Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Eru geimverur að heimsækja jörðina?

Mynd af fljúgandi furðuhluti

Fimmtudaginn 6. júní fékk ég tækifæri að ræða við varaformann Félags áhugamanna um fljúgandi furðuhluti á Íslandi í útvarpsþættinum Harmageddon. Af því tilefni ætla ég að útskýra í stuttu máli hvers vegna við ættum ekki að trúa því að geimverur séu að heimsækja jörðina.

Stórfenglegar staðhæfingar

"Stórfenglegar staðhæfingar þarfnast stórfenglegra sönnunargagna" er haft eftir stjörnufræðingnum Carl Sagan. Þó svo að henni sé oft mótmælt af þeim sem koma með stórfenglegar staðhæfingar, þá er það samt svo að við notum hana öll réttilega í daglegu lífi.

Þú þarft ekki stórfengleg sönnunargögn til að trúa því að ég eigi kött enda algengt að fólk eigi ketti. Þú myndir líklega biðja um betri sönnunargögn ef ég segðist eiga kjarnorkusprengju því að afskaplega fáir einstaklingar, og þá helst þjóðarleiðtogar, ráða yfir kjarnorkusprengjum.

Ef ég gengi enn lengra, og segðist eiga tímavél, þá myndirðu þurfa enn betri sönnunargögn, því að við höfum engin dæmi um að fólk eigi tímavélar.

Stórfengleg staðhæfing

Staðhæfingin um að geimverur séu að heimsækja jörðina tel ég vera ansi stórfenglega, svo vægt sé tekið til orða. Geimverutrúarfólk er örugglega ósammála þeim fullyrðingum að þetta sé nær því að segjast eiga kjarnorkusprengju eða tímavél. Því hlýtur að vera að ljóst að þetta er ekki eins og að segjast eiga kött.

Við þurfum ansi góð sönnunargögn ef við ætlum að trúa því að geimverur séu að heimsækja okkur. Hver eru sönnunargögnin sem við höfum fyrir heimsóknum geimvera?

Ljósin í loftinu

Annars vegar höfum við myndir og myndbönd af alls konar ‘fljúgandi furðuhlutum’. Það efast enginn um að oft næst á mynd af stjörnuhimninum ýmislegt sem við vitum ekki algerlega hvað er. Engu að síður vitum við að fólk er oft að taka myndir af jarðbundnum hlutum, en ályktar ranglega að um eitthvað ótrúlegt - eins og geimskip frá öðru sólkerfi - sé að ræða. Sem dæmi má benda á þetta myndband sem var birt á Facebook-síðunni “FFH á Íslandi”:

Þegar kemur að myndum þar sem við getum ekki sagt með algerri vissu hvað nákvæmlega er á myndinni, þá gerir geimverutrúarfólk þau mistök að stökkva á óvenjulega skýringu (geimverur) þegar líklegra er að um eitthvað venjulegt (t.d. fugla!) er ræða.

Hvar eru góðu myndirnar?

Þegar meta á tilgátur gerir fólk oft þau mistök að leita bara að einhverju sem staðfestir hana, en veltir því ekki fyrir sér hvort eitthvað vantar, sem við myndum búast til að væri til staðar ef tilgátan væri sönn.

Varðandi myndir af meintum geimskipum, þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvers vegna það eru engar góðar myndir af þeim. Ef það er verið að ruglast á venjulegum hlutum og geimskipum, þá myndum við búast við því að það myndu aldrei nást góðar myndir af þeim (því þá væri augljóst að það er ekki um geimskip að ræða). En ef um geimskip er að ræða þá gætum við búist við því að sjá myndir af einhverju öðru en bara einhverjum ljósum.

Geimverurnar

Hin gerðin af sönnunargögnum sem eru sögur af því að geimverur séu að heimsækja fólk og nema það á brott. En þetta eru einmitt bara það: sögur.

Aldrei nást neinar myndir af geimverunum, sem hlýtur að teljast ansi undarlegt ef þetta er í raun og veru að gerast. Þessi skortur verður sífellt vandræðalegri fyrir geimverutrúarfólk nú þegar stór hluti fólks er alltaf með myndavélasíma á sér. Líklegasta skýringin hlýtur að vera sú að þessar sögur séu einfaldlega bara sögur.

Hvað gætu þær gert?

Þær myndir af ‘fljúgandi furðuhlutum’ sem við höfum og sögur af geimverum geta því ekki flokkast sem sterk sönnunargögn fyrir heimsóknum geimvera. Ef geimverur væru í raun og veru að heimsækja jörðina, þá væri ótrúlega auðvelt fyrir þær veita okkur sterk sönnunargögn. Sem dæmi gætu þau flogið mjög nálægt einhverjum stórum íþróttaviðburði sem tugþúsundir manna eru viðstaddir og milljónir horfa á í beinni. Þær gætu jafnvel lent á íþróttaleikvanginum. Eða þá að þær gætu haft samband við SETI.

Sumt geimverutrúarfólk áttar sig á því hversu ófullnægjandi sönnunargögnin eru og kemur því með ólíklegar útskýringar á því hvers vegna sönnungargögnin eru svona léleg. Annað hvort er alþjóðlegt samsæri í gangi um að fela tilvist þeirra eða þá að þær vilja ekki sýna sig (svona eins og guð kristinna manna).

Í staðinn fyrir að reyna að útskýra skort á sönnunargögnum með enn fleiri ólíklegum tilgátum ætti geimverutrúarfólkið að sætta sig við að geimverur eru líklega ekki að heimsækja okkur. Því miður.


Mynd fengin hjá Jonathan McPherskesen

[1] Með orðinu “geimverutrú” og “geimverutrúarfólk” er ég einfaldlega að tala um fólk sem heldur að geimverur séu að heimsækja jörðina.

Hjalti Rúnar Ómarsson 13.06.2013
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Emil Friðriksson (meðlimur í Vantrú) - 13/06/13 13:13 #

Ég verð að segja það að eftir að hafa horft á þetta myndband þá er ég sannfærður* um að þetta séu...

... fuglar.

* Lesist sem "...finnst hafið yfir skynsamlegan efa að það sé hægt að halda...".


Helgi Bjarnason - 14/06/13 23:08 #

Það er beinlínis vægast sagt heimskulegt að halda því fram að ekki geti verið að lífverur líkar okkur annars staðar í víðáttum geimsins. Við erum sjálf besta sönnun þess að geimverur gætu hugsanlega og reyndar mjög líklega séu til


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 15/06/13 05:53 #

Algjörlega. En hvað bendir í alvöru til að þær hafi komið hingað?


Helgi Bjarnason - 15/06/13 13:15 #

Ég spyr á móti. Hvað bendir til þess að þær hafi ekki gert það? Til eru ótal staðir á jörðinni sem eru fjarri mannabygðum og því getum við ekki haldið því fram að þær hafi ekki komið. Við getum ekki heldur haldið því fram að þær hafi komið.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 15/06/13 17:15 #

Ef við ættum að gera ráð fyrir því að allt hafi gerst sem við höfum ekki gögn um að ekki hafi gerst þá væri heimsmynd okkar vægast sagt brengluð. Við verðum að ganga útfrá þeirri forsendu að gögn þurfi til að styðja tilvist atburða til að hægt sé að gera ráð fyrir þeim.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 15/06/13 17:22 #

Síðan er rétt að benda á að það er hreinlega ógjörningur að álykta með neinni vissu um tilvist annarra lífstofna í alheiminum miðað við þau gögn sem við höfum.


Helgi Bjarnason - 15/06/13 18:13 #

Það er alveg jafn víðáttuvitlaust að hafna tilvist annara lífsstofna.


Helgi Bjarnason - 15/06/13 18:18 #

Gögn þurfa heldur ekki endilega eitthvað sem staðfestir eitthvað. Til er málverk af Mónu Lísu en það segir ekkert til um hvort hún hafi verið til. Þá höfum við eitthvað sem heitir Kristintrú. Það er heil deild uppi í háskóla sem kennir fræðin þó tilvist guðs hafi ekki verið sönnuð.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 15/06/13 18:47 #

Það sem ég er að reyna að segja er að við höfum engar forsendur til að meta hvort að það sé líklegt, ólíklegt, nauðsynlegt eða ómögulegt að til séu aðrir lífstofnar. Því er engin af þessum afstöðum neitt heimskulegri en önnur.

En við hjá Vantrú erum ekkert að tjá okkur um þá spurningu heldur um vangaveltur um hvort að verur af slíkum stofnum komi reglulega til Jarðarinnar. Það eru fullyrðingar um slíkar heimsóknir sem við efumst um.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 15/06/13 18:53 #

Enda tókst þú væntanlega eftir því að titill greinarinnar er "Eru geimverur að heimsækja jörðina?" en ekki "Eru geimverur til?".


Ingi Rúnar - 15/06/13 20:05 #

Veit að tetta atriði er ekki til umræðu, en mér finnst adð Vantrú ætti adð gefa út bók medð gullkornum úr kommentakerfinu, mõrg hver alveg æðisleg skemmtun. Eflaust er til efni í heila ritrõð.


Helgi Bjarnason - 15/06/13 20:35 #

Ef geimverur eru hugsanlega til. Hvers vegna útilokum við þá og drögum í efa hugsanlegar heimsóknir þeirra til jarðar? Maðurinn fór jú til tunglsins og nú tæki á hans vegum til Mars ekki satt?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 16/06/13 09:46 #

Ef geimverur eru hugsanlega til. Hvers vegna útilokum við þá og drögum í efa hugsanlegar heimsóknir þeirra til jarðar?

Helgi, ég er ekki að "útiloka" það, það er bara ekkert sem bendir til þess að sú sé raunin.


Helgi Bjarnason - 16/06/13 14:22 #

Hvað felst þá í þessari setningu þinni Hjalti?

"Af því tilefni ætla ég að útskýra í stuttu máli hvers vegna við ættum ekki að trúa því að geimverur séu að heimsækja jörðina."


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 16/06/13 14:34 #

Helgi, þarna er ég að tala um svona 'venjulega geimverutrú', þeas fólk sem trúir að geimverur hafi ekki bara heimsótt Síberíu einu sinni á 8. öld (svo ég komi með dæmi), heldur að þær séu reglulega að heimsækja jörðina (og nást á myndum og eru jafnvel að hitta fólk).


Helgi Bjarnason - 16/06/13 17:13 #

Við höfum engar sérstakar sannanir fyrir því að þær geri það ekki. Við höfum heldur engar sérstakar sannanir að þær geri það. Ég skil þess vegna ekki alveg í hvaða tilgangi þessi grein er skrifuð. Við stöndum alltaf á sama stað í umræðunni.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 16/06/13 18:27 #

Helgi, sumt fólk trúir því að geimverur séu að heimsækja jörðina í nútímanum og að það náist myndir af þeim geimskipum og að geimverurnar séu jafnvel að nema fólk á brott. Þessi grein er skrifuð til að hrekja þá trú.

Þú ert að stinga upp á það leynilegum heimsóknum að þær myndu ekki skilja eftir sig nein ummerki. En ef það er ekkert sem bendir til þess að geimverur séu að heimsækja jörðina, þá hlýtur rökrétta niðurstaðan að vera sú að trúa því ekki, enda trúum við ekki því sem er mögulegt heldur því sem er líklegt.


Helgi Bjarnason - 16/06/13 18:37 #

Má fólk bara ekki trúa því sem það vill trúa þegar það kemur að þessu? Það skaðar engann er það?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 16/06/13 22:18 #

Það getur vel verið skaðlegt að trúa því sem ekki er rétt. En við erum hér held ég flest um að fólki eigi að vera frjálst að trúa sjálfum sér til skaða.

En þykir þér ekki bera vott um meiri mannvirðingu að gagnrýna þær skoðanir náunga þíns sem þér þykir rangar frekar en að lýta á það sem svo að hann sé ekki þess umkominn að höndla slíka gagnrýni og honum nægi að hafa rangt fyrir sér.


Helgi Bjarnason - 16/06/13 23:14 #

Mér þætti það meiri mannvirðing að virða hans skoðun á meðan hann virði þá mína skoðun. Hvort sem mér finnist þær rangar eða ekki. Ég held við ættum að leyfa fólki að hafa þær skoðanir á málefnum sem það vill svo lengi sem þær breiðast ekki út sem hreinn áróður og eru öðrum til ama eða skaða. En svo er það spurningin, Hver telur sig nógu vitran til þess að ákveða hvað er skaðlegt og hvað ekki? Og hver ætti að vera handhafi þess valds sem ákvarðar það?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 17/06/13 10:46 #

Má fólk bara ekki trúa því sem það vill trúa þegar það kemur að þessu? Það skaðar engann er það?

Hvað áttu við með því að fólk "má trúa því sem það vill"? Það er enginn að fara að banna fólki að trúa rugli.


Helgi Bjarnason - 17/06/13 14:31 #

Hvar sagði ég orðið "Banna"?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 17/06/13 14:38 #

Helgi, þú spurðir hvort fólkið "mætti bara ekki trúa því sem það vill trúa". Ef einhver "má" eitthvað, þá er enginn að banna honum það. Þannig skildi ég þig amk. Eins og þú sérð spurði ég þig líka beint út í það hvað þú áttir við.

Þegar þú segir að fólki "megi" trúa því sem það vill trúa, varstu þá kannski að segja að við ættum (mættum?) ekki að gagnrýna fullyrðingar þess?


Helgi Bjarnason - 17/06/13 14:47 #

Þá er ég að tala um að leyfa fólki að hafa þá skoðun sem það kýs án þess að vera að setja út á þá skoðun. Hver hefur sína skoðun út af fyrir sig. Við getum svo sem sagt við viðkomandi að okkur finnist sú skoðun vera röng en þurfum ekkert að predika yfir viðkomandi hvers vegna hann ætti ekki að trúa því. Hann getur væntanlega fundið út úr því sjálfur ef hann kýs svo.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 17/06/13 15:47 #

Helgi, þar sem við erum löngu hættir að ræða um geimverur, þá skulum við halda þessu áfram á spjallinu.

Þar geturðu séð svar frá mér.


Hafsteinn - 19/06/13 23:58 #

það eru engin rök fyrir því að líf sé ekki til sem hefur ekki heimsótt Jörðina reglulega.. Trilljón trilljónir stjarna, trilljón trilljón trilljónir pláneta, trilljón plánetur með lífi. 100 billjónir pláneta með vitsmunalífi. og kannski 0,5 % með hæfni til að komast milli pláneta og galaxy-a. Það gerir 100% öruggt að það hefur vitsmunalíf komið hingað og kemur á hverjum fokking degi..


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 20/06/13 03:31 #

Hvaðan telur þú þig hafa þessar tölur Hafsteinn? Mér skylst að okkar bestu sérfræðingar í vitsmunalífi utan jarðarinnar hjá SETI séu að notast við mjög frábrugðnar forsendur í sinni leit.


Hafsteinn - 20/06/13 11:38 #

Það eru ekki nema milljón billjónir stjarna í Milkyway einni og er Milkyway ekki einusinni með þeim stærri að talið er, og það eykst á hverjum degi fjöldi hugsanlegra lífvænlegra pláneta. Talið er að í Galaxy cluster séu trilljón trilljóna Galaxy-a.. Nema að þú teljir Universið vera Jörðina eina og að Sólin sé ljósapera.. Þessar tölur eru alltaf að breytast enda alltaf verið að finna nýjar og nýjar plánetur utan okkar sólkerfis. Það er ignorance að halda því fram að það séu ekki ET sem koma hingað til okkar með einum eða öðrum hætti. En auðvitað eru allar tölur theory's enda ekki hægt að telja svona mikið. En tölfræðin segir þetta samt í dag..


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 20/06/13 13:54 #

Okkar vetrarbraut hefur allt að 400 milljarða stjarna ekki milljón milljarða. Hún hefur auk þess að minnsta kosti eina plánetu á stjörnu líklega meira. En við verðum náttúrulega að hafa í huga að stærstur hluti þessara plánetna er tugþúsundir ljósára frá okkur. Geimverur sem ætla sér að heimsækja jörðina daglega þyrftu að búa yfir tækni sem gerir stóran hluta af eðlisfræði okkar úreltan. En auk þess eru flestar af þessum plánetum ekki ábúanlegar fyrir neinar af þeim lífverum sem við þekkjum.

Ég er ekki að segja að það sé ómögulegt að til séu verur sem geta lifað á plánetum sem við teljum ólífvænlegar. Ég tel það ekki sérlega líklegt.

Ég er ekki að segja að það sé ómögulegt að þær verur geti ferðast hraðar en ljósið með einhverskonar vídda-flakki eða tíma-rúms-beygingum. Ég tel það bara frekar ólíklegt.

Ég er ekki að segja að það sé ómögulegt að slíkar verur hafi heimsótt okkur regluega í gegnum tíðina án þess að af þeim hafi náðst neinar myndir eða myndbönd eða að til um það sé áreiðanlegur og menningarlega óháður vitnisburður. Ég tel það bara mjög ólíklegt.

En kannski er það bara "ignorance" hjá mér.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 20/06/13 14:50 #

Það gerir 100% öruggt að það hefur vitsmunalíf komið hingað og kemur á hverjum fokking degi..

Hafsteinn, tveir punktar:

  1. Til að byrja með ertu að álykta út frá óþekktum hlutum. Þrátt fyrir að fjöldi stjarna í Vetrarbrautinni sé "starnfræðilegur", þá gætu líkurnar á því að líf myndist og endi sem háþróuð siðmenning líka verið "stjarnfræðilega" litlar. Fleiri þættir eru líka óþekktir.

  2. Ef geimverur væru að heimsækja jörðina "á hverjum fokking degi", hvar eru þær?


Hafsteinn - 20/06/13 16:42 #

Hvar fáið þið þessar tölur? Hver var svona duglegur að telja þær? Og ef þær eru að flakka hérna, þá eru þær líklegast með tækni sem lætur þær ekki sjást, enda þá með tækni til að koma þeim yfir langar vegalengdir á svipstundu.. Sjálfur hef ég nokkrumsinnum sé að ég tel vera UFO, hvort það sé héðan eða annarsstaðar veit ég ekkert um. Hinsvegar eru þetta eitthvað sem hvorki ég né nokkur annar hefur getað útskýrt, nema að þetta sé ekki héðan.. Og það er enginn sem hefur getað talið allar stjörnur í okkar vetrarbraut og mun aldrei geta, þess vegna er ég að segja svona há tölu því að það er engin tala rétt.. Og það eru að finnast "sólir" á hverjum degi sem hafa meira en eina plánetu og fullt af plánetum hafa fundist síðustu ár sem virðast vænlegar efnasambandslega til að halda líf. Svo með að það sé ólíklegt að það sé líf annarsstaðar er JÁ ignorance, þar sem að það eru pottþétt til plánetur sem eru mun eldri en okkar og verið með líf mun lengur en okkar og þar af leiðandi mun háþróaðra en við höfum.. Það er rugl að telja að við séum nafli alheimsins, nema að þíð trúið því kannski að það sé til Guð sem skapaði heiminn fyrir 6000 árum og gerði okkur æðri öllum verum í alheiminum... Ekki vera stupid og halda því fram að við séum nafli alheimsins. Við erum ekki neitt í alheiminum nema bara enn ein plánetan sem heldur líf....


Steini - 20/06/13 20:32 #

Hafsteinn, þannig þegar við sjáum eitthvað í himninum sem við vitum ekki hvað er, þá er næsta rökrétta ályktun að þetta séu geimverur?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 20/06/13 22:12 #

Og ef þær eru að flakka hérna, þá eru þær líklegast með tækni sem lætur þær ekki sjást, enda þá með tækni til að koma þeim yfir langar vegalengdir á svipstundu.. Sjálfur hef ég nokkrumsinnum sé að ég tel vera UFO, hvort það sé héðan eða annarsstaðar veit ég ekkert um. Hinsvegar eru þetta eitthvað sem hvorki ég né nokkur annar hefur getað útskýrt, nema að þetta sé ekki héðan..

Hafsteinn, ef þú ætlar að útskýra skort á ljósmyndum á þann veg að þær eru með "tækni sem lætur þær ekki sjást", þá er fólk (þar með talið þú!) augljóslega ekki að sjá geimverur þegar það sér eitthvað sem það veit ekki hvað er upp í himninum.


Tinna G. Gígja (meðlimur í Vantrú) - 21/06/13 01:30 #

Ekki vera stupid og halda því fram að við séum nafli alheimsins. Við erum ekki neitt í alheiminum nema bara enn ein plánetan sem heldur líf....

Einmitt. Þess vegna er nákvæmlega engin ástæða fyrir einhverjar ofurþróaðar verur til að vera alltaf að rjúka hingað til að glenna sig framan í einhverja gaura sem geta ekki einu sinni náð almennilegum myndum af þeim, þó um sé að ræða merkilegustu farartæki sem rofið hafa íslenska lofthelgi.

Þú hefur ekki séð geimverur eða farartæki ættuð utan úr geimnum. Þetta er bara óskhyggja, því eins og annað fólk viltu trúa því að þú sért, ef ekki nafli alheimsins, þá að minnsta kosti oggulítið merkilegri en hinir.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 21/06/13 01:36 #

Hér er 100 milljarðar frá NASA: http://web.archive.org/web/20090412172631/http://mynasa.nasa.gov/worldbook/galaxy_worldbook.html

Annars er ekki vitað fyrir víst hvaða skilyrði eru algjörlega nauðsynleg fyrir myndun lífs. Þau gætu verið fá en þau gætu líka verið nokkuð mörg. Wikipedia er með ágætis lista: http://en.wikipedia.org/wiki/Planetary_habitability


Hafsteinn - 21/06/13 11:04 #

[Athugasemd færð á spjallið. Vertu málefnalegur Hafsteinn. - Hjalti]


Hafsteinn - 21/06/13 12:15 #

Það er ekkert ómálefnalegt að líkja ykkur við Votta, þar sem skoðanir ykkar eru einlykta og þröngsýnar. En talandi um skort á ljósmyndum, þá er það bull. Það eru milljónir til af ljósmyndum og videoum og eflaust stærsti hlutinn af því fake, en það er pottþétt ekki allt fake.. Fullt er til af ljósmyndum frá tímum sem ekki var hægt að falsa ljósmyndir nema með gríðarlegum vandamálum og fullt af fólki og þar með talið appolo geimfarar sem og hermenn og pólitíkusar sem segja fyrir víst að við erum heimsótt af ET og talar þetta fólk af reynslu varðandi slíkt en ekki bara bablandi út í loftið.. Og þegar ég líki ykkur við otta er það af því að það er greinilega verið að hundsa vitnasannanir hjá credible fólki og þið eruð ekki með opinn huga gagnvart því sem er ekki áþreyfanlegt að ykkar mati.. s.s. ekki hægt að rökræða málefnalega við ykkur þar sem það er ekki hægt að rökræða, eða ræða yfir höfuð við fólk sem getur ekki litið með opnum hug út fyrir kassann.. Tilgangslaust.. Ég er nokkuð viss um að það séu alltaf færri og færri sem hafa áhuga á þessari síðu og það virðist sem að það séu bara þið vantrúa meðlimir sem commentið ykkar á milli enda trúverðugleiki ykkar enginn.. lifið vel.. =)


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/06/13 12:28 #

En talandi um skort á ljósmyndum, þá er það bull. Það eru milljónir til af ljósmyndum og videoum og eflaust stærsti hlutinn af því fake, en það er pottþétt ekki allt fake.

Hafsteinn, það er til helling af ljósmyndum og myndböndum af alls konar hlutum sem fólk segir að séu geimskip, en oft er þetta eitthvað annað: fuglar, blys og fleira, oft er þetta eitthvað sem við getum ekki sagt með vissu hvað er, en það er engin ástæða til að segja að þetta sé eitthvað algerlega óþekkt ("geimskip frá öðrum hnetti") frekar en eitthvað þekkt (t.d. fuglar).

Sýna einhverjar af þessum milljónum ljósmynda og myndbanda skíra mynd af geimskipi? Ég held að þú vitir að svarið sé 'nei'.

Fullt er til af ljósmyndum frá tímum sem ekki var hægt að falsa ljósmyndir nema með gríðarlegum vandamálum og fullt af fólki og þar með talið appolo geimfarar sem og hermenn og pólitíkusar sem segja fyrir víst að við erum heimsótt af ET og talar þetta fólk af reynslu varðandi slíkt en ekki bara bablandi út í loftið.

Hvar eru þessar "ljósmyndir frá tímum sem ekki var hægt að falsa"?

En þú verður að ákveða þig, annað hvort er helling af fólki að sjá (og taka myndir) af geimskipum eða "eru [geimverurnar] líklegast með tækni sem lætur þær ekki sjást". Þær geta ekki bæði verið ósýnilegar og verið séðar af "fullt af fólki" sem tekur "milljónir" ljósmynda og myndbanda.


Hafsteinn - 21/06/13 12:55 #

Ef að ET koma hingað, þá höfum við ekki hugmynd um af hverju eða neitt slíkt. kannski er það bara option að vera "ósýnilegir" kannski skiptir ekki máli stundum hvort þær eru það eða ekki. Það að þið reynið ekki einu sinni að googla um þessa hluti sjálf segir bara það að þið viljið ekki einu sinni vita hvort þetta sé real eða ekki, og því umræðan sjálfdauð..


Hafsteinn - 21/06/13 13:03 #

http://www.youtube.com/watch?v=hObI12DD3-Y Þetta video er 61 árs og varð til þess að Project Blue Book var startað. http://en.wikipedia.org/wiki/1952Washington,D.C.UFOincident http://en.wikipedia.org/wiki/ProjectBlueBook.. Það er auðvelt að skoða þessa hluti og þetta eru engin leyndarmál lengur, heldur unexplained..


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/06/13 14:38 #

kannski er það bara option að vera "ósýnilegir" kannski skiptir ekki máli stundum hvort þær eru það eða ekki.

Þannig að við náum ekki góðum myndum eða myndböndum af þeim af því að þeir eru ósýnilegir. En þegar helling af fólki sér þá og tekur "milljónir" af lélegum myndum þá er það af því að "cloaking device"-ið þeirra er ekki í gangi.

Það að þið reynið ekki einu sinni að googla um þessa hluti sjálf segir bara það að þið viljið ekki einu sinni vita hvort þetta sé real eða ekki, og því umræðan sjálfdauð..

Viljum ekki einu sinni vita hvort þetta sé til eða ekki? Reyndu nú að vera svolítið málefnalegur og hættu að gera mér upp algera vanþekkingu.

http://www.youtube.com/watch?v=hObI12DD3-Y Þetta video er 61 árs og varð til þess að Project Blue Book var startað.

Ertu sem að segja mér að myndbandið af ljósunum á bak við bandaríska þinghúsið sé 61 árs gamalt?


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 21/06/13 17:01 #

Fullt er til af ljósmyndum frá tímum sem ekki var hægt að falsa ljósmyndir nema með gríðarlegum vandamálum

Ha? Ertu að tala þá um daguerreotype plötur? Það er tiltölulega einfalt að falsa filmumyndir og það hefur verið gert nánast frá upphafi filmuljósmyndunar.

Voðalega finnst mér líka ótrúverðugt að ógurlegur fjöldi geimvera sem býr yfir gríðarlegri tækniþekkingu skuli nota hana til þess að ferðast um vegalengdir sem fæstir geta einu sinni byrjað að ná utan um í hausnum á sér til þess eins að fela sig og fylgjast með í fleiri hundruð ár án þess að láta vita af sér. Þetta er eiginlega alveg fáránleg tilgáta.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/06/13 17:07 #

Nema þetta séu svokallaðar Spaghett-geimverur.


Hafsteinn - 21/06/13 17:39 #

Þett lýsir ykkur vel og já þetta video er 61 árs gamalt... http://en.wikipedia.org/wiki/1952Washington,D.C.UFOincident


Hafsteinn - 21/06/13 17:41 #

Þetta atvik sem stóð reyndar yfir í nokkra daga og var séð af heilum helling af fólki varð kveikjan af því að project bluebeam var sett á legg.. Eða náðuð þið þessu kannski ekki í fyrra skiptið?


Hafsteinn - 21/06/13 17:48 #

Svo má segja að það hvernig þið talið um "geimverutrúar"fólk,og komið fram við það er ærumeiðandi, rétt eins og það að ég kalla ykkur ignorant sem mér finnst þið vera. Er það kannski bara þið sem megið vera með ærumeiðingar en enginn annar? Held að þessi vantrúarsíða sé löngu búin að skíta uppá bak.. ;)


Hafsteinn - 21/06/13 17:52 #

Hafiði athugað hvað trúverðugt fólk hefur tjáð sig um þessi mál? eða þurfið þið þess ekki því þið vitið allt um tilvist okkar í alheimnum.. sem dæmi hefur fyrrv.varnamálaráðherra Kanada. mjög sterkar skoðanir og vitneskju um þetta UFO phenomena.. Það þýðir ekkert að segja bara fokk jú og stinga hausnum í sandinn. Ef þið eruð ekki manneskjur í það að skoða hlutina í díteil, þá hafiði ekki rétt á því að tjá ykkur um þessi málefni..


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/06/13 19:58 #

Ef þið eruð ekki manneskjur í það að skoða hlutina í díteil, þá hafiði ekki rétt á því að tjá ykkur um þessi málefni..

Þett lýsir ykkur vel og já þetta video er 61 árs gamalt.

Nei, myndbandið af fljúgandi ljósunum sem þú vísaðir á er ekki frá 1952, þetta er endurgerð (s.s. ekki alvöru!) úr heimildarmyndinni "UFO's: the secret evidence" frá 2005! Talandi um að "skoða hlutina í díteil"

Hefurðu einhverjar almennilegar ljósmyndir/myndbönd af einhverju sem er klárlega geimskip sem er ekki búið til fyrir sjónvarpsþætti eða kvikmyndir? Trailerar úr Superman flokkast ekki sem sönnunargögn!

Hafiði athugað hvað trúverðugt fólk hefur tjáð sig um þessi mál? eða þurfið þið þess ekki því þið vitið allt um tilvist okkar í alheimnum.. sem dæmi hefur fyrrv.varnamálaráðherra Kanada. mjög sterkar skoðanir og vitneskju um þetta UFO phenomena..

Hefur fyrrverandi varnarmálaráðherra Kanada einhverjar myndir eða einhver almennileg sönnunargögn, eða hefur hann bara "mjög sterkar skoðanir"?

Svo má segja að það hvernig þið talið um "geimverutrúar"fólk,og komið fram við það er ærumeiðandi,...

Hefurðu eitthvað sérstakt í huga?


Hafsteinn - 21/06/13 21:22 #

Ég sá þetta video í heimildarmynd frá 1970ogeitthvað, svo það sem þú segir er bull.. Og ég veit ekkert hvort að Þessi í Kanada sé með eitthvað haldbært, en það eru til fullt af skýrslum og drasli sem hefur komið frá Varnamálaráðuneytum um allan heim hvað er varðar UFO og þar með talið video.. ég á ekki að þurfa að leggja neitt fram þar sem að þið skoðið ekki neitt greinilega og það að flokka áhugamál um UFO sem trú er ærumeiðing fyrir áhugamenn um þessi fyrirbæri..


Hafsteinn - 21/06/13 21:39 #

http://www.youtube.com/watch?feature=endscreen&v=FGjZHWKT4SY&NR=1


Hafsteinn - 21/06/13 21:42 #

http://www.youtube.com/watch?v=cyqAQJiw05s


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 22/06/13 01:07 #

Ég sá þetta video í heimildarmynd frá 1970ogeitthvað, svo það sem þú segir er bull..

Nei, þig misminnir. Ef þú skoðar umfjallanir um þetta "atvik" (t.d. Wikipedia-greinina sem þú vísar á), þá er aldrei minnst á neitt myndband. Sem væri auðvitað mjög undarlegt ef þetta myndband væri raunverulegt!

Hérna er atriðið úr heimildamyndinni frá 2005. Hérna er annað atriði þar sem þeir endurskapa svona tilvik.

Og ég veit ekkert hvort að Þessi í Kanada sé með eitthvað haldbært, en það eru til fullt af skýrslum og drasli sem hefur komið frá Varnamálaráðuneytum um allan heim hvað er varðar UFO og þar með talið video.

En Hafsteinn, þessi myndbönd eru alltaf einhver ljós eða eitthvað óljóst. Það nást aldrei góð myndbönd af þessum meintu geimskipum.

ég á ekki að þurfa að leggja neitt fram þar sem að þið skoðið ekki neitt greinilega

Ég skoðaði þetta myndband sem þú komst með: Það er endurgerð úr heimildarmynd frá 2005. :S

og það að flokka áhugamál um UFO sem trú er ærumeiðing fyrir áhugamenn um þessi fyrirbæri..

Hafsteinn, í neðanmálsgreininni útskýri ég hvað á á við með "geimverutrú": "Með orðinu “geimverutrú” og “geimverutrúarfólk” er ég einfaldlega að tala um fólk sem heldur að geimverur séu að heimsækja jörðina." Það var ekki ætlun mín að segja að þetta séu trúarbrögð eins og t.d. kristni, það er bara erfitt í íslenski að búa til orð eins og "geimveruskoðun" eða eitthvað álíka.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 22/06/13 02:09 #

Hjalti hefur lagt sig fram um að skoða þessi mál undanfarið og spottaði t.d. að þetta myndband er út úr kú. Ég bendi á að 'falsanir' á myndum eru engin nýmæli (sama hvort um er að ræða við myndatökuna sjálfa eða við eftirvinnslu). Og samt fáum við yfir okkur þessi leiðindi.

Getur verið, Hafsteinn, að vandamálið sé ekki það að við séum ekki tilbúnir að rýna í hlutina heldur að við séum bara ekki sammála þér?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 26/06/13 16:10 #

Skemmtilegt að sjá rök Þórhalls Heimissonar, "þú getur ekki sannað að guð sé ekki til" í þessari umræðu, "Við höfum engar sérstakar sannanir fyrir því að þær geri það ekki"...

Þetta eru rök þeirra sem vilja trúa einhverju sem ekki er hægt að sýna fram á.

Ég er ágætlega sáttur við að vita þetta ekki þar til annað kemur í ljós - gildir bæði um guði og geimverur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.