ákveðnum afskekktum héruðum Miðausturlanda drekka nær allir áfengi án sektarkenndar. Margt það sem klerkastjórn Írans boðar sem trúarlega skyldu er álitið argasta guðlast í Saudi Arabíu, og það er gagnkvæmt. Múslimar fara jafn oft í stríð við hvern annan og aðra, afþví trúin er svo ólík innbyrgðis og áherslurnar svo mismunandi. Rökheldni eða vísindaleg nákvæmni hefur engin áhrif á gríðarlega útbreiðslu Islam og vaxandi vinsældir Islam. Islam vex hraðast trúarbragða í heiminum og er sú trú sem algengast er Vestrænir menn, sem alast upp í trúleysi eða léttvægum, mildum Kristindómi gangist á hönd. Skírasta vísbendingin um raunverulegar ástæður þess að venjulegir vestrænir menn gerast múslimar er gríðarleg aukning á nýjum múslimum sem varð í kjölfar 9/11, sem margfölduðust á fyrstu mánuðunum þar á eftir. Ástæðurnar eru sálræn biturð í garð Bandaríkjanna, alþjóðavæðingarinnar og ríkjandi skipulagi heimsins, svo sem i fjármálum, en Islam boðar til dæmis afnám allrar bankastarfsemi, sem er dæmd ólögmæt í öllum Islömskum löndum. Islam samhæfist því ekki kapítalisma. Og það eru mest vinstrimenn sem gerast múslimar. Þess tegund af biturð og barnaskap er óvenju-algeng hér á landi, vegna þess Íslendingar eru ung þjóð og voru lengi einangruð og skilja ekki raunverulegan uppruna og eðli vestrænnar menningar og draga þess vegna rangar ályktanir um að hún sé "ill". Hér eru þess vegna kjörskilyrði fyrir fjölgun múslima. Svo lengi sem viðhorfið er til staðar sem fær menn til að fara þarna yfir, viðhorfið sem varð óvenjulega sterkt og blossaði upp eftir 9/11, og sú heimsmynd öll, þá munu menn grípa til þessa ráðs, af algjörlega sálfræðilegum ástæðum sem rök hafa engin áhrif á og geta ekki haft áhrif á. Því rætur þessa gjörnings eru tilfinningalegar. Þegar Þjóðkirkjan fer mun múslimum eflaust fjölga, því margir munu líta á þann tímapunkt sem tilefni til endurskoðunnar í sínum andlegu málum. Og þá verða múslimar duglegri að verja sig og greinum sem þessari mun fækka og smám saman settar við þeim lagalegar skorður. Þetta er óumflýjanleg þróun sem leiðir af því að Íslendingar láta stjórnast af tilfinningum í flestum sínum skoðunum, og rökin eru svona bara til skrauts. En Islam þróast með mismunandi hætti á mismunandi stöðum og er ekki einhver einn, auðskilgreinanlegur hlutur sem auðvelt er að alhæfa um.


Karl - 01/12/13 02:31 #

Það var einföldun hjá mér Islam boði "bankastarfsemi". Til eru svokallaðir Islamskir bankar. Þeir starfa án þess að taka vexti og eru ekki eiginlegir bankar, í vestrænni skilgreiningu þess orðs. En þeir kalla sig það þó sjálfir. Vestrænt viðskiptalíf og núverandi undirstöður siðmenningar okkar geta ekki farið saman við hreint Islam sem byggir á bókstaflegri túlkun Kóransins, Hadith-anna og annarra rita. Eftir 9/11 blossaði upp fordæming á Islam, einkum hjá kirkjuræknum, hægrisinnuðum Bandaríkjamönnum. Og út af lögmáli þeim sem stjórna þeim sem láta stjórnast af tilfinningum sínum þá gerðust margir frjálslyndari, sérstaklega þeir sem hafa efasemdir um kapítalismann múslimar. Og þetta hafði keðjuverkandi áhrif um allan heim, sem munu auðvitað ná hingað seinna en til hinna, eins og bara allt annað. Við erum ein örfárra þjóða heimsins sem þýddi ekki Þróunarkenninguna fyrr en fyrir örfáum árum og alltaf á eftir með allt. En jarðvegurinn hér er mikið betri en í Bandaríkjunum, því Kanahatur og allt því fylgjandi er hér almennt viðhorf, en ekki einkenni jaðarhópa.


Karl - 01/12/13 02:41 #

Ég er ekki að segja að það sé rétt að settar verði skorður við grein sem þessari, eins og gæti gerst. Löggjöf hefur þegar verið breytt í Hollandi og víðar í þá átt og mikill þrýstingur er á margar ríkisstjórnir að banna gagnrýni á Islam. Ef lagabreytingar þær sem Hanna Birna lagði til hefðu gengið í gegn, umorðun á stjórnarskránni það er að segja væri þessi grein þegar möglega orðin ólögleg, því Hanna Birna vildi láta banna mönnum að "hæðast" að öðrum trúarbrögðum, sem síðartíma dómarar gætu síðan, þökk sé nýju orðalagi og breytingum á lögum, notað til að dæma grein sem þessa sem kallar Islam "hlægileg" og "ljót" ólöglega og greinarhöfund á einhvern hátt sakhæfann. Afþví það er nær óumflýjanlegt Ísland mun ganga í ESB, þar sem þetta er trendið, þá er næstum óumflýjanlegt að á endanum komi slíkar lagabreytingar til sögunnar, vonandi ekki jafn afgerandi og í Hollandi eða jafn hættulegt og það sem Hanna Birna lagði til með að bæta þarna inn orðinu "háð". Alla vega er þetta óumflýjanleg þróun ef Fjórflokkurinn heldur völdum, og alveg sama hvaða armur hans það er. Þori menn að kjósa flokka sem standa fyrir meira tjáningarfrelsi er kannski von á betra, og ef það gerðist sem er nær ómögulegt, að við gegnum ekki í ESB, þá myndu líkurnar aukast meira á að þetta væri ekki hægt. Jafnframt myndi það auka frelsi trúarbragða sem vonandi fengju þá frið fyrir ríkisafskiptum í stað þess að fá enga greiða frá ríkinu heldur.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 01/12/13 05:25 #

Mig langar að spyrja þig útí "gríðarleg aukning á nýjum múslimum sem varð í kjölfar 9/11, sem margfölduðust á fyrstu mánuðunum þar á eftir."

Því eftir því sem ég kemst næst þá hefur Múslimum í BNA fjölgað um rétt um helmg milli 2000 og 2010. Úr sirka 1,7 milljónum í 2,6. Alþjóðlega hefur þeim fjölgað um rúm 20% úr 1,3 milljörðum í 1,6.

Svo ég get ekki alveg séð að það hafi orðið nein sérstök fjölgun í kringum 9/11. Í raun þá fjölgaði Múslimum hlutfallslega minna á þessu tímabili en áratuginn þar á undan. Sjá t.d. http://features.pewforum.org/muslim-population-graphic/


Karl - 01/12/13 20:41 #

Sæll. Ég er að tala um fjölgun á múslimum sem ekki eru af múslimskum uppruna og verða til við atvik svo sem fæðingar inn í múslimskar fjölskyldur. Ef þú skoðar þá sérstaklega, ekki bara þá sem fæddust eða fluttu inn í landið, þá sérðu að jú, það er mikil aukning síðan 9/11, ekki á múslimum sem slíku heldur því sem er kallað "converts". Ég hef bakgrunn sem gefur mér innsýn í þessi málefni. Opinberu tölurnar eru þó villandi. Bandarískir "convert" múslimar eru almennt ekki opinberlega múslimar á blaði, láta ekki skrá sig sem slíka hjá hinu opinbera sem sagt, og moskurnar fara ekki fram á það.


Karl - 01/12/13 20:47 #

Athugaðu líka vel muninn á convert og ekki convert. Convert tilheyrir meirihlutanum, fæðist inn í áhrifaríkari stöðu, hefur meiri áhrif á samfélagið sem heild. Fæddir múslimar tilheyra minnihlutanum, eru jaðarhópur, áhrifaminna, og ná ekki til heilarinnar á sama hátt. Þannig að fjölgun á converts hefur miklu meira að segja um samfélagið síðar meir en innflutningur á fólki frá ákveðnum löndum eða fæðingar inn í ákveðin, tiltölulega valdalítil samfélög. Og "reiðu" convertunum fjölgaði upp úr öllu valdi eftir 9/11, til að sanna með einhverju nógu róttæku hvað þeim væri illa við Bush og Íraksstríðið og væru litlir kapítalistar og allt það. Þeir fóru úr Che Guevara bolnum og í sandalana og settu á sig Palestínuklútinn. Og þannig verður það hér. Það er engin spurning. Við því er ekkert hægt að gera. Og það væri vanvirðing við lýðræðið að reyna að gera neitt í því. Ef við höldum fjórflokknum þá verða hér á endanum sett lög og þessi vefsíða gæti verið lögð niður. Hér hefur verið "hæðst" að trúarbrögðum, eins og átti að banna samkvæmt lagabreytingunni sem Hanna Birna lagði við og er í anda lagabreytinga sem hafa orðið eða eru að verða í vissum nágrannalöndum okkar. Þannig að við því hvort hér verði fleiri múslimar en kristnir er ekkert að gera. Það verður, alla vega ef við göngum í ESB og tökum upp líkari innflytjendastefnu og nágrannalöndin. En hvort minnihlutahópar megi þá tjá sig, við því er eitthvað að gera og það er einfalt: Ekki kjósa fjórflokkinn.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.