Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Umræðan um þjóðkirkjuákvæðið

Fólk

Eins og lesendur vita þá er Vantrú með samantekt yfir þau skrif þar sem rökstutt er hvers vegna það sé rétt að kjósa gegn þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá þann 20. október. Nú þegar kosningarnar nálgast eykst umræðan og hérna eru nokkur áhugaverð innlegg í umræðuna:

Spurning númer þrjú í Silfrinu

Valgarður Guðjónsson mætti í Silfur Egils síðastliðinn sunnudag til að útskýra hvers vegna hann teldi að rétt væri að kjósa gegn þjóðkirkjuákvæði. Hægt er að horfa á viðtalið hérna og hefst viðtalið við Valgarð á 58. mínútu.

Þetta ríkiskirkjufyrirkomulag, sem að flestar nágrannaþjóðir okkar eru búnar að leggja af, þetta á ekkert erindi í dag. Við erum ekki lengur einsleit hvít þjóð með eina skoðun. Við höfum ólíkar lífskoðanir og ólík sjónarmið og við verðum bara að taka tillit til allra. Og þetta að aðskilnaður hafi átt sér stað, sem er reyndar mismunandi eftir prestum eða talsmönnum kirkjunnar hvenær það á að hafa verið, en hann hefur bara verið á annan veginn. Þetta er eins og einstaklingur sem flytur úr foreldrahúsum en heimtar að foreldrarnir haldi sér uppi.

Þjóðkirkjufólk gegn ákvæðinu

Stundum virðist umræðan hljóma þannig að bara trúleysingjar séu á móti þjóðkirkjuákvæðinu og að bara trúmenn séu fylgjandi því, en eins og skoðanakannanir sýna fram á, þá er það alls ekki raunin. Því er gleðilegt að sjá þegar trúmenn stíga fram og segjast ætla að kjósa gegn því, enda er þetta réttlætismál, en ekki and-trúarlegt baráttumál.

Djákni Þjóðkirkjunnar Halldór Elías skrifar um kosninguna:

Ég mun, ef ég man eftir að kjósa, merkja við þá hugmynd að þjóðkirkjan verði ekki nefnd í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og vona að það verði til þess að kirkjan taki hlutverk sitt alvarlega sem kirkja Krists, en skýli sér ekki áfram á bakvið hefðir, venjur og meirihlutasinnuleysið.

Guðfræðineminn Sindri Geir skrifar einnig um ástæðu þess að hann muni kjósa gegn þjóðkirkjuákvæðinu:

Margir sem kalla eftir aðskilnaði eru meðlimir í Þjóðkirkjunni, starfa jafnvel innan safnaða og styðja starf hennar. Þetta fólk er ekki að reyna að vinna Þjóðkirkjunni mein heldur vill það einungis gæta að jafnrétti í samfélaginu. Ég tel það vera baráttumál Þjóðkirkjunnar sjálfrar að krefjast raunverulegs frelsis frá ríkinu, raunverulags jafnréttis trúfélaga og að hún ætti að eyða minni tíma í að verja sérstöðu sína.

Ásatrúarfélagið

Löglegt en siðlaust misrétti er grein eftir Jóhönnu Harðardóttur sem birtist í Fréttablaðinu 16. október. Þar ræðir hún um dóm hæstaréttar frá nóvember 2007, en Ásatrúarfélagið stefndi íslenska ríkinu fyrir mismunum:

Alltof lengi hefur Ásatrúarfélagið látið yfir sig ganga mismunun af hálfu hins opinbera og það þegjandi og hljóðalaust. Hér skal skýrt tekið fram að félagið fer aðeins fram á að jafnrétti ríki meðal landsmanna hverrar trúar sem þeir eru, eins og segir til um í stjórnarskrá og mannréttindalögum, en tekur ekki afstöðu gegn öðrum trúfélögum eða greiðslum til þeirra að neinu leyti.

Burt með ríkiskirkjuákvæðið!

Jón Daníelsson skrifaði greinarstúfinn Meira en heilli öld síðar þar sem hann rifjar upp sögubrot:

Því hefur ekki verið haldið mikið á lofti, en vorið 1909 samþykkti neðri deild Alþingis þingsályktun um aðskilnað ríkis og kirkju með drjúgum meirihluta atkvæða. Þá sátu konungkjörnir þingmenn í efri deildinni og þeir stöðvuðu framgang málsins. Svo er þessum leifum einræðisins fyrir að þakka að við sitjum enn uppi með þjóðkirkju.

Vantrú hvetur alla lesendur til að kjósa 20. október. Jafnvel þó þið segið nei við fyrstu spurningu þá getið þið líka sagt nei við þriðju spurningu. Það telur.

Ritstjórn 17.10.2012
Flokkað undir: ( Vísun )

Viðbrögð


Nóvi - 21/10/12 02:42 #

Fín grein - þarf að laga linkinn inn á silfurEgils viðtalið, kemur "error".

Bkv.


Einar J. - 21/10/12 20:26 #

Félagar í Vantrú og aðrir á þeirra línu hafa klikkað á því að kjósa? Meiri kjánarnir :-)


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/10/12 22:14 #

Tek undir það. Kjánalegt að láta þetta tækifæri framhjá sér fara. Hvort sem fólk misskildi spurninguna eða ekki, þá er kjörsókn bara merki um að sinnuleysið hafi að stórum hluta haft yfirhöndina.

Svo var nú dálítið villt fyrir fólki frá byrjun. Ekki stóðu félög og fjölmiðlar vel í því að koma andstæðum sjónarmiðum á framfæri heldur. Nú, nema ríkiskirkjan að sjálfsögðu, hún stóð sig frábærlega vel við að koma sínum skoðunum á framfæri. En ekki var hún í neinni kosningabaráttu, onei. Seisei, átti engra hagsmuni að gæta.

Það var til dæmis þessi stórkostlega súrréalíska umfjöllun í (kristilega) Fréttablaðinu fimmtudaginn 18. október, minnir mig, þegar spurt var um kosti og galla að segja já eða nei við þriðju spurningu. Þá var rætt við tvo ríkiskirkjupresta til að leggja mat á þetta vafamál. Einn lagði mat á já-ið og hinn lagði mat á nei-ið. Mjög sanngjörn og óhlutdræg umfjöllun.

Er þetta ekki svona einsog að ræða um kosti og galla kvótans og fá umsögn frá framkvæmdastjóra LÍÚ við kostina og fjármálastjóra LÍÚ um ókostina...?

Og allur málflutningur þessara guðfræðilegu embættismanna var á svipuðum slóðum: "Þetta skiptir ekki máli, segðu bara já. Annars verða engin jól. Og allt fer til helvítis!"

/rant


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 22/10/12 09:48 #

Fréttablaðið birti reyndar greinar á föstudaginn sem voru nokkuð neikvæðir í garð ríkiskirkjuna, en þær hurfu líka nokkrum klukkutímum síðar af netútgáfunni. Það má náttla ekki upplýsa þjóðina um vafasamar tekjur ríkiskirkjunnar svona rétt fyrir kosningar!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.