Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er ríkiskirkjan heimsendakölt?

Mynd af fólki að horfa til himins

Því er stundum haldið fram að boðskapur kristninnar, og þá sérstaklega ríkiskirkjunnar, sé afskaplega fallegur: Jesús vill að þú sért góður við fólk, hann læknaði meira að segja sjúka og svo framvegis. Raunin er sú að þetta er einungis fallega hliðin á kristninni, en hún á sér ansi dökka hlið og næstkomandi sunnudag verður haldið upp á eina af dekkri hliðum kristninnar í kirkjum landsins.

Heimurinn mun brenna

Um helgina er nefnilega síðasti dagur kirkjuársins, og þá mun þessi texti verða lesinn í kirkjum landsins:

En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. (2Pét 3.10-12)

Eftir lesturinn mun fólkið í kirkjunni svo kirja “Þannig hljóðar hið heilaga orð.” Í kirkjunum munu sem sagt heimsendaórar með tilheyrandi eyðingu jarðarinnar verða lesnir og dásamaðir.

Trú kirkjunnar

Þetta ætti ekki að koma fólki á óvart. Í hvert sinn sem prestar og kirkjugestir fara með postullegu trúarjátninguna, þá játa þau trú á svona heimsendarugl: “og [Jesús] mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða”. Höfuðjátning kirkjunnar er enn ítarlegri, þar stendur að Jesús muni “birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.

Þannig að þetta heimsendarugl er í játningum Þjóðkirkjunnar.

Trú Nýja testamentisins

Það er góð ástæða fyrir því að þetta sé í játningunum: Nýja testamentið er nefnilega fullt af tali um heimsendi. Þar er meira að segja talað heilmikið um að heimsendir hafi verið rétt handan við hornið fyrir 2000 árum síðan.

Og fáir tala jafn mikið um heimsendi og Jesús. Margar, og jafnvel flestar, dæmisagna hans fjalla um heimsendi og stundum talar hann berum orðum um heimsendi:

Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13:49-50)

Jesús guðspjallanna er heimsendaspámaður. Þegar ríkiskirkjan játar heimsendatrúna, þá er hún bara í fylgja í fótspor Jesú.

Heimsendatrúfélag

Í ljósi þess að ríkiskirkjan segist trúa þessi heimsendarugli bæði á blaði og í mæltu máli þá verðum við bara að taka hana trúanlega. Þjóðkirkjan er ekki költ, þannig að ekki væri rétt að kalla hana heimsendakölt. En það neita því líklega engir að Þjóðkirkjan sé trúfélag.

Á meðan ríkiskirkjan afneitar ekki þessum kenningum um endurkomu Jesú, eldsofn og heimsendi, þá er því rétt að kalla hana heimsendatrúfélag.


Sjá einnig Síðkölt

Mynd fengin hjá Waiting for the Word

Hjalti Rúnar Ómarsson 18.11.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Sverrir Ari - 19/11/13 21:05 #

Þessa stofnun erum við krafðir um að styðja, trúlausir jafnt sem trúaðir. Þvílík firra.


Benni - 27/11/13 11:44 #

Hvað segir þú þá um vísindahyggjuna, sem spáir ekki bara heimsendi, heldur fullyrðir að heimsendir sé fram undan. Á ekki sólin að brenna upp til agna. Ég segi nú eins og Sverrir Ari, "þessa stofnun erum við krafðir um að styðja". Viljið þið segja mér, hver er boðskapurinn? Það væri ekki til neinn heimsendaspádómur ef mannskepnan öll gæti tileinkað sé boðskap Krists, svo einfallt er það


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 27/11/13 17:52 #

Kaldhæðnislegt að heimsendaspá var stór partur af boðskapi "Krists".

Vísindi er verkfæri til að öðlast áreiðanlega þekkingu. Eins og hamar er verkfæri til að berja hluti. Þú getur notað hann til að byggja spítala og þú getur notað hann til að brjóta fótleggi. Hefur hamar þá einhvern boðskap?


Benni - 27/11/13 19:51 #

Ég kannast nú ekki við heimsendaspádóma Krists, heldur þvert á móti. Hann boðaði eilíft líf.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 28/11/13 10:55 #

Ég kannast nú ekki við heimsendaspádóma Krists...

Benni, lestu þessa grein. Þarna eru nokkrar tilvitnanir í heimsendaspádóma Jesú (fyrir utan auðvitað tilvitnunina sem er í þessari grein hérna!)


Sveinn - 30/11/13 17:50 #

Blessuð hafiði ekki áhyggjur. Þið eruð það gott fólk að þið þurfið ekkert að óttast heldur verður til nýr og betri heimur án,glæpa,stríðs,sjúkdóma osfrv. Hinsvegar erum við mennirnir langt komnir með að eyða jörðinni sjálf, og verðum trúlega búin að því innan 100 ára. Við stingu alltaf höfðinu í sandinn og enginn vill heyra það eðlilega.


Anna Þorsteins - 30/11/13 17:54 #

Já við erum búin að taka ómakið af Guði sjálf. Það verður ekkert líf í þeirri mynd sem við þekkjum í dag eftir 100 ár. Reynið að rýna soldið í það. Ekki fræðilegur möguleiki á því lífi þá. Fariði að hugsa aðeins út fyrir þægindarammann.


Karl - 01/12/13 02:08 #

Heimsendir mun 100% örugglega eiga sér stað hvað varðar mannkynið og tilveru þess. Þróunarlögmálið krefst þess að gamlar tegundir deyji út og víki fyrir nýjum fyrr eða síðar. Milljónir sólna hafa dáið. Okkar sól mun líka deyja. Og þá deyr allt líf hér. Að trúa ekki á heimsenda, okkar heimsenda, en kannski ekki heimsins sem slíks, er alvarlegasta dæmi stjórnlausrar bjartsýni á mörkum brjálsemi, og barnalegs hippalegs viðhorf til lífsins og tilverunnar. Eitt af því fáa sem öll trúarbrögð hafa rétt fyrir sér varðandi og er vísindalega 100% öruggt er að tími mannkynsins verður stuttur og eins og við lifum í dag er nokkuð öruggt við munum sjálf stytta hann verulega, með lifnaðarháttum okkar, forgangsröðum og áherslum sem fjöldinn lifir eftir. Global warming, kjarnorkustríð, efnavopn, einhvers konar bland af þessu öllu, og stórfelldur skaði á genum vegna áhrifa umhverfis mengunnar sem leiðir til minni frjósemi, mun sjá um að koma okkur fyrir kattarnef á undan öllum loftsteinum nema eitthvað mikið breytist. Verstu heimsendaspár trúarbragðanna eru farin að hljóma eins og barnaleg ævintýri miðað við það sem blasir við hverjum hugsandi manni sem er hættur að trúa á jólasveininn.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 01/12/13 05:08 #

Hefur þú einhver gögn sem sýna fram á minnkandi frjósemi? Ef svo er hefur þú gögn sem tengja það mengun?


Karl - 01/12/13 21:04 #

Ófrjósemisvandamálum hvers konar fer fjölgandi, meira á Vesturlöndum en annars staðar, og tengist eflaust lífsstíl. Þar sem löngu er vitað að umhverfismengun minnkar frjósemi dýra er ekki spurning að sama mun eiga við um mannkynið þegar fram í sækir. Sá dagur kemur fljótt að læknarnir geta ekki bjargað á okkur. Það er "cult" að trúa mannkynið eigi sér langa framtíð. Að trúa á heimsenda er bara heilbrigð skynsemi. Til þess þarf enga guði eða vætti, við sjáum um okkar heimsenda sjálf. Bara einhverjir kristnir ofsatrúarmenn sem trúa á endurkomu Krists, blóma-hippar og smábörn sem trúa á jólasveininn trúa því að þessi kynstofn; mannkynið eigi sér langt líf framundan. Og líf okkar mun versna. Það er í besta lagi. Náttúran gerir þá kröfu að tegundirnar þróist og dauði tegunda er þar á meðal. Og fyrst allar sólir springa, þá mun jörðin okkar ekki vara að eilífu. Hún fær að vera hér í milljónir ára eftir að við hverfum, en kjarnorkustyrjaldir og hnatthlýnun og efnavopnin sem þegar eru til staðar munu stytta tíma okkar á henni. Það er í góðu lagi. Þá taka kakkalakkarnir og aðrar harðgerðari tegundir bara við og þróast áfram með tímanum.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 02/12/13 14:01 #

Endalok sólarinnar eftir einhverja milljarðar ára og frjósemi nútímamannsins hefur nákvæmlega ekkert að gera með heimsendatrú ríkiskirkjunnar.


Karl - 02/12/13 20:21 #

Heimsendacult Þjóðkirkjunnar, hefur það með endalok mannkyns að gera að forfeður okkar, þrátt fyrir fáfræði og takmarkaða þekkingu, höfðu vit á að hafa eiga enga varanlega von fyrir hönd mannlegssamfélag, hvar sem þeir bjuggu í heiminum, og því spá trúarbrögð mannkyns endalokum samfélags okkar, þetta er eitt af því fáa sem þau eiga sameiginlegt. Verður ástandið jafn slæmt og er spáð í Opinberunarbókinni? Það væri alltof vel sloppið og ekki lifandi manni sem dettur í hug það verði ekki mikið verra en það. Þeir vissu ekki um hvernig tækninni myndi fleygja fram og hvað maðurinn tæki að sama skapi nánast engum siðferðilegum eða vitsmunalegum framförum í þróun til að ráða við þessa tækni. Við erum ekkert erfðafræðilega aðrar verur en forfeður okkar og barn frá tímum ísaldar og hellisbúa myndi alveg eiga sömu möguleika og aðrir í samfélaginu, því mannkynið hefur nær ekkert þróast vitsmunalega, hvað þá siðferðislega. Á yfirborðinu virðist sumt reyndar hafa þróast, til dæmis virðist þrælahald ekki vera lengur við lýði. Þangað til þú ferð að skoða þá staðreynd að flest sem við eigum er framleitt í verksmiðjum í þriðja heiminum af fólki sem býr við mun verri aðbúnað og lífsskilyrði heldur en almennt var um þræla, jafnvel í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Þannig að illskan hefur ekkert minnkað, heldur bara hræsnin og feluleikurinn með hana aukist. Siðferðilegar framfarir þær sem virðast hafa orðið eru blekking. Þrælarnir hafa það verra, en eru lengra í burtu svo við þurfum ekki að horfa upp á þá lengur. Og þannig er með flest önnur svið mannlegs samfélags þar sem virðast hafa orðið framfarir siðferðilega, eina sem hefur gerst er að hlutirnir eru ekki kallaðir réttum nöfnum lengur en orðnir verri en þeir voru og óréttlátari. Þannig að það að hér endi allt illa, það er bara heilbrigð skynsemi sem segir manni það. Svona kynstofn á enga möguleika á því að lifa af, því hann býr yfir þeim eiginleikum að tortíma sjálfum sér. Við eigum líklega ekki mikið meira en örfá árhundruð ef við verðum það lánsöm, eins og tækniframförum í styrjöldum fleygir fram, og það gæti vel verið að við eigum bara eftir nokkra áratugi. Því er ég sammála kirkjunnar mönnum um. En að jólasveinninn komi svo bara og allt verði í lagi? Það er bara ævintýrasaga fyrir lítil börn. Eina sem gæti bjargað okkur erum við sjálf. En það mun aldrei gerast. Við erum í reynd óhæf um það. Mannkynssagan sannar það best.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?