Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Lyfleysur og lyfleysuáhrifin

Sykurpillur í hillu í apóteki

Þegar sjúklingum eru gefin lyf sem innihalda engin virk efni verða sjúklingarnir oft fyrir einhverjum áhrifum. Þessi áhrif eru kölluð lyfleysuáhrifin (placebo effect) og lyfin lyfleysur (placebo). Lyfleysuáhrifin stjórnast þá af væntingum sjúklingsins eða einhverju öðru en meðferðinni sjálfri. Lyfleysur eru yfirleitt í formi lyfja (yfirleitt eru notaðar sykurtöflur) en geta verið á öðru formi. Þar má nefna gerviskurðaðgerðir (þar sem sjúklingurinn er skorinn og það er saumað fyrir og ekkert annað gert) eða gervi sálfræðimeðferð (þar sem engum inngripum er beitt).

Lyfleysuáhrifin stjórnast að hluta til af væntingum sjúklinga. Það eru ýmsir þættir sem virðast gera meðferðina trúverðugri í augum sjúklinga og hafa áhrif á það hversu mikil lyfleysuáhrifin eru. Til dæmis virka ákveðnir litir á töflunum betur en aðrir. Þegar lyfleysur eiga að vera örvandi virkar best að hafa þær gular, rauðar eða appelsínugulur. Þegar lyfleysur eiga að standa fyrir þunglyndislyf virkar betur að hafa þær blár, grænar eða fjólubláar. Lyfleysur virka betur ef töflurnar eru stærri og ef þú þarft að taka fleiri. Ef þær eru merktar með lógói virka þær betur en ef þær eru ekki merktar. Eftir því sem þær eru dýrari virka þær betur. Sprautur virka betur en töflur. Svona mætti lengi telja (sjá til dæmis hér).

Það er þó ýmislegt fleira sem getur haft áhrif á útkomu meðferðar heldur en væntingar. Flestir sjúkdómar þróast á einhvern hátt og margir þeirra eru þannig að fólki batnar sjálfkrafa. Kvef batnar til dæmis yfirleitt sjálfkrafa nokkuð fljótlega og hefur lítið að gera með það hvað ég geri í því. Þunglyndi kemur í lotum og það er mjög líklegt að þunglyndið lagist að einhverju leiti stuttu eftir að það er verst.

Kienle og Kiene (1997) vilja meina að nánast alltaf sé hægt að útskýra lyfleysuáhrifin með einhverju öðru en lyfleysunni. Þeir tóku fyrir klassíska rannsókn Beecher (1955) á lyfleysuáhrifunum. Beecher komst að þeirri niðurstöðu að lyfleysur hefðu mjög mikil áhrif og kallaði (réttilega) eftir tvíblindum rannsóknum. Kienle og Kiene komust hins vegar að því að lyfleysuáhrifin voru yfirleitt vegna: náttúrlegs gangs sjúkdómsins, viðbótarmeðferðar, skekkju hjá matsmönnum, eitrunaráhrifa fyrri meðferðar, skekkju í mati sjúklings (t.d. kurteisi), mælingarnar komu málinu oft ekki við, stundum var hreinlega ekki gefin lyfleysa, svörin voru oft afturvirk, eða tilvitnanir voru hreinlega rangar.

Kienle og Kiene draga þá ályktun að það sé í raun ekki rétt að halda því fram að til séu einhvers konar lyfleysuáhrif, heldur séu þau goðsaga. Áhrifin eru ekki af lyfleysunni heldur vegna annarra þátta. Við getum kallað þetta ósérhæfða þætti, en það hjálpar okkur sennilega ekki mikið að breyta um orð. Það er alltaf eitthvað sem veldur árangrinum, við vitum bara ekki alltaf nákvæmlega hvað það er.

Hróbjartsson og Gøtzsche (2001) gerðu aðra merkilega rannsókn á lyfleysuáhrifunum. Þeir athuguðu hvort einhver munur væri á árangri af lyfleysumeðferð og engri meðferð í 114 áður útgefnum rannsóknum. Þegar breyturnar sem voru skoðaðar gátu tekið tvö gildi (t.d. er sjúklingurinn þunglyndur eða ekki, reykir sjúklingurinn eða ekki) hafði lyfleysa ekki meiri áhrif heldur en engin meðferð. Þegar huglæg fyrirbæri og sársauki voru mæld á samfellu (t.d. hversu mikið var þunglyndið, hversu mikill var sársaukinn) hafði lyfleysan hins vegar einhver áhrif. Hins vegar minnkaði árangurinn eftir því sem úrtakið var stærra. Þar að auki skiluðu lyfleysurnar engum árangri þegar kom að hlutlægum mælingum. Ástæðan fyrir því að rannsóknir með smærra úrtaki skiluðu meiri árangri en rannsóknir með stærra úrtaki gæti hæglega verið sú að þær smáu rannsóknir sem sýna ekki árangur hafi ekki verið birtar (sjá til dæmis file drawer problem og publication bias). Það virðist vera að því meiri stjórn sem er á tilraunaaðstæðum því minni (ef einhver) eru lyfleysuáhrifin.

Þannig að því færri utanaðkomandi þættir sem hafa áhrif því minni eru þessu svokölluðu lyfleysuáhrif. Gervivísindamenn eins og hómópatar byggja sínar lækningar eingöngu á þessum áhrifum. Þeir eru þá í besta falli að sóa tíma og peningum fólks, en í versta falli að gefa því falsvonir og jafnvel eyðileggja fyrir þeim aðra meðferð þar sem fólk getur hætt að þiggja meðferð ef það heldur að það hafi fengið bót á meinum sínum. Þetta er grafalvarlegt mál sérstaklega þegar kemur að alvarlegum sjúkdómum. Það hefur hingað til engum tekist að lækna krabbamein á háu stigi, lunga sem er fallið saman, HIV eða aflimun með lyfleysum og það er ekki líklegt að einhver geri það í bráð.


Birtist upphaflega á Húmbúkk

Mynd fengin hjá distillated

Þórður Örn Arnarson 01.10.2013
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Gestur - 01/10/13 19:09 #

Takk fyrir greinina. Þetta með gervisálfræðimeðferðir finnst mér áhugavert. Ég get varla ímyndað mér hvernig það slíkt fer fram. Hefurðu meiri upplýsingar um það?


Þórður Örn Arnarson (meðlimur í Vantrú) - 01/10/13 20:31 #

Ég man nú bara eftir einu dæmi akkúrat núna. Það var einhvern tíman gerð rannsókn á mismunandi megrunaraðferðum og ein control grúppan var "hugsaðu af þér kílóin" þar sem fólk var beðið um að sitja í einhvern tíma (man ekki hvað lengi, en eitthvað á milli 30-60 mín. ef ég man rétt). Það er kannski ekkert sérstaklega algengt að þetta sé gert enda getur verið mjög erfitt að gera svona meðferð sem er trúverðug og sem er beitt af fólki af einhverri alvöru (sem trúir að meðferðin virki). Það getur auðvitað skekkt niðurstöðurnar ef meðferðaraðilarnir búast ekki við neinum árangri af gervimeðferðinni. Það er líka ómögulegt að blinda meðferðaraðilana fyrir því hvort þeir séu að beita alvöru meðferð eða gervimeðferð.

Það er líka ágætt að hafa það í huga að í dag eru til virkar meðferðir við mjög mörgu og oft á tíðum er frekar metnaðarlítið að bera sig saman við lyfleysur þegar til er meðferð sem virkar, eða meðferð sem virkar betur en önnur meðferð sem virkar betur en lyfleysa. Betra að miða sig við það sem við vitum að virkar.


Jóhann - 01/10/13 21:09 #

Þetta er nú meiri hrærigrauturinn!

Hvar er ritnefnd?

Það þarf nú ekki annað en að skoða niðurstöðuna:

"Það hefur hingað til engum tekist að lækna krabbamein á háu stigi, lunga sem er fallið saman, HIV eða aflimun með lyfleysum og það er ekki líklegt að einhver geri það í bráð."

...til að sjá að þetta er efnishyggjusmættunarþvaður á hæsta stigi.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 01/10/13 23:22 #

Ertu að halda því fram að niðurstaða greinarinnar sé röng. Eða eru aðfinnslur þínar eingöngu frumspekilegs eðlis?


Jóhann - 02/10/13 00:30 #

"Ertu að halda því fram að niðurstaða greinarinnar sé röng."

Já.

Svo það fór fram hjá þér...

Kannski Þórður Örn Árnason komi með eitt dæmi, um að því hafi verið haldið fram að lyfleysa geti læknað: "...krabbamein á háu stigi, lunga sem er fallið saman, HIV eða aflimun..."

Það má meira að segja vera "frumspekilegs eðlis".

Þér að segja, Haukur, af því þú ert nú fróðleiksfús strákur, þá skiptir líka meginmáli hvert viðmót lækna er þegar þeir útdeila lyfleysum (án þess að vita af því).

Þeir læknar sem gefa sjúklingum sínum gaum og tala við þá skora langtum hærra en hinir sem bara útbýtta lyfleysunni (hvorir tveggja óafvitandi).

Þannig eru "lyfleysuáhrifin" í fyrsta lagi ekki ein. Þau eru margvísleg.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 02/10/13 11:09 #

Á ekki "efnishyggjusmættunarþvaður" skilið einhvers konar verðlaun? Ég veit ekki alveg hvaða verðlaun eða nákvæmlega fyrir hvað, en...


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 02/10/13 13:25 #

Það var kannski óþarfi að telja upp dæmi um áþreifanlega sjúkdóma sem lyfleysuáhrif gagnast ekki við.

Lyfleysuáhrif gera ekkert við mælanlegum sjúkdómseinkennum, aðeins skynjun sjúklingsins eða aðstandenda hans.


Jóhann - 03/10/13 20:42 #

(Kannski þú gætir veitt mér fyrstum manna fræbil-verðlaun, Valgarður.)

Helgi segir: "Lyfleysuáhrif gera ekkert við mælanlegum sjúkdómseinkennum, aðeins skynjun sjúklingsins eða aðstandenda hans."

Því er til að svara, að þegar sjúklingar og aðstandendur finna fyrir lækningu og betri líðan, þá má einu gilda hvað "vísindamenn" geta mælt.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 03/10/13 22:54 #

nei, Jóhann, of seint, það er 51 kominn með verðlaun frá Fræbbblum

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.