Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúleysingjum fjölgar

Mannhaf

Niðurstaða skoðanakönnunar sem framkvæmd var í 57 löndum er að þeim sem segjast trúaðir hefur fækkað um tíu prósentustig. Það vekur athygli okkar að Ísland er á meðal þeirra landa þar sem trúuðum fækkar mest.

Ísland í skoðanakönnuninni

Spurt var “Óháð því hvort þú sækir trúarþjónustu eða ekki, myndir þú segja að þú væri trúuð manneskja, ekki trúuð eða sannfærður trúleysingi?”. Af 852 Íslendingum sem svöruðu spurningunni sögðust 57% vera trúaðir, 31% ekki trúaðir og 10% að þeir væru sannfærðir trúleysingjar. 2% aðspurðra vildu ekki svara.

Í rannsókninni er bent á að í eins könnun frá árinu 2005 hafi 74% Íslendinga sagst vera trúaðir og því hefur þeim sem segjast vera trúaðir fækkað um 17 prósentustig og hlutfallslega um tæplega fjórðung.

Vert er að leggja áherslu á að hér er spurt hvort fólk sé trúað, ekki kristið. Í rannsókn á trúarlífi Íslendinga frá 2004 sögðust 69.3% landsmanna vera trúaðir. Af þeim sögðust 76.3% játa kristna trú. Ef við höldum okkur við það hlutfall, sem alls ekki er gefið, getum við dregið þá ályktun að þeir sem játa kristna trú séu í dag um 43% landsmanna.

Meirihlutagoðsögnin

Hér á Vantrú höfum við áður bent á að fullyrðingar hinna ýmsu talsmanna ríkiskirkjunnar eða kristni, um að í kringum 90% Íslendinga séu kristnir, eigi ekki við rök að styðja.

Kirkjunnar menn hafa hins vegar alls ekki alltaf komið með svona fáránlega háa tölu. Í apríl 1988 ræddi Tíminn við þáverandi guðfræðiprófessorinn Björn Björnsson um ítarlega skoðanakönnun sem hann hafði gert á trúarlífi Íslendinga, þetta sagði hann meðal annars þá:

Það þýðir ekki að horfa á töluna 93%, sem er hlutfall þeirra sem eru félagarí þjóðkirkjunni. Ég tel að það sé í námunda við rétta niðurstöðu að segja að um 35-40% þjóðarinnar játi kristna trú. Það er því greinilegt að kirkjan hefur verk að vinna. Ég álít að þarna sé mikið verk framundan í því að boða fagnaðarerindið til þeirra sem ekki treysta sér til að merkja við í könnuninni að þeir játi kristna trú. #

Það læðist að manni sá grunur að ástæðan fyrir því að starfsmenn ríkiskirkjunnar tali um 90% sé að það sé erfiðara að réttlæta forréttindastöðu ríkiskirkjunnar ef þeir viðurkenna að minnihluti þjóðarinnar er kristinnar trúar.

Það verður því gaman að sjá hvort að starfsmenn ríkiskirkjunnar muni í kjölfar þessara nýjustu rannsóknar lækka töluna eitthvað þegar þeir tala um meinta kristni Íslendinga.

Trúleysingjum fjölgar

Um þriðjungur landsmanna segist ekki trúaður og að auki segist tíundi hver Íslendingur vera sannfærður trúleysingi. Það er ljóst að trúleysingjar, hvort sem þeir eru sannfærðir eða bara ekki trúaðir, eru ekki jaðarhópur á Íslandi. Það væri óskandi að ráðamenn fari að taka mið af því og hætti að taka mark á dylgjum ríkiskirkjufólks.

Ritstjórn 13.08.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Valur Arnarson - 13/08/12 13:47 #

Hvað er að vera sannfærður trúleysingi?

Heldur sá sem er sannfærður trúleysingi einhverju fram? Staðhæfir viðkomandi eitthvað?

Skýrir viðkomandi samband sitt við alheiminn sem hann þrífst í?

Hverjar eru forsendur þessara skýringa?

Sannfært trúleysi veldur mér heilabrotum. Hvernig getur maður verið sannfærður um að efnisheimurinn sé allt sem sé til og ekkert sé til utan hans? Á hverju er sú sannfæring byggð? Er hún byggð á reynslu (upplifunum) eða er hún byggð á einhverju öðru og þá hverju?


Stefán Páll - 13/08/12 14:40 #

Sannfærður trúleysingi er væntanlega sá sem er sannfærður um þau trúarbrögð sem fyrirfinnast í dag (eða a.m.k. þau sem viðkomandi hefur kynnt sér) standist ekki neina skoðun og að hann/hún leggi ekki neinn trúnað á þau.

Viðkomandi þarf ekki að "skýra samband sitt við alheiinn sem hann þrífst í" - hvað sem það nú er. Það er ekki þannig þannig að trúarbrögðin innihaldi bestu mögulegu skýringuna á tilurð alheimsins eða "samband einstaklinga við hann". Trúarbrögð eru ekki rannsóknartilgáta sem einhverjum öðrum er ætlað að afsanna.Í guðanna bænum hættu að reyna að koma sönnunarbyrði á þessum bjánlegu kenningum helgirita yfir á þá sem trúa þeim ekki.

Trúleysingjar byggja sýnar skoðanir á reynslu og almennri skynsemi. Það sem ekki er hægt að sjá, snerta, heyra eða sannreyna á nokkurn hátt - er mjög líklega ekki til.

Á tímum Hippocratesar voru flogaveikir taldir falla í guðlegan trans á meðan á flogunum stóð - Hippocrates er sagður hafa sagt þetta um þær bábiljur: "Menn telja flogaveiki guðlega, einfaldlega vegna þess að þeir skilja hana ekki. Ef þeir teldu allt guðlegt sem þeir skilja ekki - þá væru guðleg fyrirbæri óendanlega mörg. Við munum einhverntíma skilja hvað veldur flogaveiki og þá munum við hætta að telja hana guðlega. Eins mun verða með allt í heimi hér."


Einar Karl - 13/08/12 14:42 #

Valur,

Hefði ég verið spurður hefði ég túlkað hugtakið "sannfærður trúleysingi" sem það sama og "meðvitaður trúleysingi" þ.e. einhver sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að hann sé trúlaus og sé ekkert að velkjast mikið í vafa um það (myndi ekki skilgreina sig sem efahyggjumaður e.þ.h.)

Hann þarf auðvitað ekkert að hafa á hreinu "samband sitt við umheiminn".

Trú/trúleysi snýst hér í huga flestra um trú á einhverskonar æðri máttarvöld, GUÐ, sem er eitthvað MEIRA en sameinandi kraftur/kærleikur eða allsherjar manngæska, eins og útþynntustu guðsskilgreiningarnar hljóma, heldur Guð, eins og trúarbrögðin sem við helst þekkjum skilgreina.


Ómar Harðarson - 13/08/12 14:43 #

Sannfærður trúleysingi er sá sem hefur uppgötvað það af eigin rammleik eða í viðræðum við aðra að ekki er hægt að færa sönnur á goðmagn (hverju nafni sem það nefnist), og að goðmagnið sé óþarft til hvers kyns útskýringa á alheiminum, tilurð hans og gangverki (eðlis/náttúrulögmálum).

Trúleysingjar, sannfærðir eða ósannfærðir eru hins vegar ekki og þurfa ekki að vera vísindamenn. Trúleysingi getur því og hefur heimild, rétt eins og hinir trúuðu, til þess að vera fordómafullur og slá fram alhæfingum án þess að þurfa að sanna þær í hvert sinn.

Sannir vísindamenn eru hins alltaf opnir fyrir öllu sem getur hrakið kenningarnar og tilgátur. Þannig myndu verjendur þróunarkenningarinnar til dæmis vera tilbúnir að hugsa málin upp á nýtt ef steingerð kanínubein myndu finnast í maga risaeðlusteingervings.


Valur Arnarson - 13/08/12 15:02 #

Sæll Einar Karl,

Ég þakka gott svar. Þegar þú segir að [sannfærður] trúleysingi þurfi auðvitað ekkert að hafa á hreinu "samband sitt við umheiminn". Er þá hægt að segja að hann sé sannfærður? Velur hann ekki bara það sem honum finnst vera líklegast?

Hvaðan kemur sannfæringin?

Menn þurfa auðvitað ekki að hafa samband sitt við umheiminn á hreinu, en er ekki í góðu lagi að reyna að skýra það, með einhverjum hætti, hver svo sem skýringin er?

Skýringin þarf ekki að vera Guð, en trúin á hann er aðeins afstaða til hins óþekkta eða óþekkjanlega.


Valur Arnarson - 13/08/12 15:15 #

Stefán Páll,

Ég er ekki að reyna að koma "sönnunarbyrðinni" yfir á neinn, hvað sem það er nú. Enda tel ég fólk ekki vera skyldugt til þess að sanna lífsskoðanir sínar og hef aldrei haldið því fram. "Sönnunarbyrðin" er ekki á neinum þegar kemur að því óþekkta eða óþekkjanlega, að mínu mati.

Ómar Harðarson,

Þú segir að Goðmagnið sé óþarft til hvers kyns útskýringa á alheiminum, tilurð hans og gangverki (eðlis/náttúrulögmálum).

Ef afleiðing þarf ekki orsök væri hægt að segja að fullyrðing þín sé rétt. Það er ekki svo í mínum heimi. Það væri hins vegar merkingalaust fyrir þig ef ég myndi spyrja þig að því hvað hefði verið á undan miklahvelli því það geta ekki fengist neinar mælanlegar upplýsingar um það. Því erum við á sama stað, þ.e. við vitum að við vitum ekki neitt.

Ég er sammála þér að öðru leiti.


Einar Karl - 13/08/12 15:35 #

Valur,

nú náttúrulega veit ég ekki almennilega hvað sá hafði í huga sem samdi spurninguna með hugtakinu "sannfærður", en í öllu falli vakti fyrir honum að geta flokkað sér annars vegar þá sem skilgreina sig sem "ekki trúaður" og hina sem frekar vilja kalla sig (sannfærða) trúleysingja. Í sjálfu sér er kannski ekki raunverulegur munur á að vera "ekki trúaður" og "trúleysingi" en vissulega stigsmunur/blæbrigðamunur.

Þetta er spurning um sjálfsmynd hvers og eins hvernig maður kýs að skilgreina sig.

Sannfæringin - eins og ÉG skilgreini fyrir sjálfum mér - snýst fyrst og fremst um að það sem ÉG upplifi sem Guðshugtak þeirra trúarbragða sem í kringum mig eru, er alveg óþarft í minni heimsmynd. Ég hef velt þessu fyrir mér og er kominn að niðurstöðu sem ég er sáttur við. "Sannfærður" er vissulega sterkt orð en ég túlka það hér sem svo að ég er ekki í neinum vafa um mína lífsafstöðu í þessum efnum.

Ég er svona jafn sannfærður um að einhvers konar vitur og almáttugur Guð sé ekki til (eins og t.d. er skilgreindur í Biblíunni) og að jólasveinninn sé ekki til. Þetta er ekkert flóknara í mínum huga.


Valur Arnarson - 13/08/12 15:57 #

Sæll Einar Karl,

Auðvitað er þetta rétt hjá þér, við vitum náttúrulega ekki hvað vakti fyrir þeim sem lagði spurninguna fram. Þetta með sannfærða trúleysið vakti aðeins áhuga minn :-)

Mér finnst eins og þú sért að segja að Guð sem skilgreindur er í trúarbrögðum sé óþarfur, og spurningin sem þú lagðir fyrir þig á ákveðnum tímapunkti var þá væntanlega: Er ekki slíkur Guð óþarfur? Og svarið var væntanlega: Já. Og þaðan kemur sannfæringin. Er ég að skilja þig rétt?

Við þurfum þá fyrst að athuga hvort einhver skilgreining á Guði sé til staðar og ef svo er, hvort skilningur okkar á skilgreiningunni sé réttur eða sanngjarn í ljósi hugtaksins. Þessi leit gæti leitt okkur að þeirri niðurstöðu að Guð stæði ofar sköpun sinni og ofar mannlegu mati og skilningi, en það þyrfti ekki að leiða okkur að neinni annari niðurstöðu en þeirri sem þú komst að . Spurningin yrði samt alltaf, eftir sem áður, sú sama, þ.e. þurfum við þannig guð?

"Þannig guð" er nauðsynlegur ef skoða á alheiminn í sambandi við það sem nefnt er "tilgangur". Ef þannig tilgangur er ekki nauðsynlegur, er Guð ónauðsynlegur, þ.e. ef reynsla okkar af honum er hvort eð er engin.

En getur trú okkar á yfirnáttúrulega veru verið raunveruleg án reynslu? Erum við þá ekki bara með ákvörðun sem hægt er að breyta eftir henntugleika? Er hægt að segja að það sé trú?

Varðandi samlíkinguna þína með jólasveinin er vert að athuga eftirfarandi: Hvernig skýrir jólasveinninn samband okkar við alheiminn sem við lifum í?

Með góðum kveðjum,


Guðjón Eyjólfsson - 13/08/12 23:00 #

Maður sem er sannfærður trúleysingi er viss um að trúleysi sé skyndamleg og sönn afstaða. Sannfæring er tilfinningalegs eðlis þó hún geta byggst á skynsamleg athugun en það er allur gangur á því hvort svo er eða ekki. Ég er sammála pistlahöfunum um að þetta eru mjög áhugaverðar niðurstöður. Afstaða íslendinga í trúmálum er greinilega að breytast.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 14/08/12 16:24 #

Í tilefni að umræðunni um orðaval þessarar könnunnar þá býð ég ykkur þennan skilning á orðavalinu:

Ég er nokkuð sannfærður, af öllum þeim gögnum sem ég hef séð sem hrekja tilvist og fjarveru sönnunargagna sem styðja hana, að jólasveinninn er ekki til.

Það mætti því segja, ef fólk nota tungumálið þannig, að ég sé sannfærður jólasveinaleysingji.

Það sama á við um ljósálfa, einhyrninga og jólaköttinn. Ég er því líka sannfærður ljósálfaleysingji, sannfærður einhyrningaleysingji og sannfærður jólakattarleysingji.

Ég er enn fremur sannfærður, af gögnum þeim sem ég hef séð og skoðað, að guðir og goð heimsins í formi hvers kyns trúarbragða séu efnislega jafn röng og ofantilgreindar verur.

Ég er því, ef fólk vil halda áfram að nota tungumálið á þennan hátt, sannfærður guðleysingji og trúleysingji.

Með þessum skilningi á orðanotkuninni ætti þetta vonandi að hætta að vera eitthvað atriði og þá mætti ræða aðalatriði könnunarinnar, sem er hvernig hlutirnir hafa verið að breytast hratt undanfarið.


Valur Arnarson - 15/08/12 08:41 #

Sæll Hjörtur,

Þetta er ágætt útskýring hjá þér fyrir utan þetta atriði hérna:

Ég er enn fremur sannfærður, af gögnum þeim sem ég hef séð og skoðað, að guðir og goð heimsins í formi hvers kyns trúarbragða séu efnislega jafn röng og ofantilgreindar verur.

Nú eru sjálfsagt einhverjir sem trúa á "efnislega guði" og ef svo er þá er sú trú náttúrulega jafn fáránleg og allt sem þú nefndir í færslunni. En hvað gildir þá um guði sem eru án efnis? Sem eru ekki það sem efnisheimurinn er? Sem eru rýmislausir, tímalausir, ekki orka og ekki efni? Erum við þá ekki með eitthvað annað í höndunum en jólasveina, ljósálfa, einhyrninga og jólaköttinn. En að mér vitandi eru öll þessi fyrirbæri einmitt háð einhverju af því sem efnisheimurinn er háður fyrir utan það að ekkert af þessum fyrirbærum útskýrir samband mannsins við alheiminn sem hann þrífst í.

Þú verður líka að athuga að um hið óþekkta og óþekkjanlega fást ekki og munu aldrei fást nein mælanlega gögn, því er absúrt að tala um einhver gögn í þessu samhengi. Ef að, hins vegar, afstaða þín til hins óþekkta og óþekkjanlega er sú að ef þú þekkir það ekki þá sé það ekki til, eða þurfi ekki að vera til - þá ert þú væntanlega að útiloka alla nálgun við það.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/08/12 09:21 #

Gvuðinn þinn er efnislegur samkvæmt trúarbrögðum þínum. Hann eignaðist barn með efnislegri konu. Efnislegt barn sem var efnislega hengt á kross fyrir syndir okkar efnislegra manna.

Um hið óþekkta getum við ekkert sagt Valur. Það er alveg út í hött að tala um að hið óþekkta sé almáttugur, algóður og alvitur gvuð.

N.b. í hugum okkar sem ekki trúum á tilvist þessa gvuðs þíns er hann algjörlega óefnislegur - einungis til í hugum manna.


Einar Karl - 15/08/12 09:25 #

Valur,

auðvitað gæti verið að margir trúi á Guð sem standi "ofar sköpun sinni og ofar mannlegu mati og skilningi". Eða óefnislegan Guð. Hvernig svo sem sá Guð á að geta haft einhver áhrif á efnislegan heim.

Þetta er eflaust ein skýring á því af hverju þrátt fyrir allt 57% þjóðarinnar segjast "trúuð".

En hin 43% fólks sjá ekki að heimsmyndin verði skýrari eða rökréttari með efnislegum eða óefnsilegum guði.

Þú segir: "Þannig guð" er nauðsynlegur ef skoða á alheiminn í sambandi við það sem nefnt er "tilgangur".

Ég skil þetta ekki. Ég þykist ekki vita hver sé tilgangur alheimsins. Þarf að vera einhver tilgangur? Hver er tilgangur smá-plánetunnar Plútó?

Mér finnst svar þitt jafn skýrt og endanlega "svarið" í HGTTG, sem var 42.


Valur Arnarson - 15/08/12 09:36 #

Sæll Matti,

Ekki ætla ég að standa í stælum við þig, en mér sýnist innlegg þitt bjóða uppá það. Ef þetta er þinn skilningur á "trúarbrögðum mínum" þá hefur það svo sem enga merkingu, nema auðvitað fyrir þig.

En þegar þú segir:

Um hið óþekkta getum við ekkert sagt Valur.

Þá er það einfaldlega rangt, hins vegar þarf innihald þess sem við höfum að segja ekkert endilega að hafa neina merkingu fyrir þá sem á hlusta. Ég sé t.d. að það sem ég hef að segja um hið óþekkta hefur litla merkingu fyrir þig. Ekkert meira svo sem um það að segja.


Valur Arnarson - 15/08/12 09:41 #

Einar Karl,

Þú segir:

Ég skil þetta ekki. Ég þykist ekki vita hver sé tilgangur alheimsins. Þarf að vera einhver tilgangur?

Nei, það þarf ekki að vera neinn tilgangur, enda sagði ég líka:

Ef þannig tilgangur er ekki nauðsynlegur, er Guð ónauðsynlegur


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/08/12 10:08 #

Þá er það einfaldlega rangt, hins vegar þarf innihald þess sem við höfum að segja ekkert endilega að hafa neina merkingu fyrir þá sem á hlusta

Þessi umræða er fyrir löngu komin út í vitleysu og hefur lítið með upphaflega efnið að gera.

Í þessari tilvitnun sést munurinn á þankagangi okkar. Ég sé ekki mun á því að við getum ekkert sagt um hið óþekkta og því að eitthvað sé hægt að segja en það hafi kannski enga merkingu í huga þeirra sem hlusta. Hið seinna er einfaldlega útúrsnúningur.

Ég get alveg sagt að hið óþekkta sé spliff donk og gengja en ég er ekki að færa því neina merkingu með því að segja það. Alveg eins og þú bætir engu við hugmyndir okkar um tilurð alheimsins með því að vísa í hugmyndir þínar um yfirnáttúrulega veru sem allt bjó til.


Valur Arnarson - 15/08/12 10:27 #

Sæll Matti,

Takk fyrir að laga athugasemdina mína, ég ruglaðist eitthvað í blockquote :-)

Umræðan þarf ekkert að vera í neinni vitleysu. Við höfum kannski nálgast skilning á grundvelli hvors annars, að verða "sammála" er ekki endilega neitt markmið í sjálfu sér.

Annars þakka ég bara fyrir gott spjall.


avs - 12/02/13 16:12 #

Trúleysingjasamtök eiga ekki upp á pallborðið hjá mér vegna virðingarleysis svo margra þeirra gagnvart fólki af öðrum þjóðfélagshópum. Leiðtogar margra trúleysingjasamtaka og sérstaklega trúleysingjasíðna á Facebook og víðar , lýta svo á að það sé þeirra réttur en einskis annars að beita aðra hvaða framkomu sem er og sýna öðrum ærumeiðingar að vild.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/02/13 22:15 #

Þakka þér viðlitið "avs". Ég verð þó að segja að ég hef ekki orðið var við það viðhorf hjá neinum að hann/hún/hen hafi einkarétt á einhverskonar framkomu. Veit hinsvegar að margir aðhyllast þá skoðun að maður þurfi ekkert endilega að bera "virðingu" fyrir skoðunum fólks en manni beri skylda til að vera málefnalegur. Þ.e. halda sig við umræðuefnið og taka á málefnum en ekki fólki. Ef ég mætti annars spyrja þig útí eitt sem mér þykir mikilvægt að sé á hreinu milli okkar ef hægt á að vera að ræða um þetta af einhverju viti. Hvað felst í því, að þínu mati, að bera virðingu fyrir fólki?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.