Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Baráttan um sálirnar

Börn

Fyrir Alþingi liggur frumvarp þar sem lagt er til að gera örlitla breytingu á sjálfkrafa skráningu nýfæddra barna í trúfélög. Þetta hænuskref í rétta átt er liður í eldri baráttu, baráttu Þjóðkirkjunnar um sálir, og þar með peninga landsmanna.

Cui bono

Núverandi fyrirkomulag á skráningu fólks í trúfélög er vægast sagt undarlegt. Við fæðingu er barn skráð hjá hinu opinbera í trúfélag móður. Hvers vegna í ósköpunum er það gert? Barn er ekki skráð sjálfkrafa í stjórnmálaflokk eða íþróttafélag móður.

Í sakamálaþáttum er oft minnst á latneska orðatiltækið Cui bono, sem þýðir í stuttu máli að sá sem græddi á glæpnum er að öllum líkindum sá sem framdi hann. Ef þetta á við um lagasetningu á Íslandi, þá er aðilinn sem græðir mest á undarlegum lögum líklega sá sem ber ábyrgð á þeim.

Hagnaður ríkiskirkjunnar

Ég held að það sé enginn vafi á því að ríkiskirkjan græðir allra mest á þessu undarlega fyrirkomulagi. Það er ekki svo langt síðan trúfrelsi komst á, og fyrir þann tíma var beinlínist ólöglegt að vera ekki í Þjóðkirkjunni. Þetta þýðir að þegar trúfrelsi komst á voru nánast allir landsmenn í Þjóðkirkjunni. Lög sem skrá nýfædd börn í trúfélag móður munu því skrá flesta í það trúfélag sem forfeður þeirra voru neyddir í.

Í nútímanum er hins vegar enginn neyddur til að vera í ríkiskirkjunni, en fjölmargt fólk hefur aldrei pælt í hvort það ætti að vera í ríkiskirkjunni eða ekki. Eða þá að það hefur einfaldlega ekki hugmynd um hvort það er skráð í hana eða ekki. Þetta fólk, sem myndi að öllu jöfnu ekki ganga í ríkiskirkuna sjálft, er skráð í hana, þökk sé þessari undarlegu barnaskráningu. Og hvað græðir ríkiskirkjan á því að skrá allt þetta fólk sem hefur engan áhuga á kirkjunni?

Lífslíkur Íslendings eru í kringum 82 ár, og ríkið byrjar að greiða ríkiskirkjunni pening fyrir hvern skráðan meðlim við 16 ára aldur. Fyrir hvern óvita sem er skráður í ríkiskirkjuna mun hún fá sjöhundruðþúsund krónur. Þetta er ekki há upphæð fyrir einn einstakling, en í ljósi þess að það fæðast um fjögurþúsund Íslendingar árlega, þá er þetta fljótt að safnast saman.

Reglugerðin alræmda

Ef fólk heldur að hér sé á ferðinni einhvers konar ofsóknaræði trúleysingja gagnvart Þjóðkirkjunni og að það sé bara heppileg tilviljun að hún græði svona svakalega á þessu fyrirkomulagi þá er til gömul reglugerð sem ég held að sýni svart á hvítu að þegar þessu kerfi var komið á, var hagur ríkiskirkjunnar ofarlega á blaði.

Þessi reglugerð [1]er frá sjöunda áratugnum og virðist beinlínis hafa verið samin til að koma fólki úr fríkirkjunum yfir í ríkiskirkjuna . Efni reglugerðarinnar var í stuttu máli þannig að ef meðlimur í fríkirkjusöfnuði flutti af “starfssvæði” safnaðarins, þá var hann sjálfkrafa skráður í ríkiskirkjuna. Ef sami aðili flutti hins vegar aftur á starfssvæði fríkirkjusafnaðar, þá var hann ekki sjálfkrafa skráður í fríkirkjusöfnuðinn. Ekkert bendir til þess að fólk hafi verið látið vita af þessum trúfélagsbreytingum en afleiðingarnar eru augljósar. Fjöldi fólks var sjálfkrafa, eflaust oft gegn þess vilja, skráður í ríkiskirkjuna og með þeim fylgdu sóknargjöldin.

Hvað segja prestar hvar?

Ég hef ekki séð starfsmenn ríkiskirkjunnar tjá sig oft um sjálfkrafa skráningu nýfæddra barna í trúfélag móður, en ég efast ekki um að þeir gera sér vel grein fyrir því að ríkiskirkjan græðir á þessu. Þrátt fyrir það hafa prestar neitað því, ríkiskirkjupresturinn Kristján Björnsson sagði til dæmis eitt sinn:

Ég get nú ekki séð að það séu peningasjónarmið sem ráða ferðinni með þessa skráningu. Sóknargjöldin og trúfélagsgjöldin koma ekki til fyrr en við 16 ára aldur. Ég er mjög ákveðið þeirrar skoðunar að trúfélagsaðild eða staða utan trúfélaga eigi að vera skráð alveg frá fæðingu.

Presturinn ætti að vita að nýfædd börn verða flest 16 ára og því dugar það alveg fyrir kirkjuna að ná í þau strax við fæðingu. En svona er málflutningur presta opinberlega.

Fyrir um það bil áratug gagnrýndi Hjörtur Magni, prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík, opinberlega tölvupóst sem þáverandi formaður Prestafélags Íslands hafði sent á póstlista presta. Í frétt Morgunblaðsins er þessi samantekt á efni póstsins:

Í tölvubréfinu segir m.a.: "Vitum við hvort að börnin sem ætla að fermast hjá okkur í vor eru í söfnuði okkar eða ekki? Þau geta verið skírð en skráð í allt annað trúfélag, enda fer trúfélagaskráning eftir skráningu móður. Ekki er víst að fólk geri sér alltaf grein fyrir þessu. Það hlýtur að vera eðlilegt að börn sem fermast í þjóðkirkjusöfnuði séu í þjóðkirkjunni [...] Og síðan er eðlilegt að við bendum foreldrum viðkomandi fermingarbarns eða barna á þetta og segjum eðlilegt að þau séu í söfnuðinum. Við eigum viðkomandi eyðublöð um skráningu í trúfélög.

Við þurfum að vera vakandi yfir þessu atriði - og getum þannig án efa fjölgað enn hraðar í þjóðkirkjunni sem er mikilvægt í alla staði - við fáum fyrr fleiri presta til starfa og fleiri bera byrðarnar með okkur þegar fram í sækir. Börn þessara barna verða síðan skráð eftir trúfélagi þeirra ... Þetta er snjóbolti sem er fljótur að hlaða utan á sig."

Prestarnir vita greinilega vel af þessum “snjóbolta” sem sjálfkrafa skráningar eru. Þeir vita vel að ríkiskirkjan græðir á þessu.

Afnám óvitaskráningar

Því miður er í frumvarpinu sem liggur fyrir Alþingi ekki lagt til að sjálfkrafa skráning óvita í trúfélög verði lögð af, heldur einungis að barnið verði ekki sjálfkrafa skráð í trúfélag móður. Alþingi ætti að sjá sóma sinn í því að ganga lengra og hætta þessum vafasömu afskiptum af trúfélagsskráningu borgaranna. Hættum að skrá börn sjálfkrafa í trúfélög, bara svo að ríkiskirkjan geti grætt meira.


[1] Hægt er að lesa um reglugerðina aftast í þessu hátíðarriti Fríkirkjunnar í Reykjavík.

Hjalti Rúnar Ómarsson 11.04.2012
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/04/12 11:34 #

Carlos Ferrer, fyrrum ríkiskirkjuprestur, tjáir sig á Facebook:

Afnám óvitaskráningar í trúfélag er jafn góður sprettur og afnám óvitaskráningar til ríkisfangs. Það er ekkert annað en eðlilegt að fólk sé skráð með trúfélagi fjölskyldunnar, að foreldrar ráði í hvaða trúfélag börn þeirra skráist.

Hvað er hægt að segja um svona málflutning?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/04/12 11:37 #

Ég vil persónulega ganga lengra og banna skráningu barna í trúfélög. Fullorðið fólk getur skráð sig í trúfélag.

Börn geta að sjálfsögðu tekið þátt í barnastarfi trúfélaga ef foreldrar óska en ég sé engin rök fyrir því að skrá börnin í félögin - önnur en þau að þá mun ríkið greiða sóknargjöld fyrir þau þegar þau eru orðin 16.

Ég held að þegar málið er skoðað séu engin rök fyrir því að skrá börn í trúfélög önnur en fjárhagsþarfir trúfélaga. Börn þurfa ekki að vera skráð í trúfélögin til að taka þátt í barnastarfi. Þurfa ekki að vera skráð í félögin til að fermast. Þau þurfa bara að vera skráð svo ríkið geti greitt fyrir þau sóknargjöld. Eðlilegt er að einstaklingar taki ákvarðanir um slíkar greiðslur þegar þeir hafa náð aldrei.

Ég held að vandinn við þessa umræðu eins og svo margar aðrar umræður um trúmál sé að kirkjunni hefur tekist að jaðarsetja hana. Við erum að rökræða svo sjálfsagða hluti, þ.e. að óeðlilegt sé að ungabörn séu sjálfkrafa skráð í trúfélag, að við sjáum ekki umræðuna um það hversu óeðlilegt er að börn séu yfir höfuð skráð í trúfélag. Sú umræða er of öfgafull af einhverjum ástæðum.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 11/04/12 11:47 #

Matti, það væri örugglega einfalt mál að hafa lögin þannig að fólk þyrfti einfaldlega að ákveða við 18 (eða 16 ára aldur) hvernig þau vildu hafa þessa skráningu sína, enda er enginn tilgangur með þessari skráningu hjá hinu opinbera, annar en sá að passa að sóknargjöldin lendi á réttum stað þegar þau verða 16 ára.

Trúfélögin gætu auðvitað enn haft börn sem skráða meðlimi í félögunum, enda vildu þau það líklega, trúfélögiin eru enda sólgin í börn.


Svanur Sigurbjörnsson - 11/04/12 11:49 #

"Baráttan um sálirnar"! Hvaða sálir? ;-)

Fín grein um þessa peningahyggju Þjóðkirkjunnar og ætlað samþykki óvita til að verða félagar í henni. Fyrir utan peningana, þá lítur það betur út að hafa 245.456 meðlimi alls en 190.734 meðlimi sem eru 16 ára og eldri (tölur Hagstofunnar fyrir 2012). Siðmennt skráir ekki fólk yngri en 16 ára í félagið, þó að því hafi oft verið boðið það. Gott siðferði felst í því að taka ekki allt sem býðst, heldur hafa það taumhald að gera rétt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/04/12 11:50 #

Já, það er kannski ágætt að leggja áherslu á að við erum að tala um opinbera skráningu í Þjóðskrá, ekki eitthvað félagatal úti í bæ.

Svanur, það eru einnig engin börn í Vantrú. Ætli við gætum ekki léttilega tvöfaldað meðlimafjöldann með því að skrá börn og maka. Við græðum aftur á móti ekkert á því :-)


Bjarki (meðlimur í Vantrú) - 11/04/12 12:19 #

Það telst til mannréttinda samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum að barn öðlist ríkisfang við fæðingu, enda eru önnur réttindi og möguleikar manns til þátttöku í samfélaginu nátengdir því að hann hafi ríkisfang.

Opinbera skráningu ríkisins á aðild barna að trúfélögum er ekki að neinu leyti hægt að telja til mannréttinda. Einu hagsmunirnir sem slík skráning varðar eru fjárhagslegir framtíðarhagsmunir trúfélaganna sjálfra.

Þetta er fullkomnlega glórulaus samlíking hjá Carlos.


Sveinn Þórhallsson - 11/04/12 13:45 #

Þess utan gerir Carlos ranglega ráð fyrir að það sé til eitthvað sem heitir "trúfélag fjölskyldunnar". Ætli það sé ekki algengt að foreldrar hafi mismunandi trúarskoðanir, eins og það sé algengt að foreldrar haldi með mismunandi liðum í ensku?


Carlos - 13/04/12 07:28 #

Menn leysa skráningarmál innan fjölskyldunnar, Sveinn, ákveða í hvaða trúfélagi börnin eru, þar sem trúfélagsskráning á sér stað. Þetta gerist ekki sjálfkrafa heldur eru upplýsingar sem fengnar eru við fæðingu. Frakkar skrá ekki, Þjóðverjar skrá.

Samlíkingin er glórulaus, ef ríkisfang skipti engu máli og ef kirkjuaðild væri eins og hvert annað hobbý.


Carlos - 13/04/12 09:10 #

Ég sé að ég tjáði mig í véfréttastíl þarna fyrir ofan.

Auðvitað er það rétt, að skráning í trúfélag er ætíð tengt þörfum ríkisvaldsins að dreifa innheimtum gjöldum til téðra trúfélaga. Þjóðverjar gera þetta þannig, að trúfélag fær prósentu af skattstofni einstaklingsins. Einstaklingur sem skráir sig úr trúfélagi, sparar sér nákvæmlega þá upphæð.

Skráningin eru leifar gamals samfélagssáttmála. Eðlilegasta mál að menn ræði hann og finni sér nýja leið, ef menn vilja. Vilja menn þjóðkirkju? Eiga öll viðhorf að vera jöfn gagnvart löggjafa? Fyrir hundrað árum hefði ekki þurft að ræða þetta. Núna er þetta nauðsynlegt umræðuefni.

Óvitaskráning er stórkostlegt nýtt hugtak. Ég brást við því til að benda á hve margbent það er. Skoðum hvað gerist á meðan fólk er enn undir lögaldri:

Það fær þjóðerni (vonandi) og þarmeð bakhjarl sem sinnir mannréttindum þess. Það fær nafn, sem undirstrikar sérstöðu þess. Það fær fjölskyldu, eða a.m.k. einhverja sem sinna þörfum þess.

Ekkert af þessu velur óvitinn. Allt skiptir það máli og mótar það um framtíð. Allt er það skráð. Óvitaskráning.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 13/04/12 09:41 #

Hvaða hag hefur barnið að því að vera skráð í trúfélag, Carlos?

Hverju breytir það að barnið sé skráð í trúfélag öðru en því að trúfélagið kemur til með að fá fégreiðslur vegna þess?

Við skráningu ríkisfangs, nafns og forræðis eru augljósir hagsmunir einstaklingsins tryggðir. Ég fæ ekki séð að neinir slíkir hagsmunir séu í húfi við skráningu í trúfélag foreldra. Ekki frekar en ef um sjálfvirka skráningu í stjórnmálaflokk foreldra væri að ræða. Er kannski brýn þörf á að koma slíkri skráningu í gagnið, að börn séu sjálfkrafa skráð eftir stjórnmálasannfæringu foreldra?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/12 10:31 #

Auðvitað er það rétt, að skráning í trúfélag er ætíð tengt þörfum ríkisvaldsins að dreifa innheimtum gjöldum til téðra trúfélaga.

Mér finnst ansi merkilegt að þú talar um að sjálfkrafa skráning barna í trúfélag sé "ekkert annað en eðlilegt", og enn undarlegra þar sem þú áttar þig á því að eina ástæðan fyrir því er svo að trúfélögin fái örugglega peninga barnanna eftir 16 ár.

Ég verð að spyrja sömu spurningar og Baldvin, svo að við fáum örugglega svar: Fyrst að þessi skráning er "ekkert annað en eðlileg", myndir þú þá ekki vilja að nýfædd börn væru sjálfkrafa skráð samkvæmt félagsaðild foreldra? Eða bara að skrá börn í öll þau félög sem foreldrarnir eru meðlimir í!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/04/12 10:34 #

...skráning í trúfélag er ætíð tengt þörfum ríkisvaldsins að dreifa innheimtum gjöldum til téðra trúfélaga.

Þetta er ótrúlegur texti. Alveg kyngimagnaður.

  1. Þarfir ríkisvaldsins?
  2. innheimt gjöld?

Ríkisvaldið hefur engan hag eða þarfir í þessu máli. Engin gjöld eru innheimt af nokkrum manni.

Þetta snýst einfaldlega um þarfir trúfélaga, sérstaklega ríkiskirkjunnar, til að fá hlutdeild í skatttekjum ríkisins.


Carlos - 13/04/12 10:35 #

Þú segir « hvaða augljós rök » Baldvin. Á Íslandi kannski engin, annars staðar einhver. En það er ekki málið, heldur orðanotkunin « óvitaskráning », en gagnrýni mín á þeirri orðanotkun var tilefni furðu hér. Ég gerði grein fyrir henni. Ég hef engu við umræðuna um skráningu í trúfélag eða ekki að bæta.


Carlos - 13/04/12 10:53 #

Matti og Hjalti ættu að gaumgæfa hvað ég skrifaði um skráningu hér fyrir ofan. Ég er hvergi talsmaður « sjálfkrafa » skráningu.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 13/04/12 10:56 #

Carlos, óvitar eru ekki skráðir í stjórnmálaflokka vegna þess að í þeim efnum eru þeim ekki fyrirfram ætlaðar skoðanir foreldra sinna. Þetta finnst öllum eðlilegt og fásinna að velta því fyrir sér að skrá ungabörn í stjórnmálaflokka. Að hvaða leyti er skráning í trúfélög öðruvísi?

Barnið hefur enga hagsmuni af skráningunni, ólíkt öðrum hlutum sem eru sjálfvirkt skráðir á borð við ríkisfang og forræði. Barnið hefur ekki þroska til að hafa nokkra skoðun á skráningunni eða kenningum félagsins sem það er skráð í.

Ríkisfang og forræði eru staðreyndir sem ákvarðast við fæðingu. Trúfélagsaðild snýst um skoðanir einstaklingsins, alveg eins og aðild að stjórnmálaflokki. Slíkar skoðanir eru óvitar ófærir um að mynda sér.

Einu hagsmunirnir sem um er að tefla er hlutdeild trúfélaganna í skatttekjum. Aðeins trúfélögin, og sérstaklega ríkiskirkjan, hafa hag af sjálfkrafa skráningum sem eru óháðar trúarskoðunum einstaklingsins.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/12 11:15 #

Ég er hvergi talsmaður « sjálfkrafa » skráningu.

Það er nú gott. Ég skildi ummæli þín um að það væri eðlilegt að óvitar væru skráðir "með trúfélagi fjölskyldunnar" þannig.


Sigurlaug Hauksdóttir - 13/04/12 14:25 #

Skil ekki hvað er hægt að hafa á móti þessu örlitla hænuskrefi sem kemur í þessu frumvarpi. Börn einstæðra mæðra verða áfram sjálfkrafa skráð í trúfélag þeirra og börn hjóna og sambýlisfólks verða áfram sjálfkrafa skráð í trúfélög þeirra, séu foreldrarnir í sama trúfélagi. Þarna er einungis um að ræða að börn þar sem foreldrar með sameiginlega forsjá tilheyra ólíkum trúfélögum (enga engu)

Vil persónulega ganga mikið lengra og binda skráningu í trúfélag við sjálfræðisaldur.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 13/04/12 14:31 #

Sigurlaug, eins og hefur komið fram í athugasemdum hérna, þá finnst mér það líka eðlilegt að Þjóðskrá væri ekki að skrá þetta fyrr en þetta skipti einhverju máli (nú 16 ára). Þá væri lítið mál að láta fólk einfaldlega ákveða hvert þau vilja að þessi styrkur fari (ef þau vilja á annað borð að hann fari eitthvert).

Núverandi fyrirkomulag (og eins og það verður ef að frumvarpið gengur í gegn) er fáránlegt. Eins og Pawel Bartozek spyr í fínni grein í Fréttablaðinu:

Ef börn væru ekki skráð sjálfkrafa í trúfélag við fæðingu, myndi einhver leggja til að það yrði gert?


Ómar Harðarson - 14/04/12 13:25 #

Ég er sammála Sigurlaugu. Skráning í trúfélag á að vera bundin við lögræðisaldur (18 ára) og að frumkvæði einstaklingsins.

Frumvarpið er engu að síður framför svo langt sem það nær. Þetta er svona svipuð framför og þegar hætt var að skrá Pólverja átómatískt í kaþólsku kirkjuna og Dani í þá lútersku í þjóðskránni. Það er hins vegar ekkert endilega að vilja foreldra að barn sé skráð í trúfélag, jafnvel þótt báðir hafi áður verið skráðir sjálfkrafa í sama félag.

Þá hygg ég að Carlos hafi ýmislegt skynsamlegt lagt til málanna. Ég er honum þó ósammála að einu leyti: "Óvitaskráning" er nákvæmlega það sem á sér stað þegar börn er skráð sjálfkrafa í trúfélög. Ólíkt honum finnst mér þetta snilldarlegt nýyrði.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.