Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ríkiskirkjuáróður í útvarpinu

Séra Magnús Björnsson

Í vikulegum messum ríkiskirkjunnar á Rás 1 heyrir maður oft ekki einhverja andlega speki, heldur einfaldlega ríkiskirkjuáróður. Nýleg útvarpspredikun var fínt dæmi, þar sem messan var notuð til þess að breiða út ýmsum staðleysum um stöðu ríkiskirkjunnar.

Sýn ríkiskirkjunnar

Í útvarpspredikuninni sagði presturinn Magnús B. Björnsson þetta:

Sóknargjöld eru rekstrarfé safnaðanna, ríkið hefur tekið að sér innheimtu þessara félagsgjalda, um það gilda ákveðnir samningar milli ríkis og kirkju. Í kjölfar hrunsins fór ríkisstjórnin fram á við við kirkjuþing að taka þátt í niðurskurði á ríkisútgjöldum, voru sóknargjöldin sem eru í eðli sínu félagsgjöld, en ekki skattar, lækkuð, en nú hefur komið í ljós að sú lækkun var langt umfram lækkanir hjá ríkisstofnunum. # (byrjar ~31:00)

Magnús er auðvitað alls ekki einn um þessa sýn, margir aðrir starfsmenn ríkiskirkjunnar hafa komið með svipaðan málflutning [1]. Eins og svo oft áður, þá er þessi ríkiskirkjuáróður fullur af rangfærslum.

Ímynduð félagsgjöld

Það er rangt hjá Magnúsi að sóknargjöld séu “í eðli sínu félagsgjöld, ekki skattar”. Ég skil hugtakið félagsgjöld þannig að þar sé um að ræða pening sem félagsmenn borga til félags. Ég hef reynt að fá presta til þess að skilgreina *félagsgjöld, en þeir hafaverið ófúsir til þess.

Allir landsmenn, hvort sem þeir eru í trúfélögum eða ekki, borga tekjuskatt, og frá þeim peningum sem þannig safnast fá trúfélögin ákveðinn styrk frá ríkinu fyrir hvern meðlim. Þannig að það borgar enginn sérstakt sóknargjöld, og peningnum sem er útdeilt kemur frá öllum, ekki bara félagsmönnum ríkiskirkjunnar.

Ef ríkið myndi á morgun ákveða að taka upp nákvæmlega eins kerfi og sóknargjöld, en bara fyrir Vantrú, þá myndi ríkið einfaldlega styrkja Vantrú um 8.500 krónur árlega fyrir hvern skráðan meðlim í félaginu. Enginn félagsmaður Vantrúar þyrfti að borga neitt meira, heldur kæmi þessi upphæð einfaldlega úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þetta væru klárlega ekki félagsgjöld, ekki frekar en sóknargjöld.

Ímyndaður samningur

Önnur röng fullyrðing frá Magnúsi, og hann er heldur ekki sá fyrsti að segja þetta, er sú að um sóknargjöld “gilda ákveðnir samningar milli ríkis og kirkju”. Þegar þeir eru spurðir út í samningana, þá hafa ríkiskirkjustarfsmennirnir aldrei getað vísað mér á neinn ákveðinn samning, og ekki hefur mér sjálfum tekist að finna þennan “sóknargjaldasamning”.

Ástæðan fyrir því að ég leyfi mér að fullyrða að þessi samningur sé ekki til er sú að æðstu stofnanir ríkiskirkjunnar, þær stofnanir sem ættu að vita af tilvist svona samnings, tala eins og það sé enginn svona samningur til. Þetta stendur til dæmis í einni fundargerð kirkjuráðs:

Fram kom að nauðsynlegt væri að gera samning um sóknargjöld milli ríkis og kirkju. #

Á síðasta kirkjuþingi stóð þetta svo í ályktun fjárlaganefndar þingsins:

Fjárhagsnefnd beinir eftirfarandi til kirkjuráðs og biskups Íslands: 1. Að gerður verði formlegur samningur við ríkið um framtíðarskipan og innheimtu sóknargjalda. #

Kirkjuráð og fjárlaganefnd kirkjuþings vilja augljóslega að samningur verði gerður um sóknargjöld, af því að það er enginn þannig samningur til. Alþingi hefur þess vegna verið ófeimið við að lækka sóknargjöld eins mikið og því langar til, enda er um að ræða ósamningsbundinn ríkisstyrk til trúfélaga.

Lágt lagst

Það er nógu slæmt að þurfa að hlusta á útvarp allra landsmanna leyfa starfsmönnum ríkiskirkjunnar flytja einhliða áróður um forréttindastöðu ríkiskirkjunnar viku eftir viku, en enn verra er að um leið flytja prestarnir ósmekklegan áróður gegn trúleysingjum. Magnús endaði predikun sína á þessum orðum:

[Jesús] hnýtir saman guðstrú og náungakærleika. Hvorugt getur verið án hins.

Það myndi eflaust eitthvað vera kvartað ef hann komið með eins fullyrðingu, en í staðinn fyrir að segja að guðleysingjar gætu ekki borið kærleika til náungans, hefði hann fjallað um gyðinga eða samkynhneigða.

Ríkisútvarpið ætti til að byrja með ekki að vera að senda út frá helgiathöfnum trúfélaga, en á meðan það er gert þá ætti ríkisútvarpið að sjá til þess að útsendingartíminn sé ekki notaður til breiða út rangfærslur um stöðu ríkiskirkjunnar og að hann sé ekki notaður til að koma með ósmekklegar aðdróttanir í garð trúleysingja eða annarra. Ef ríkiskirkjan er ekki sátt við það, þá getur hún bara farið á Ómega.


[1] Þá er stór hluti af tekjum Þjóðkirkjunnar fólgin í sóknargjöldunum, sem eru félagsgjöld þeirra sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna. Ríkið innheimtir þau fyrir Þjóðkirkjuna sem og fyrir önnur trúfélög. Hvað sóknargjöldin varðar má geta þess að ríkið hefur ítrekað skert þau með einhliða lagasetningu frá því sem samið var um þegar núverandi fyrirkomulagi var komið á. # - ríkiskirkjupresturinn Gunnar Jóhannesson

Lögin um sóknargjöld nr. 91 1987 voru einnig mikilvæg fyrir kirkjuna og önnur trúfélög. Hins vegar hefur það gerst, sem ég óttaðist á sínum tíma, að ríkið hefur ekki staðið við samninginn á öllum sviðum. Mikið hefur til að mynda vantað upp á að ríkið skilaði allri innheimtunni undanfarin ár. # - ríkiskirkjupresturinn Örn Bárður Jónsson

Það sem hinsvegar hefur gerst er það, að ríkið hefur sem innheimtumaður haldið eftir sífellt stærri hluta sóknargjaldsins, sem þó er í raun ekkert annað en félagsgjald safnaðarmeðlimanna, en ekki fjárveiting á fjárlögum eins og sumir virðast hafa misskilið. # - ríkiskirkjupresturinn Gísli Jónasson

Nú blasir hinsvegar við, að við þetta hefur ekki verið staðið, heldur allir samningar brotnir og loforð svikin. Staðreyndin er sú, að skil ríkisins á innheimtum sóknargjöldum hafa verið skorinn þannig niður, að ríkið stendur trúfélögunum aðeins skil á tæplega tveimur þriðju þeirra sóknargjalda sem innheimt eru.# - ríkiskirkjupresturinn Gísli Jónasson

Hjalti Rúnar Ómarsson 23.08.2012
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan , Sóknargjöld )

Viðbrögð


Halldór L. - 23/08/12 09:20 #

Næsta skref er að bæta þessu bulli um sóknargjöldin í Ásborgarjátninguna, svo innmúrað virðist fólk þarna vera.


Bergþór - 26/08/12 08:15 #

Með tilvísun í fyrirsögn greinarinnar meira heldur en innihaldið. Hafið þið prufað að hlusta á Útvarp Latibær? Þar virðist trúboð, beint til barna, vera gegnum gangandi þema. Sýnir hversu illa sett kirkjan er þegar eina leiðin til að halda uppi félagatölunni er að heilaþvo börn með öllum mögulegum ráðum.


Sigurlaug Hauksdóttir - 27/08/12 16:05 #

Vígslubiskup hefur áhyggjur.... http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/08/27/vigslubiskup_spyr_hvort_thjodin_se_ad_tyna_kirkjunn/


Kristjan - 27/08/12 22:13 #

Ekki gleyma orðum kvöldsins og morgunbænum.


Jón Steinar - 08/10/12 23:00 #

Þegar sorgin ber að dyrum eða lífið bugar, þá er ekkert betra en að fara til messu og hlýða á guðsmann fjasa um innanbúðarmál fyrirtækisins sem hann vinnur hjá. Ekki verra ef hann leggur krók á mál sitt til að gera lítið ur öðrum trúarbrögðum og trúleysi. (sem er sami hluturinn samkvæmt bókum Lúterskunnar)

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?