Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af meintu sjálfstæði ríkiskirkjunnar

Ríki og kirkja

Ríkiskirkjan opnaði nýlega sérstakan vef vegna ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar um tillögur Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Það er eðlilegt að hagsmunaaðilar reyni að hafa áhrif á kosningar en einhvern veginn skýtur það skökku við að opinber aðili sé að nota tekjur sem hann hefur úr ríkissjóði til þess að reyna að hafa áhrif á niðurstöður úr opinberri atkvæðagreiðslu.

Kirkjulegt lýðræði og annað kjaftæði

Það er margt áhugavert að finna á þessum nýja vef ríkiskirkjunnar og augljóst að þar á bæ hafa menn fengið það sem þeir borguðu fyrir. Eitt af því áhugaverðara er umfjöllun um samband ríkis og kirkju. Sú ímynd sem kirkjan vill gefa af því sambandi, og af sjálfri sér, er ansi merkileg og það er alveg tilefni til þess að skoða ýmislegt sem þar kemur fram.

Kirkjan er sjálfstætt, opið og lýðræðislegt trúfélag – með samninga við ríkið.

Lýðræðislega stofnunin ríkiskirkjan. Þar sem sóknarbörnum er ekki treyst til þess að kjósa presta, ekki frekar en að þeir hafi neitt um það að segja hver gegnir stöðu biskups. Það er reyndar ansi erfitt að átta sig á því að hvaða leyti kirkjan er lýðræðisleg. Hvaða möguleika eiga venjuleg sóknarbörn á því að hafa áhrif á stefnu og störf kirkjunnar? Hvar er sá vettvangur? Á kirkjuþingi, æðstu stofnun kirkjunnar, eiga vígðir menn eyrnamerkt 12 sæti en 17 sæti eru skipuð af sóknarnefndum svo varla er vettvang lýðræðis innan kirkjunnar að finna þar.

Arður af kirkjujörðum stóð um aldir undir þjónustu kirkjunnar og afgjald fyrir þessar jarðir rennur nú til kirkjunnar og stendur undir fjölbreyttri þjónustu kirkjunnar við fólkið í landinu.

Þetta er – svo að við tölum bara íslensku – kjaftæði.

Hinn meinti aðskilnaður

En það er þetta með sjálfstæðið sem er kannski það skrýtnasta. Ríkiskirkjufólk klifar sumt á því að með þessu sjálfstæði hafi ríki og kirkja nú þegar verið aðskilin og það er ekki hægt að skilja þessa áherslu á síðu kirkjunnar öðruvísi en að verið sé að reyna að koma því til skila.

Við skulum hlaupa yfir það hversu fáránlegt það er að halda því fram að trúfélag sem er að öllu leyti komið upp á ríkið um fjármál sín (hver einasta kirkja á landinu þarf t.a.m. að standa skil á fjármálum sínum gagnvart Ríkisendurskoðun) sé fjárhagslega sjálfstætt.

Þessi hugmynd um að með aðskilnaði ríkis og kirkju sé eingöngu átt við að kirkjan stjórni sínum innri málum sjálf er byggð á algjörum grundvallarmisskilningi á því hvað felst í kröfunni um aðskilnað. Það er ekki nóg bara að skilja ríkið frá kirkjunni, það þarf að skilja kirkjuna frá ríkinu líka.

Opinberir talsmenn guðs

Á meðan prestar eru opinberir embættismenn með þeim réttindum sem því fylgja, biskup ferðast með diplómatapassa, prestar fá aðgang inn á leik- og grunnskóla umfram fulltrúa annara trúfélaga, sveitarfélög úthluta kirkjum lóðir um leið og ný hverfi eru skipulögð og kirkjan fær afslátt af áfengiskaupum í Vínbúðum sem einungis er ætlaður æðstu stofnunum ríkisins er ekki hægt að tala um raunverulegan aðskilnað.

Á meðan kirkjan fær um 33% hærri styrk frá ríkinu fyrir hvern meðlim en önnur trúfélög (jöfnunarsjóður sókna og kirkjumálasjóður) er ekki hægt að tala um raunverulegan aðskilnað. Og það sem skiptir kannski mestu máli varðandi það sem ríkiskirkjan berst fyrir núna, t.d. með þessari vefsíðu; á meðan að ákvæði er í stjórnarskrá um að eitt trúfélag sé æðra öðrum og að ríkinu beri að vernda það og styðja er ekki hægt að tala um að neinn aðskilnaður hafi átt sér stað.

Kirkjan virðist vilja vera sjálfstæð. Við skulum hjálpa henni til þess að öðlast raunverulegt sjálfstæði. Kjósum nei við ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá þann 20. október.

Egill Óskarsson 15.10.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/10/12 10:50 #

Eitt það fyrsta sem ég sé þegar ég skoða þessa síðu kirkjunnar ef eftirfarandi:

Kirkjuráð minnir á að hin evangelísk-lúterska þjóðkirkja er einn mikilvægasti grunnþáttur samfélagsins, ...

Þetta fólk lítur aðeins of stórt á sig.


Halldór L. - 15/10/12 11:11 #

Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki. [...] Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.

Ég held ég viti hvað Jesú hefði kosið.


Reputo (meðlimur í Vantrú) - 15/10/12 12:21 #

Þetta er auðvitað ekki upplýsingavefur fyrir fimm aura. Þetta er áróðursvefur, úlfur í sauðagæru, og ætti að vera titlaður sem slíkur. Þarna koma ekki ólík sjónarmið fram og einu greinarnar sem vitnað er í eru eftir presta, og aðra hollvini ríkiskirkjunnar. Flest þetta fólk, sem annaðhvort er vitnað í beint eða með greinaskrifum, byggir sýna atvinnu á Yahwe og hefur gríðarlega fjárhagslega hagsmuni af því að halda kirkjunni í pilsfaldi ríkisins.

Enn og aftur sjáum við hvað kristið siðferði er óæskilegt í samfélagi sem vill vera sanngjarnt og heiðarlegt.


Sigurlaug Hauksdóttir - 18/10/12 11:45 #

Viðtal við Magnús Erlingsson, sóknarprest á Ísafirði. http://www.bb.is/Pages/26?NewsID=177782

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.