Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Var Jesús til?

Mynd af eðlu-Jesú

Fyrr í mánuðinum var sagt frá því í fréttum að bandarískur “fræðimaður”, Joseph Atwill, hefði uppgötvað játningu frá Rómverjum þess efnis að þeir hefðu búið til kristna trú, og þar af leiðandi hafi Jesús ekki verið til. Þó svo að það sé lítil ástæða til að taka mark á samsæriskenningum Atwills, þá er þetta fínt tilefni til þess að velta því fyrir sér hvort að Jesús hafi í raun og veru verið til.

Ofur-Jesús eða venjulegi-Jesús?

Þegar rætt er um hugsanlega tilvist Jesú, þá er nauðsynlegt að greina á milli þriggja hugmynda:

  1. Ofur-Jesús var til: Jesú fæddist af mey, labbaði á vatni, reisti fólk frá dauðum, lifnaði upp frá dauðum, flaug upp til himna.
  2. Venjulegi Jesús: maður sem hét Jesús var uppi á 1. öld og ofur-Jesús er að einhverju leyti byggður á þessum manni.
  3. Hvorki ofur-Jesús né venjulegi Jesús voru til.

Það er nokkuð ljóst að ofur-Jesús var ekki til. Meyfæðingar, vatnalabb og himnafarir eru helgisögur.

Það er ekkert sérstaklega undarlegt við tilvist venjulega Jesú. Ein tegund af venjulegum Jesú er til dæmis mjög vinsæl hjá nýjatestamentisfræðingum: heimsendaspámaðurinn Jesú. Samkvæmt þeirri hugmynd var Jesús bara enn einn trúarleiðtoginn sem spáði því að heimsendir væri í nánd (það var ekki rétt hjá honum). Það var til nóg af þannig fólki á tíma Jesú og Nýja testamentið er stútfullt af heimsendatali. Þannig að það er ekkert undarlegt við tilvist heimsendaspámannsins Jesú.

Það eru til útskýringar á uppruna kristindóms sem gera ekki ráð fyrir tilvist venjulegs Jesú sem eru ekki samsæriskenningar eða byggðar á rugl-samanburði á milli Jesú og annarra guða [1]. Ólíkt ofur-Jesú þá er þessar útskýringar ekki í sjálfu sér út í hött. Það eru til dæmi um það að helgisögur verða til um fólk sem ekki til og að guðir geti eignast jarðneska tilveru.

En ætti að afskrifa kristna trú á þessari forsendu? Ættum við trúleysingjar að nota meint tilvistarleysi Jesú sem rök gegn kristinni trú?

Hvað á að nota?

Að mínu mati ættum við alls ekki að gera það.

Annars vegar er ekkert sérstaklega ólíklegt að það hafi verið til einhvers konar ofsatrúaður gyðingur sem hrækti á fólk og var uppfullur af ranghugmyndum um englaheri og heimsendi. Þannig að það er ekkert órökrétt við það að trúa á tilvist venjulegs Jesú.

Hins vegar er svo ótal margt í kristinni trú sem er gjörsamlega út í hött, meðal annars tilvist ofur-Jesú. Ef menn vilja fá kristið fólk til að átta sig á því að kristni sé rugl, þá á maður að benda á það ruglaðasta í trúnni þeirra.

Ef einhver héldi því fram að Hrói höttur hafi verið eðlumaður sem gat spúið eldi og lesið hugsanir, þá myndu fáir ráðast á þá hugmyndafræði með því að leggja áherslu á að líklega hafi Hrói höttur ekki verið til. Maður myndi örugglega reyna að benda viðkomandi aðila á fáránleika tilvists eldspúandii miðla-eðlufólks.

Gegn ofur-Jesú

Það skiptir í raun afskaplega litlu máli hvort að venjulegi Jesús var til eða hvort að enginn Jesús var til. Hins vegar skiptir máli hvort að ofur-Jesú var til eða ekki. Kristni stendur og fellur með ofur-Jesú, og hann er álíka fáránlegur og eðlu-Hrói. Þess vegna ættu andstæðingar kristinnar trúar að einblína á ofur-Jesú, jafnvel þó svo að það geti verið gaman að velta því fyrir sér hvernig venjulegi Jesús var, ef hann var til.


[1] Til dæmis er væntanleg á næsta ári bók frá Oxford University Press eftir fornaldarsagnfræðinginn Richard Carrier. Hér er klukkutíma fyrirlestur frá honum þar sem hann útskýrir hugmyndir sínar.

Mynd fengin hjá Orin Zebest

Hjalti Rúnar Ómarsson 29.10.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Daddi - 01/11/13 22:52 #

[Athugasemd færð á spjallið - Hjalti]


Benni - 06/11/13 17:55 #

Það skiptir ekki nokkru máli hvað þið berjið hausnum í steininn. Kristur var og verður til í hugum milljóna manna um heim allan. Og þá skiptir ekki nokkru, hvort ritað sé, að hann hafi notað munnvatn eða skurðhníf til að lækna fólk.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/11/13 17:56 #

Harry Potter er til í hugum milljóna manna um heim allan. Hvaða máli skiptir það?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.