Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Það geta ekki allir verið gordjöss

Páll Óskar á Gaypride

Síðasta vika var ekki tíðindalaus í trúarheimum Íslands. Lesendur Vantrúar hafa eflaust tekið eftir ýmsu sem gekk á en hugsanlega misst af einhverju. Hérna er örlítið yfirlit.

Hýra auglýsingin

Daginn sem Gleðigangan fór fram birtist nafnlaus auglýsing gegn samkynhneigð í Fréttablaðinu. Mörgum fannst auglýsingin mjög ósmekkleg og gekk ríkiskirkjuprestur svo langt að kalla þetta “hatursræðu”. Auglýsingin var þó nánast einungis tilvitnun í Nýja testamentið.

Auglýsingin úr Fréttablaðinu” style=”border: 1px solid gray;

Síðar kom í ljós að Rússneska rétttrúnaðarkirkjan á Íslandi var á bak við auglýsinguna og ætti það ekki að koma neinum á óvart að það trúfélag, eins og flestar kirkjur heimsins, telji samkynhneigð vera synd og óeðli.

Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á DV skrifaði fína grein um þessa úreltu siðfræði og fær hún okkar bestu meðmæli.

Það er rétt að minna á að fyrir sex árum birtist “afhommunarauglýsing” í Morgunblaðinu daginn sem Gleðigangan fór fram.. Að þeirri auglýsingu stóðu fjölmargir aðilar, þ.m.t Hvítasunnukirkjan, Vegurinn, Krossinn, Hjálpræðisherinn og auðvitað Rússneska réttrúnaðarkirkjan.

Siðmennt

Á meðan nokkrir kristnir menn vöktu athygli á því að bókin þeirra sé á móti samkynhneigðum fór fram fyrsta gifting samkynhneigðra hjá Siðmennt. Hörður Torfason sá um athöfnina og við óskum hjónakornunum til hamingju.

Siðmennt á hrós skilið fyrir að hafa alltaf staðið með samkynhneigðum í réttindabaráttu þeirra. Hjá Siðmennt hefur aldrei þurft að ræða sérstaklega hvort einn hópur eigi að vera réttlægri en annar. Það hefur verið grátlegt að horfa upp á ríkiskirkjuna, sem rekin er fyrir skattfé okkar allra, vandræðast með málefni samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks.

Forseti kristinna manna?

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup ríkiskirkjunnar var í viðtali á Síðdegisútvarpi Rásar 2. Þar sagði hún þetta:

Mér fyndist það óeðlilegt að á meðan skipan mála er eins og hún er í dag að forsetinn væri utankirkjumaður eða -kona. Mér fyndist það óeðlilegt." #

Okkur í Vantrú þykir núverandi skipan mála óeðlileg. Stöðu kirkjunnar þarf að breyta svo biskupinn og aðrir sjái að sér, þessi skoðun biskups er góð vísbending um það. Vonandi breytist stjórnarskrá Íslands innan tíðar .

Vantrú grætir Jesú

Nýi biskupinn var ekki eini ríkiskirkjubiskupinn sem kom með undarlegar fullyrðingar. Á sunnudag var vígður nýr vígslubiskup hjá ríkiskirkjunni.

Solveig Lára flutti ræðu við þetta tækifæri og fræddi okkur um að Jesús hefur tilfinningar. Jesús á það til að gráta enda er hann þessi mjúka týpa. Samkvæmt Solveigu grætur Jesús yfir ýmsu óréttlæti, hörmungum og þjóðarmorðum svo eitthvað sé talið, en við í Vantrú grætum hann líka:

...., en [Jesús] grætur yfir því að til séu öfl í þjóðfélaginu okkar sem vilja halda kærleiksboðskap hans frá börnum og skólastarfi. #

Það verður að segjast eins og er að hæfileikar klerka til að vita nákvæmlega hvað Jesú finnst um allt á milli himins og jarðar kemur sífellt á óvart. Ætli við verðum ekki að hætta að reyna að koma í veg fyrir ágang kirkjunnar að skólabörnum fyrst það grætir Jesú, ekki viljum við leggja blessaðan Krist í einelti.

Stundakennarinn og doktorsgráðan

Fréttir bárust af því að stundakennara við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands hefði verið sagt upp störfum eftir að í ljós kom að hann hafði ranglega haldið því fram að hann væri með doktorsgráðu í guðfræði. Miklar vangaveltur fóru af stað í kjölfarið og allir stundakennarar við deildina lágu undir grun. Í ljós er komið að um er að ræða dr. Kristinn Ólason, fyrrverandi rektor Skálholti. Ein spurning vaknar. Hafði enginn við Guðfræðideild áhuga á að lesa þessa doktorsritgerð?

Við segjum annars bara pass.

Ritstjórn 14.08.2012
Flokkað undir: ( Leiðari )

Viðbrögð


Fritz - 14/08/12 13:29 #

"Titelmissbrauch" er orð sem Kristinn hefði mátt læra meðan hann stundaði doktorsnám sitt í Freiburg en honum hefur e.t.v. ekki unnist tími til þess. "Titelmissbrauch" hefur nefnilega réttarfarslegar afleiðingar í þýskumælandi löndum.


Einar E (meðlimur í Vantrú) - 19/08/12 16:08 #

Þetta er flottur hópur þarna í guðfræðideildinni.

Kannast við þetta nafn á einhverjum undirskriftalista sem ég rakst á um daginn. Þá einmitt titlaði viðkomandi sig sem doktor.

Hvað varðar "auglýsingu" rétttrúnaðarkirkjunnar að þá er tímasetningin ljót og einungis sett fram til að særa. Á mjög erfitt með að skilja svona, en ég er auðvitað ekki trúaður. Það gæti verið málið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.