Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Viltu leika miðil?

Gluggi hjá miðli

Orðið skyggn (psychic) vísar til þess meinta eiginleika að geta numið upplýsingar sem eru huldar jarðlegum skilningsvitum. Oft felur það í sér að geta tjáð sig við hina látnu. Þeir sem telja sig vera skyggn fara í hlutverk miðla þegar þeir flytja skilaboð frá þeim framliðnu áfram til réttra aðila. Án þess að gruna þá sem telja sig vera skyggna um græsku þá eru aðrar og nærtækari skýringar til varðandi það hvernig miðlar virðast ljá fólki upplýsingar en að þeir séu beintengdir við andaheiminn.

Forer áhrif

Árið 1948 lagði sálfræðingurinn Bertram M. Forer persónuleikapróf fyrir nemendur sína og sagði við þá að þeir ættu hver og einn að fá persónuleikagreiningu útfrá því prófi. Þegar nemendurnir fengu sína greiningu var þeim gert að meta hversu vel greiningin ætti við þá á kvarðanum frá 0 (Mjög illa) til 5 (Mjög vel). Nemendurnir gáfu greiningum sínum meðaleinkunina 4.26. Að matinu loknu var þeim tjáð að þeir hefðu allir fengið sömu greininguna útfrá stjörnuspá sem var svohljóðandi:

Þú vilt að öðrum líki vel við þig og dáist að þér en samt ertu mjög gagnrýnin/n sjálfa/n þig. Þótt þú sért slakur/slök á vissum persónuleikaþáttum bætur þú það upp á öðrum sviðum. Þú býrð yfir þónokkurri getu sem þú hefur ekki nýtt þér. Þú virðist agaður/öguð og markviss en ert samt oft áhyggjufull/ur og óörugg/ur. Stundum ertu mjög efins um hvort þú hefur tekið réttar ákvarðanir eða breytt rétt. Þú vilt helst geta breytt til og valið milli valkosta og verður óánægð/ur þegar þér eru settar skorður og takmarkanir. Þú ert stolt/ur af því að vera sjálfstætt þenkjandi og ert ekki ginkeypt/ur fyrir skoðunum annarra án frekari sannanna á staðhæfingum þeirra. Þó hefur þú komist að því að það er þér ekki til framdráttar að vera of hreinskilin/n við aðra. Stundum ertu úthverf/ur, vingjarnleg/ur og félagslynd/ur og stundum innhverf/ur, var um þig og vilt helst vera ein/n. Þú hefur óraunhæfar væntingar gagnvart vissum markmiðum sem þig langar að ná (Feitletrun mín).

Þetta eru setningar sem vísa til ástands sem flestir hafa upplífað og geta samsamað sig við. Enn erfiðara er að neita slíkum fullyrðingum ef orð eins og stundum, oft, helst, þónokkur og vissum koma fyrir. Setningar fela líka oft í sér andstæðar merkingar eins og; „Oftast ertu góður en þú getur líka verið vondur“. Í þeim tilvikum er ógjörningur að neita fullyrðingunum án þess að ljúga.

Fólk telur almennar lýsingar eiga vel við sig því það fyllir sjálft upp í lýsingarnar með eigin minningum og hugsunum og lagar lýsingarnar þar með að lífi sínu, hegðun og reynslu. Lýsingarnar virðist því eiga betur við en raunin er. Þetta kallast huglæg staðfesting (subjective validation).

Frekari rannsóknir hafa leitt í ljós að einstaklingar gefa greiningunni hærri einkunn ef að þeir telja að greiningin eigi einungis við um sig, ef þeir trúa sérfræðivaldi matsmannsins og ef greiningin felur aðallega í sér jákvæða eiginleika.

Uppskrift af ágætum miðilsfundi

Kaldur lestur(cold reading) er safn aðferða sem allar miða að því að notfæra huglæga staðfestingu. Þetta eru aðferðir sem miðlar beita þegar þeir vita lítið um kúnna til þess að kúnninn finni sjálfur persónulega merkingu í því sem miðillinn er að segja, tjái miðlinum þá merkingu og fyllir þar með inn í eyðurnar eftir því sem líður á miðilsfundinn. Ef miðillinn hefur hinsvegar einhverja þekkingu á högum kúnnans og notar það á fundinum kallast það heitur lestur(hot reading). Ef þú vilt leika miðil en veist lítið um kúnnann eru eftirtaldar leiðir hentugar til að lesturinn geti orðið sem bestur:

Aðstæður:

Hafðu miðilfundinn í herbergi sem lítur út fyrir að vera „ekta“. Til dæmis með því að bjóða kúnnanum að setjast í gamlan þægindastól, vera með bækur um miðla, skyggnigáfu og andleg málefni í bókaskáp og hafa milda lýsing í herberginu.

Kynning:

Fáðu kúnnann í lið með þér með því að útskýra fyrir honum að gæði fundarins sé undir ykkur báðum komin. Við það verður kúnninn opnari og gengst frekar við því sem þú segir við hann. Segðu við kúnnann að þú búir yfir sérstökum hæfileikum sem flest allir hafa að einhverju leiti en að þú hafir ræktað þína hæfileika og getir því notað þá til að aðstoða aðra. Þú verður að réttlæta strax í byrjun það að lýsingar þínar munu ekki vera fullkomnar þar sem truflanir af mörgum toga geta átt sér stað. Talaðu rólega, brostu og haltu augnsambandi, helst þannig að hausinn halli í aðra hvora áttina meðan þú hlustar. Hafðu fótleggi saman en ekki krossa þá og ekki heldur handleggi.

Virtu kúnnann fyrir þér:

Er kúnninn karl eða kona, mjór eða feitlaginn, hár eða lítill, gamall eða ungur, hvernig er talandi hans og líkamsstaða, í hvernig skapi er hann, hvernig er hann klæddur, er hann snyrtilegur eða sóðalegur, virðist hann vera ríkur eða fátækur, er hann fölur eða sólbrúnn, er hann með húðflúr, hringi eða aðra skartgripi o.s.frv. Allar vísbendingar sem þú getur fengið fyrst við að horfa á kúnnann getur þú notað þér á fundinum til dæmis með því að draga ályktanir um hversvegna hann er hjá miðli, hvað hann vilji fá útúr fundinum og hugsanlegt útlit og lunderni hins framliðna. En vertu samt tilbúinn til þess að endurmeta þær forsendur sem þú gefur þér útfrá útliti.

Veiddu svör:

Hægt er að ná fram upplýsingum frá kúnnanum með því að dulbúa spurningar eins og um fullyrðingar sé að ræða. Þetta er gert með fullyrðingum sem geta átt við flesta og eru mjög loðnar eins og: „Þú hefur orðið fyrir missi“; „Það er einhver nákominn þér sem heitir Jón/Sigurður“; „Hafið tengist [látnum ættingja] á einhvern hátt“; „Það er skartgripur sem er þér og [ látnum ættingja] hjartfólginn“; „Maí tengist þér á einhvern hátt“; „Það er komin hérna manneskja og það er mjög bjart yfir henni, hún hlær mikið og syngur, þú þekkir hana“; „Ég finn fyrir einhverjum sem byrjar á M eða N“, o.s.frv. Eftir alhæfinguna er síðan spurt til dæmis: „Hljómar þetta rétt?“; „Skilur þú það?“; „Til hvers vísar það?“; „Tengir þú við þetta?“; „Hversvegna gæti þetta verið?“; „Hvernig gæti það tengst þér?“; „Hvernig gæti það tengst þínu lífi?“; „Skilurðu hversvegna mér finnst þetta?“, o.s.frv. Miðillinn gefur ramma með loðnum spurningum sem kúnninn fyllir upp í með svörum sínum. Þegar fiskað er eftir atriðum þarf miðillinn að vera meðvitaður um viðbrögð og svör kúnnans svo hann viti hvert eigi að leiða fundinn.

Skjóttu mörgum skotum:

Önnur skyld aðferð sem reynist vel er að spyrja margra spurninga sem fela jafnvel í sér andstæður, til dæmis: „Afi þinn segir að þó þú sért agaður og markviss þá ert þú oft áhyggjufullur og óöruggur, hann segir að þú sért stundum mjög efins um hvort þú hefur tekið réttar ákvarðanir og veist stundum ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga, kannast þú við það?“. Kúnninn svarar síðan játandi því sem hann telur að eigi við sig eins og: „Já, ég er mjög áhyggjufullur“, við ofangreindum spurningum.

Umorðaðu það sem áður var sagt:

Þegar þú hefur náð upplýsingum frá kúnnanum getur þú beitt heitum lestri. Þú getur notfært þér það sem kúnni hefur sagt fyrr á fundinum, umorðað það og matreitt það aftur ofan í hann þannig að hann telji að þú hefur sjálfur fengið þær upplýsingar frá þeim látna. Við getum tekið dæmi með því að grípa inn í einn fund:

Miðill: Hversvegna finnst mér eins og þú hefur orðið fyrir missi?
Kúnni: Já…, ég missti nýlega afa minn
Miðill: Hann afi þinn tengist hafinu á einhvern hátt er það ekki?
Kúnni: Jú, hann vann lengi vel í síld á Siglufirði þegar hann var ungur og talaði oft um það þegar við hittumst í kaffi og ég fór oft með honum til Siglufjarðar, þar var alltaf svo gott veður. Það var besti tíminn í mínu lífi þegar ég fór með honum þangað.
Miðill: Já, hann virðist mikill um sig hann afi þinn og kvartar yfir eymslum í brjósti, kannastu við það?
Kúnni: uuhhh, nei ég veit ekki…
Miðill: Ég meina, það er eitthvað vont samband, hann var.., þó hann hafi verið sterkur maður þá finnst honum sárt að hafa farið, mér finnst eins og þið hafið verið mjög nánir
Kúnni: Jú, mjög nánir, mjög nánir
Miðill: Já hann segist sjá sérstaklega eftir að hafa farið frá þér, segir að þú sért svo duglegur og hláturmildur en hefur samt áhyggjur af því að þú ert á stundum svo sorgmæddur og það dragi úr þér, hljómar það rétt?
Kúnni: Ég hef nú verið atvinnulaus í nokkurn tíma núna og svo dó afi þannig að já ég hef fundið fyrir sorg
Miðill: Hann afi þinn segir þér að herða upp hugann, tækifærin eru að koma. Hann segir að þér muni aftur líða jafn vel og með honum á Siglufirði í gamla daga
Kúnni: Já, takk, það væri frábært
Miðill: Hann segir mér nefnilega að þér leið alltaf svo vel með honum á sumrin á Siglufirði
Kúnni: Það er rétt

Með því að einblína á staðhæfingar sem hafa fengið jákvæða svörun og gefa upp á bátinn þær sem hafa ekki gengið getur sá sem beitir köldum lestri náð fram því er virðist vera ótrúlega réttri mynd af kringumstæðum og vandamálum kúnnans. Hinsvegar er ekkert merkilegt sem hefur átt sér stað, kúnninn veitir miðlinum allskonar upplýsingar og fær síðan að heyra það sem hann vill heyra.

Segðu kúnnanum það sem hann langar að heyra:

Eins og komið hefur fram finnst fólki frekar að almennir jákvæðir eiginleikar eigi við sig. Þetta á líka við um jákvæðar afleiðingar sem kúnninn vill að verði að veruleika. Til að mynda getur þú sagt atvinnulausum manni að hinn framliðni segir honum að hafa ekki áhyggjur og að bjartari tíð er handan við hornið eða að hinn framliðni hafi alltaf þótt mikið til kúnnans koma. Galdurinn er að slá gullhamrana eða tjá hughreystandi orð í samhengi við framvindu fundarins.

Afsakanir:

Þú hefur þegar undirbúið kúnnann með því að segja honum að lýsingin sé ekki 100% rétt. Ef kúnninn bendir á að þú hafir rangt fyrir þér þá getur þú sagt að atriðið hafi gerst fyrir þónokkru síðan og gefið í skyn að það sé honum að kenna að hann muni ekki eftir því eða að þetta sé eitthvað sem muni gerast í framtíðinni. Þú getur einnig skellt skuldinni á framgangsleysi fundarins á slæma tengingu við hina framliðnu. Það er hinsvegar best ef þú getur talið kúnnanum trú um að það sé hann sem þarf að gera betur til að finna tenginguna.

Kúnninn þarf alltaf að hjálpa til svo að miðilstörfin beri árangur:

Það eru til mýmörg dæmi þess að miðlar „hitta“ ekki rétt. Það er, að þeir taki séns, gerast of sértækir og þurfi því að draga spurningar til baka eða breyta þeim til að geta haldið áfram. Þó slíkt komi endurtekið fyrir man fólk frekar eftir því sem miðillinn gerði „rétt“ en gleymir oft því þegar honum skjöplast. Hversvegna ætli það sé?

Þeir sem leita til miðla eru bæði sálrænt og fjárhagslega búnir að veðja á getu miðilsins því oftast nær trúa þeir á framliðna, getu miðilsins til að ná sambandi við þá og borga síðast en ekki síst fyrir fundinn. Þetta leiðir af sér staðfestingarskekkju (confirmation bias) þar sem kúnnar leita að þeim upplýsingum sem renna stoðum undir þá skoðun sína að miðillinn sé í raun að hafa samband við andaheiminn. Vegna valkvæmrar athygli (selective attention) hyggja kúnnarnir því mun frekar að þeim skiptum þegar miðillinn „hittir“ og gleyma því sem fór forgörðum á miðilsfundinum.

Það sem mestu máli skiptir þegar miðill stundar kaldan lestur er að kúnninn sé tilbúinn til þess tengja þá punkta sem miðillinn leggur fyrir hann og finna einhverja merkingu þar. Því sterkar sem kúnni vill þýðast miðlinum og skilja það sem hinn framliðni er að reyna að segja honum því meir reynir hann að finna merkingu í því sem miðillinn segir og verður þess þeim mun ánægðari með störf hans. Það eru dæmisögur (anecdotal evidence) þessa fólks sem mynda síðan grunn „sannanna“ um réttmæti krafta miðilsins.

En ekki er við þá að sakast. Miðilsfundir eru án efa mjög tilfinningaleg reynsla þar sem syrgjendur vilja og telja sig ná sambandi við þá sem þeim þykir vænt um. Þeir vilja huggun og öðlast hugarró. Það sem er hinsvegar bagalegt við þessa fundi er að hugsanlega eiga vörusvik sér stað gagnvart þeim sem syrgja.


Heimildir: http://skepdic.com/coldread.html

Birtist upphaflega á Húmbúkk

Mynd fengin hjá Carmen Parmelee

Bjarki Þór Baldvinsson 24.09.2013
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Arnar - 25/09/13 21:32 #

Það er alveg ótrúlegt hvað fólk getur látið svindla og ljúga að sér fyrir svimandi upphæðir á ár í miðla. Þetta þykir bara eðlilegt og er gagnrýnislaust í þjóðfélaginu. Augljós lygi og bull þeirra sem kalla sig miðla. Við erum jafndauð og grjót eftir dauðann. Eins og það var áður en við fæddumst.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.