Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Venjulegar skoðanir Snorra í Betel

Hvítasunnukirkjan á Akureyri

Eins og flestir vita, þá hafa skólayfirvöld Akureyrarbæjar ákveðið að reka Snorra í Betel vegna skrifa hans um samkynhneigð. Snorri hefur nú birt uppsagnarbréfið og í því bréfi má sjá hvaða ummæli það voru sem kostuðu hann starfið. Sumir hafa gengið svo langt að kalla ummælin “hatursáróður”, en eru þessi ummæli Snorra eitthvað sérstaklega ókristileg eða óvenjuleg?

Ummæli Snorra

Fyrst skulum við skoða þau þrjú ummæli Snorra sem vitnað er í í uppsagnarbréfinu, hann fékk áminningu fyrir fyrstu ummælin, og var svo sagt upp störfum vegna þess að hin tvö voru meiðandi annars vegar í garð transfólks og hins vegar í garð samkynhneigðra:

[Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá] að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg. #


Næsta er: "að líkami okkar er musteri heilags anda". Þess vegna höfum við ekki rétt á að fara með líkama okkar eins og hverju okkar lystir. Því sá sem eyðir musteri heilags anda mun Guð eyða! Þannig gerum við okkur sek við Guð og tilskipun hans. "En líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottinn og Drottinn fyrir líkamann." (1.Kor 6: 13) Þannig verður hjónabandið heilagt því Guð út bjó það þar sem karl og kona ganga saman gegnum lífi. Ekki tveir karlar saman og ekki tvær konur saman heldur karl og kona. #


Nú hefur orðið leiðrétting fengið alveg nýja merkingu. Drengur sem fæddist "drengur" og hefur xy -kynlintning fer í kynskiptiaðgerð. Það er kallað "leiðrétting". Hvaða merkingarbrengl er virkilega komið í Íslenskt tungumál? Þetta tiltekna ætti að vera kynbreyting en ekki leiðrétting. Því frá náttúrunnar hendi er drengurinn karlkyns vera, hvað svo sem honum finnst eða við álítum. Guð gjörði þau karl og konu og þau tvö skulu bindast, stofna heimili og verða einn maður. Ef menn ætla síðan að breyta þessum atriðum og gera karl að konu og/eða konu að karli þá er um að ræða breytingu eða afbökun en ekki leiðréttingu. Sál mannsins er hvorki karlkyns- né kvenkynsvera nema af því að hún er í líkama karls eða líkama konu. Þetta er ekki hægt að leiðrétta heldur breyta og afbaka #

Satt best að segja finnst mér þetta vera frekar venjuleg ummæli frá manni sem aðhyllist hefðbundin viðhorf kristinna manna í þessum málaflokki. Þarna kemur lítið annað fram en að samkynhneigð er talin vera alvarleg synd, hjónabandið frá guði komið og einungis fyrir karl og konu og loks eiga kynskiptiaðgerðir ekki rétt á sér.

Ummæli annarra

Til að setja þessi í ummæli í samhengi þá er best að kíkja fyrst á langstærsta kristna trúfélagið í heiminum, kaþólsku kirkjuna, en meira en helmingur allra kristinna manna í heiminum eru meðlimir hennar. Sú kirkja, eins og flestir vita vonandi, boðar auðvitað sömu skoðanir. Ef maður skoðar til dæmis trúfræðslurit kirkjunnar, sem Jóhannes Páll II gaf út, þá stendur þetta um samkynhneigð:

Samkynhneigð vísar til sambands milli karla og milli kvenna sem með algjörum eða ráðandi hætti laðast kynferðislega að persónum af sama kyni. Það hefur tekið á sig ýmsar myndir í aldanna rás og á hinum mismunandi menningarsvæðum. Sálræn tilurð þess hefur að mestu leyti verið óútskýrð. Með því að styðjast við heilaga Ritningu, er lýsir samkynhneigðum athöfnum sem alvarlegri siðspillingu, hefur erfikenningin ávallt lýst því yfir að "samkynhneigð athöfn feli í sér eðlislæga röskun." Hún stríðir gegn náttúrulögmálinu. Hún útilokar að kynlífið kveiki nýtt líf. Hún sprettur ekki af sannri gagnkvæmri fyllingu, tilfinningalegri og kynferðislegri. Hana má ekki undir nokkrum kringumstæðum viðurkenna. #

Samkynhneigð er “alvarleg siðspilling”, “eðlislæg röskun” og á sér slæman uppruna (ekki sannri gagnkvæmri fyllingu og svo framvegis). Svipaðar skoðanir eru auðvitað mjög algengar hjá öðrum kristnum trúfélögum: rétttrúnaðarkirkjur hafa svipað viðhorf (eins og sést t.d. í fréttum af baráttu samkynhneigðra í Rússlandi) og sama má segja um flestar mótmælendakirkjur, þar með talið auðvitað kirkjur hvítasunnumanna.

Jafnvel innan kristinna trúfélaga, sem telja almennt að samkynhneigð sé ekki synd, má finna þessi viðhorf. Í ríkiskirkjunni var fráfarandi biskup á þessari skoðun. Eins og áður hefur verið bent á þá sagði hann eitt sinn að “[k]ristileg siðfræði leggur áherslu á, að kynlíf eigi eingöngu rétt á sér innan vébanda hins gagnkvæma, skuldbindandi persónusamfélags, þ.e. hjónabandsins.” og að “allt það, sem miðar að því að rífa kynlífið úr þessu samhengi [hjónabandi karls og konu], fordæmt út frá kristinni siðfræði,...”. Þessi ummæli eru vissulega gömul, þrjátíu ára gömul, en ég veit ekki til þess að hann hafi tjáð aðra skoðun á þessu síðan þá, og ég held að ástæðan sé sú að hann veit að þessar skoðanir munu valda ríkiskirkjunni skaða. Karl er svo örugglega ekki einn um að hafa þessa skoðun innan ríkiskirkjunnar, til dæmis voru að mínu mati að minnsta kosti tveir frambjóðendur í nýliðnum biskupskosningum á þessari skoðun og auk þess er þetta boðað í ákveðnu námskeiði sem ríkiskirkjan heldur [1].

Er kristilegt siðgæði hatur?

Hvað sem að mönnum finnst um réttmæti þess að reka Snorra, þá er ljóst að ummælin hans tjá skoðanir sem eru ríkjandi innan kristinnar trúar, og ef það á að flokka þau sem “hatursáróður”, þá eru flestar kristnar kirkjur haturshreyfingar. Auk þess væri erfitt að flokka Nýja testamentið ekki sem hatursáróður, þar er jú upptalning á syndurum þar sem er meðal annars að finna “kynvillinga”, “ræningja” og “þjófa”. Ef það á að reka Snorra fyrir þetta, þá hlýtur Akureyrarbær að vilja koma í veg fyrir að þannig málflutningi sé dreift til skólabarna.


[1] Frambjóðendurnir voru Gunnar Sigurjónsson og Þórir Jökull Þorsteinsson, námsskeiðið er Alfa-námskeiðið, í námsbókinni segir: „Hún [biblían] kennir að kynlíf utan hjónabands er rangt.“ bls 59 og seinna er sagt að hjónaband sé auðvitað á milli karls og konu, bls 178.

Hjalti Rúnar Ómarsson 25.07.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Trúlaus - 25/07/12 13:42 #

Þótt Snorri vilji setja málið þannig fram að honum hafi verið sagt upp aðeins vegna þess að hann skrifaði orðrétt upp úr biblíunni, eitthvað vers á bloggvef sinn að þá virðist þetta mál vera mun stærra en það.

Snorri braut siðareglur kennara ítrekað. T.d reglu nr. 11. Sem og fleiri atriði sem óþarfi er kannski að telja upp hér.

En annars tek ég undir það að þetta viðhorf er og hefur lengi verið innan þjóðkirkjunnar líka nánast án athugasemda þegar þegar sú kirkja hefur fengið að koma þjónum sínum inn í skóla með sinn boðskap. Og það stingur vissulega í stúf.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 25/07/12 15:44 #

Þótt Snorri vilji setja málið þannig fram að honum hafi verið sagt upp aðeins vegna þess að hann skrifaði orðrétt upp úr biblíunni, eitthvað vers á bloggvef sinn að þá virðist þetta mál vera mun stærra en það.

Snorri braut siðareglur kennara ítrekað. T.d reglu nr. 11. Sem og fleiri atriði sem óþarfi er kannski að telja upp hér.

Ef að Snorri sagði eitthvað á þá leið að hann hefði verið rekinn fyrir að "srifa orðrétt upp úr biblíunni", þá er það auðvitað rugl. Hann var rekinn fyrir að skrifa þessi ummæli sem ég birti, það kemur fram í uppsagnarbréfinu, af því að skólayfirvöldin á Akureyri segja að þau brjóti gegn alls konar reglum.


Stefán Páll - 26/07/12 16:03 #

Ekki er ég sérstakur aðdáandi Snorra eða trúfélags hans - en hef jafnvel meiri skömm á þessu PC-viðmóti sem á að troða ofan í kokið á okkur.

Að vísa í loðna grein í einherjum siðareglum (sem væntanlega eru ólögfestar) sem skýringu á uppsögn er eiginlega eins ódýrt og hægt er að hafa það. Eftir því sem ég kemst næst þá hljómar þessi grein sem Snorri á að hafa brotið gegn eitthvað á þessa leið: "Sýnir öðrum fulla virðingu í ræðu, riti og framkomu" - ég get ekki alveg slegið þessu föstu, þar sem innihaldi greinarinnar er ekki mikið haldið á lofti (afhverju ætli það sé?). Sé þetta rétt grein (efnislega a.m.k.) - þá þætti mér gaman að sjá hvernig á að vera hægt að fara eftir henni - hvernig sýnir maður öllum fulla virðingu í framkomu, ræðu og riti án þess að vera skoðanalaust vélmenni???

það er ekki nóg að verja rétt fólks til að halda á lofti vinsælum skoðunum - fólk hefur rétt á þessum heimskulegu og jafnvel fordómafullu líka.

Snorri gerir ekki mikið annað en að vitna í fáránlega bók - sem fjölmargir nota sem vegvísi um lífið - og draga ályktanir útfrá því sem þar stendur. Og þetta gerir hann í sínum frítíma á sínu bloggi - kemur skólanum ekkert við. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að þess að ákvörðunin hafi verið tekin á öðrum grunni.

Hvað er búið að reka marga kennara fyrir að kommenta um "helvítis útrásarvíkinga", "helvítis framsóknarmenn", "helvítis sjálfstæðismenn" eða "helvítis ríkisstjórnina" á undanförnum árum. Þykist nokkuð viss um að hægt sé að finna mýmörg slík ummæli (og veit um nokkuð mörg dæmi sjálfur)? Hef ekki heyrt af slíkri uppsögn.

Mér finnast skoðanir Snorra mjög ógeðfelldar og framsetningin litlu skárri (þó þetta sé nákvæmlega sami boðskapur og kemur frá mörgum ríkisprestum) - hið eina sem er ógeðfelldara en þær í þessu máli er að reka manninn fyrir óvinsælar (og arfavitlausar) skoðanir.

Ég myndi skammast mín ef ég ætti hlut að máli.

Að lokum er rétt að setja fyrirvara um að brottreksturinn gæti átt sér aðrar og eðlilegri skýringar og þá skal ég glaður éta þetta allt ofan í mig aftur - það bendir hinsvegar fátt til þess.


Eiríkur - 30/07/12 14:38 #

Ég verð eiginlega að vera sammála síðasta ræðumanni þar sem ég sé ekki almennilegan grundvöll fyrir uppsögninni. Þó svo, eins og kemur fram hér að ofan, að ég sé ósammála skoðunum Snorra að þá hefur hann jafn mikinn rétt á að tjá sínar skoðanir eins og allir aðrir. Þrátt fyrir það, þá fynnst mér að passa verði upp á tjáningarfrelsið, sama hversu asnalegt, heimskt, fordómafullt og þröngsýnt það er, því við hin þurfum líka á því að halda til að koma fram okkar skoðunum án þess að vera í hættu að missa vinnu eða sætta refsingu fyrir. Ég vitna bara í uppáhalds vin allra (USA) þarf sem Hæstiréttur þar sagði að Westboro Babtist Church ætti stjórnarskrár rétt (tjáningarfrelsi) til að mótmæla á þann hátt sem þeim sýnist - þó svo önnur ríki hafi sett lög sem segja til um hversu nálægt þau megar vera

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.