Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vigdís og Birgir - leiðréttið misréttið

Vigdís Hauksdóttir og Birgir Ármansson

Í umræðu á Alþingi sem fram fór nýlega um stöðu ríkiskirkjunnar vegna niðurskurðar seinustu ára sagði Vigdís Hauksdóttir að ríkið sem vörsluaðili fyrir sóknargjöld sem innheimt væru af kristnu fólki hér á landi hefði haldið eftir stórum hluta af þeim á seinust árum.

Birgir Ármannsson tók undir þetta og sagði að ríkið hefði innheimt tiltekin gjöld á tilteknum forsendum sem sóknargjöld og að alvarlegt væri að ekki nema hluti af þeim hefði skilað sér til réttmæts eiganda.

Trúvillingaskatturinn

Ég verð að viðurkenna að þetta kom mér svolítið á óvart. Ég hef nefnilega alltaf skilið lögin um svokölluð sóknargjöld þannig að þau væru tiltekin hlutdeild trúfélaga (allra, ekki bara þessara kristnu) í ríkissjóði sem reiknuð væri út miðað við meðlimafjölda[*]. En ég hef greinilega haft rangt fyrir mér því varla fara þingmenn með rangt mál í ræðustóli Alþingis.

Í ljósi þessara nýju upplýsinga vil ég færa fram ákveðna bón til Vigdísar, Birgis og annara þingmanna sem deila þessum skilningi með þeim. Vinsamlegast beitið ykkur fyrir því að við sem stöndum utan trúfélaga fáum sóknargjaldaskattinn okkar endurgreiddan, hið minnsta aftur að þeim tíma þegar hann hætti að renna til háskólana.

Ef það er alvarlegt að innheimta skatt og skila honum ekki þangað sem hann á heima hversu alvarlegt er það þá að innheimta félagsgjaldaskatt af þeim sem tilheyrir engu af þeim félögum sem hann rennur til?

Ég nefnilega borga nákvæmlega jafn mikinn skatt og einstaklingur með sömu laun og ég sem er skráður í trúfélag. Ef skilningur Birgis, Vigdísar og fleiri er réttur þá er lagður á mig sérstakur trúarskattur.

Kæru Vigdís, Birgir og aðrir þingmenn sem lítið á sóknargjöld sem félagsgjöld sem innheimt eru sérstaklega. Þið sjáið það sjálf að það er ekki sanngjarnt að ég borgi hærri skatta fyrir það að standa utan trúfélaga. Hjálpið mér nú að leiðrétta þetta misrétti.

Milliliðalaus greiðsla til trúfélaga

Mig langar svona að lokum að benda ykkur á einföldustu leiðina til að laga þetta með niðurskurðinn til ríkiskirkjunnar. Ég veit að stundum þegar maður er mikið að velta fyrir sér málum þá sér maður ekki alltaf augljósustu leiðirnar.

Ef að þið viljið tryggja að kirkjan fái sín „félagsgjöld“ greidd að fullu þá er auðvitað langbest að þið beitið ykkur bara fyrir því að hún fái að innheimta þau sjálf. Þessir milliliðir eru bara til óþurftar. Þannig gæti kirkjan líka verið viss um að bara þeir sem eru að nýta sér alla þá gríðarlega mikilvægu þjónustu sem hún veitir borgi fyrir hana.


[*]Fyrir fróðleiksfúsa hljómar 1. grein laga um sóknargjöld og fleira (nr. 91, 1987) svona:

  1. gr. Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt eftir því sem lög þessi ákveða.
Egill Óskarsson 18.11.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 18/11/12 12:53 #

Hvað telja kirkjunnarmenn að félagsgjöldin séu há? Mig langar að fá nákvæmar tölur á hvað ríkið er að innheimta í félagsgjöld til kirkjunnar og hvað ríkið er að skila mikið til hennar. Sem sagt, hversu stór hluti er það að halda eftir? Er t.d. verið að innheimta 12000 á mann og ár og skila 10000 á mann og ár eða hvað?


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 20/11/12 13:19 #

Vigdísi og Birgi var bent á þessa grein. Birgir sagðist myndu skoða þessi sjónarmið en Vigdís er á því að það sem hún sagði í ræðu sinni væri staðreyndin. Hún heldur því semsagt til streitu að sóknargjöld séu innheimt sérstaklega sem leiðir það af sjálfu sér að lagður er sérstakur skattur á þá sem standa utan trúfélaga. Hún tók ekkert fram um hvort að henni þætti það sanngjarnt eða eðlilegt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.