Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristileg rök gegn moskum

Kirkja

Mér hefur lengi fundist andstaða gegn byggingu mosku á Íslandi hafa yfir sér afskaplega kristilegan blæ, til dæmis er fullyrt að við séum kristin þjóð. Ég er greinilega ekki sá eini sem hefur orðið var við þetta því nýlega birtist í Fréttablaðinu grein eftir guðfræðinema þar sem hann reynir að útskýra af hverju “kristin kúgunarrök” séu ógild.

Röksemdafærsla guðfræðinemans

Lokaorð greinar Sindra Geirs Óskarssonar eru svar hans við þeim rökum að múhameðstrúarmenn ættu ekki að fá að byggja mosku hér, af því að kristnir menn mega ekki byggja sér kirkjur í Sádi-Arabíu. Hér er svar hans með feitletrunum frá mér:

Sá sem heldur þessum rökum fram þarf að spyrja sig hvort hann aðhyllist auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, eða hvort réttlætið nái fram að ganga ef við á Íslandi bönnum múslímum að byggja sér hús til að dýrka Guð sinn. Erum við að sýna samstöðu með kúguðum trúsystkinum okkar með því að kúga íslenska múslíma? Ætli það samrýmist kristinni kenningu sem byggir á náungakærleik að múslímum sé bannað að lifa í friði og frelsi á Íslandi?

Þar sem þessi rök eru án efa mest notuð af kristnum einstaklingum spyr ég hvort þetta samrýmist þeirri hugsjón að bjóða hinn vangann, að við gerum öðrum það sem við viljum sjálf að yfir okkur gangi eða hvort við förum hamförum yfir flísinni í auga múslímans á meðan við sjáum ekki bjálkann í okkar kristna auga?

Þó svo að það sé verðugt markmið að reyna að hrekja málflutning kristinna andstæðinga trúfrelsis, þá er ég ekki svo viss um að þessar röksemdafærslur Sindra haldi vatni.

Almennt og óljóst

Vísanir Sindra til kristinna trúarhugmynda eiga það allt sameiginlegt að þetta eru vísanir í mjög almenn og óljós siðaboð úr trúarritinu þeirra. Er ekki himinn og haf á milli þess að segja að maður eigi að bjóða hinn vangann og að álykta út frá því eitthvað um moskubyggingar? Hver segir til dæmis að þau ummæli fjalli ekki bara um það sem maður eigi að gera persónulega, en ekki um viðbrögð ríkja? Eiga ríki þá kannski líka að bjóða hinn vangann þegar önnur ríki ráðast á þau?

Enn betra dæmi er vísun Sindra til “kristinnar kenningu sem byggir á náungakærleika”. Nú voru moskubyggingar almennt bannaðar með lögum alveg fram á lok 19. aldar, þannig að forfeður okkar virtust ekki átta sig á þessu meinta ósamræmi. Sindra og mér finnst örugglega báðum það ekki vera sérstaklega kærleiksríkt að banna öðru fólki að byggja helgihús, en ef annað fólk samþykkir ekki þá forsendu, þá virkar vísun til náungakærleika ekki.

Það sem meira er, ef við göngum út frá “kristinni kenningu”, þá er auðveldlega hægt að halda því fram að það sé beinlínis kærleiksríkt að banna moskubygginar! Samkvæmt kristinni trú (og þar sem Sindri er að læra guðfræði við HÍ, þá er ég hér að tala um trú ríkiskirkjunnar) þá mun fólk sem trúir ekki á Jesú kveljast að eilífu eftir dauðann. Þetta á auðvitað við um múhameðstrúarmenn, þeir eru jú sérstaklega fordæmdir í aðaljátningu Þjóðkirkjunnar.

Ef við veltum málinu fyrir okkur á grundvelli “kristinnar kenningar” þá geta kristnir andstæðingar moskubyggingar bent á að með því að leyfa byggingu mosku erum við að auðvelda fólki að falla frá hinni einu sönnu kristnu trú, og þar með mun fleira fólk kveljast að eilífu í helvíti. Þetta fólk getur svo spurt Sindra að því hvort “samrýmist kristinni kenningu sem byggir á náungakærleik” að reyna að bjarga fólki frá því að kveljast að eilífu í helvíti?

Ókristilegt trúfrelsi

Auðvitað ættu múhameðstrúarmenn að fá að byggja mosku á Íslandi, en við skulum ekki halda að það sé á einhvern hátt svakalega “kristilegt” að leyfa þeim það, ef eitthvað þá er það frekar ókristilegt.

Hjalti Rúnar Ómarsson 19.03.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


JohannV (meðlimur í Vantrú) - 19/03/12 10:17 #

Myndi kannski passa betur að bjóða þeim "hina kirkjunna" Það er til að taka yfir og breyta í Mosku?

Annars er þetta fín áróðurgrein hjá Sindra Geir. Talar fyrir mannréttindum ólíks hóps (ókristna) sem eðlilegri afleiðingu Kristins boðskaps/siðferðis um náungakærleika.

Get ekki fullyrt um skoðanir Sindra á lífi eftir dauðan, en miðað við minn skilning (eins og Hjalti bendir líka á) þá bíður fólks sem hafnar (já að þekkja ekki Krist er sama og að hafna) elíft frí á heitustu sólarströnd sem völ er á.




Sindri Geir Óskarsson - 19/03/12 12:29 #

Þessi pistill er sérstaklega stílaður inn á kristið fólk en hann var skrifaður eftir tíma í siðfræði þar sem að þessi umræða kom fram.

Annars bendi ég ykkur á http://heimurislam.wordpress.com/ Þar er sama grein með smá trúleysingja viðbót :)

Ég þakka þér bara fyrir að koma með þitt álit. Varðandi eftirlífið þá held ég nokkuð fast í Matteusarguðspjall 7:21

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/03/12 13:07 #

Þessi pistill er sérstaklega stílaður inn á kristið fólk....

Allt í lagi, en eins og ég bendi á, þá er afskaplega auðvelt (og að mínu mati rökrétt) að réttlæta bann við moskum út frá kristnum forsendum. Er það ekki kærleiksríkt að koma í veg fyrir að fólk kveljist að eilífu?

Varðandi eftirlífið þá held ég nokkuð fast í Matteusarguðspjall 7:21

Ef ég skil þig rétt þá ertu að segja að þarna sé kennt að það sé breytni, en ekki trú, sem skiptir máli. En það kristna fólk sem þú ert að ávarpa eru líklega mótmælendur og túlka þetta vers ekki þannig (og hugsanlega réttilega), og leggja meiri áherslu á önnur vers í Nýja testamentinu.

Og þýðir það að þú "haldr fast" í þetta vers að þú trúir þessu í alvörunni, og þá af því að Jesús er látinn segja þetta í guðspjallinu?


Sindri Geir Óskarsson - 19/03/12 15:09 #

Mótmælendur eru líka fastir í verkaréttlætingunni, það eru aðalega Lútheranar sem að reyna að kasta henni með tveggjaríkjakenningunni og segja verkin ekki hafa gildi gagnvart andelga heiminum. Í Kalvinskum söfnuðum er verkaréttlætingin hálfgerður miðpunktur að mínu mati.

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.

Held fast...mér þykir þetta skemmtilegt vers, þrátt fyrir að vera úr Matt sem er frekar gyðinglegur texti og heldur fast í gildi verkanna þá hefur þetta þá þýðingu fyrir mér að í þessum veraldlega heimi eigum við að lifa góðu lífi í náungakærleik. Það eru ekki þeir sem að kalla hæst til guðs sem að eiga mestan möguleika á því að komast inn í eftirlíf.


JohannV (meðlimur í Vantrú) - 21/03/12 12:26 #

Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum.



Þá er spurninginn hver vilji þessa "himna harðstjóra" sé? Og hvað við notum til að fynna þau viðmið

Persónulega er mér mein illa við boðskapinn að Guð haldi mér á barmi hildýpisins og segi. "Þú hefur valið"




Valtýr Kári Finnsson - 24/03/12 05:31 #

Hvað er svona "auðvitað" við það hvort múslimar eigi að fá að byggja hér moskvu? Það virðist ekki nokkur maður geta útskýrt fyrir mér, sem að aðhyllist ekki nein trúarbrögð, hvað ég græði eiginlega á þessari byggingu.

Ef að þetta væir hitaveita gæti ég fengið heitt vatn, rafmagnsveita mundi veita mér rafmagn, í skóla gæti ég sótt mér menntun, og svo framvegis. Moskva þjónar engum nytsamlegum tilgangi. Þar sem ég er ekki múslimi þá virðist mér þessi trúarbrögð vera í besta falli meinlaus vitleysa og í versta falli stórhættulegar ranghugmyndir.

Moskva er því fyrir mér sóun á plássi. Og ekki reyna að halda því fram að ég sé haldinn einhverri "íslamafóbíu", ég sé ekki heldur nein rök fyrir því að byggja hér nýja kirkju, musteri, hof, píramyda, sal, eða hvað svo sem fólk kýs að kalla þá staði sem það notar til trúarathafna.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/03/12 11:41 #

Það er sjálfsagt mál að múslímar fái að byggja hér mosku því hér ríkir víst trúfrelsi. Því fylgir að öllum trúfélögum ætti að vera frjálst að reisa hús til að stunda sína tilbeiðslu. Að gera múslímum erfitt fyrir er dálítið undarlegt í ljósi þess frelsis sem við státum okkur af.

Svo er það annað mál hvort peningunum sé vel varið í að byggja slíkt. En varla getum við skipt okkur af því hvað frjáls og óháð trúfélög* gera við sitt fjármagn.

*ríkiskirkjan er ekki frjáls og óháð


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 24/03/12 12:27 #

Það er kannski grundvallar atriði Valtýr að það er ekki rétt að banna ákveðnum hóp að nota peningana sína í hluti sem okkur hinum finnast óskynsamleg.

Ég get alveg tekið undir tilgangsleysið.

En það er ekki þar sem sagt að það séu forsendur til að banna byggingu, frekar en annað tilgangsleysi.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.