Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Örn Bárður og veika fólkið

Kleppur

Það getur verið erfitt að standa í rökræðum þegar andstæðingar manns leggja fram sterk rök og hika ekki við að segja hlutina hreint út. Fólk bregst misjafnlega við þegar það finnur að rök þess eru metin veigalítil og jafnvel röng. Sumir leggja það á sig að grafast eftir meiri upplýsingum til þess að undirbyggja rök sín betur og leggja fram ný og betri en aðrir reyna að drepa umræðunni á dreif eða flýja af hólmi með misvirðingarverðum aðferðum eða lokaorðum. En svo eru auðvitað til þeir sem einfaldlega játa það að þeir hafi haft rangt fyrir sér og nota tækifærið til þess að læra eitthvað nýtt eða tileinka sér önnur sjónarmið.

En einnig er til fólk sem bregst við með því að gera andstæðingum sínum upp annarlegar hvatir eða jafnvel ýja að því að þeir séu ekki með öllum mjalla. Þetta er alls ekki óalgengt í opinberri umræðu, sem er miður því að þetta er mikill ósiður. Það að fara í manninn en ekki boltann er leikbrot í fótbolta og ætti að teljast það líka í umræðum á milli fólks.

Séra Örn Bárður Jónsson lendir stundum í klípum í rökræðum. Fyrir nokkrum misserum hafði ungur drengur deilt á hann hér á vefriti Vantrúar og á svipuðum tíma hafði hann sett inn athugasemd á vefsíðu Arnar Bárðar. Þar var rætt um það hvort að guð væri algóður og pilturinn setti inn athugasemd sem samanstóð af nöfnun af þekktum sjúkdómum. Þetta eru þekkt rök gegn algóðum guði og það má heita ótrúlegt ef að maður sem hefur lokið fimm ára námi í guðfræði og starfað sem prestur til fjölda ára hefur ekki séð þau áður. Viðbrögð séra Arnar Bárðar urðu alræmd, hann hleypti ummælunum ekki inn á vefsíðu sína en sendi piltinum tölvupóst með leiðbeiningum um hvernig hann kæmist á geðdeild Landspítalans. Þegar honum varð ljóst að þarna hafði hann hlaupið á sig afsakaði hann sig með því að hann hafi ekki gert sér grein fyrir aldri piltsins, að þarna væri ekki á ferðinni „myndugur viðmælandi“ eins og hann orðaði það svo smekklega.

Séra Erni Bárði hefði semsagt fundist þetta eðlilegt svar í rökræðum við lögráða, og þar af leiðandi „myndugan“ einstakling. Það má svo velta fyrir sér hvort að Örn Bárður fermi ómynduga einstaklinga.

Núna um helgina kom svo í ljós að Örn Bárður virðist almennt vera þeirrar skoðunar að þeir sem andmæla honum hljóti að vera eitthvað veikir á geði. Í predikun hans í Neskirkju, sem hét því hógværa nafni „Óttalaus andspænis illsku og hatri“, lét klerkurinn m.a. eftirfarandi orð falla:

Mér ofbýður atgangurinn að kirkjunni núna í bloggheimum ég er að blanda mér stundum í umræðuna þar og það er skelfilegt að finna hatrið og óþverrann sem kemur upp úr fólki. Það er því miður allt of mörgu fólki sem líður illa, því að svona tal það segir manni að það er sjúk sál að baki það eru beyglaðar og dældaðar sálir. Það er fólk sem hefur orðið fyrir einhverjum vonbrigðum og það tekur út reiði sína á kirkjunni og krisntninni og finnur henni allt til foráttu.

Sjúkar, beyglaðar og dældaðar sálir. Það er gildisdómurinn sem Séra Örn Bárður Jónsson kýs að fella yfir þeim sem voga sér að andmæla honum og gagnrýna hann og ríkiskirkjuna. Ef þú ert ósammála Erni Bárði og viðrar skoðanir þínar opinberlega þá hlýtur einfaldlega eitthvað að vera að hrjá þig.

Það er ansi merkilegt að heyra kirkjunnar menn hvað eftir annað kalla eftir „samtali“ við þjóðina um hin og þessi málefni kirkjunnar á sama tíma og þeir fáu prestar sem leggjast svo lágt að taka þátt í því mikla samtali sem á sér stað á netinu líta á andmælendur sína sem hatursfulla og sjúka einstaklinga.

Egill Óskarsson 16.01.2013
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


Pálmi - 16/01/13 10:20 #

Sæll Egill og takk fyrir góða grein. Það má ekki gleyma því að oft eru þarna úti sjúkar, beyglaðar og dældar sálir sem eru að tjá sig, hvort sem er um trúarbrögð, pólitík eða hvað eina. En þetta er þó í takt við það sem þú segir í upphafi greinarinnar, það er alltaf auðveldara að fara í manninn heldur en boltann. Hef oft haft að leiðarljósi orð góðs manns sem sagði " I refuse to have a battle of wits, with an unarmed person" og þannig er þetta oft þegar kemur að því að tala við fólk sem fer eftir þeirra skilgreiningu á guðsorði, sem vissulega er sú eina rétta ;)

Rock on


Jóhann (meðlimur í Vantrú) - 16/01/13 16:42 #

Það er djöfulli erfitt að burðast með vonbrigðin í svona dældaðri og beyglaðri sál.

Sérstaklega vonbrigðin sem maður verður fyrir á hverjum degi þegar maður áttar sig á því að maður er sjálfur að greiða launin hjá þessum herramanni, Erni Bárði.

Þvílík vonbrigði!


Einar - 23/01/13 09:36 #

Þetta var alveg merkileg "afsökunarbeiðni" frá Erni eftir þennan ótrúlega dónaskap gagnvart drengnum sem vogaði sér að velta fyrir sér hvort guð væri almáttugur eða ekki. Og tók sem dæmi sjúkdóma sem almáttugur guð ætti nú ekki að vera í miklum vandræðum með að laga.

Augljóst að maðurinn er hrokafullur og telur sig yfir aðra hafinn. Hann er jú í "góða liðinu". Þeir sem trúa.

Við hin erum í lausu lofti og ég hef varla geð í mér að telja upp fleira af því sem trúlausir hafa verið kallaðir undanfarin ár. Það er varla hafandi eftir.

Hef lítið álit á fólki sem tjáir sig svona í umræðunni.


Nóvi - 26/01/13 01:54 #

Hvaða hvaða strákar, hvar er umburðarlyndið? Þið gagnrýnið hann fyrir að skorta einhverskonar umburðarlyndi, auðmýkt og kærleik.

Er það ekki bara í lagi, þ.e. að skorta allt þetta?


Halldór L. - 26/01/13 17:51 #

Júbb. Algerlega.

Evrópa 20. aldarinnar kenndi okkur það skiptir ekki máli þó að áhrifamiklir aðilar séu þröngsýnir, hrokafullir, fáfróðir og hatrammir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.