Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ágústínusarverðlaun Vantrúar 2011: Niðurstöður

Ágústínus

Við lofuðum að birta niðurstöður kosninga Ágústínusarverðlauna þann 3. apríl sl. og að sjálfsögðu stóðum við ekki við gefin loforð enda skortir okkur allt kristilegt siðgæði. Við skellum skuldinni á "tæknilega örðugleika". Engu síður eru niðurstöður komnar í hús.

Á annað hundrað lesendur Vantrúar kusu í þetta skipti og niðurstaðan kemur líklega ekki á óvart.

3. sæti

Ríkiskirkjupresturinn Jakob Ágúst Hjálmarsson fékk í heildina þrjár stjörnur fyrir þvættinginn um að ást Gvuðs felist í viðurstyggilegum sjúkdómum sem draga milljónir til dauða en færir okkur samt sem áður saman:

Þetta er það sem Guð vill segja okkur með HIV smitun og alnæmi sem og hverjum öðrum sjúkdómi. Að við eigum að elska hvert annað og umvefja og þannig birtist dýrð Guðs, fegurð mannlífsins, ljómi elskunnar sem á sér upptök í honum eins og geislarnir sem verma sumardaginn koma frá sólunni. #

2. sæti

Björn Erlingsson, safnaðarfulltrúi Grafarvogskirkju, kom sterkur inn í umræðuna með sína einstöku sýn á hinn kristna skilning sem einkennt hefur trúmál á Íslandi í þúsund ár og fékk fjórar stjörnur fyrir þessi stórundarlegu ummæli:

Þær [reglur Reykjavíkurborgar] einkennir trúarleg rétthugsun sem er í algerri mótsögn við það umburðarlyndi og þann gagnkvæma skilning sem hefur einkennt viðhorf til trúmála í rúm 1.000 ár á Íslandi. #

1. sæti

Sigurvegarinn í ár, með fullt hús stiga, eða 5 stjörnur, var enginn annar en sjálfur biskupsframbjóðandinn og góðkunningi Vantrúar, Þórhallur Heimisson sóknarprestur í Hafnarfirði og hjónabandsráðgjafi par excellence. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Þórhallur hlýtur titilinn og er spurning hvort við í Vantrú verðum ekki að meina Þórhalli þátttöku á þessu ári til að hleypa öðrum að.

Engu síður endurheimtir hann titillinn fyrir ummæli sín um að fyrirgefningin hafi verið bönnuð í grunnskólum Reykjavíkur og leggur þar með almenna skynsemi í einelti með því að ofbjóða henni í þriðja sinn:

Þó fyrirgefingin sé bönnuð í skólum Reykjavíkur. Og börnum sé meinað að forðast hið illa og freistingar sem geta farið illa með þau í lífinu.#[*]

Fræðimaður nokkur kallar Ágústínusaverðlaunin "háðungarverðlaun". Ef í þessu er fólgin einhver háðung, þá tilheyrir hún einungis þeim einstaklingum sem létu ummælin falla. Því biðjum við séra Þórhall vinsamlegast að reyna að draga úr háðuglegum orðum. Þetta er óþarflega einhæft.

Við óskum þessum heiðursmönnum til hamingju með árangurinn og vonum að þeim gangi vel í framtíðinni.

[*]Það ætti ekki að koma á óvart að Þórhallur Heimisson hefur tekið þessi ummæli út og lokað fyrir bloggið sitt í annað eða þriðja sinn. Hann er mikill maður, hann Þórhallur. Hægt er að lesa hluta af þessari færslu hjá Vísi.is

Ritstjórn 05.04.2012
Flokkað undir: ( Ágústínusarverðlaunin )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/04/12 14:17 #

Ég er dálítið leiður vegna þess að ummæli Baldurs Kristjánssonar komust ekki á lista.

Það er náttúrulega enginn Guð til í þeim skilningi sem við leggjum í til- veru eða tilvist- það að vera til. Eini Guðinn er Guð trúarinnar og hann er ekki til nema sem Guð trúarinnar, eða sá Guð sem trúað er á. Og hann lifir ekki í okkar veraldlega heimi heldur í heimi sem við getum þess vegna kallað hugarheim #

En reyndar má segja að þetta séu alls ekki heimskuleg ummæli heldur bara óvænt. Að sjálfsögðu er Gvuð ekki til nema í hugarheimi. Það er það sem við í Vantrú höfum alltaf sagt.

Séra Þórhallur er augljóslega gríðarlega djúpur húmoristi - eða eitthvað þessháttar. Skrítið samt að hann sé alltaf að eyða bloggsíðum sínum.


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 05/04/12 17:10 #

Það er allavega jákvætt að Þórhallur fékk fleiri atkvæði hjá fólki sem les vantrúarvefinn en hann fékk í biskupkosningunum.


Jón Steinar - 07/04/12 01:30 #

Ég er sammála Matta um ummæli Baldurs. Menn hafa kannski áttað sig á slagkrafti slíkra orða frá forpokuðum ríkiskirkjupresti. Þarna fer preláti sem hefur látið skynsemina mála sig út í horn.

Þórhallur er verðmætur liðsmaður vantrúar í landinu og ætti í raun ekki að vera gjaldgengur sem málsvari kirkjunnar þar sem hann hallar of mikið á hana í hvert sinn sem hann opnar munn eða stingur niður penna.

Ég hef þá kenningu að ástæðan fyrir tíðum lokunum og löngum þögnum hjá honum, sé einfaldlega sú að kollegar hans hafa beðið hann um að vera hljóður á almannafæri.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.