Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kæri Karl

Karl Sigurbjörnsson, fyrrum biskup

Það má halda því fram að fáir hafi átt jafn mikinn þátt í stofnun Vantrúar og þú, fráfarandi æðsti biskup ríkiskirkjunnar. Okkur þykir því rétt að kveðja þig og þakka samstarfið á liðnum árum.

Stofnun Vantrúar

Fyrir næstum tíu árum fluttir þú nýársávarp sem hét „Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi“. Þetta var hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem þú úthúðaðir trúleysi. Þú áttir enn eftir að tengja trúleysi við siðleysi og segja það vera „mannskemmandi” og „sálardeyðandi”.

Nýársávarpið var dropinn sem fyllti mælinn. Nokkrir trúleysingjar sem höfðu verið virkir í umræðum á netinu um trúmál og önnur hindurvitni ákváðu að það væri kominn tími til að svara þessum árásum og vefritið Vantrú var stofnuð.

Duglega unga fólkið

Öll þau ár sem að liðið hafa frá stofnun Vantrúar hefur þú því miður ekki viljað yrða á okkur. Þú hefur oft rætt í dylgjustíl um andstæðinga kristinnar trúar en í þau örfáu skipti þar sem þú ert klárlega að ræða um okkur þá er það á afskaplega jákvæðum nótum.

Á Kirkjuþingi 2009 sagðir þú til dæmis: „...og svo stöndum við líka frammi fyrir massívum áróðri ungs og dugmikils fólks sem gengur milli og hvetur fólk til og hjálpar því við að skrá sig úr Þjóðkirkjunni“. Þó þú hafir ekki notað V-orðið hryllilega varstu klárlega að ræða um okkur.

Í viðtali við danska fjölmiðilinn Kristeligt dagblad nefndir þú okkur á nafn og sagðir Vantrú vera „mjög, mjög, duglegt“, „sérstaklega árásargjarnt“ og „mestu áskorun“ Þjóðkirkjunnar.

Karl Sigurbjörnsson, fyrrum biskup

Ekki bara þú

Við höfum meðal annars sakað þig um hræsni um leið og við bentum á samkrull kirkjunnar og útrásarvíkinga, sagt þig vera í rugli og varpað andlegri örbigð til baka. Vantrú minnti á þátt þinn í biskupsmálinu sem sumir vildu gleyma (sérstaklega þú sjálfur) og dró fram dylgjur þínar um nasisma. Við vöktum athygli á því að prestar óttuðust um kjör þín og sýndum reglulega fram á að málflutningur þinn er andvarp frá liðnum tíma.

Út af öllu þessu gætu sumir fengið þá grillu í höfuðið að allt falli í ljúfa löð eftir að þú ferð frá og nýr biskup tekur við. Því miður er vandamálið ekki bara skoðanir eins manns.

Skoðanir þínar á trúleysi og trúleysingjum eru birtingarmynd aldagamalla viðhorfa kristinna manna. Þetta er alls ekki eitthvað sem þú, kæri Karl, fannst upp á. Sama gildir um skoðanir þínar á samkynhneigðum. Ríkiskirkjan barðist ekki gegn réttindum þeirra bara af því að þú sast í brúnni.

Sömuleiðis mun kirkjunnar fólk alveg örugglega enn keppast við að komast í leik- og grunnskóla. Það væri frekar undarlegt að ætla að kenna þér um allt það þó þú hafir auðvitað alltaf fagnað þegar ykkur tókst að laumast í skólana.

Nýr biskup, sama barátta

Þó að nýr biskup hafi verið kosinn, fyrsta konan sem gegnir því embætti, bendir fátt til þess að miklar breytingar verði. Nýji biskupinn virðist til dæmis vera á móti aðskilnaði ríkis og kirkju. Ríkiskirkjan mun örugglega áfram vilja kristna börn allra landsmanna og mun að sjálfsögðu enn vilja helling af pening frá ríkinu í krafti eigna sem kirkjan komst yfir meðan ekkert trúfrelsi var á Íslandi. Barátta okkar gegn forréttindum og ágangi ríkiskirkjunnar mun því halda áfram.

Karl Sigurbjörnsson, fyrrum biskup

Bless, bless Karl

Það er með einkennilegum trega sem við í Vantrú kveðjum þig. Það eru ekki miklar ýkjur að segja að þú hafir verið einn dyggasti og duglegasti “liðsmaður” félagsins. Þökk sé klunnalegum mistökum þínum hefur traust til ríkiskirkjunnar dvínað og mikið af fólki ákveðið að skrá sig loksins úr ríkiskirkjunni. Kannski var það óhjákvæmleg þróun en þú gerðir þitt til að hraða henni.

Þessum kafla í sambandi okkar er lokið. Eflaust átt þú eftir að tjá þig opinberlega um trúmál á næstu áratugum. Vantrú mun fylgjast með og svara þegar tilefni gefst.

Kær kveðja,
unga og dugmikla fólkið í Vantrú

Ritstjórn 22.06.2012
Flokkað undir: ( Íslenskir biskupar )

Viðbrögð


Heimir - 22/06/12 19:46 #

Hvaða álit hafið þið á öðrum trúarbrögðum á Íslandi en kristni?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 22/06/12 21:33 #

Þau eru líka ósönn. :S


Jóhann - 23/06/12 00:46 #

Fínasta grein. Ég vil þakka Karli persónulega fyrir. Hann á mjög stóran part af því að ég skráði mig persónulega úr Þjóðkirkjunni. Hann lék eiginlega aðalhlutverkið.

En nú svara ég bara fyrir sjálfan mig Heimir:

Ég hef sama álit á öðrum trúarbrögðum á Íslandi og annarsstaðar í heiminum. Þetta er ekki spurning um Ísland eða ekki Ísland enda væri kjánalegt að halda því fram að Jainismi/Búddismi/Ásatrú/Íslam væri ekki við hæfi hér en væri jákvætt annarsstaðar í heiminum.

“Exceptional claims demand exceptional evidence.” ― Christopher Hitchens


Stefán Páll - 23/06/12 00:52 #

Þau eru jafn vitlaus Heimir - munurinn er einungis sá að forvígismenn annarra trúarbragða eru ekki jafn duglegir við að tala niður til þeirra sem eiga ekki ósýnilega vini. Svo fer skattfé mitt ekki í vasann þeirra. Að öðru leyti er munurinn hverfandi.


Jórunn Sörensen - 26/06/12 11:13 #

Nú er kominn nýr biskup, kona, Agnes. Hún segir markmið sitt vera að fjölga í þjóðkirkjunni. Ég velt því fyrir mér hvernig það muni ganga? Hvaða aðferðum ætlar Agnes að beita? Mun fólk líta kirkjuna allt öðrum augum en áður?

Það er mikið fjasað um "öfgatrú" af ýmsum sortum. En hvað er það annað en öfgar að hópur manna klæðist í dýrasta skart og býr til hátimbraða, gyllta umgjörð um trú fólks?

Skynsemin á enn langt í land á Íslandi og því er baráttan fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju meira knýjandi en nokkru sinni fyrr.


Ómar Harðarson - 26/06/12 22:17 #

Spurning Heimis er að sumu leyti áhugaverð. Það má alveg kalla mig "lúterskan guðleysingja" eða "kristinn guðleysingja". Mitt guðleysi er nefnilega tilkomið og skilgreint í andstöðu við bábiljurnar sem ríkjandi eru hér á Íslandi.

Ég hef því ekki beinlínis sérstakt álit á öðrum trúarbrögðum en þeim lútersku, en er feginn því að þurfa ekki að taka bullið sem þau hin kalla trúarrit trúanlegt eins og reynt var að innræta hjá mér á unga aldri með því að ota að mér fölsuðum, gufuhreinsuðum og niðursoðnum biblíusögum.

Ég hefi hins vegar tekið eftir því að í heiminum eru margir aðrir guðleysingjar sem hafa þurft að takast á við fáfræðina og kreddur annarra trúarbragða og komist í meginatriðum að sömu niðurstöðu og ég. Það styður alhæfinguna sem ég hef fyrir löngu komist að með því að álykta út frá kenningum ríkiskirkjunnar: Trúarbrögð, hverju nafni sem þau nefnast, eru alltaf til óþurftar og standa alltaf í vegi skynsemi og framfara.


Óskar P. Einarsson - 27/06/12 10:41 #

Í Rússlandi og nágrenni er "rétttrúnaðarkirkjan", þannig að öll hin trúarbrögðin hljóta þá að vera..."röng"? Málið leyst :)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.