Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hótun í póstkassa

Mynd

Í síðustu viku fengu margir Íslendingar óvæntan glaðning í póstkassana sína. Nafnlausir kristnir trúboðar höfðu dreift teiknimyndasögunni Þetta var líf þitt!. Boðskapurinn er einfaldur: Ef þú elskar ekki Jesú muntu brenna að eilífu.

Teiknimyndir guðs

Höfundur teiknimyndasögunnar er hinn þekkti bandaríski bókstafstrúarmaður og teiknari Jack T. Chick. Á heimasíðu hans kemur fram að meira en 750 milljónum teiknimynda eftir hann hefur verið dreift.

Fyrir utan allar þær brjáluðu hugmyndir sem kristnir bókstafstrúarmenn aðhyllast almennt, svo sem afneitun á þróunarkenningunni og trú á óskeikulleika biblíunnar, þá aðhyllist hann nokkrar enn undarlegri skoðanir. Hann telur til dæmis að djöfullinn hafi notað kaþólsku kirkjuna til að stofna múhameðstrú, nasisma og kommúnisma og að allar enskar biblíuþýðingar, fyrir utan eina 17. aldar þýðingu, séu tilraunir kaþólsku kirkjunnar til að berjast á móti ‘alvöru kristni’.

Teikimyndasögurnar birta svo brjálaða heimsmynd að þær eru margar hverjar afskaplega fyndnar. Tvær góðar eru ‘Dark Dungeons’, sem varar við hlutverkaspilum, og ‘The Last Generation’, sem segir frá hvernig heimurinn mun verða innan skamms: kaþólska kirkjan og Sameinuðu Þjóðirnar munu taka allt ‘sannkristið’ fólk af lífi.

”Turn or burn”

Sú teiknimyndasaga sem dreift var á Íslandi í síðustu viku er ein þekktasta sagan hans, This was your life!. Í sögunni er sagt frá tveimur mönnum sem deyja, annar gerðist kristinn, hinn ekki. Báðir stóðu frammi fyrir guði þegar þeir dóu, hinn kristni fékk inngöngu í himnaríki, en engill varpaði hinum ókristna í eldshaf.

Boðskapur sögunnar er í stuttu máli sá að ef þú trúir ekki á Jesú, þá mun engill guðs henda þér í eldshaf þegar þú deyrð, af því að þú hegðaðir þér ekki í samræmi við vilja guðs meðan þú lifðir. Þetta er eiginlega bara hótun: Ef þú hegðar þér ekki eins og guðinn okkar vill, þá mun hann beita þig ofbeldi, og það ansi miklu.

Venjuleg kristni

Þessi óhugnalegi boðskapur er samt ekki bara eitthvað sem rugludallar á borð við Jack Chick aðhyllast. Allar stærstu kirkjudeildir heimsins hóta fólki svona, boðskapurinn kemst bara svona vel til skila í þessari teiknimyndasögu.

Fyrr í þessari viku var til dæmis í fréttum að kaþólskur prestur vildi benda fólki á að þrátt fyrir að skilja hefði mátt ummæli páfans á aðra leið, þá myndu trúleysingjar enda í helvíti, enda er það klárlega boðað í trúfræðsluriti kirkjunnar. Þjóðkirkjan trúir því líka að Jesús muni dæma “guðlausa” til “eilífra kvala”.

Ef þér þótti þessi teiknimyndasaga vera óhugnanleg og boðskapurinn ljótur, þá er það einfaldlega skoðun þín á kristni.


Sjá einnig: Smásaga af góðum heiðingja í helvíti og Sturluð kristniboðun

Mynd fengin hjá joemud

Ritstjórn 29.05.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Siggi - 29/05/13 22:34 #

Það endar enginn í helvíti. Mannatilbúningur, upphaflega frá Kaþólsku kirkjunni en ekki hinum almenna kaþólikka. Sá sem nennir að lesa og rannsaka biblíuna sjálfur kemst að því. Aðilar með þennan boðskap og ýmsar kirkjudeildir koma óorði á hinn almenna kristna mann og konu sem eru 99% allra kristinna og fara frekar hljótt með sína trú.Þessi óféti sem dreifa slíkum og öðrum álíka viðbjóði dæma sjálfa sig úr leik. Kristur varar margoft við svona liði. Menn verða að lesa Bibíuna í heild en ekki einhverja valda kafla og dæma svo. Verður ekki skilin fyrr. Félagar í Vantrú eiga heiður skilinn fyrir að vara fólk við og hafa komið mörgum til þess að sannfærast um hve sönn kristni er hverjum manni og konu mikilvæg.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 30/05/13 09:35 #

Helvíti er vissulega mannatilbúningur. En það sama má segja um þjóðsagnasafnið í heild.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/05/13 15:02 #

"Þar verður grátur og gnístran tanna." - Jesús Kr. Jósepsson


Valgeir - 30/05/13 15:09 #

Birgir. Lestu:Lúk 12.49 :-). Ekki slíta hlutina úr samhengi.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 30/05/13 15:44 #

Siggi (Valgeir), vinsamlega haltu þig við sama nafnið. Það er ruglandi ef þú ert að breyta um nafn.

En eins og ég sagði á öðrum stað við þig Siggi, þá þarftu að koma með meira en bara vísun á Lk 12:49. Jesús talar líka um að englar muni henda fólki í eldsofn á dómsdegi (í Mt 13).


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 30/05/13 17:08 #

"Ég er kominn að varpa eldi á jörðu. Hversu vildi ég, að hann væri þegar kveiktur!" Lúk 12:49

Ég sé ekki alveg að þetta samhengi breyti neinu hér umþ

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.