Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Meint trú presta

Troll

Þessa dagana fara fram kosningar á nýjum æðsta biskupi ríkiskirkjunnar. Mér hefur þótt undarlegt hve lítið er rætt um trú frambjóðenda í embætti sem ríkiskirkjufólk talar oft um sem “andlegan leiðtoga þjóðarinnar.” Við það bætist að biskupinn hefur sérstakt vald í ríkiskirkjunni þegar það kemur að trú presta.

Villutrúarprestar

Í innri samþykktum ríkiskirkjunnar stendur að biskupinn geti rekið prest (“afturkallað að fullu umboð vígslunnar og fellt vígslubréf úr gildi”) ef að presturinn “hefur opinberlega hafnað játningum evangelísk-lúterskar kirkju.” Prestar ættu að vita að þetta er skilyrði þess að þeir starfi sem prestar innan ríkiskirkjunnar þar sem að þeir játast undir játningarnar þegar þeir eru vígðir sem prestar. Frambjóðendurnir eru auðvitað vígðir prestar, þannig að þeir sjálfir hafa játast þessu.

Við skulum athuga hvaða kröfur játningar kirkjunnar gera til trú presta og auðvitað biskupsframbjóðenda.

Ef við byrjum á frekar meinlausum hlutum, þá þurfa prestar að trúa á þrenninguna. Ein játning kirkjunnar, Aþaníusarjátningin, er næstum því eingöngu um þrenninguna og segir að þeir sem trúi henni ekki muni ekki geta frelsast heldur munu þeir enda í eilífum eldi. Ætli frambjóðendurnir trúi á þrenninguna? Eða prestar almennt?

Trúa prestar þessu?

Í postullegu trúarjátningunni er talað um að Jesús hafi verið “getinn af heilögum anda, fæddur af Maríu mey.” Trúir prestastéttin virkilega á meyfæðinguna?

Næstu atriði eru eflaust frekar ósmekkleg í huga hins dæmigerða Íslendings, og mér finnst mjög líklegt að margir prestar trúi þeim ekki..

Trúa prestar á erfðasyndina? Í aðaljátningu ríkiskirkjunnar kallast 2. greinin “Um upprunasyndina”, og þar er sagt að allir menn sem “getnir eru á eðlilegan hátt” (Jesús var fæddur af mey, þannig að þetta á ekki við hann!) fæðast með synd, raunverulega synd, sem “dæmir seka og steypir í eilífa glötun.”

Trúa prestar ríkiskirkjunnar því að Jesús hafi dáið fyrir syndir manna? Næsta grein sömu játningar segir að Jesús hafi verið “krossfestur, dáinn og grafinn til þess að sætta föðurinn við oss og til þess að vera fórn, ekki fyrir upprunasyndina eina, heldur og fyrir allar verknaðarsyndir manna.”

Lúther sagði að innihald næstu greinar í sömu játningu væri grundvöllur trúarinnar. Þrátt fyrir það efast um að mmeirihluti ríkiskirkjupresta trúi þessu. Þetta trúaratriði er þekkt sem sola fide eða réttlæting af trú eingöngu og segir að maður getur ekki unnið sér inn miða til himnaríkis, heldur verði maður að trúa á að Jesús hafi dáið fyrir syndir manns.

Ég efast um að það séu margir í hópi presta og frambjóðenda sem trúa síðasta atriðinu, kenningin um helvíti. Í 17. grein aðaljátningar Þjóðkirkjunnar er sagt að Jesús muni “birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða” (trúa prestar því?), svo er sagt berum orðum að “guðlausa menn og djöflana” (trúa prestar á djöfla?) muni Jesús fordæma “að þeir kveljist eilíflega”. Það er ekki nóg með það að það sé kennt berum orðum að fólk muni kveljast að eilífu í helvíti, heldur eru þeir sem telja að þetta muni ekki vara að eilífu sérstaklega fordæmdir.

Hræsni um ókomna tíð

Mér finnst það mjög líklegt að prestar trúi upp til hópa ekki á það sem fram kemur í játningum Þjóðkirkjunnar, þvert á það sem þeir sögðust játa við vígslu sína. Það er kannski við hæfi að í inntökuathöfn í prestastéttina sé lykilatriði að ljúga.

Það er að vísu skiljanlegt að kirkjan vilji ekki breyta þessu fyrirkomulagi. Annars vegar gæti kirkjan gert alvöru úr reglum sínum um að prestar ættu að vera lútherskir, en þá myndi fækka verulega í prestastéttinni, svo ekki sé minnst á allt fólkið sem myndi skrá sig úr kirkju sem myndi í raun og veru boða í samræmi við játningar Þjóðkirkjunnar.

Ef það ætti hins vegar að hreinsa allt ruglið úr játningunum, þá er ég hræddur um að það yrði lítið eftir í þeim. Það er því hægt að búast við því að sú krafa verði áfram gerð á presta og biskupa að þeir trúi í samræmi við játningarnar, eða ljúgi því að minnsta kosti.

Hjalti Rúnar Ómarsson 03.04.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Halldór . - 03/04/12 11:14 #

... allir menn sem “getnir eru á eðlilegan hátt” (Jesús var fæddur af mey, þannig að þetta á ekki við hann!) fæðast með synd, raunverulega synd, sem “dæmir seka og steypir í eilífa glötun.

Framtíð mannkyns ræðst af glasafrjóvgunum og klónun.

...dáinn og grafinn til þess að sætta föðurinn við oss og til þess að vera fórn, ekki fyrir upprunasyndina eina, heldur og fyrir allar verknaðarsyndir manna.

Fórnaði Guð sjálfum sér syni sínum til dýrðar sjálfs síns ekki bara til þess að fyrirgefa allar syndir?


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/12 11:36 #

Fórnaði Guð sjálfum sér syni sínum til dýrðar sjálfs síns ekki bara til þess að fyrirgefa allar syndir?

Halldór, ég skil ekki alveg hvert þú ert að fara með þessari spurningu. :S


Halldór L. - 03/04/12 12:00 #

Nei oki, er með svarið, lesruglingur mín megin.


Eiríkur Kristjánsson (meðlimur í Vantrú) - 03/04/12 22:36 #

Mig grunar satt að segja að prestum sé frekar slétt sama um meyfæðinguna og verufræðilegan status einhverra púka. Það hlýtur að vera hægt að finna hliðstæð dæmi úr öðrum starfsstéttum eða félögum þar sem eitt stendur á opinberum plöggum og annað er stundað í praxís. Ég hef gert svolítið af því að lesa prédikanir og það sem ég tek helst eftir er að þær virðast skrifaðar af fólki sem finnur ekki fyrir neinum óþægindum við að segja mótsagnakennda eða innihaldslausa hluti. Allavega gengur mér oft illa að skilja hvað þær ganga út á, nema að punch-line-ið er oftast það sama. Það fer sennilega miklu alvarlegri trúartextarýni fram á þessari síðu heldur en í inntökuprófi fyrir biskupskjör. Og flestum trúuðum er alveg sama þó að þessi ritningargrein stangist á við hina. En auðvitað er gott að halda áfram að benda á svona vitleysu og gagnrýna.


Jóhann Ingi Jónsson (meðlimur í Vantrú) - 04/04/12 14:12 #

Hér erum við komin að einum skemmtilegasta partinum við trúarbrögð, ekki bara kristina.

Þetta snertir kirsuberjatýnsluna (Cherry-picking). Þe. þegar fólk ákveður að "þetta meiki sens og ég ætla að hlusta/hlýða því" eða "þetta meikar ekki sens því mér fynnst það og ég mun ekki hlusta/hlýða því".

Ætli prestarnir geri þetta ekki líka? Er það ekki augljóst? Þeir fylgja ekki Guðs orði (Biblíunni í tilviki Kristninnar) í einu og öllu, hví ættum við þá að gera það?

Sam Harris orðaði þetta virkilega vel í bók sinni, Bréf til Kristinnar þjóðar (A letter to a Christian Nation):

"...You are, of course, free to interpret the Bible differently - though isn't it amazing that you have succeeded in discerning the true teachings of Christianity, while the most influential thinkers in the history of your faith failed?"


Jon Steinar - 05/04/12 03:56 #

Mér finnst Séra Baldur alveg vera með þetta í tilvitnuninni í Ágústínusarverðlaununum, sem mér fannst bera af. Hann viðurkennir að þetta er allt hugarburður og ímyndun og er þar með langt á undan sínum tíma í túlkuninni. Ég vona þó að hann sé ekki svo mjög langt á undan.

Ég man ekki eftir heittrúuðum þjóðkirkjupresti ef út í það er farið.

Þunglyndir og þrasgjarnir þreyttir drullusokkar Vælukjóar vergjarnir Væmnir meðalbokkar.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 05/04/12 11:13 #

Ég man ekki eftir heittrúuðum þjóðkirkjupresti ef út í það er farið.

Ég veit ekki hvað þú flokkar sem "heittrú", en einn prestur ríkiskirkjunnar hefur talað um að biblían sé óskeikul, hann hefur líka varið helvíti og hinar ýmsu sögur af drápum guðs í Gamla testamentinu.


Jón Steinar - 07/04/12 01:39 #

Ég hef þá bara ekki fylgst nógu vel með Hjalti. Hver er þessi prestur? Minn ættleggur er fullur af biskupum og prestum langt aftur í aldir allir þeir prelátar voru...tjah hvað skal segja...mannlegri en fólk er flest. :D


Jón Steinar - 07/04/12 01:41 #

Sa ekki linkinn þinn í fyrstu, svo nú veit ég hver þetta er.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.