Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Festingin

Mynd af frægri hvelfingu

Á ritunartíma flestra bóka Biblíunnar héldu þeir sem stýrðu pennanum að himininn (þ.e. rakía á hebresku) væri gerður úr föstu efni, og væri ofan á flatri jörðinni, eins og skál á hvolfi sem huldi jörðina eins og stór hvelfing, sem haldið var uppi með stoðum (Job 26:11 nefnir t.d. stoðir himins). Til eru heimildir um vangaveltur gyðinga um það úr hvaða efni himna-festingin væri nákvæmlega gerð, og voru þá einkum þrjú efni sem menn nefndu sem möguleg byggingarefni himinsins: kopar, járn eða leir. Hin náskylda sögn „raka" er notuð í 2. Mósebók 39:3 um það að berja gull í þunnar plötur, og gefur til kynna að rakía merki eitthvað sem hefur verið mótað og barið til. Ofan á festingunni var mikið vatn. Sé Biblían lesin í þessu ljósi má glögglega sjá að þennan skilning endurspeglast:

Þá gerði Guð festinguna. Skildi hún milli vatnanna sem voru undir festingunni og vatnanna sem voru yfir festingunni. Og það varð svo. Og Guð nefndi festinguna himin. (1. Mós 1:6-7)

Í 1. Mós 1:14-17 má sjá hvernig Guð festir stjörnurnar tunglið og sólina á festinguna (rakía), og í 20 versi sést að fuglarnir fljúga undir himninum. Það ætti að gefa auga leið. Þeir geta auðvitað ekki flogið í himninum sjálfum, þar sem hann er úr föstu efni.

Þá sagði Guð: „Vötnin verði kvik af lífverum og fuglar fljúgi yfir jörðinni undir hvelfingu himins.

Í 1. Mós 7:11 sést svo hvernig guð opnaði flóðgáttir himinsins, til að vatnið sem var ofan á himninum gæti fallið niður á jörðina í Nóaflóðinu. Hægt er að sjá fyrir sér að hann opni flóðgáttirnar líkt og glugga. Orðrétt segir: "Á sautjánda degi annars mánaðar á sex hundraðasta aldursári Nóa, þann dag brutust fram allar uppsprettur hins mikla djúps og flóðgáttir himinsins opnuðust." Við þurfum svo að muna að samkvæmt 1. Mós 1:7 var mikið vatn ofan á festingunni. Að auki segir Sálmur 148:4: „Lofið hann, himnar himnanna og vötnin, sem eru yfir himninum." Í 1. Mós 8:2 er svo flógáttunum lokað, og þá hættir að rigna og Nóaflóðinu líkur.

Í Jobsbók 37:18 stendur að himininn sé fastur eins og steyptur spegill og í Amos 9:2 segir: „þótt þeir stígi upp til himins, þá skal ég steypa þeim ofan þaðan." Hér kemur fram sú hugsun að himininn sé ofan á jörðinni - og hugsanlega geti menn komist þangað upp - það var reyndar trú fólks um allan heim að menn gætu klifrað uppá himnahveflinguna. Menn geta séð vers í Biblíunni nýju ljósi hafi menn þessa heimsmynd í huga, eins og Orðskvið 8:28 þar sem Guð setur hvelfinguna yfir hafdjúpið og Jesaja 40:22 þar sem segir að Guð sitji "hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í."

Einnig kemur fram að Guð er mjög fær grjótkastari og getur kastað grjóti frá íverustað sínum uppi á himnum og alla leið til Aseka (sem ég veit ekkert hvar er að vísu, en líklega langt í burtu). Hann myndi eflaust standa sig vel í kúluvarpi. Jósúa 10:11 segir:

Á flóttanum undan Ísrael, er þeir voru á stígnum niður frá Bet Hóron, kastaði Drottinn sjálfur stórum steinum á þá af himni alla leiðina til Aseka og varð það þeirra bani.


Mynd fengin hjá majorjameshannah

Sindri G. 19.03.2013
Flokkað undir: ( Biblían , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 19/03/13 11:07 #

Þetta er áhugaverð samantekt en ég ætla að leyfa mér að gera smá athugasemd.

Þótt vissulega virðist raqiya' merkja eitthvað sem hefur verið flatt út, þá er a.m.k. ein önnur rót líka notuð yfir himininn í hebresku: shameh/shamayim, og hún virðist ekki gefa til kynna áþreifanlega hvelfingu, heldur eitthvað nær okkar skilningi.

Þetta er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi, nema fyrir það að í dæmunum í Jósúa og Amos (og fleirum?) er þessi rót notuð, en ekki sú sem þú ert að fjalla um.

Ég held að það þyrfti sumsé að skoða fleiri hebresk orð yfir himininn til að fá nákvæma mynd af því sem höfundar biblíunnar höfðu í huga (þótt það sé kannski of viðamikið fyrir þennan vettvang...)

Takk fyrir mig í bili.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 19/03/13 11:49 #

Sæll Eiríkur

Takk fyrir athugasemdina. Það er rétt að í Jósúa og Amos er orðið rakía ekki notað, heldur orð með rótinn shameh. Ég var að hugsa um að vekja sérstaka athygli á því varðandi Amos (því ég var búinn að athuga hvaða orð var notuð þar), en taldi að greinin gæti orðið of þvæld, en það er vissulega galli á greininni. Mér sýnist að merking orðanna hafi að einhverju leyti runnið saman en þar sem þetta er ekki fræðirit um hebresku biblíuna þá fannst mér ekki að hér væri staður og stund til að fara nánar út í það, eða útskýra. Versið úr Jósúa 10:11 var sett inn í lokin til gamans, þar sem mér finnst það sérslega skemmtilegt/spaugilegt. Ég athugaði ekki hvaða orð var notað þar, en ég hafði sterkan grun um að það væri shamayim (sem er líka notað í 1. mós í bland við rakía). Tilgangur með Jósúa 10:11 var aðallega að benda á hversu Guð er öflugur kastari. Engu að síður er meginatriði greinarinnar rétt, þ.e. menn héldu að himinn væri úr föstu efni - og fyrir himnafestinguna var orðið rakía notað. Þetta er allt mjög vel rakið í skemmtilegum greinum hér: http://faculty.gordon.edu/hu/bi/Ted_Hildebrandt/OTeSources/01-Genesis/Text/Articles-Books/Seely-Firmament-WTJ.pdf

og hér http://faculty.gordon.edu/hu/bi/Ted_Hildebrandt/OTeSources/01-Genesis/Text/Articles-Books/Seely_EarthSeas_WTJ.pdf


Sindri Geir - 19/03/13 14:39 #

Þetta var ekki slæm lesning þó að lokaorðin séu spes og ég skilji bara ekki alveg hvað þessi pistill á að segja mér.

Hvað varðar himinn í GT þykir mér merkielgra að orðið shamayim sem yfirleitt er notað um himininn í textum GT sé fleirtöluorð líkt og elohim / guð. Shamayim - himnarnir. Að orðið sé í fleirtölu vísar til tvenns, annarsvegar þeirrar fornu hugmyndar að himnarnir séu margir en hebreskufræðingar hafa frekar hallast að því "im" endingin sé ríkari en svo að vísa aðeins til fjölda. Þá vísi endingin einnig til mikilfengleika eða fjarlægðar þess sem við er átt, himininn er hvorutveggja fjarlægur og mikilfenglegur því hefur hann fleirtöluendingu. Þetta skýrir líka afhverju orðið elohim sem stendur fyrir Guð er með fleirtöluendingu, tungumálið er ríkara en svo að "im" merki aðeins fleirtala.

Annars verður kenndur hebresku kúrs uppí HÍ næsta haust, ég mæli með honum fyrir þá sem vilja velta fyrir sér margbreytileika gamla testamentisins og þýðingarmöguleikum.


Sindri G - 19/03/13 14:50 #

"þó að lokaorðin séu spes og ég skilji bara ekki alveg hvað þessi pistill á að segja mér"

Lokaorðin eru fyrst og fremst til gamans. Og Jósúa 10:11 undirstirkar einnig forneskjulegar hugmyndir höfunda hebresku biblíunnar sem ég vildi koma til skila. (Ég kýs að tala um hebresku biblíuna því mér finnst nafnið "gamla" testamennti lýsa kristilegum hroka ef svo má segja. Trúarrit gyðinga er "gamla" og "okkar" (þ.e. kristinna) en "nýja".


Sindri G - 19/03/13 14:54 #

"Annars verður kenndur hebresku kúrs uppí HÍ næsta haust, ég mæli með honum fyrir þá sem vilja velta fyrir sér margbreytileika gamla testamentisins og þýðingarmöguleikum."

Það er áhugavert. Ég lærði hebresku í tvö ár sem hobbý og tók kúrs á háskólastigi í hebresku í fjarnámi (sem ég lauk þó ekki). Ég er hins vegar ekki viss um að Vantrúarmönnum sé vært í guðfræðideild miðað við það viðhorf sem við mætum þaðan (þ.e. frá sumum kennurum við deildina), sem ekki er hægt að kalla annað en stæka fordóma.


Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 19/03/13 15:31 #

Hvað varðar fleir- eða tvítöluna á himninum (-ayim), þá er býsna algengt að staðarnöfn séu í fleirtölu, þótt augljóslega sé ekki verið að tala um nema eina staðsetningu (Athenai í grísku, Cumae í latínu).

Svo er Yerushalayim hugsanlega með sömu tvítöluna eða fleirtöluna og shamayim.

Kannski ætti ekki að taka töluna of alvarlega, sérstaklega þar sem eigin- og staðarnöfn eru ekki meðal reglulegustu nafnorðanna.


Sindri G - 19/03/13 15:41 #

Mjög góður punktur Eirikur.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 19/03/13 15:58 #

Það sem mér finnst merkilegt við þetta, er að sú hugmynd að guð búi bókstaflega uppi í himninum er biblíuleg!


Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 19/03/13 16:53 #

@Hjalti: Þú mátt auðvitað ekki taka þessa texta bókstaflega.

Hvenær hefur það nokkurn tíma í sögu trúarbragða verið gefið í skyn að lestur helgirita skipti máli?

Dæmigerður vantrúarmaður, alltaf að láta eins og orð og setningar hafi fyrirsjánlega merkingu. Grow up.


Jóhann - 20/03/13 20:35 #

Ber að skilja þetta sem svo að festingin hafi ekki verið úr leir?


Anonymous - 22/03/13 14:20 #

Sindri G: " Ég er hins vegar ekki viss um að Vantrúarmönnum sé vært í guðfræðideild miðað við það viðhorf sem við mætum þaðan (þ.e. frá sumum kennurum við deildina), sem ekki er hægt að kalla annað en stæka fordóma."

Kæri SindriG, eru það ekki stækir fordómar að gefa sér hluti áður en þeir eru reyndir?


Nóvi - 22/03/13 14:21 #

Ath: Síðasa innlegg átti ekki að vera anonymous, það var frá mér


Sindri G - 22/03/13 15:04 #

Tja... hvað get ég sagt. Dawkins og fylgismenn hans (sem erum apparently við, t.d. þó að ég hafi aldrei náð að klára heila bók eftir þann ágæta mann) erum víst vatn á millu haturhreyfinga, og ýtum undir kynþáttafordóma o.fl. samkvæmt kennslu um okkur í guðfræðideild. Við erum (ranglega) taldir hafa sent flugumann í deildina til að sækja þar námskeið. Erindi sem við sendum til siðanefndar útaf kennslunni, og greinar sem eru skrifaðar á vefritið var talið svæsið einelti af okkur hálfu, o.s.frv. Ég hef annars átt ágæt samskipti í gegnum tölvupóst við kennarann sem mér þykir líklegast að kenni hebreskuna - vegna vangaveltna um hebresku. Fólk héðan hefur líka sótt námskeið í guðfræðideild.


Sindri G - 22/03/13 15:09 #

Sem sagt með commentinu sem þú vísar til var ég að gagnrýna framkomu guðfræðideildar í garð félagsins, en þeir virðast haldnir miklum ranghugmyndum okkur. M.a. hugmyndum um að við séum á móti trúfrelsi, svo hægt sé að nefna dæmi.


jack daniels - 28/03/13 09:31 #

Þið minnið mig dálítið á þennan steríótýpíska rasista sem segjast ekkert hafa á móti svörtum og að svartir eigi alveg að hafa mannréttindi og vera frjálsir,...en þeir séu samt heimskari og latari en hvítir. Eða þennan sem segist ekki vera gyðingahatari en gyðingar séu nú samt svona...og hinssegin. Nú eða þennan sem hefur ekkert á móti hommum, að eigin sögn, en vill bara ekki þeir séu að "sýna sig" og eigi bara að hafa þetta allt fyrir sig. Það mætti kalla ykkur lífsskoðana-ista. Menn sem tala illa um aðra menn út af lífsskoðunum þeirra, í stað þess að leyfa öðru fólki að hafa sína menningu í friði fyrir ykkur.


Sindri G - 28/03/13 12:42 #

Jack, þú verður bara að koma í kaffi og kleinur og kynnast okkur aðeins, og þá sérðu að við erum nú ekki aaalveg svona slæm. :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 28/03/13 12:52 #

Menn sem tala illa um aðra menn út af lífsskoðunum þeirra

Segðu okkur endilega hvar við tölum illa um aðra menn út af lífsskoðunum þeirra.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 28/03/13 12:59 #

[týpískt svar #1]Fú farft ekki annaf enn aþ skoþa ðessa fíðu til að fjá fað!!!111einn![/týpískt svar #1]

[týpískt svar #2]Dæmigert fyrir mann einsog þig Matti að biðja alltaf um dæmi!!1 Jék farf fess eggert, fað sjá addlir sem vilja sjá!einn111[/týpískt svar #2]

[týpískt svar #3]Fað að fú vilt aþ é seiji þér hvar fið hatið miggið sínir aujlósslega hvaf fú errt miggill hatari!!!11einneinn11![/týpískt svar #3]


jackdaniels - 29/03/13 10:16 #

Bara anti semítismi á fullu? Þið látið eins og vangavelltur séu slæmar? Það er nú fyrst og fremst því að þakka að Gyðingdómur er 99% vangavelltur, eins og sést af yfir 99% bókanna sem hann er byggður á (Biblían er undir 1% og hefur engan forgang, það eru bara kristnir menn sem múlbinda sig við hana og hafa ekkert annað að styðjast við, því Evrópumenn skrifuðu ekki nærri jafn mikið og gyðingar í gamla daga), að þeir eiga næstum 40% af nóbelsverðlaunahöfum heimsins frá upphafi. Trú þeirra var jarðvegur fyrir vangavelltur umfram öll önnur trúarbrögð, og af því spratt ímyndunarafl og heimspekileg hugsun. Þaðan komu afrek þeirra í vísindum, listum og sú staðreynd að þeirra fræðimenn skara framm úr og bera höfuð og herðar yfir aðra á næstum hverju einasta sviði fræðigreina sem til eru. Þeir kunnu að vellta fyrir sér hlutunum. Það læra menn ekki af bingóspili.


Sindri G - 29/03/13 12:00 #

Þarna dregur þú nokkuð magnaðar ályktanir. Vangaveltur eru ekki slæmar. Gyðingar voru ekki einir með ranghugmyndir um gerð jarðar og himins á þegar bækur biblíunnar eru skrifaðar, heldur allir menn. (og ekki voru þeir einir um að velta vöngum). Gyðingar hafa vissulega náð afburðarárangri í vísindum. Ég á vini sem eru gyðingar, sem hafa gist hjá mér t.d., og á heimboð til Ísrael. Ég hef lært hebresku sem hobbý, og mér finnst menningararfleið gyðinga áhugaverð - ég hef meira að segja ritað greinar til varnar Ísrael í einhverjum átökum við Hamas - og þú heldur að ég sé gyðingahatari.


jack daniels - 29/03/13 16:52 #

Greinilega ekki! (Út af þessu síðastnefnda) Biðst bara innilega afsökunar. Hélt þetta væri einhvers konar háð. Vangavelltur eru ekkert til að hæðast að og þær vangavelltur sem þú ræðir hér voru aldrei neitt sem mönnum var skipað að trúa. Reyndar er Gyðingdómur það mikið menning að hlutir eins og Reconstructionism Gyðingdómur, sem hefur marga trúleysingja innanborðs og í enn meira mæli Humanistic Judaism, sem hefur mun fleiri trúleysingja innanborðs en ekki, en heldur allar hátíðir gyðinga, stundar jákvæða gyðinlega ritingarýni (án nokkurs haturs, fyrirlitningar eða háðs, heldur til að læra af visku fortíðarinnar án þess að einblína á guðstrú), og vígir rabbía (sem oftast eru trúlausir) og hefur sínar eigin synagógur, sýnir að þetta fyrirbæri, Gyðingdómur, er menning í mikið meira mæli en trú. Trúlaus kona sem ég þekkti gerðist orthodox gyðingur. Þar sem þetta snýst um að gerast hluti af ættbálknum meira en trú, var það að hún tryði ekki engin fyrirstaða og hún sagði mér þetta sé algeng staða. Meira að segja meðal gamaldags heittrúarmanna gyðinga er virðing fyrir menningunni/hollusta við fólkið meira metin en trú, og margir orthodox rabbíar hafa leyft trúlausu fólki að gerast gyðingar í þeirra útgáfu af trúnni, og það er mikið af trúlausu fólki sem hefur valið það. Skrýtið í ljósi þess heilu "kirkjudeildirnar" voru búnar til sérlega fyrir trúleysingja, en sýnir með óafvíkjandi hætti þetta er ekki bara "trúarbragð" og því rétt að það sé rasismi/menningarfóbía að ráðast að því sem slíku. Trúlausir gyðingar eru oft ennþá duglegri við að halda hvíldardaginn, reglurnar og lifa gyðinglegu lífi, af sams konar "ethnískum" ástæðum og margir svartir menn mjög meðvitaðir um eigin arfleið láta það endurspeglast í klæðaburði sínum og hárgreiðslu frekar en líta út eins og nútíma vestrænt fólk, dread locks er eitt dæmi, og fjöldi trúaðra gyðinga lifir á engan hátt eins og gyðingur og trúaðir rabbíar hafa margt ljótt um þá að segja, en flestir ekkert ljótt um hina. Humanistic gyðingar og hinar deildirnar séstaklega fyrir trúlausa hafa þó margar skoðanir sem eru á skjön við klassískan gyðingdóm, en halda því meir í aðrar hefðir og sýna meiri rækt við menningu sína (sem er að stóru leyti af trúarlegum rótum, sem þeir virða og líta sem svo á að sé þess virði að læra og takast á við, af vitrænum og fagurfræðilegum og menningarlegum ástæðum, þó maður trúi ekki á Guð), heldur en trúaðir. Það getur því engin afsakað gyðingahatur með því að það sé "í lagi að gagnrýna trúarbrögð", Gyðingdómur er trúarbrögð að litlu leyti og trúin sem gyðingar eiga sitt að þakka að mjög stóru leyti var svona góður jarðvegur því hún leyfði fjölbreytni skoðana, heimspekilega hugsun, rökræður og, yfirleitt, jafnvel trúleysi, og það átti líka við flest strengstu afbrigði hennar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.