Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trú og skóli í Hafnafirði

Gideon

Fræðsluráð Hafnarfjarðar samþykkti í gær viðmiðunarreglur um samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarfélög. Fréttir af þessu voru dálítið ólíkar, RÚV hélt því fram að trúfélög megi heimsækja börn en mbl sagði að trúfélögum sé úthýst og dv upplýsir okkur að trúfélögin fái ekki aðgang að börnum. Tónninn í formanni fræðsluráðs er undarlegur í viðtali á Pressunni og ljóst að honum þykja reglurnar í Reykjavík ekki merkilegar.

Hvað var eiginlega að gerast?

Reglurnar

Reglurnar eru áþekkar þeim sem settar voru í Reykjavík í haust en þó er áhugavert að skoða muninn.

Fyrsta atriði er eins.

a) Hlutverk skóla er að fræða nemendur um ólík trúarbrögð og lífsskoðanir samkvæmt gildandi aðalnámskrá og námsefni.

Í næsta atriði er viðbót (feitletrað í texta) í reglum Hafnafjarðar.

b) Trúar- og lífsskoðunarfélög stunda ekki starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla bæjarins á skólatíma. Þetta á við allar heimsóknir í lífsskoðunar- og trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni. Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir. Ekki er átt við efni sem tengist fræðslu er stuðlar að menningarlæsi barna.

Um almenna kynningu gagnvart foreldrum og börnum á viðurkenndu barna- og æskulýðsstarfi trú- og lífsskoðunarfélaga skal fara líkt og með kynningu á hliðstæðum frístundatilboðum frjálsra félagasamtaka í skólastarfi.

Þetta er áhugaverð viðbót. Hvaða efni ætli sé verið að tala um þarna? Má t.d. ekki færa rök fyrir því að óskaplega margar bækur auki menningarlæsi. Gildir þetta um Kommúnistaávarpið svo dæmi sé tekið?

Atriði c) og d) eru samhljóma.

Það er merkilegt að Hafnafjörður sleppir alfarið næsta atriði úr reglum Reykjavíkur.

e) Þess verði gætt við allar heimsóknir til og frá grunnskóla vegna fræðslu um trú og lífsskoðanir að nemendur fylgist með en séu ekki þátttakendur í helgisiðum og athöfnum, og að þær séu ekki vettvangur fyrir innrætingu eða dreifingu á boðandi efni.

Í staðin hafa Hafnfirðingar hluta úr lið h) frá Reykjavík en með viðbót.

h) Sígildir söngvar, dansar, leikir og handíðir sem teljast hluti af gamalgrónum hátíðum og frídögum þjóðarinnar halda sessi sínum í árstíðabundnum skemmtunum og starfi leik- og grunnskóla, þar með taldir jólasálmar, helgileikir og heimsóknir í trúar – og lífsskoðunarfélög tengd hátíðum.

Ljóst er að leik- og grunnskólabörnum í Hafnafirði verður áfram smalað í kirkju um jólin. Draga má þá ályktun, út frá atriði e) frá Reykjavík sem Hafnfirðingar sleppa, að börn í Hafnafirði verði líklega látin taka þátt í helgisiðum og athöfnum í þeim heimsóknum og að þar muni fara fram innræting.

Liður f) um fermingarstarf er samhljóða.

Reglur Hafnafjarðar um áfallahjálp er ansi rýrar, sérstaklega í samanburði við sambærilega klausu hjá Reykjavík.

g) Ef áfall verður í leik- og grunnskólum er unnið samkvæmt samþykktri áfallaáætlun viðkomandi skóla.

Opnað fyrir Gídeon

Þegar ég las eftirfarandi klausu í upptalningu um boðandi efni þótti mér ljóst að hér var verið að opna fyrir aðgang Gídeon að skólabörnum í Hafnafirði.

Ekki er átt við efni sem tengist fræðslu er stuðlar að menningarlæsi barna.

Enda kom í ljós í annarri frétt að Gídeon mun áfram dreifa Nýja testamentinu.

Trúfélögin mega koma og heimsækja skólana. Þau mega ekki koma inn í skólana með boðandi efni en þau mega dreifa fræðsluefni. Það er því ekki verið að loka á Nýja testamentið og Gídeon-félagið getur enn dreift efni sínu með þeim hætti. Það er verið að opna á jafnræði á milli félaga,“ segir Sigurlaug Anna [fulltrúi Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði]

Jólaheimsóknir með ítroðslu

Það er einnig áhugavert að sjá sérstaka klausu sem tryggir að farið verði í kirkju á jólum, auk þess að fjarlægður hefur verið varnagli sem kemur í veg fyrir að í þeim heimsóknum verði börnin látin fara með bænir. Hvernig stendur á því? Hér virðast ríkiskirkjuprestar hafa fengið sitt fram, ekkert kemur í veg fyrir að börnin verði látin fara með bænir í kirkjuheimsóknum á skólatíma.

Niðurstaðan

Niðurstaðan er að trúfélög og lífsskoðunarfélög mega heimsækja börn í skóla en í þeim heimsóknum má ekki fara fram trúboð. Opnað er fyrir heimsóknir Gídeon og dreifingu Nýja testamentisins. Farið verður með börn í kirkju um jól í Hafnafirði og ekkert kemur í veg fyrir að þau verði látin taka þátt í trúarathöfum.

Sumir sjá tækifæri fyrir önnur trúar- og lífsskoðunarfélög en ríkiskirkjuna í þessu og jafnvel er talað um að Vantrú eigi að heimsækja skólana, a.m.k. sækja um það. Mér þykir ljóst að slíkt yrði aldrei samþykkt af skólunum en auk þess stangast það algjörlega á við okkar hugsjónir. Leik- og grunnskólar barna okkar eiga ekki að vera markaðstorg lífsskoðunarhópa, börn eiga að vera laus við áróður og það á ekki heldur að teyma þau í skipulagðar heimsóknir þar sem þau munu sitja undir áróðri.

Við ríkiskirkjufólk og Gídeongaura sem nú fagna áfangasigri í Hafnafirði hef ég bara eitt að segja: Í gvuðanna bænum, látið börnin í friði.

Matthías Ásgeirsson 12.06.2012
Flokkað undir: ( Gídeon , Skólinn )

Viðbrögð


Einar Maack - 12/06/12 10:04 #

Mér finnst allt í lagi að börnunum séu gefnar þessi trúarrit.

Það er fátt sem stuðlar meira að trúleysi en það að hafa lesið Biblíuna og/eða Kóraninn.


Einar Maack - 12/06/12 10:04 #

*gefin. Damn.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/06/12 10:12 #

Ég er ekki viss. Ég efast svosem um að börnin lesi Nýja testamentið þó þau fái hana að gjöf.

Gídeon er trúboðsfélag og því tel ég að félagið eigi ekkert erindi í grunnskóla.


gös - 12/06/12 10:35 #

Það er alþekkt að Gídeon-félagar noti tækifærið sem bókadreifingin færir þeim til að leiða börn í bæn eða boða þeim trú.

Þeir sem sem styðja Gídeon vilja meina að það séu dæmi um að menn geri þetta ekki, en mín tilfinning er sú að þetta sé reglan en ekki undantekningin.

Einnig hef ég skynjað að skoðun manna á hvað sé boðun sé mjög ólík (svo ekki sé sterkara til orða tekið). Þetta birtist oft í algjöru skilningsleysi sumra trúaðra á því hverju er farið fram á með svona reglum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/06/12 22:33 #

Að gefnu tilefni vil ég biðja fólk að halda sig við eitt nafn þegar það skrifar athugasemdir á Vantrú.


Svanur Sigurbjörnsson - 12/06/12 23:06 #

Biblían er boðandi efni en getur einnig talist til efnis sem eykur "menningarlegt læsi". Það mun því fara eftir kennara eða skólastjóra í hverjum skóla hvaða póll er tekinn í hæðina. Illa samið því að skilgreiningarnar eru óljósar.


Benjamín Ragnar - 15/06/12 06:51 #

Mig langaði að byrja á því að vekja athygli greinarhöfundar (Matthíasar) á því að það væri réttara í grein b) að hafa ekki feitletrað hlutann "Með boðandi efni ... prentmyndir og kvikmyndir." heldur einungis hafa feitletrað setninguna sem kemur þar á eftir "Ekki er átt við efni sem tengist fræðslu er stuðlar að menningarlæsi barna." Í reglum Reykjavíkur er stjarna við boðandi efni og neðst er nákvæmlega sama skilgreining að undanskyldu þessari síðustu setningu svo að fyrri hluti þess sem þú feitletraðir var í reglum Reykjavíkur. Auk þess gæti það verið sterkara fyrir tilgang þinn með greininni að hafa bara seinustu setninguna feitletraða í þeirri efnisgrein.

Að öðru leyti langaði mig bara að koma því að að reglan um áfallahjálp þarf síður en svo að vera rýr hjá Hafnafirði og er mjög illa rökstudd ályktun að fullyrða að svo sé án þess að skoða samþykktar áfallaáætlanir í skólum Hafnafjarðar. Það er jafn auðvelt og jafnmikið rökstutt að segja að g-liður Hafnarfjarðar er skýrari og betri þar sem að það vísar í samþykkta áfallaáætlun og áætlanir eru nú oft nákvæmari og skýrari en einhver 58 orð (já ég taldi).

Þið eruð mjööög mikið fyrir að draga hinar ýmsu ályktanir um hitt og þetta sem að oft eiga sér ekki góðan grundvöll í raunveruleikanum. Ég hef alveg haft gaman af ýmsu sem ég hef séð hér og stundum getað hlegið að þessu en vil bara benda á að það þarf ekki að hafa verið eitthvað leynilegt samsærismarkmið að með því að sleppa e-grein Reykjavíkur þá sé verið að tryggja það að börn þurfi að taka þátt í helgiathöfnum. Það geta vel verið aðrar ástæður fyrir því að Hafnarfjörður sá ekki þörf á því að hafa það í reglunum. Og já, stundum lítur þetta út fyrir að vera samsæriskenningar hjá ykkur (sérstaklega í þeim tilvikum sem að maður þekkir aðstæðurnar sem þið talið um jafnvel betur en þið).

Að lokum þá vil ég segja að ég styð algjörlega að það eigi ekki að vera beint trúboð í skólum. Mér er minnistæður íþróttatími í 9. eða 10. bekk þar sem að var einhver jógagúru í heimsókn sem vildi láta okkur vera í einhverri hugleiðslu og ég hafði engan áhuga á því og þó að ég hafi setið tímann og gert hreyfingarnar þá tók ég ekki þátt í neinu af hugleiðslunni og leið hreint og beint illa að þurfa að vera þarna. Á sama tíma þá hefði ég haft gaman að því að fá t.d. Kóraninn eða aðrar bækur, enda hef ég gaman af lestri og að kynna mér nýja hluti (og er kristinnar trúar). Svo að eftir því hvernig gjafir á trúarritum fara fram þá geta þær verið bara í fínasta lagi, líka NT frá Gídeonmönnum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/06/12 08:34 #

Sæll Benjamín.

Það er rétt, ég hefði mátt feitletra minni texta. Ég vitna þó einungis í viðbótina síðar í textanum og dreg ályktun út frá henni.

reglan um áfallahjálp þarf síður en svo að vera rýr hjá Hafnafirði og er mjög illa rökstudd ályktun að fullyrða að svo sé

Hér er ég að fjalla um tilteknar reglur og í þeim er klausan um áfallahjálp rýr.

Það má vel vera að einhverjir skólar séu með fínar reglur, en það er allt annað mál. Samræmdar reglur eru settar svo að það fari ekki eftir diktum skólastjórnenda á hverjum stað hvernig staðið er að svona málum.

Þær ályktanir sem ég dró í þessari grein eiga sér grundvöll í reglunum sem ég fjalla um og greinunum sem ég vísa á. Ég bendi t.d. á frétt Pressunnar sem ég vísa á, þar sem fram kemur að formanni fræðsluráðs þykir lítil til reglna Reykjavíkur koma.

það þarf ekki að hafa verið eitthvað leynilegt samsærismarkmið að með því að sleppa e-grein Reykjavíkur þá sé verið að tryggja það að börn þurfi að taka þátt í helgiathöfnum. Það geta vel verið aðrar ástæður fyrir því að Hafnarfjörður sá ekki þörf á því að hafa það í reglunum.

Getur þú komið með hugsanlegar ástæður fyrir því að Hafnafjörður ákveður að sleppa þessari tilteknu klausu? Hvað vinnst með því að sleppa henni?

Reglur Hafnafjarðar eru augljóslega unnar út frá reglum Reykjavíkur. Því er ágæt aðferðarfræði að skoða breytingarnar á reglunum auk ummæla þeirra sem stóðu að breytingunum og draga út frá þeim áyktanir.

Ég fæ ekki séð að ályktanir mínar í þessari grein séu glannalegar.

Svo að eftir því hvernig gjafir á trúarritum fara fram þá geta þær verið bara í fínasta lagi, líka NT frá Gídeonmönnum.

Tengist þú Gídeon?


Ægir Sveinsson - 15/06/12 11:21 #

"Tengist þú Gídeon?"

Merkilegt með Matthías Ásgeirsson að þurfa sífellt að vera með dylgjur um það að allir þeir sem hafa ekki sömu skoðun og hann sjálfur hljóti að hafa einhver vafasöm mótíf.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 15/06/12 11:29 #

Takk fyrir innleggið Ægir. Þetta voru ekki dylgjur heldur ósköp eðlileg spurning. Að sjálfsögðu sjá þeir sem tengjast Gídeon ekkert athugavert við að dreifa NT til barna og því spyr ég.

Það er rangt að ég telji að allir sem eru ekki sömu skoðunar og ég hljóti að hafa "vafasöm mótíf". Satt að segja eru þetta leiðinlegar og óþarfar dylgjur.


Ómar Harðarson - 15/06/12 19:37 #

Þetta sýnir að það er mjög erfitt að semja almennar reglur sem varða mannréttindi í smásamfélögum á borð við Hafnarfjörð. Persónuleg nálægð milli ríkiskirkjupresta og þeirra sem höndla með málin koma líklega í veg fyrir málefnalega nálgun sem verja réttindi barnanna.

Nú þekki ég ekki reglurnar og mun ekki nenna að setja mig inn í þær, verandi hvorki faðir skólabarns né Hafnfirðingur. Miðað við þessa umfjöllun fæ ég hins vegar ekki séð hverju þær breyta og hvernig börnin verða varin gegn innrætingu ríkiskirkjunnar eða annarra sértrúarsöfnuða.


gös - 17/06/12 21:05 #

Merkilegt hvernig Ægir vék sér alveg undan að svara spurningu Matta.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?