Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Guðslaun

Monníngar

nýlega vakti DV athygli á því að prestar ríkiskirkjunnar eru með hærri grunnlaun en læknar. Nú má vissulega deila um hversu raunhæfa mynd af eiginlegum tekjum manna svona grunnlaunasamanburður gefur en prestar og stór hluti lækna hefur talsverðar tekjur umfram grunnlaun. Læknar fyrst og fremst vegna vakta- og vinnuálags og prestar vegna ýmissa athafna sem fylgja starfi þeirra (en eru þó ekki innifaldar í launagreiðslum af einhverjum ástæðum).

Það er allavega ljóst að einstaklingar í báðum þessum stéttum geta haft góðar tekjur, en lesendur Vantrúar þurfa varla að velta því lengi fyrir sér hvor stéttin vefritið telur betur komna að sínum launum.

En það sem vakti athygli mína voru ummæli prests nokkurs sem sá sig tilneyddan til þess að taka upp hanskann fyrir kollega sína í athugasemdakerfi dv.is við þessa frétt. Þar hallaði talsvert á prestana og ríkiskirkjuna og því kannski ekki óeðlilegt að einhver úr þeim ranni tæki þátt í samtalinu og talaði svolítið inn í aðstæðurnar, eins og þeim er svo tamt.

Hin vonda Vantrú

Hins vegar brá svo við að það helsta sem þessi prestur, séra Gylfi Jónsson heimilisprestur hjá Öldrunarheimili Akureyrarbæjar, hafði fram að færa voru fullyrðingar um að ríki og kirkja hefðu verið aðskilin árið 1997 og að í athugasemdakerfi dv.is væri komið fram félagatal Vantrúar.

Hvað varðar fyrra atriðið þá þarf nú varla að fjalla mikið um svoleiðis vitleysu. Líklega er nóg bara að benda aftur á þessa góðu upptalningu á ástæðum þess að ríkiskirkjan er ennþá ríkiskirkja. Hitt atriðið finnst mér hins vegar áhugaverðara.

Presturinn virðist telja að þeir sem láti í ljós hneykslun sína á háum tekjum presta miðað við lækna og gagnrýni ríkiskirkjuna hljóti að vera félagar í Vantrú. Nú er það vissulega rétt að við öfgafólkið í þessu litla félagi höfum verið fleinn í holdi kirkjunnar í gegnum tíðina en mikið mega menn búa í háum og skínandi fílabeinsturnum til þess að halda að ósætti við ríkiskirkjufyrirkomulagið og sjálftökusamninginn frá 1997 sé bundinn við tæplega 200 manna sjálfboðaliðafélag. Reyndar var það svo að þegar Gylfi gaspraði um félagatal Vantrúar var heill einn meðlimur félagsins búinn að tjá sig í athugasemdum við fréttina.

Sært ljón

Ríkiskirkjan er í vörn þessi misserin. Þar innandyra vita menn ekki alveg hvernig þeir eiga að taka á þeirri réttmætu gagnrýni sem á henni hefur dunið. Þegar prestar hennar láta svo lítið að taka þátt í umræðum líkt og þeirri í athugasemdakerfi dv.is gera þeir það með þjósti, skætingi og útúrsnúningum.

En næsta haust mun að öllum líkindum fara fram umræða um raunverulegan aðskilnað ríkis og kirkju þegar ríkisstjórnin mun leggja nokkrar spurningar um tillögur stjórnlagaráðs fyrir þjóðina. Við skulum ekki vanmeta ríkiskirkjuna í þeirri baráttu. Hún á nægan pening og innan hennar raða eru klárir spunamenn.

Og eins og frétt DV um tekjur presta sýna þá hafa þeir ríkra hagsmuna að gæta. Fólk lætur ekki frá sér forréttindi baráttulaust, hvorki prestar né aðrir.

Egill Óskarsson 01.08.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 01/08/12 10:49 #

Það er eitt að prestar hafi ansi há laun, sérstaklega miðað við opinbera starfsmenn. Berið laun presta saman við laun leik- og grunnskólakennara. Annað er að margir prestar virðast geta sinnt öðrum störfum á sama tíma og þeir fá greitt fyrir fullt starf við að boða hið heilaga orð. Það passar illa við þessu góð laun þeirra.

Er ekki tímabært að þetta sé skoðað? Telst almennt í lagi að ríkisstarfsmaður í fullu starfi sinni öðru starfi á sama tíma?

Auk þess finnst mér merkilegt að sumir prestar virðast einungis vera með strípuð laun samkvæmt þeim tölum sem gefnar eru til skatts en flestir ríkiskirkjuprestar hafa verulegar aukatekjur af ýmsum athöfnum. Er ekki að verða tímabært að ríkisskattstjóri kíki aðeins á prestana?


Óskar Þorseinsson - 01/08/12 14:26 #

Sjálfsagt hafa prestar allskonar aukatekjur, en af því að samanburðurinn var við lækna þá er sá samanburður sennilega prestum í óhag, þ.e.a.s. læknar hafa umtalsverðar aukatekjur og það sem meira er þeim er heimilt að stunda einkabisniss meðfram því að vera opinberir starfsmenn og ég veit ekki betur en skattrannsóknarstjóri sé t.a.m. byrjaður að skoða starfsemi lýtalækna sérstaklega vegna gruns um skattaundanskot. Við reiknum ekki með öðru en að öll laun presta séu gefin upp til skatts annaðhvot væri nú. Lægra launuðu stéttirnar eins og kennarar eiga yfirleitt ekki sama möguleika á aukatekjum. Svona er nú bara hinn grái veruleiki í okkar ágæta þjóðfélagi


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 01/08/12 14:37 #

Já, ég tek reyndar fram að það sé hægt að deila um réttmæti þess að bera saman grunnlaun.

Hins vegar þá sé ég ekki betur en að prestar og læknar séu í nánast sömu stöðu þegar kemur að því að stunda einkabissniss. Margir prestar nefnilega gera akkúrat það.

En pointið pabbi er líka svolítið að í það er miklu eðilegra að læknir, sem ber gríðarlega ábyrgð og vinnur mikla og erfiða vaktavinnu (sumir landsbyggðalæknar eru t.a.m. á bakvakt nánast allt starfsárið), sé á ansi fínum launum og hærri en gengur og gerist en prestur sem nota bene rukkar svo aukalega fyrir meirihlutann af þeirri þjónustu sem hann veitir einstaklingum.

En fyrst Matti talaði um leikskólakennara þá get ég upplýst að á grunnlaunum prests og leikskólakennara í 100% deildarstjórastöðu munar ca. 200.000 krónum.

En að því sögðu þá fjallar greinin svosem að minnstu leyti um launakjör. Það var frekar sú staðreynd að bara einn prestur tók þátt í þessari umræðu og hvernig hann hagaði sínum málflutningi. Prestar tala mikið um hvað þeir séu virkir í 'samtalinu' í samfélaginu en vandamálið er að þeir eiga aldrei í samtali við fólk.

Þeir eru annað hvort að predika, eða þá að það er einfaldlega á tali hjá þeim.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.