Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Faðir minn Sprengistjarna og móðir mín Jörð

[Smellið hér til að sjá stærri og betri upplausn af þessari mynd]

Trúlausir hafa eflaust margir heyrt að heimsýn þeirra sé köld og innihaldi engan tilgang á meðan trúaðir vilja oftar en ekki meina að þeirra heimssýn sé fögur og full af tilgangi fyrir alla menn. Allavega hef ég heyrt þessu fleygt oftar en góðu hófi gegnir.

Meint tómhyggja trúleysingja

Þrátt fyrir endurteknar tilraunir einstaklinga, á borð við sjálfan mig, til að leiðrétta þennan misskilning hefur goðsögnin lifað góðu lífi og gerir enn í dag. Þetta skynjar maður í hvert sinn sem maður sér og heyrir misgáfulegar yfirlýsingar í ýmsum fréttum og bloggum, innlendum sem erlendum, og í kommentahölum á Facebook þar sem eilífðarmálin eru rædd.

Um allar koppagrundir má finna þessi viðhorf í illa ígrunduðum yfirlýsingum æðstu yfirmanna hinna ýmsu trúarfylkinga víða um heim. Ísland er engin undantekning í þeim efnum. Þetta útskýrir kannski að einhverju leyti hvers vegna mýtan neitar að deyja.

Ég vil því bjóða þér, lesandi góður, að fræðast örlítið um mína heimssýn og hvernig ég horfi á alheiminn og tilganginn með þessu blessaða lífi okkar hér á jörð. Svona sér trúleysinginn ég veröldina:

Frá engu til alls

Jörðin er gömul og alheimurinn er enn eldri. Miðað við nýjustu mælingar er hinn sýnilegi alheimur um 13,75 milljarða ára gamall og jörðin okkar um 4,6 milljarða ára gömul. Um uppruna alheimsins hefur margt verið rætt og ritað í gegnum tíðina en það sem nútímavísindi segja okkur um þann alheim sem við búum í er að hann hafi þanist út frá sérstæðu (e.Point of singularity).

Þessi ógnarhraða þensla fékk með tíð og tíma hið misvísandi heiti Miklihvellur (e. Big Bang). Líklegast er að það heiti var meint sem háð af hendi þeirra sem fannst kenningin kjánaleg. Nægar upplýsingar um eðlisfræðina á bakvið uppruna alheimsins er að finna á internetinu þannig að ég læt staðar numið hér í þeim efnum enda þau fræði ekki eiginlegur tilgangur greinarinnar.

Hvernig sólstjörnur og sólkerfi verða til er svo tiltölulega vel þekkt ferli sem hefur verið mikið rannsakað. Einnig er þekkt hvernig stjörnur enda líf sitt og hafa afleiðingar dauðdaga stjarna náðst margoft á ótrúlegum myndum í gegnum Hubble-sjónaukan. Það sem sumir vita þó ekki er að þegar stjarna deyr í gríðarstórri hamfarasprengju, einnig þekkt sem sprengistjarna (e.supernova), er undirstaða alls lífs í fæðingu.

Allt tengist

Það er nefnilega þannig að sprengistjörnur eru fyrsti hlekkur í mikilvægri, samverkandi keðju. Úr iðrum hennar þeytast allar þær frumeindir sem þarf til að mynda sólkerfi, plánetur, vatn, loft og að lokum líf. Lögmál eðlisfræðinar útskýra hvernig þessi efni dragast saman og þéttast, falla svo saman og mynda heima eins og jörðina okkar.

Þær sameindir sem svo verða til úr frumeindunum sem sprengistjörnurnar þeyttu um víðáttu alheimsins eru svo í dag byggingarefni alls þess sem þú sérð í kringum þig, sjálfum þér meðtöldum. Við erum nefninlega stjörnurnar sem við horfum upp til á dimmum vetrarkvöldum.

Það er því engum ofsögum sagt að við erum öll tengd. Allt efni jarðar, lífs eða liðið, á sér sameiginlegan uppruna í sprengistjörnum alheimsins. Allt líf jarðar á sér sameiginlegan uppruna í þeirri efnafræði jarðarinnar sem alið hefur allt það sem á yfirborði hennar býr.

Frá því að líf hófst hér á jörðu hefur óbrotin keðja þróunarfræðilegra sigurvegara tengt saman allar núlifandi lífverur heimsins; þig, mig, fiskinn í sjónum og tréð í garðinum. Allar menneskjur jarðarinnar eiga ennfremur sameiginlega afríska formóður og eru því nátengdar genafræðilegum fjölskylduböndum.

Er þetta virkilega ljótt og kalt?

Næst þegar þú ert úti í ljósaskiptunum, líttu upp. Stjörnurnar og pláneturnar sem byrja að birtast eftir því sem dimma tekur eru afkvæmi þeirra stjarna sem í fyrndinni sprungu og með dauða sínum gerðu þér kleift að lifa. Það er engin ástæða til þess að upplifa sig lítinn í þessum stóra alheimi því alheimurinn er í þér. Þú ert bókstaflega smíðaður úr stjörnum.

Líttu svo á grasið, trén, blómin og sjálfan þig og mundu að sameindirnar sem mynda náttúruna í kringum þig eiga sama uppruna í sömu sprengistjörnunum og sameindirnar sem flæða í æðum þínum. Þegar við deyjum verða svo byggingarefni líkama okkar notaðar af náttúrunni til að viðhalda þeirri hringrás lífsins sem Elton John söng um í Konungi Ljónanna og þeirri keðju lífs sem Darwin lýsti í Uppruni tegundanna.

Ég fæ ekki séð hvernig þetta getur verið köld og hrá heimsmynd. Ég sé ekki hvernig fegurð þessarar óumflýjanlegu tengingar alls sem til er í alheiminum sé verri en að trúa því að eitthvað yfirnáttúrulegt vald hafi ákveðið að smella fingrum og skapa allt sem til er. Hvernig samband ofsafengina dauðaslitra sólstjarna annars vegar og alls lífs í heiminum hinsvegar sé verri en sú hugmynd að guð hafi skapað konur, menn og dýr. Að vita til þess að yfir þær óralöngu vegalengdir sem í alheiminum finnast er órjúfanleg tenging alls efnis og alls lífs sé eitthvað minna virði en að trúa því að til sé tenging við yfirnáttúrulegan skapara.

Tilgangur lífsins

En hver er tilgangurinn með þessu lífshlaupi? Afhverju að standa í þessu 80-100 ára spretthlaupi í eldgömlum alheimi sem gæti ekki verið minna meðvitaður um tilvist þína? Svarið við þeirri spurningu ákvarðast af því hvort þú teljir að tilgangur lífsins hafi verið ákveðinn fyrir þig eða hvort að þú ákveðir hann.

Margir hafa spurt sjálfa sig þessara spurninga og leitað svara vítt og breitt í von um að finna tilgang lífsins. Líkt og tilgangurinn sé falinn fjarsjóður sem bíður þess að finnast. Ég held hins vegar að þetta sé ekki þesskonar ratleikur.

Ég lít svo á að tilgangur lífsins sé ekki fyrirfram ákveðinn af nokkrum manni, guði eða öðru sem fjörugt ímyndunarafl gæti kokkað upp. Ég fæddist inn í þennan heim að mér forspurðum og nú þegar ég er komin til vits og ára ákveð ég minn tilgang sjálfur. Ég vil leggja mitt af mörkum til að reyna gera þennan heim betri en hann er. Ég vil lina þjáningar þeirra sem þjást, hjálpa þeim sem hjálp þurfa og reyna upplifa eins mikla hamingju og ást og ég mögulega get.

Alheimurinn veit ekki að ég er hérna, fastur á lítilli plánetu í útjarðri alheimsins eins og sandkorn í miðri Sahara eyðimörkinni. Hinsvegar vita samferðamenn mínir af mér og það er nóg fyrir mig.

Þrátt fyrir að ég kunni við fyrstu sýn að virka smár í ógnarstórri víðáttu alheimsins þá er ég ekki lítils virði og hvergi nærri hlutlaus breyta í hinum efnislega heimi. Við frekari skoðun sést að ég er smíðaður úr hlutum úr einhverjum stærstu fyrirbærum alheimsins og ég er mikils virði því ég hef getu til að gera bæði gott og illt, getu til að lina þjáningar eða valda þeim. Ég vel hið fyrrnefnda í báðum tilvikum.

Þegar ég hverf svo á braut og sameindir mínar halda áfram för sinni í enn einni umbreytingunni í hringrás lífsins get ég bara vonað að það sem ég skil eftir mig í orði, verkum og lifandi afkomendum hafi jákvæð áhrif á þennan eina heim sem við deilum öll saman.

Hjörtur Brynjarsson 15.03.2012
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Halldór Benediktsson - 15/03/12 22:03 #

Mjög flott grein!

Á ekki að vera 'ekki' einhverstaðar í þessari setningu? "Ég fæddist inn í þennan heim að mér forspurðum..."


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 15/03/12 22:23 #

@Halldór:

Ég þakka hrósið.

Og nei, orðið ''ekki'' á ekki heima þarna. Þegar ég fæddist var ég ekki spurður hvort ég hefði áhuga á að fæðast eða undir hvaða kringumstæðum og það er akkúrat það sem ''að mér forspurðum'' vísar í.

Að eitthvað sé gert að mér forspurðum þýðir að eitthvað sé gert án þess að spyrja mig nokkurs.
Sem er jú einmitt það sem gerðist.


Jóhann - 15/03/12 22:41 #

Góð grein, sem endurspeglar þann mun sem kom fram í nýlegum pallborðsumræðum Dawkins o. fl..

P.S. ...en á það ekki að vera "fornspurðum"?

:)


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/03/12 00:54 #

Upprunalega var þetta alltaf ''fornspurður'' en það hefur að mestu lagst af á undanfarinni hálfri öld og forspurður komið í staðinn. Sama merking liggur að baki báðum útgáfum orðsins.

Ef þú leitar á google að ''fornspurðum'' færðu rúmlega 2000 niðurstöður.

''Forspurðum'' gefur hinsvegar um 67.000 niðurstöður, töluvert af því eru fyrirsagnir og texti úr fréttamiðlum.

Greinin fjallar samt ekki um þetta orð, möguleg forskeyti þess eða hvort orðið ''ekki'' eigi að fylgja því heldur hvort þetta viðhorf sé ógeðfellt og hvort þetta sé verra heldur en heimssýn sanntrúaðra.

Og svo broskall ----> :-)


Jón Ferdínand - 21/03/12 14:09 #

I ain't no monkey starchild mister. I'm a child of God! Damn kommunist!

Djók ;)

Frábær grein, mjög Carl Sagan-esque;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.