Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Eru andsetin börn til?

Andsetinn köttur með græn augu - svaka krútt annars

Nýleg frétt af manni sem telur að barnabörn sín séu haldin illum öndum vekur upp ýmsar spurningar. Á maðurinn við geðsjúkdóm að stríða eða eru þetta bara trúarbrögðin hans? Áður en maður afskrifar þetta sem birtingarmynd geðsjúkdóms þá verður maður nefnilega að athuga að trú á illa anda og andsetningu er venjuleg innan kristinnar trúar.

Af hverju ekki?

Meirihluti kristinna manna í heiminum tilheyrir kaþólsku kirkjunni. Í trúfræðsluriti þeirrar kirkju á er tilvist illra anda og andsentingar klárlega kennd: “Særingin beinist að því að reka burt illa anda eða að frelsun undan andsetningu illra anda í krafti þess andlega myndugleika sem Jesús fól kirkju sinni.#. Af og til les maður síðan fréttir af því að sú kirkja sé að ráða særingarmenn [1].

Hvers vegna ætti það svo að koma nokkrum manni á óvart að kristið fólk trúi á illa anda og andsetningar? Þetta fólk trúir þegar á góðar andaverur, kallar þær engla. Fyrrverandi biskup ríkiskirkjunnar, Karl Sigurbjörnsson, skrifaði meira að segja heila bók um engla! Ef maður trúir á góðar andaverur, af hverju ættu vondar andaverur að vera út í hött?

Margt kristið fólk trúir einmitt þegar á vondar andaverur, að minnsta kosti eina, djöfulinn sjálfan. Núverandi biskup ríkiskirkjunnar, Agnes M. Sigurðardóttir, útskýrir tilvist hins illa í heiminum með tilvist djöfulsins[2]. Ef þú trúir á eina ofurmáttuga illa andaveru, af hverju ætti tilvist illra andavera sem eru ekki alveg jafn máttugar að vera ólíkleg?

Særingarmaðurinn mikli

Önnur ástæða fyrir trú kristinna manna á illa anda og andsetningar er líklega sú að Biblían talar heilmikið um illa anda og andsetningar. Í Nýja testamentinu er einn aðili sem í sífellu að reka illa anda úr fólki og að tala við þá: Jesús sjálfur. Það er hægt að benda á mörg dæmi[3], en sagan af drengnum sem virðist vera flogaveikur er afskaplega viðeigandi, þar sem þar er drengur andsetinn:

En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: "Meistari, ég færði til þín son minn, sem málleysis andi er í. Hvar sem andinn grípur hann, slengir hann honum flötum, og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki." Jesús svarar þeim: "Ó, þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður? Hversu lengi á ég að umbera yður? Færið hann til mín." Þeir færðu hann þá til Jesú, en um leið og andinn sá hann, teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi. Jesús spurði þá föður hans: "Hve lengi hefur honum liðið svo?" Hann sagði: "Frá bernsku. Og oft hefur hann kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð, þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur." Jesús sagði við hann: "Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir." Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: "Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni." Nú sér Jesús, að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: "Þú dumbi, daufi andi, ég býð þér, far út af honum, og kom aldrei framar í hann." Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór, en sveinninn varð sem nár, svo að flestir sögðu: "Hann er dáinn." En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp, og hann stóð á fætur. Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum, spurðu þeir hann: "Hví gátum vér ekki rekið hann út?" Hann mælti: "Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn." (Mk 10.17-29)

Jesús spjallar hérna við illa andan og rekur hann svo út og gefur lærisveinunum loks ráð, að bæn dugi bara á svona illa anda. Fyrst Jesús trúði á illa anda, barðist við þá og spjallaði við þá, hvers vegna ættu kristnir menn þá ekki að trúa á illa anda og andsetningar?

Hvernig ætla þeir kristnu trúmenn sem trúa ekki á illa anda að útskýra þessar sögur? Var guð holdi klæddur bara svo ruglaður að hann hélt að flogaveiki væru illir andar? Maður sem trúir á illa anda, og telur þá orsaka sjúkdóma, hlýtur að missa allan trúverðugleika ef þeir eru ekki til.

Þeir gætu eflaust sagt að þessar sögur hafi ekki gerst, að þeta sé bara skáldskapur. Ég gæti vel trúað því, en ef þetta fólk trúir því að allar særingarnar og öll ummæli Jesús sem tengjast þeim séu bara tilbúningur, þá er erfitt fyrir þetta fólk að halda því fram að við getum vitað nokkurn einasta hlut um boðskap Jesú.

Gamaldags rugl

Það er vissulega jákvætt ef trúmönnum finnst upp til hópa fáránlegt að trúa því að lítil börn séu andsetin. En þessir trúmenn ættu þá að vera samkvæmir sjálfum sér og henda um leið trú á aðrar andaverur og afskrifa Jesús sem barn síns tíma sem hafði kolrangar hugmyndir um veruleikann.


[1] Síðasta frétt sem ég sá er frá 1. des í ár: Særingarmönnum fjölgað um helming í Mílanó

[2] “Hvernig útskýrir þú hið illa. Bölið í heiminum?

Með tilvist þess sem getið er í Jóh. 12:31 “ # Versið hljóðar svona: “Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað.”. Djöfullinn er oft kallaður “höfðingi þessa heims”.

[3] Á Wikipedia er ágætur listi yfir særingar og umfjallanir um þær í Nýja testamentinu.

Ljósmynd: Fulla T á flickr

Hjalti Rúnar Ómarsson 17.12.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Hringur - 17/12/12 11:10 #

"Það er vissulega jákvætt ef trúmönnum finnst upp til hópa fáránlegt að trúa því að lítil börn séu andsetin. En þessir trúmenn ættu þá að vera samkvæmir sjálfum sér og henda um leið trú á aðrar andaverur og afskrifa Jesús sem barn síns tíma sem hafði kolrangar hugmyndir um veruleikann."

http://en.wikipedia.org/wiki/False_dilemma

"The Latin phrase falsum in uno, falsum in omnibus which, roughly translated, means "false in one thing, false in everything", is fallacious in so far as someone found to be wrong about one thing, is presumed to be wrong about some other thing entirely."

http://en.wikipedia.org/wiki/Slippery_slope

"A slippery slope argument states that a relatively small first step leads to a chain of related events culminating in some significant effect, much like an object given a small push over the edge of a slope sliding all the way to the bottom. The strength of such an argument depends on the warrant, i.e. whether or not one can demonstrate a process which leads to the significant effect."


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 11:32 #

Þakka þér fyrir þessa ábendingu. Þó það væri vissulega skemmtilegra ef þú gæfir aðeins af sjálfum þér í leiðinni. En ég held að þetta sem þú vitnar í falli ekki endielga undir þetta þar sem að þær hugmyndir sem nefndar eru eru tengdar hvor annari, hluti af sama hugmyndakerfi og þar af leiðandi líklega háðar hvor öðrum. Þannig hefði maður vonað að fólk falli frekar frá hugmyndakerfinu frekar en að skera eina og eina hugmynd utan af því í viðleytni sinni við að bjarga kerfinu sjálfu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 11:40 #

Það væri hægt að tala um False dilemma ef höfundur hefði sagt að fólk þyrti að hætta að vera kristið en hann segir einfaldlega að fólk þurfi að vera samkvæmt sjálfu sér og "henda um leið trú á aðrar andaverur og afskrifa Jesús sem barn síns tíma sem hafði kolrangar hugmyndir um veruleikann."

Ef fólk trúir á andaverur getur það varla sagt um leið að hugmyndin um andsetin börn sé fáránleg? Þá væri það ekki samkvæmt sjálfu sér.

Ef fólk getur ekki játað að Jesús Biblíunnar hafi haft hugmyndir sem stangast á við veruleikann - þá er það varla samkvæmt sjálfu sér þegar það segir að hugmyndin um andsetin börn standist ekki.

Ég fæ engan vegin séð hvernig þetta fellur undir slippery slope.


Hringur - 17/12/12 11:58 #

Trúarleg hugmyndakerfi byggjast ekki fyrst og fremst á rökrænum forsendum og algjöru innra samræmi heldur er þetta frekar tilfinninga- og innsæistengt, og hver og einn getur skilið þetta með sínu nefi. Sú krafa að fólk annað hvort hafni hugmyndakerfi kristninnar (NB þeim skilingi sem maður sjálfur leggur í það) alfarið, ellegar taki það upp í heild sinni, er því algjört false dilemma. Kristnin er víðfeðm og fólk skilur hana með mismunandi hætti og hefur alveg fullan rétt á að gera það, og þess vegna er sérkennilegt að sjá hér einhverja tilburði til að gera hana að einhverju heildstæðu kerfi þar sem aðeins er til ein rökræn túlkun - rétt eins og bókstafstrúarfólk gerir.

Grunnurinn að flestöllum trúarkerfum eru gildi sem fólk finnur innra með sér til að byrja með, á borð við kærleika og manngæsku, og fyrir mér eru öll kerfi sem leggja rækt við þau gildi jákvæð. Það er líka skömminni skárra að henda út sögulegum ofstækishugmyndum út úr kristninni þó maður sé ekki tilbúin að falla alfarið frá henni og vill reyna að viðhalda henni út frá jákvæðum hliðum hennar og leyfa henni að þróast meira út í þá átt. Þessi gildi eru líka hlutir sem er mjög erfitt sem að flokka sem rökrænt 'rétta' eða 'ranga'. Hafði Jesús til dæmis rétt eða rangt fyrir sér þegar hann sagði að við ættum að elska náungan eins og sjálfa okkur? Ef maður finnur þá hvöt hjá sjálfum sér hafði hann rétt fyrir sér hvað mann varðar, annars ekki. Þetta verður hins vegar seint útkljáð með rökfærslum.

Ég er sjálfur ekki kristinn einmitt af því að ég sé enga sérstaka ástæðu til að taka það kerfi upp umfram önnur, og tel það hafa of mikið sögulegt 'baggage', en ég ber miklu meiri virðingu fyrir hófsemdarkristnum sem rækta kærleika en til dæmis ofsatrúarkristnum sem hatast út í þá sem ekki eru eins og þeir. Af mörgum skrifum Vantrúar að dæma mætti halda að þið berið hins vegar meiri virðingu fyrir síðarnefnda hópnum fyrir að vera allavega 'sjálfum sér samkvæmur'. Þetta virðist stafa af einhvers konar ofurdýrkun á hinu rökræna og þeirri kröfu að hugmyndakerfi fólks skulu vera rökræn, ellegar séu þau fánýt með öllu.

Viðleitni mannfólksins til að finna sér einhvers konar trúarkerfi virðist hins vegar vera þrálát og innbyggð, og þau verða varla hrakin auðveldlega eða skjótlega með því að hamra á fólki með rökum, ekki frekar en aðrir líffræðilegir 'ágallar' mannfólksins. Þá er betra að reyna að beina þessari viðleitni þó allavega í jákvæðan farveg í stað þess að hæðast að þeim sem reyna að gera það fyrir að vera órökréttir og ósamkvæmir sjálfum sér. Það er í mínum hauga litlu skárra en vindmylluskak Dons Kíkóta. Sá vægir er vitið hefur meira, ekki satt?


Hringur - 17/12/12 12:02 #

Matti, þannig að það er sumsé ekki að hætta að vera kristinn að 'henda um leið trú á aðrar andaverur og afskrifa Jesús sem barn síns tíma sem hafði kolrangar hugmyndir um veruleikann'? Hvað stendur þá eiginlega eftir að kristninni?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 12:07 #

"Hvað stendur eftir af kristninni?" er nokkuð góð spurning. Flestir þeir sem ég þekki og telja sig "kristna" hafna nefnilega nánast öllu því sem aðgreinir kristnina frá öðrum trúarbrögðum, svo sem meyfæðingu, upprisu, sköpun heimsins...

Þetta er ekkert sérhæft fyrir þessa umræðu.


Hringur - 17/12/12 12:16 #

Einmitt Valgarður, fínasti punktur. Þetta er einmitt töluvert vandamál með kristnina, þessar sögulegu fullyrðingar og kreddur sem standast illa nútímann. En eins og ég segi þá er nú skömminni skárra að henda þeim kreddum en reyna samt að halda í það góða en að ríghalda í þær. Hér virðast hins vegar vera settir upp tveir afarkostir, annað hvort að taka upp allar kreddurnar eða gerast trúlaus. Því held ég mig við að þetta sé false dilemma og slippery slope (sumsé, ef þú hafnar einni kreddu/hugmynd í kerfinu verðurðu að hafna þeim öllum).

Það eru bara ekki allir alveg jafn rökrænir og rökfastir frá náttúrunnar hendi og þið í Vantrú þannig að mér finnst frekar skrýtið að reyna að fá alla yfir á þá línu sem ekki hafa endilega burði eða áhuga á að vera á henni - en þetta eru náttúrulega bara ykkar skoðanir og ykkar tilburðir til að breiða þær út, sem er svo sem gott og gilt. Ég vona að þið lítið á þessa gagnrýni mína sem ráðleggingar frekar en einhverja árás.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 13:49 #

Mér finnst gagnrýni þín einfaldlega ekki hitta í mark. Þegar þú dregur fram rökvillur þarftu að færa almennileg rök fyrir því þær eigi við. Ég er bara ekki sammála því að það eigi við um þetta tilvik.

Hér virðast hins vegar vera settir upp tveir afarkostir, annað hvort að taka upp allar kreddurnar eða gerast trúlaus

Ég sé ekki þessa afarkosti.

Í trúarriti kristinna eru sögur af því þegar Jesús rekur út illa anda. Fólk getur alveg verið kristið þó það afgreiði slíkar sögur sem bábiljur. Getur verið að þú hafir ranghugmyndir um hugmyndir okkar um kristið fólk?

Hvað eftir stendur af Biblíunni þegar fólk hefur klippt hindurvitnin út veit ég ekki alveg - en það er ekki heldur mitt vandamál.

Ég mæli a.m.k. með því að fólk lesi Nýja testamentið vandlega fyrst og ákveði í kjölfarið hvort það er kristið eða ekki.


Hringur - 17/12/12 14:00 #

Ég sé þá hins vegar í þessu:

"... en ef þetta fólk trúir því að allar særingarnar og öll ummæli Jesús sem tengjast þeim séu bara tilbúningur, þá er erfitt fyrir þetta fólk að halda því fram að við getum vitað nokkurn einasta hlut um boðskap Jesú."

"Það er vissulega jákvætt ef trúmönnum finnst upp til hópa fáránlegt að trúa því að lítil börn séu andsetin. En þessir trúmenn ættu þá að vera samkvæmir sjálfum sér og henda um leið trú á aðrar andaverur og afskrifa Jesús sem barn síns tíma sem hafði kolrangar hugmyndir um veruleikann."

Mér finnst frekar furðulegt að þú kjósir að mér sýnist að líta framhjá þessum línum og fókusera eingöngu á (að mínu mati) hina réttmætu spurningu sem er þarna sett fram um af hverju sumir kristnir trúa á góða anda en ekki illa, þó báðum sé lýst í Biblíunni. Mér finnst ekkert að því að biðja það fólk um að rökstyðja þá afstöðu sína, en steininn tekur úr þegar því er nánast skipað að henda allri trú sinni út um gluggann fyrir það eitt að trúa ekki á andsetningar, sem er nákvæmlega það sem Hjalti gerir hvort sem þú sérð það eða ekki.

"Ég mæli a.m.k. með því að fólk lesi Nýja testamentið vandlega fyrst og ákveði í kjölfarið hvort það er kristið eða ekki."

Þetta er hins vegar hófsamleg tillaga sem ég get vel tekið undir.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 14:03 #

Mér finnst frekar furðulegt að þú kjósir að mér sýnist að líta framhjá þessum línum og fókusera eingöngu...

Ég "fókusera" á nákvæmlega þann texta sem þú vitnaðir í í fyrstu athugasemd þar sem þú dróst rökvillurnar tvær fram.

þegar því er nánast skipað að henda allri trú sinni út um gluggann fyrir það eitt að trúa ekki á andsetningar, sem er nákvæmlega það sem Hjalti gerir hvort sem þú sérð það eða ekki.

Það held ég að sé einungis þín (of)túlkun.


Hringur - 17/12/12 14:09 #

Þá verður það að vera þannig og við að vera sammála um að vera ósammála. Ekki nenni ég þrætum um túlkunaratriði. Hjalti getur kannski útskýrt þetta betur sjálfur.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 14:14 #

Það hefði kannski verið betra að hafa þetta "En þessir trúmenn ættu þá, ef þeir vilja vera samkvæmir sjálfum sér, að henda um leið trú á aðrar andaverur og afskrifa Jesús sem barn síns tíma sem hafði kolrangar hugmyndir um veruleikann." En eins og þú bendir á þá virðist ekki vera mikill vilji til þess að vera samkvæmur sjálfum sér þegar kemur að trú. Og margir sem að réttlæta eða jafnvel upphefja slíkar mótsagnir. Það er leitt að þú túlkar þetta sem svo að fólki sé "skipað" að gera eitthvað. Held ég geti fullyrt að þetta var frekar meint sem ósk um að fólk gerði slíkt.


Hringur - 17/12/12 14:23 #

Mín raunverulegu orð voru 'nánast skipa', sem er ekki það sama og beinlínis skipa. Að segja að einhver ætti að gera eitthvað er einmitt nánast skipun þó hún sé ekki bein. Auðvitað mætti kalla þetta ósk, en þetta eru samt sem áður líka tilmæli. Þeim sem þetta lesa sem þetta á við er greinilega ætlað að taka þetta til sín. Það mætti jafnvel segja að þetta væri mitt á milli óskar og skipunar.

En þetta er greinilega farið út í undarlega smámunalegar þrætur um orðalag og túlkun þannig að ég ætla að svo sannarlega láta þetta gott heita í bili.


Jóhann - 17/12/12 22:29 #

Þetta er rétt greining hjá Hringi. Hjá ykkur Vantrúarmönnum snýst þetta ævinlega um "allt eða ekkert".

Vitanlega er hægt að vera trúaður á aðrar skýringar en þær sem vísindi veita, og einnig skynsamur, án þess að aðhyllast heilstætt og ítrasta kenningakerfi!

Annað væri gefin vissa!

Þið aðhyllist populískt og viðtekið kenningakerfi vísindahyggju og segist vera skynsamir fyrir vikið. Og það þrátt fyrir að vísindi gefi sig hreint ekki út fyrir að kunna skil á öllum sköpuðum hlutum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 23:10 #

Nei Jóhann. Þó þú staglist á einhverju er það ekki þar með satt.

þetta er greinilega farið út í undarlega smámunalegar þrætur um orðalag og túlkun...

Er hugsanlegt að þú berir einhverja ábyrgð á því?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 23:15 #

Það má segja, Hringur, að það sé langsótt að gera kröfu um að trúaðir séu rökréttir þegar kemur að trúnni. En það er kannski ekki þar með sagt að þessar rökvillur séu í greininni. Og ég las þetta nú heldur ekki sem skipanir, heldur ábendingar um mótsagnir.

En er svo sem sammála þér með að það verða væntanlega fáir trúaðir til að taka þetta til sín.


Jóhann - 17/12/12 23:21 #

Af hverju gerir þú hróp að mér, Matti?

Kórinn hér inni er þinn, ekki minn...


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 26/12/12 10:53 #

Sæll Hringur og takk fyrir athugasemdirnar.

Til að byrja með finnst mér það alveg afskaplega vafasamt að segja að grunnur flestra trúarkerfa sé eitthvað eins og kærleikur og manngæska.

En ég skil alveg af hverju þér finnst þetta vera dæmi um "slippery slope". En geturðu gefið mér einhverjar almennilegar ástæður fyrir því hvers vegna kristið fólk, sem trúir kannski þegar á engla og djöfulinn, ætti ekki að trúa á tilvist illra anda? Sérstaklega þegar við höfum það í huga að Jesús sjálfur var alltaf að kljást við illa anda.

Ég get alveg tekið undir það að það sé alveg hægt að trúa á guð, Jesús, djöfulinn og engla en ekki illa anda. En ég efast um að viðkomandi hafi einhverjar almennilegar ástæður fyrir afneitun sinni, þannig að kannski ætti ég að hafa sagt að ef viðkomandi ætlar að vera almennilega samkvæmur sjálfum sér ætti hann að henda trú á allar þessar andaverur og afskrifa Jesú sem barn síns tíma. Sáttur við það?


Hringur - 04/01/13 17:01 #

Sæll Hjalti,

Afsakaðu sein svör, en hér koma þau.

"Til að byrja með finnst mér það alveg afskaplega vafasamt að segja að grunnur flestra trúarkerfa sé eitthvað eins og kærleikur og manngæska."

Af hverju? Þetta finnst mér sjálfum vera mesta grunnstefið í þeim flestöllum þegar grannt er skoðað. Þó í mörgum kerfum, eða mörgum útleggingum á þeim, sé hlaðið ofan á þetta með alls konar boðum og bönnum og valdboði breytir það því ekki að þetta er aðalmálið og aðaltilgangurinn, að hjálpa fólki til að lifa í sátt við sjálfa sig og aðra og finna kærleika og frið - og kristnidómurinn er til dæmis hjá mörgum Íslandingum að þróast mjög út í svoleiðis lagað sem mér finnst bara fínt mál. Það er samt erfitt að deila um þetta þegar eina svarið sem maður fær er bara að þetta sé vafasamt hjá manni.

"En ég efast um að viðkomandi hafi einhverjar almennilegar ástæður fyrir afneitun sinni, þannig að kannski ætti ég að hafa sagt að ef viðkomandi ætlar að vera almennilega samkvæmur sjálfum sér ætti hann að henda trú á allar þessar andaverur og afskrifa Jesú sem barn síns tíma. Sáttur við það?"

Ég er allavega mun sáttari við það já, sérstaklega hvað varðar andaverurnar. Það er samt ennþá þetta með að það eigi bara að afskrifa allt sem Jesús sagði með öllu af því að hann var sagður hafa varpað út illum öndum ... mér finnst það klárlega vera illa rökstutt slippery slope og jafnvel ad hominem ef út í það er farið. Sumsé, fyrst þú getur fundið dót í þessum sögum sem er bull (og þar er alveg að nægu að taka) sé ekkert af þeim eða málflutningi Jesúsar fyrir nokkurt nútímafólk að græða. Algjör allt-eða-ekkert þankagangur. Mér finnst nærri lagi að meta hvern þátt kristnindómsins fyrir sig á sínum eigin grundvelli og færa rök með eða á móti því hversu nytsamlegt eða satt það er í stað þess að líta á þetta sem eitthvað eitt einfalt risakerfi sem allir eiga annað hvort að gleypa hrátt eða hafna alfarið - en kannski það séu bara útúrsnúningar hjá mér enn og aftur.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 07/01/13 18:51 #

Af hverju? Þetta finnst mér sjálfum vera mesta grunnstefið í þeim flestöllum þegar grannt er skoðað.

Hringur, mig grunar að þú sért að "skapa trúarbrögðin í þinni eigin mynd". Ef við kíkjum t.d. á þau trúarbrögð fornaldar sem við þekkjum hvað best, þá veit ég ekki hvers vegna þú myndir halda að grunnur þeirra hafi verið "kærleikur og manngæska". Þarna voru oftar en ekki sérstakir stríðsguðir, hvernig samræmist það t.d. þessu meinta grunnstefi?

Það er samt ennþá þetta með að það eigi bara að afskrifa allt sem Jesús sagði með öllu af því að hann var sagður hafa varpað út illum öndum ... mér finnst það klárlega vera illa rökstutt slippery slope og jafnvel ad hominem ef út í það er farið.

Hringur ég sagði: "..og afskrifa Jesús sem barn síns tíma sem hafði kolrangar hugmyndir um veruleikann." Þetta þýðir ekki að maður "afskrifa allt sem Jesús sagði með öllu".

Málið er bara að kristið fólk telir Jesús vera kennivald, hann er jú guð holdi klæddur. Ef maður viðurkennir að þessi maður hafi trúað einhverju rugli á borð við að illir andar orsaki sjúkdóma, þá er maður að kippa fótunum undan kennivaldinu. Þá er hann bara fornaldarmaður með skeikular hugmyndir sem við samþykkjum eða höfnum algerlega á okkar eigin forsendum.


Hringur - 11/01/13 16:54 #

"Þó í mörgum kerfum, eða mörgum útleggingum á þeim, sé hlaðið ofan á þetta með alls konar boðum og bönnum og valdboði breytir það því ekki að þetta er aðalmálið og aðaltilgangurinn, að hjálpa fólki til að lifa í sátt við sjálfa sig og aðra og finna kærleika og frið."

"Þarna voru oftar en ekki sérstakir stríðsguðir ..."

Þetta eru nú bara fyllilega samrýmanlegar fullyrðingar. Hvernig samrýmist annars sú áðurnefnda staðreynd mín að íslensk þjóðkirkjukristni snýst að miklu leyti núorðið um frekar einfalt kærleikshjal þeirri skoðun þinni að grunnstefið sé ekki kærleikur?

Svo segi ég nú bara á móti, fyrst þú virðist sjá ástæðu til að tala niður til mín, að þú ert að gera það nákvæmlega sama og ég, að skapa trúarbrögðin í þinni mynd - og það er held ég eitthvað sem enginn kemst hjá því að gera. Trúarbrögðin og saga þeirra eru miklu flóknari en svo að einhver einn geti útnefnt sig einhvern handhafa algilds og hlutlægs sannleika í þeim efnum. Mér finnst minn huglægi sannleikur í þessum efnum bara ágætlega ígrundaður og uppbyggilegur en það er náttúrulega bara mín skoðun sem er kannski mjög erfitt að ætla sér að rökræða um á svona vettvangi.

En skýringar þínar á hvað þú áttir við með að afskrifa Jesús finnast mér góðar og gildar og ég skil betur hvað þú áttir við með því núna. Ég einmitt hafna því sjálfur að kristnin hafi eitthvað sérstakt kennivald umfram önnur trúarbrögð eins og ég held að ég hafi gert alveg ljóst í athugamsemdum mínum hérna hingað til.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.