Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Undarlegt háttalag prests um hábjartan dag

Mynd af Alþingi hliðin á kirkju

Sr. Gunnar Jóhannesson dritar pistli í FBl hinn 18. júlí sl. og dembir sér þar lóðbeint á höfuðið ofan í rökvillusoðketilinn. Honum er í nöp við félagið Siðmennt og þann málflutning forsvarsmanna þess að hið opinbera ætti ekki að hygla skoðunum ríkiskirkjunnar eins og alsiða er. Til að breiða yfir þessa augljósu staðreynd reynir klerkur að drepa málum á dreif með rökum er bíta líkt og soðnar hveitilengjur. Margt er það í pistli Gunnars sem ekki stenst skoðun né kröfur um rökleiðslu. Það væri gustuk að gott fólk og grandvart veitti honum tilsögn í grunnatriðum rökfræði.

Sem dæmi má nefna staðhæfingu sr. Gunnars um: „ ... að sérhver tilraun til að móta veraldlegt samfélag, eða byggja samfélag sem lýtur „veraldlegum leikreglum“, eins og segir í stefnu Siðmenntar, þar sem áhrif trúar og trúarbragða eru lágmörkuð eða útilokuð, er ævinlega fólgin í því ryðja einni lífsskoðun úr vegi til að rýma fyrir annarri.“ #

Hér er um að ræða falska valþröng hjá presti, því ekki er um að ræða annað hvort eða í þessu sambandi. Það að tillit sé tekið til nýrrar skoðunar þýðir ekki að þeirri eða þeim, sem fyrir eru, sé rutt úr vegi. Annað hjá sr. Gunnari er eftir þessu.

Annað sem klerkur tínir til, málstað sínum til framdráttar, er að verið sé að þagga niður og gera hornreka trú og hið trúarlega í samfélaginu með kröfu margra um að ríkiskirkjan láti af sífri sínu við hvert tækifæri sem henni býðst. Það er í rauninni hlálegt að halda því fram, eins og prestur gerir, að með kröfu um að fleiri raddir heyrist opinberlega heldur en ríkiskirkjunni þóknast sé verið að svipta fólk réttinum til að trúa eða láta slíkt í ljós. Eða þarf að minna sr. Gunnar á forréttindi ríkiskirkjunnar í hinum opinbera ranni?

Sé þess þörf þá er hér stutt samantekt og alls ekki tæmandi: Í útvarp allra landsmanna er lesin ríkiskirkjubæn og pistillinn lesinn fólki kvölds og morgna. Flesta sunnudaga sem og um stórhátíðir er einnig messum útvarpað í nafni téðrar kirkju. Alþingissetning byrjar á messu. Allur þorri opinberra byggingaframkvæmda, t.a.m. brýr, byggingar og virkjanir, er vígður af ríkiskirkjuprestum fyrir notkun.

Prestar og djáknar ríkiskirkjunnar eru fjölmennir á opinberum sjúkra- og hjúkrunarstofnunum. Ríkiskirkjutrú er óspart haldið að börnum í opinberum grunnskólum. Ríkiskirkjan hefur eigið ráðuneyti, sem nýlega var smyglað inn í innanríkisráðuneytið, í stjórnskipun landsins. Ríkiskirkjan fær ríkulega meðgjöf með starfsemi sinni frá hinu opinbera og svo má lengi telja.

Hægt er að virða presti það til vorkunnar í öllum hans málflutningi að hann er auðvitað að verja sína einfeldningslegu lífssýn og lífsviðurværi, enda hálaunamaður í boði hins opinbera. Honum ferst það ekki hönduglega en virða skyldi viljann fyrir verkið.

Virða ber honum það hins vegar til vorkunnar að tyggja upp hina margþvældu klisju um að trúleysi sé trú og að "...samfélagslegt fyrirkomulag [sem ... grundvallast á guðleysi (innsk. höf.)] er í raun kristið í eðli sínu ... “

Hér kristallast í rauninni rökþrot og hringlandaháttur klerks, því ef trúleysi er trú og það kristin í þokkabót, er þá nokkurs að kvíða þótt veraldleg samtök á borð við Siðmennt fái að koma málstað sínum opinberlega á framfæri?

Guðmundur Guðmundsson 19.07.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Erik - 19/07/13 15:17 #

Þetta er nú meira trúarstaglið fram og til baka án nokkurrar niðurstöðu eða vonar um niðurstöðu. Að vera með trú eða lífsskoðanir annarra á heilanum alla daga, daginn inn og út, er náttúrulega ekkert nema bilun í báðar áttir hvort sem menn kalla sig trúaða eða trúlausa. Þetta algjörlega tilgangslausa stagl skilar nákvæmlega engu nema meira stagli.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 19/07/13 16:05 #

Ja, þetta 'stagl' hefur nú skilað því að margir eru orðnir óhræddari við að gagnrýna klerkana og þá botnlausu þvælu er niður af þeim gengur, trúarinnræting í grunnskólum telst ekki lengur sjálfsögð og bingóspil á Páskum telst til almennra mannréttinda. Þetta tel ég all nokkurn árangur.


Erik - 19/07/13 19:13 #

G2: Geturðu vísað á heimild eða rannsókn sem staðfestir að staglið hafi skilað því sem þú segir, t.d. að ""margir" séu "orðnir óhræddari við að gagnrýna klerkana og þá botnlausu þvælu er niður af þeim gengur"? Ég veit ekki betur en að heimurinn sé og hafi alltaf verið stútfullur af alls konar trú- og ekki-trúfólki sem ekki bara hefur "gagnrýnt" trú og ekki-trú hvors annars heldur staðið í blóðugum mannvígum og styrjöldum út af því. Ég ætla að giska á að þér "finnist" þetta bara, en leyfi mér þá að "finnast" til baka að þetta er alltaf sama liðið sem er að staglast. Það heyrist bara hærra og oftar í þeim núna vegna þess að nú geta þeir ausið úr skálum vanþóknunar sinnar á fólki með aðrar lífsskoðanir á netinu.

Og heldurðu virkilega að þetta botnlausa stagl og sú aðferð staglaranna að fara í manninn en ekki málefnið hafi skilað því að "trúarinnræting í grunnskólum telst ekki lengur sjálfsögð"? Ég veit ekki betur en að trúfólki finnist það bara alveg sjálfsagt að troða sinni trú og ekki-trú inn á alla, alls staðar, hvar sem þvi verður viðkomið, hvort sem það er í skólum eða annars staðar. Voruð þið ekki með myndband hér um daginn sem sýndi hvatningu til barna um að troða sinni trú inn á önnur börn í skólanum? Sýnist þér virkilega að staglið hafi haft þau áhrif á þetta fólk að því finnist ekki slík trúarinnræting sjálfsögð? Þú ætlar þó ekki að þakka staglinu það að reglur hafi verið settar sem takmarka aðgang trúarhópa að skólum? Sé svo þá tel ég þig og aðra sem halda það vera á villigötum. Reglurnar voru settar af skynsemisástæðum. Staglið gerir ekkert nema tefja fyrir að fleiri slíkar ákvarðanir séu teknar.

Sama með páskabingó (sem ég man nú ekki eftir að hafa séð skilgreint sem "almenn mannréttindi" - hvaðan hefurðu það?). Það er ekki staglið sem hefur skilað því að losað hefur verið um trúarleg höft á undanförnum árum heldur bara almenn skynsemi og tíðarandinn. Staglið og köpuryrðin sem ganga á milli trú- og ekki-trúhópa hjálpar nákvæmlega ekki neitt til heldur býr bara til meira stagl og harðari deilur sem varna því að mál þróist hraðar í þessum efnum eftir skynsemisleiðum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/07/13 19:49 #

Staglið gerir ekkert nema tefja fyrir að fleiri slíkar ákvarðanir séu teknar.

Geturðu vísað á heimild eða rannsókn sem staðfestir að staglið tefji fyrir?


Einar Karl - 19/07/13 20:49 #

Erik er einn af þeim sem eyðir tíma í að leita uppi umræður á netinu, lesa þær spjaldanna á milli, bara til þess að gagnrýna svo hvað umræðurnar séu gagnlitlar og tilgangslausar.


Jóhann - 19/07/13 22:43 #

Enn og aftur vígreif grein manns sem er þegar sannfærður:

"Sem dæmi má nefna staðhæfingu sr. Gunnars um: „ ... að sérhver tilraun til að móta veraldlegt samfélag, eða byggja samfélag sem lýtur „veraldlegum leikreglum“, eins og segir í stefnu Siðmenntar, þar sem áhrif trúar og trúarbragða eru lágmörkuð eða útilokuð, er ævinlega fólgin í því ryðja einni lífsskoðun úr vegi til að rýma fyrir annarri.“ #

Hér er um að ræða falska valþröng hjá presti, því ekki er um að ræða annað hvort eða í þessu sambandi."

Þetta stenst ekki.

Fölsk valþröng!?

Af hverju meikar þessi málsgrein ekki sens?

Hvar segir að um "annað hvort eða" sé að ræða, Guðmundur?

Nú ætla ég ekki að verja skipuleg trúarbrögð, né einstaka presta innan slíkra, en það er bara skelfileg tilhugsun, að samfélög manna verði byggð á "veraldlegum" forsendum.

Hvað sem það nú þýðir, annað en að vera undirlægja "vísinda".

Næst á maður bara von á einhverju í líkingu við þessa trúarjátningu í þremur liðum:

  1. Vísindi eiga svör við öllu.

  2. Í þeim tilvikum sem vísindi eiga ekki svör, þá vísast í lið 3.

  3. Vísindi munu eiga svör við öllu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/07/13 23:02 #

Hvað sem það nú þýðir, annað en að vera undirlægja "vísinda".

Veistu ekki einu sinni hvað það þýðir? Samt ertu með stæla.

Viltu ekki fyrst reyna að átta þig á því hvað þetta þýðir og rífa svo kjaft?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 20/07/13 01:51 #

Svona, svona, Matti... Jóhann hefur árum saman komið með samhengislausar athugasemdir við nánast hverja einustu grein hjá Vantrú... er ekki ósanngjarnt að fara að gera kröfur á hann núna???

Innihaldið er gjarnan eitthvað á þá leið að eitthvað óskiljanlegt, óskilgreint og ruglingslegt (sem hann getur ekki útskýrt sjálfur) og er byggt á hugmyndum fáfróðra hirðingja fyrir þúsundum ára - sé merkilegra en vísindin.

Og honum er fyrirmunað að skilja muninn á því að sum okkar telja aðferðir vísindanna bestu nálgun sem við höfum fundið til að afla þekkingar, þó við gerum okkur grein fyrir að þau eigi ansi langt í land með að hafa svör við öllu.


Guðjón Eyjólfsson - 20/07/13 10:02 #

Ég held að Erik hafi mikið til síns máls. Þessi umræða getur ekki leitt til niðurstöðu vegna þess að það er trúnarbrestur milli deiluaðila. Auðveldasta lausnin, og sennilega eina lausnin sem eitthvað vit er í er að leiða þessa umræðu hjá sér.


Jóhann - 20/07/13 20:24 #

Matti segir: "Veistu ekki einu sinni hvað það þýðir? Samt ertu með stæla."

Ég sagðist ekki vita í hvað skilningi/merkingu væri vísað, annað en að það varðaði vísindi.

Rétt eins og ég vænti þess að "vísindi" sé nauðsynlegur eiginleiki veraldarhyggju.

Hvað stæla varðar, þá bíð ég eftir því að Guðmundur útskýri betur meinta "falska valþröng".

Valgarði þakka ég fyrir að umorða þriggja liða trúarjátningu með eftirfarandi hætti:

"Og honum er fyrirmunað að skilja muninn á því að sum okkar telja aðferðir vísindanna bestu nálgun sem við höfum fundið til að afla þekkingar, þó við gerum okkur grein fyrir að þau eigi ansi langt í land með að hafa svör við öllu."

Það er gott að trúa á landsýn.

En það er röklega rangt að halda því fram að vegna þess að eitthvað hefur virkað, þá muni það ævinlega virka.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 21/07/13 08:49 #

Ég held að enginn geri ráð fyrir því að umræddur prestur (deiluaðilinn) muni allt í einu komast að því að hann hafi rangt fyrir sér og ganga af skoðunum sínum í framhaldinu af svona umræðu. En það segir ekkert um gildi umræðunnar. Það að tala niður umræðuna á slíkum forsendum þykir mér álíka gáfulegt og að segja sjónvarpsrökræður forsetaframbjóðenda tilgangslausar útaf því þeir eru sjálfir ólíklegir til að skipta um skoðun vegna þeirra.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 21/07/13 14:33 #

Ég sagði hvergi að ef eitthvað hafi virkað þá muni það ævinlega virka.. það myndi hjálpa umræðunni að vera ekki að gera mér upp skoðanir eða orð, en þetta er auðvitað hefðbundin þrastækni.

Ég sagði að aðferðir vísindanna væru þær bestu sem við hefðum fundið til að afla þekkingar. Ég hef enn ekki séð betri aðferðir. Vangaveltur gyðinga fyrir þúsundum ára um einhvers konar geðillan, hefnigjarnan skapara heimsins eiga ekkert skylt við þekkingarleit.


Ómar Harðarson - 22/07/13 21:52 #

Einar Karl skilgreindi Erik þennan sem nettröll, þ.e. "einn af þeim sem eyðir tíma í að leita uppi umræður á netinu, lesa þær spjaldanna á milli, bara til þess að gagnrýna svo hvað umræðurnar séu gagnlitlar og tilgangslausar". Valgarður skilgreindi Jóhann í sama flokki: "Jóhann hefur árum saman komið með samhengislausar athugasemdir við nánast hverja einustu grein hjá Vantrú".

Nú geri ég ráð fyrir Einar Karl og Valgarður hafi einhverja reynslu af þessum kommentörum, en sjálfur þekki ég ekki til þeirra. Meginreglan er hins vegar: Ekki fóðra tröllin!

Persónulega fannst mér grein Guðmundar skemmtileg aflestrar og prýðilegt svar við bullinu í sóknarprestinum.


Jóhann - 22/07/13 23:25 #

Það er nýlunda að menn vitni í Einar Karl og Valgarð til að játa trú sína.

..."It takes all sorts"

Það sem ég held fram fullum fetum, er að sókn eftir "veraldalegu" samfélagi, þar sem "vísindaleg þekking" er lögð til grundvallar, er viðurstyggilegri en nokkur trú á Guð, eða guði.

Enda geta vísindi ekki sannað eða afsannað neitt í þeim efnum.


Erik - 23/07/13 07:55 #

Þér til fróðleiks Ómar Harðason þá hef ég aldrei sett athugasemd hér inn áður og reyndar afar sjaldan á íslenzkum síðum. Núna sé ég eftir að hafa lagt orð í belg hér enda deginum ljósara, og það hefði ég átt að vita fyrirfram, að það þýðir ekkert að eiga orðastað við svona ekki-trúhópa frekar en aðra trúhópa sem sjá ekki sólina fyrir sjálfum sér og sínum fyrirframskoðunum, gera ekki ráð fyrir hugsun út fyrir rörið og fordæma þá í hvelli sem tjá aðra sýn en þá sem þeir boða að sé sú eina rétta.

Grein Guðmundar er í mínum augum ekkert nema belgingurinn, svona "sjáið þið kæru trúfélagar hvað ég er klár og fyndinn og fer létt með að snúa niður villutrúarmanninn og gera lítið úr honum alveg eins og þið"-grein. Ekki það að ég sé að verja skoðanir eða grein prestsins, en mér finnst þessi belgingur Guðmundar enn heimskulegri en hans, enda þjónar greinin ekki nokkrum öðrum tilgangi en þeim að kaupa sér velþóknun áhangenda þessa van-trúarhóps sem er greinilega sama marki brenndur og aðrir innræktaðir sértrúarhópar nema að guðirnir eru ekki þeir sömu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/07/13 09:25 #

það þýðir ekkert að eiga orðastað við svona ekki-trúhópa frekar en aðra trúhópa

Hið rétta er að það þýðir ekkert að mæta hingað með stæla, hroka og hortugheit - því þá er þér einfaldlega svarað. Heldurðu í alvöru að þú getir mætt hingað og drullað yfir okkur án þess að fá viðbrögð?


Erik - 23/07/13 10:43 #

Þú meinar: Það þýðir ekkert að mæta hér með nein önnur viðhorf en þau sem eru okkur þóknanleg.

Got it!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/07/13 10:56 #

Nei, ég meina: Það þýðir ekkert að mæta með stæla eins og:

Þetta er nú meira trúarstaglið fram og til baka án nokkurrar niðurstöðu eða vonar um niðurstöðu

Þarna ert þú ekki að mótmæla okkur málefnalega heldur einfaldlega að tala niður til okkar. Svo erum við biluð, allt okkar stagl hefur engu skilað og við hægjum á þróuninni. Þetta segirðu án nokkurra raka.

Við þekkjum þetta aðeins betur en þú Erik og þegar einhver mætir með svona leiðindi er honum einfaldlega svarað. Ertu í alvöru hissa á því að þú fáir ekki að drulla yfir okkur gagnrýnislaust. Undan hverju ertu annars að kvarta? Því að vera kallaður nettröll í einni athugasemd?

Svo svararðu ekki einu sinni einfaldri spurningu og lætur eins og Haukur hafi ekki heldur svarað þér málefnalega.

Það er virkilega ódýrt (og reyndar ótrúlega prest-legt).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/07/13 11:05 #

Það sem ég held fram fullum fetum, er að sókn eftir "veraldalegu" samfélagi, þar sem "vísindaleg þekking" er lögð til grundvallar, er viðurstyggilegri en nokkur trú á Guð, eða guði.

Það byggist á því að þú snýrð (viljandi?) úr því hvað átt er við með "veraldlegt samfélag".

Ég veit ekki af hverju þú gerir það en þetta er dálítið dæmigert fyrir og sýnir af hverju við hætt að nenna að eiga samræður við þig.

Enda geta vísindi ekki sannað eða afsannað neitt í þeim efnum.

Það kemur málinu ekkert við.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 23/07/13 23:44 #

Hér hefur aldeilis skorist í odda rétt á meðan ég brá mér austur í land til að fá ögn af sólskini á kroppinn. Erik og Jóhann, blessaðir, geisa einhver ósköp og finna pistlinum ýmislegt til foráttu. Ég ráðlegg þeim kumpánum að bregða sér snimmhendis austur á Egilsstað og leggjast þar í sólbað. Það er ómögulegt að vera súr eftir slíkar trakteringar.


Jóhann - 24/07/13 00:13 #

Matti (meðlimur í Vantrú) - 23/07/13 11:05 #

"Það byggist á því að þú snýrð (viljandi?) úr því hvað átt er við með "veraldlegt samfélag".

Ég veit ekki af hverju þú gerir það en þetta er dálítið dæmigert fyrir og sýnir af hverju við hætt að nenna að eiga samræður við þig."

Nefndu mér EITT og aðeins eitt dæmi um það að veraldlegt samfélag vísi ekki í efnishyggju og vísindalega smættun.

Bara eitt dæmi.

Þess utan tek ég undir með G2. (og takk fyrir blessunina)

Það er víst ágætis veðurspá á næstunni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/07/13 09:37 #

Nefndu mér EITT og aðeins eitt dæmi um það að veraldlegt samfélag vísi ekki í efnishyggju og vísindalega smættun.

Frakkland.


Jóhann - 24/07/13 18:42 #

Ég var nú að tala um hugmyndafræðilegan grunn veraldarhyggju, ekki stjórnarskrárbundinn aðskilnað ríkis og kirkju.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/07/13 18:51 #

Skemmtilegt. Við erum nefnilega ekkert að ræða hugmyndafræðilegan grunn veraldarhyggju heldur einmitt stjórnarskrárbundinn aðskilnað ríkis og kirkju - veraldlegt samfélag þar sem ríkið er hlutlaust þegar kemur að trúmálum. Þú hefðir mátt átta þig á því þar sem greinin sem þú gert að gera athugasemd við er í framhaldi af ritdeilum sem snúast um það málefni.


Jóhann - 24/07/13 20:10 #

Ég hef verið fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju um langt skeið.

En að Siðmennt ryðji sér rúms með sínar lífskoðanir, hlýtur að varða hugmyndafræðilegan grunn þeirra.

Því eru þessar athugasemdir mínar tengdar efninu.


Erik - 24/07/13 21:06 #

Þetta er nú meiri æsingurinn í þér Matti. Þú ert greinilega alveg búinn að tapa þér í ekki-trúnni og virðist þess utan halda að þú sért orðinn dómari í einhvers konar ekki-trúar útgáfu af spænska rannsóknaréttinum.

Látum okkur sjá ...

Þarna ert þú ekki að mótmæla okkur málefnalega heldur einfaldlega að tala niður til okkar.

Nákvæmlega viðbrögð trúmanns við guðlasti. Nákvæmlega. Ég var ekki að "mótmæla" neinu, ég var að segja að þetta tilgangslausa trúarstagl skilaði engu nema meira stagli. Og ef þú tekur því sem lítillækun þá er það sama tilfinningin og grípur heitan trúmann þegar honum finnst einhver lasta sinn guð. Ekki mér að kenna þótt túlkun þín sé svona.

Svo erum við biluð

Ég sagði að staglið væri bilun í báðar áttir. Ég sagði ekki að þið væruð biluð. Sérðu virkilega ekki muninn? Ekkert skrítið að þér finnist ég tala niður til ykkar fyrst lestrarskilningurinn er ekki betri en þetta. Vissulega hef ég sagt ykkur ekki-trúuð og vissulega finnst mér þessi funheita ekki-trú ykkar vera bilun, en það er annar handleggur.

allt okkar stagl hefur engu skilað og við hægjum á þróuninni.

Já, eins og öll önnur trú og trúhópar þá er þessi ekki-trú og þessi svokallaði van-trúarhópur algjör dragbítur á skynsamlega umræðu um trúmál, til dæmis þá sem miðar að því að aðskilja ríki frá kirkju.

Þetta segirðu án nokkurra raka.

Ég veit ekki í hvaða veröld þú hefur haldið þig en mér finnst eiginlega ekki vanta nein rök fyrir því að trú og trúarstagl sé dragbítur á skynsamlega umræðu um trú.

Eða hefur þú kannski fram að færa einhver "rök" fyrir því að trúarstaglið og stanslausar árásir ykkar á fólk með aðrar lífskoðanir hafi flýtt fyrir skynsemisumræðu í þessum málum? Sé svo, lát endilega heyra.

Við þekkjum þetta aðeins betur en þú

Já, yfirburðir ykkar eru slíkir að þið eruð með það á hreinu fyrirfram hvað aðrir vita og þekkja þótt þið vitið hvorki haus né sporð á viðkomandi. Þetta er svona dæmigerð master race innræting sem þarna er í gangi.

þegar einhver mætir með svona leiðindi er honum einfaldlega svarað.

Enn og aftur: "Svona leiðindi" merkir augljóslega guðlast í þínum huga þótt um annarskonar Guð sé að ræða en þennan skeggjaða í skýjunum.

Ertu í alvöru hissa á því að þú fáir ekki að drulla yfir okkur gagnrýnislaust.

Heittrúaðir sjá rautt þegar "villutrúarmenn" verða á vegi þeirra, sérstaklega ef þeir voga sér guðlast í leiðinni. Þetta "rauða" kallar þú hins vegar "drullu" og mátt það svo sem alveg fyrir mér fyrst það fellur betur að þínum málsmekk.

Undan hverju ertu annars að kvarta?

Hmmm ... ég hugsa að flestir sjái að ég var að "kvarta" yfir þessu endalausa og tilgangslausa trúarstagli sem skilar ekki neinu nema leiðindum og meira trúarstagli. Var ég ekki að segja það? Svo sagði ég að hinn raunverulegi tilgangur Guðmundar með greininni væri að ganga í augun á félögum sínum í þessum ekki-trúhóp og fá klapp á bakið fyrir að vera svona klár og fyndinn. Þú mátt kalla það "kvart" ef þú vilt. Annars stendur það allt nákvæmlega hér fyrir ofan undan hverju ég var að "kvarta". Ef lestrarskilningur þinn væri betri en hann bersýnilega er þá þyrftir þú ekki að spyrja svona heimskulega. Prófaðu að lesa það aftur sem ég hef sagt hér fyrir ofan og gáðu hvort þú komir ekki auga á "kvartanir" mínar og í hverju þær felast.

Því að vera kallaður nettröll í einni athugasemd?

Var ég kallaður netröll einhvers staðar? Það fór fram hjá mér. Það sem þú ert líklega að misskilja (eða mislesa) er að einhver Einar Karl sagði:

Erik er einn af þeim sem eyðir tíma í að leita uppi umræður á netinu, lesa þær spjaldanna á milli, bara til þess að gagnrýna svo hvað umræðurnar séu gagnlitlar og tilgangslausar.

Þetta rugl taldi ég ekki svaravert enda augljóst að þessi Einar er annað hvort siðblindur eða fáviti. Sennilega hvort tveggja. En þegar Ómar flækti sig í netið eins og hver annar þorskur þá fann ég mig knúinn til að upplýsa hann um þá staðreynd að þessi Einar væri að búa þetta til út í loftið eins og siðblindingjar og fávitar gera gjarnan. Þannig var það. Enn á ný undrast ég lestrarskilning þinn. Hann virðist einfaldlega ekki vera til staðar.

Svo svararðu ekki einu sinni einfaldri spurningu

Ef það var ekki ljóst fyrir að lestrarskilningur þinn er við frostmark þá er það ljóst núna. Þessi "einfalda spurning" var nákvæmlega sama spurningin og ég hafði spurt GT án þess að fá neitt svar. Reyndar átti ég ekki von á svari enda ómögulegt að benda á rannsóknir á því sem manni "finnst". Hins vegar, ef GT dúkkar upp með heimildirnar og rannsóknirnar fyrir sinni "mér finnst" fullyrðingu þá eru það sömu heimildirnar og rannsóknirnar og ég hef fyrir minni. Vonandi líður þér þá betur.

Sniðugt samt svolítið að þetta sé það eina sem kom út úr lestri þínum á því sem ég sagði. En svona er þetta hjá trúfólki. Það sér bara það sem það vill sjá, týnir það út sem hentar þeim og læst ekki vita af öllu hinu.

og lætur eins og Haukur hafi ekki heldur svarað þér málefnalega.

Ef þú prófar að lesa h æ g t yfir það sem Haukur sagði þá var hann að gefa sér forsendur sem voru bara alls ekki mínar. Svo svaraði hann á þeim forsendum, ekki mínum. Ég gaf hvergi í skyn að ég héldi að staglið myndi breyta skoðunum trúmanna, hvorki ykkar né annarra. Þvert á móti þá var ég einmitt að benda á að staglið væri gjörsamlega tilgangslaust og skilaði engu nema meira stagli. Það er greinilegt að lestrarskilningur Hauks er ekki á háu plani heldur. Þetta er reyndar algengur kvilli hjá trúfólki: Það les bara það út úr texta sem passar við þeirra fyrirframskilning í stað þess að reyna að skilja það sem skrifað er.

Það er virkilega ódýrt (og reyndar ótrúlega prest-legt).

Er þetta einhver standard fullyrðing eða lokaniðurstaða um villutrúarmenn eins og mig? Svona viðbrögð eru einmitt mjög trú-leg.

Verð að árétta að lokum að mér finnst þessi ekki-trú ykkar álíka klikkuð og önnur trú, ef ekki sýnu verri því hún gengur ekki út á annað en að ráðast á aðra vesalinga sem trúa einhverju öðru en þið, eins og greinarnar á þessu vefriti vitna svo vel um. Þeim er ekki annað ætlað en að fullnægja annars vegar vandlætingarþörf þess sem skrifar og hins vegar þörf hans til að ganga í augun á ekki-trúfélögunum og rúnka þeim öllum um leið. Grein Guðmundar er gott dæmi um svona hóprunk. Ég myndi ráðleggja ykkur að "get a life" en veit að það þýðir ekki neitt.

Læt ég svo staðar numið á þessum auma vettvangi með einlægri von um að þið ekki-trúfólkið rankið einhvern tíma við.


Sigurður Hólm Gunnarsson - 25/07/13 17:04 #

Mitt svar við grein Gunnars er hér: http://skodun.is/2013/07/25/soknarprestur-er-sammala-sidmennt/


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/07/13 17:05 #

Þetta er nú meira eineltið Erik. Vertu ekki að þessu einelti. Algjört sálarmorð. Ertu með þöggunartilburði gagnvart okkur? Bara mannréttindabrot. Þetta er einfaldlega stríðsyfirlýsing gagnvart trúlausum. Hvorki gífuryrði né gengisfellingu að finna í minni athugasemd.


Ómar Harðarson - 26/07/13 17:05 #

Ég veit að svona varnaðarorð virka aldrei, en... Ekki fóðra tröllin!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/07/13 16:25 #

Þetta er nú meiri æsingurinn í þér Matti.

En ég var nákvæmlega ekkert æstur!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.