Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Einfalt val: nei við þjóðkirkju

Dómkirkjan og Alþingi

Undanfarið hafa andstæðingar aðskilnaðar ríkis og kirkju skrifað þónokkrar greinar í tilefni komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega upptöku nýrrar stjórnarskrár. Í atkvæðagreiðslunni gefst kjósendum tækifæri til að taka afstöðu til þess hvort í stjórnarskrá verði sérstakt ákvæði um þjóðkirkju. Samkvæmt stuðningsmönnum núverandi fyrirkomulags er spurningin um þjóðkirkjuákvæðið ógurlega flókin og þeir vilja meina að mikill misskilningur ríki um það hvers konar breytingar verið sé að leggja til.

Þessi spurning er hins vegar alls ekki flókin og það hverjar afleiðingar hennar verða er alveg ljóst. Þeir sem vilja viðhalda núverandi ástandi kjósa með því að sérstakt ákvæði um þjóðkirkju verði í stjórnarskrá. Þeir sem vilja aðskilnað ríkis og kirkju kjósa gegn slíku ákvæði. Það er um þrír fjórðu þjóðarinnar miðað við kannanir Capacent Gallup seinustu ár.

Það eitt og sér að losna við þjóðkirkjuákvæðið úr stjórnarskrá veldur ekki aðskilnaði ríkis og kirkju. Kirkjan hefur verið stofnanavædd of mikið seinustu áratugi til þess að það nægi. Það er hins vegar kristaltært að afnám þjóðkirkjuákvæðisins er fyrsta og stærsta skrefið í átt að aðskilnaði. Að sama skapi er ljóst að yrði slíkt ákvæði í nýrri stjórnarskrá væri hætt við að núverandi ástand, sem mikill meirihluti þjóðarinnar er á móti, viðhéldist lengi.

Það er leiðinlegt að sjá menn reyna að slá ryki í augu kjósenda. Spurningin sem liggur fyrir er einföld. Þjóðkirkjufyrirkomulagið á grundvöll sinn í stjórnarskránni. Standi vilji fólks til þess að ríki og kirkja verði aðskilin þá samþykkir fólk ekki þjóðkirkjuákvæði í nýrri stjórnarskrá.

Þeir sem telja eðlilegt að ríkið standi sérstakan vörð um velferð, völd og áhrif eins trúfélags, og mismuna þannig þeim sem ekki aðhyllast þær trúarskoðanir sem trúfélagið boðar, geta sagt já. Val okkar sem viljum að öll trúfélög standi á eigin fótum og viljum afnema forréttindastöðu þjóðkirkjunnar er einfalt; við segjum nei við ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá Íslands.


Þess grein var send á Fréttablaðið þann 1. október. En hún birtist ekki fyrren í gærmorgun, þann 9. október, kl 06, á vísir.is.

Egill Óskarsson 10.10.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Heiðrún Sveinsdóttir - 10/10/12 22:53 #

Af hverju eru allir að flækja málin ? Í mínum huga er þetta mjög einfalt.
Spurt er hvort þessi þrjú orð eigi að vera í Stjórnarskránni - evangelísk lútersk þjóðkirkja. Þeir sem segja NEI eru að byggja undir, styðja og styrkja 64. gr (2 og 3 mgr ) núverandi Stjórnarskrár eða 18. gr í tillögum Stjórnarráðs.
Þeir sem segja JÁ, þurfa að gera sér grein fyrir að í landinu eru amk 4 evalglísk-lúterskir söfnuðir sem þá ættu allir rétt á sams konar vernd og styrk frá ríkinu.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.