Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Menningarlegt læsi í samtíma okkar

Svarthöfði og prestar

Kirkjumenn vísa reglulega í "menningarlæsi" þegar þeir vilja réttlæta trúboð sitt í skólum. Ég veit vel að menningarlæsi mitt væri skert ef ég þekkti ekki sögur Biblíunnar. Ég myndi til dæmis ekki fatta þegar Ricky Gervais eða The Simpsons gera grín að þessum sögum.

Hins vegar held ég að hægt væri að afgreiða flest af þessu á hálfum vetri í framhaldsskóla eða grunnskóla. Nú þegar við erum búin að afgreiða menningarlæsi Biblíunnar á mun styttri tíma en er ætlaður fyrir kristinfræðikennslu er allt í einu nægur tími til þess að auka menningarlæsi á öðrum sviðum.

Menningarlegt læsi á Star Wars

Seint á síðustu öld hóf ég sambúð og fór fljótt að nauða í sambýliskonu minni að horfa á Star Wars. Ég gat réttlætt þetta fyrir henni með því að benda henni á að hún myndi þá loksins fatta allar vísanir í þessar myndir í öðrum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum. Hún féll fyrir þessu, horfði á og var bara merkilega hrifin.

Það gerir mig dapran að það sé til ungt fólk sem aldrei hefur séð Star Wars myndirnar[1] og hefur því ekki nægilegt menningarlegt læsi til að skilja sína eigin menningu. Hvernig er til dæmis hægt að horfa á How I Met Your Mother án þess að hafa séð Star Wars?[2] Þetta þyrfti líka að vera nokkuð ítarlegt og með áherslu á að Hans Óli skaut fyrst.

Hvar eru framhaldsskólarnir sem útskýra fyrir nemendunum hvaða hlutverki Rick Astley gegnir í menningu okkar? Hver er að útskýra fyrir krökkum hvað öll þessi internet meme þýða og þá um leið hlutverk Richard Dawkins í að búa til fyndnustu brandara veraldarvefsins.

Þýska hefðin

Menningarlegt læsi er vissulega nauðsynlegt. Við þurfum líka að átta okkur á því að í dag þá spila Friends og The Simpsons álíka stóra rullu í því samhengi og Biblían. Endilega kennið krökkum að þekkja Biblíutilvísanir en ekki reyna að heilaþvo þau til að trúa því að Nóaflóðið hafi verið annað en siðlaust og ekki gleyma að nefna að Jesús fann upp helvíti.

Annars verða þau jafn ólæs á menningu sína og guðfræðinemar sem fatta ekki hvers vegna hægt er að segja brandara um að Lúther og Hitler tilheyri báðir "þýsku hefðinni".


[1] Gömlu, ekki þær nýju nema kannski Phantom Menace til þess að vita hvers vegna allir hata Jar Jar Binks. Sjá t.a.m. ítarlega úttekt á Episode I hjá RedLetterMedia.com
[2] Eða The Big Bang Theory án þess að hafa séð rúmlega sjöhundruð Star Trek þætti.

Óli Gneisti Sóleyjarson 26.04.2012
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


jogus (meðlimur í Vantrú) - 26/04/12 09:50 #

"Hans Óli"? Þetta hef ég ekki heyrt lengi. Aahh, the memories...

Og auðvitað skaut hann fyrst, hvað sem líður seinni tíma Biblíuþýðingum Gogga.


Halldór L. - 26/04/12 10:48 #

það mætti taka alla þessi lífsleikni tíma í grunn- og framhaldsskólum og breyta þeim í "poppmenningarfræði"

fátt er meira pirrandi en tilvitnun sem að enginn skilur


Sigurður Karl Lúðvíksson - 26/04/12 19:23 #

Mögnuð grein, takk fyrir.


Sveinbjörn Halldórsson - 29/04/12 04:35 #

Star Wars..Æ, þetta er hlægilegt. Má ég benda þér á Andrey Rjublov, englana hans þrjá við brunninn. Má ég benda þér á eitt mikilvægasta kvikmyndaskáld okkar tíma, Andrey Tarkovskí. Ég set ekkert út á trúleysi, svo fremi sem menn hafi ekki fundið aðra styttu til að kjökra við. Afhverju safnar raunverulegt trúleysi okkar tíma að sér þessum börnum, eða þessum óþolandi kellíngum sem kvaka nýjustu tíðindi í saumaklúbbnum.


Sindri G - 29/04/12 08:25 #

Annað hvort áttar Sveinbjör Halldórsson sig alls ekki á púnktinum í greininni - eða mér tekst ekki að skilja hvað hann meinar með gagnrýni sinni. Btw ég hef aldrei heyrt um Andrey Rjublo og englana hans þrjá við brunninn.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 29/04/12 13:48 #

Ætli Sveinbjörn eigi ekki við Andrei Rublev? Ég sé þó ekki hvað hann kemur málinu við - hann hefur greinilega ekki lesið Ericson, Winnecott og Rizzuto o.fl.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 02/05/12 16:35 #

Skrýtið að hafa skrifað grein á léttu nótunum með fjölmörgum bröndurum og fá síðan komment um að hún sé hlægileg frá einhverjum sem fattar greinilega ekki grínið.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.