Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Prestar í Jesúgærum

Mynd af Jesú

Ef maður les skrif presta og guðfræðinga um Jesú, þá kemur það manni á óvart hversu mikið skoðanir Jesú líkjast skoðunum 21.-aldar, frjálslyndum, íslenskum ríkiskirkjupresti. Á heimasíðu ríkiskirkjunnar er því meðal annars haldið fram að Jesús....

... hefði aldrei sætt sig við að transfólk fengi ekki að heita nöfnum sem passar við þeirra sanna kyn. #

... hafi verið femínisti. #

... hefði aldrei sætt sig við að sumt fólk fengi að ganga í hjónaband en annað ekki. #

... hafi mótmælt, kynþáttahatri, ójafnrétti kynjanna og ofbeldi í öllum myndum #

... var slétt sama hvort menn væru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir #

...væri fylgjandi hækkunum á hátekjuskatti, svo um munaði. #

... sætti sig aldrei við ofbeldi. #

... hafi verið jafnréttissinni. #

... er sama þó að fermingarbörn séu að hugsa um veisluna við fermingar. #

... gráti yfir því að til séu öfl í þjóðfélaginu okkar sem vilja halda kærleiksboðskap hans frá börnum og skólastarfi. #

... vilji að þú njótir lífsins og þess að vera til.#

... hafði ekkert haft á móti auði eða ríkidæmi. #

... hafi borið jafn mikla virðingu fyrir konum og körlum. #

...myndi fara varlega í sakirnar varðandi lántöku frá AGS #

... hefði fagnað því hvað samkynhneigt-, tvíkynhneigt- og transfólk hefur náð langt í réttindabaráttu sinni. # [1]

Hvar sagði Jesús þetta?

Það er hægt að reyna að halda því fram að Jesús hafi verið sammála sumum þessara fullyrðinga vegna afskaplega almennra ummæla sem eru eignuð honum í guðspjöllunum, en það er mjög hæpið. Ef einhver fornaldarmaður sagði “Veriði góð!” eða “Elskaðu náungann eins og sjálfan þig!”, þá er ansi himinn og haf á milli þeirrar almennu fyrirmæla og því að boða jafnrétti kynjanna eða andstöðu við þrælahaldi. Viðkomandi fornaldarmaður myndi líklega leggja allt aðra merkingu í þessi almennu boð heldur en nútímafólk.

Sumar fullyrðinganna á listanum er ekki með nokkru móti hægt að sjá úr ummælum Jesú. Hefði þessi fornaldar-heimsendaspámaður virkilega “aldrei sætt sig við að transfólk fengi ekki að heita nöfnum sem passar við þeirra sanna kyn”? Hvað fær þetta fólk eiginlega til að koma með svona fullyrðingar? Ég sé tvo möguleika í stöðunni.

Blekkt

Annar möguleikinn er sá að þetta fólk sé blekkt, það trúi því virkilega að það vilji svo heppilega til að Jesús hafi verið sammála þeim í einu og öllu, og þess vegna hljóti hann að vera sammála þeim varðandi nafngjöf transfólks.

Ástæðan fyrir því að fólk trúir þessu er líklega sú algenga áróðursmynd af Jesú að hann sé fullkomin fyrirmynd í siðferðislegum efnum. Samkvæmt þessari glansmynd þá er það bara ekki mögulegt að Jesús hafi haft einhverjar skoðanir í siðferðisefnum sem okkur þykir rangar. Þess vegna bara hlýtur hann að hafa verið fylgjandi jafnrétti kynjanna, umhverfisvernd og réttindum hinsegin fólks.

Að blekkja

Hinn möguleikinn er sá að þetta fólk sé að blekkja, það er að notfæra sér stöðu Jesú til þess að reyna að sannfæra fólk um eitthvað sem tengist ummælum Jesú ekki á nokkurn hátt. Stór hluti kristins fólks telur að Jesús sé hin fullkomna fyrirmynd, jafnvel guð sjálfur, og að það sé slæmt að vera ósammála Jesú. Þess vegna er hægt að hafa áhrif á skoðanir þessa fólks með því að sannfæra það um að Jesús hafi verið á ákveðinni skoðun.

Þegar kemur að málefnum sem eru mikil deilumál í nútímanum, en Jesús minnist ekkert á, þá er afar erfitt að trúa því að fólkið viti ekki hvað það er að gera. Er það ekki einum of heppilegt, að einmitt núna þegar prestarnir eru að rífast um réttindi hinsegin fólks skuli það koma í ljós að Jesús “hefði aldrei sætt sig við að transfólk fengi ekki að heita nöfnum sem passar við þeirra sanna kyn”?

Tilgangur blekkinganna

Jesús er söluvara prestanna. Og hvort sem þeir eru að blekkja eða eru blekktir, þá er í báðum tilfellunum verið að fegra vöruna. Ef maður les guðspjöllin þá sér maður að Jesús var ekki 21. aldar jafnréttissinni, hann var fornaldarmaður með fornaldarsiðferði. Raunin er sú að Jesús er léleg söluvara, þess vegna eru blekkingunum beitt.


[1] Mig grunar að eitthvað af þessum fullyrðingum séu ekki settar fram í alvöru, en það er erfitt að greina á milli.

Mynd fengin hjá Myrabella / Wikimedia Commons / CC-BY-SA-3.0

Hjalti Rúnar Ómarsson 27.09.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Valsól - 28/09/13 08:45 #

Ætlar enginn prestur að kommenta á þessa grein? Væntanlega ekki, enda erfitt að færa rök fyrir þessu bulli sem haldið er fram á heimasíðu kirkjunnar.


Þórður - 28/09/13 10:19 #

Já ég er búinn að lesa þessa grein í gegn hjá þér Hjalti. Ég gerði mér það til leiks að fara í gegnum allar tilvitnanir þínar og þú ert að vitna í nokkuð fáa presta, suma aftur og aftur. Ég saknaði þess þú skulir ekki hafa farið í meiri fjölbreytni í leit þinni hvað varðar prestana sjálfa.

Prestarnir blessaðir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Ekki það að ég sé þeim öllum sammála og það alltaf. Maður á einfaldlega alls ekki að vera það. Það sem þeir segja á að skoða, kryfja til mergjar og fjalla um það. Eðli prédikunar er einmitt til þess gerð að skekja þig Hjalti og fá þig til þess að hugsa, og til þess að velta fyrir þér trúnni. Enginn prestur og engin prédikun getur nokkurn tíma sannfært þig, en hún getur hreyft við þér og þá er tilganginum náð.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 28/09/13 13:32 #

Einn prestur stundar þetta ansi grimmt og því er mikið þarna frá henni. Annars eru þetta að mér sýnist 5 prestar, 1 biskup og 1 guðfræðingur.

Og að stunda það að halda því fram að Jesús hafi verið nákvæmlega sammála 21. aldar fólki í siðferðismálum er ekki góð leið til að "hreyfa við mér".

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.