Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Samningur ríkis og kirkju II : Lántaka, verðtrygging og kaupverð

Jesús og blíngið

Í síðustu grein sáum við að samningur um launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 1997 var kaupsamningur í öllum skilningi, bæði samkvæmt orðanna hljóman í samningnum sjálfum en ekki síst í þeim ummælum sem kirkjunnar menn hafa látið falla um samninginn. Þetta skoðum við nánar í þessari og næstu grein,

En kaupsamingur felur í sér greiðslu fyrir eignir og til að gera sér grein fyrir hvort rétt verð hafi verið greitt þarf að bera saman greiðsluverð annars vegar og mat á raunvirði eignanna hins vegar.

Það sem þjóðin borgar

Í öllum kaupsamningum er um að ræða afhendingu verðmæta gegn öðrum verðmætum. Sá samningur sem við erum að fjalla um hér gengur út á afhendingu fasteigna gegn greiðslum í reiðufé og telst, hvað það varðar, vera dæmigerður viðskiptasamningur. En þegar betur er að gáð vantar ýmislegt upp á góða viðskiptahætti. Samningurinn gerir hvergi grein fyrir andvirði hins selda né er gerð tilraun til að meta heildargreiðslu eða vexti svo dæmi séu tekin. Í raun er kaupsamningurinn gerður til allrar eilífðar.

Eina sem liggur fast í samningnum er að hina árlegu afborgun skuli reikna út samkvæmt ákveðnum forsendum. En út frá þeim upplýsingum sem við höfum má reyna að átta sig á því sem upp á vantar. Lán til fasteignakaupa er nokkuð sem við þekkjum flest af eigin raun ef ekki afspurn. Lán þessi eru gjarnan með innbyggðri verðtryggingu og bera að auki raunvexti. Mánaðarleg afborgun stendur undir vöxtum en nær samt að greiða niður höfuðstól. Ef lán er tekið til 40 ára má, út frá mánaðarlegri greiðslu hverju sinni ásamt vöxtum, reikna sig fram til þeirrar upphæðar sem upphaflega var fengin að láni.

Samningur ríkissjóðs og Biskupsstofu er samningur um kaup á fasteignum. Í stað þess að taka lán fyrir kaupverðinu greiðir ríkissjóður árlega afborgun beint til fyrri eiganda. Það má því með réttu segja að kaupverðið hafi verið fengið að láni hjá seljanda. Þótt slíkt sé ekki algengt á fasteignamarkaði er það ekki óþekkt og í viðskiptum er slíkt fyrirkomulag algengt.

Þó lánsupphæðin sé ekki nefnd í samningnum má finna hana að þremur forsendum gefnum: Afborgun, lánstíma og vöxtum. Lánstíminn er hér ótakmarkaður sem þýðir að afborgunin er hrein vaxtagreiðsla. Um vextina má gera sér einhverjar hugmyndir um hvað teldust eðlilegir vextir í viðskiptum af þessari stærðargráðu.

Vísitölutryggð lántaka

Fyrst þarf þó að skera úr um hvor lánið sé vísitölutryggt. Samkvæmt tölum frá Ríkisendurskoðun[13] breytist greiðslan ár frá ári, úr 1200 milljónum árið 1999 og náði mest 1605 milljónum árið 2008 (báðar tölur á verðlagi 2008[14]) en það jafngildir 3,33% hækkun á ári umfram verðbólgu. Á árunum 2009 til 2011 hafa greiðslurnar hins vegar lækkað að krónutölu á milli ára og þó þeirri þróun sé nú snúið við með fjárlögum þessa árs þá er afborgunin 2012 lægri að raungildi en árið á undan og ekki nema 85% af raunvirði greiðslunnar 1999 sem samsvarar lækkun um 1,3% að jafnaði á ársgrundvelli[15].

Verðbólga á sama tíma liggur á um 5,8% að jafnaði á ársgrundvelli[16] þannig að þó greiðslurnar hafi lækkað að raunvirði þá hafa þær þó legið mun nær því að vera vísitölutryggðar en ekki. Án vísitölutryggingar hefði greiðslan nú í ár verið nær 700 milljónum en þeim 1,4 milljarði sem greiddur verður.

Við getum því ályktað að um vísitölutryggt lán sé að ræða. Afborgun þessa árs nemur 1,4 milljarði[17] en hvað vexti áhrærir getum við litið til þess sem almennt gengur í viðskiptum af þessari stærðargráðu – við erum hér að ræða um fjárhæðir sem ekki standa til boða í bönkum almenningi til handa. Skoðum samt fyrst hvað venjulegu íslensku fyrirtæki stendur til boða. Almennir verðtryggðir útlánsvextir bankastofnana eru rétt tæplega 4% á ársgrundvelli nú um stundir[18] og miðað við þá vexti myndi 35 milljarða höfuðstóll einmitt greiða af sér 1,4 milljarð á ári að raunvirði (greiðslan og höfuðstóllinn myndu hækka ár frá ári í samræmi við vísitölu).

Slík lántaka er þó varla raunhæf, enginn færi að taka 35 milljarða (öfga)langtíma lán á 4% vöxtum umfram verðbólgu. Slíkir vextir eru gott betur en meðal hagvöxtur iðnrænna ríkja. Hagvöxtur Bretlands var að jafnaði 2% á ári 1830-2008, Bandaríkjanna frá stofnun til okkar dags um 3,75% á ári (og slær öllum öðrum hagkerfum langan ref fyrir rass hvað varðar langtíma hagvöxt) en raunhæfur undirliggjandi hagvöxtur í núverandi hagkerfi er talinn 2%. Ef við lítum á þann bissness sem Biskupsstofa stundar þá var hagvöxtur alls heimsins frá fæðingu Krists og fram til okkar daga ekki nema 0,3% að jafnaði ár hvert[19]. Ef við beinum sjónum til framtíðar þá eru hagfræðingar margir furðu svartsýnir á hagvöxt og telja að hann verði minni á heimsvísu á þessari öld en þau 3% sem giltu að meðaltali á 20. öldinni[20].

Ef við viljum fá raunhæfari samanburð á vaxtakjörum þegar í hlut eiga ríkisstofnanir og lán upp á tugi ef ekki hundruði milljarða væri nærtækast að líta til Landsvirkjunar sem gerir sér vonir um að fjárfesta fyrir 28 milljarða á þessu ári[21] og skuldaði árið 2010 nettó um 335 milljarða króna á 4% nafnvöxtum[22]. Skuldirnar eru í dollurum en verðbólga í Bandaríkjunum liggur að jafnaði um 2,5% þessi árin[23]. Raunvextir eru því ekki nema 1,5% og höfuðstóll sem þyrfti að standa undir 1,4 milljarði á ári að raunvirði reiknast þá 94 milljarðar.

Gott betur en verðtryggt

Þegar samningurinn er skoðaður kemur reyndar í ljós að hann er gott betur en verðtryggður. Afborganir reiknast ekki út frá höfuðstól, vöxtum og afborgunartíma eins og gildir um önnur lán heldur af launagreiðslum tiltekins hóps embættismanna sem fær laun ákvörðuð af kjararáði. Í sögulegu samhengi hafa laun almennt hækkað umfram verðbólgu og jafnvel eilítið umfram hagvöxt[24]. Þannig var meðalvöxtur vergra þjóðartekna 1,5% á árunum 1995-2010 á meðan raunhækkun launa var 1,9% á ári á sama tíma[25].

Til samanburðar við fyrri tölur um hækkun og/eða lækkun á afborgunum vegna samningsins þá hækkuðu greiðslurnar um 3,33% á ári umfram verðbólgu í góðærinu 1999 til 2008. Laun hækkuðu á sama tíma um 2,9% að jafnaði á ári. Sé hallærið tekið með í reikninginn lækkuðu greiðslur til Biskupsstofu um 1,3% á ári að jafnaði en laun hækkuðu um 1,2% á ári að jafnaði[26]. Hér var það ríkisstjórnin sem greip inn í launagreiðslur presta og lækkaði þær einhliða með tímabundinni ákvörðun. Slíkt gerist varla aftur enda verður vonandi ekki endurtekning á efnahagshörmungum nýliðinna ára. Kjararáð tekur aftur við taumunum og búast má við að hækkanir verði þá aftur eitthvað umfram almenna launaþróun – og trúlega gott betur, viðmið Kjararáðs hafa ekki breyst og embættismenn þeir sem hér um ræðir hafa með einhliða tímabundinni aðgerð ríkisins dregist langt aftur úr samanburðarhópum.

Hér kemur enn betur í ljós hversu illa samninganefnd ríkisins samdi af sér. Langtíma lán af þessari stærðargráðu fást einfaldlega ekki með raunvöxtum umfram hagvöxt og rauntekjur hækka að jafnaði enn meira. Það er því ekki hægt að lifa til langs tíma af fjármagnsvöxtum og halda sömu viðmiðunarkjörum. Þar sem samningurinn gengur einmitt út á að viðhalda viðmiðunarkjörum ákveðins hóps embættismanna hefur ríkið skuldbundið sig til lántöku á vöxtum umfram langtíma hagvöxt, sannkölluðum okurvöxtum. Samninganefnd Þjóðkirkjunnar hefði kannski átt að kíkja í bók nokkra þar sem segir: „elskið óvini yðar, og gjörið gott og lánið án þess að vænta nokkurs í staðinn“ (Lúkas 6:35).

Hvert er þá kaupverðið?

Eins og kom fram í annarri grein þá væru raunhæfir vextir sambærilegir við þá sem Landsvirkjun greiðir af svipuðum upphæðum þannig að um 100 milljarða þyrfti til að gefa af sér afborgun þessa árs. En dæmið er flóknara en svo eins og kemur fram í umfjöllun um hina innbyggðu hækkun umfram hagvöxt.

Hefðu lækkanir síðustu þriggja ára ekki komið til heldur greiðslan staðið í stað að raungildi frá 2008 hefði útborgun 2012 farið hátt í tvo milljarða. Fram að 2008 hækkaði greiðslan að raunvirði um 3,3% á ári og hefði sama þróun haldið áfram værum við að tala um rúma tvo milljarða[27]. Sé miðað við síðari töluna þyrfti höfuðstóllinn að vera 140 milljarðar til að tryggja fasta raunupphæð á hverju ári með engri innbyggðri hækkun fram á við.

Þróun síðustu þriggja ára er auðvitað afbrigðileg en við skulum samt halda okkur við þá 1,4 milljarða sem greiddir verða út á þessu ári. Við þurfum engu að síður að taka tillit til hinnar innbyggðu hækkunar sem enn er fullgildur hluti samningsins og skilaði sér að svo sannarlega fyrstu tíu ár samningstímans og mun væntanlega gera það áfram að kreppu yfirstaðinni.

Segjum sem svo að ríkið ætti upphæð X sem það lánar út á almennum viðskiptakjörum sem nú eru 4% vextir á verðtryggðum útlánum banka. Af vöxtunum ætlar ríkið að greiða laun presta og jafnframt að taka tilllit til árlegrar raunhækkunar greiðslna upp á 3%. Það þýðir að fyrstu 3 vaxtaprósentin þurfa að renna inn í höfuðstól hverju sinni en laun presta reiknast af því eina prósenti sem eftir stendur. Höfuðstóll þyrfti þá að vera 140 milljarðar.

Þar sem við erum að tala um ríkið sem greiðanda er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir langtímavöxtum sem samsvara hagvexti en með óbreyttri skattprósentu ætti hagvöxtur að samsvara raunvexti skatttekna. Ef laun presta hækka ekki umfram hagvöxt þyrfti höfuðstóllinn að standa í 140 milljörðum til að geta greitt laun í 100 ár og ekki lengur.

Raunhæf ávöxtun umfram hagvöxt sést kannski best með því að skoða öruggustu langtímafjárfestingar 20. aldarinnar en þar ber hæst bandarísk ríkisskuldabréf sem gáfu 0,9% raunvexti að jafnaði. Verðbréfamarkaðurinn bandaríski skilaði aðeins meiru, Dow Jones vísitalan hækkaði að jafnaði um 5,3% á ári, nokkuð sem Warren Buffett telur ólíklegt að gerist á 21. öldinni. Verðbólga mældist á sama tíma að jafnaði um 3% þannig að raunávöxtun verðbréfamarkaðarins var 2,3% á 20. öldinni[28].

Samantekt

Kaupsamningur sá sem ríkið gerði við þjóðkirkjuna gerir sem sagt ráð fyrir kaupverði af stærðargráðunni 100 milljarðir – sem er varlega áætlað eins og kemur fram í þriðju og síðustu greininni. Þar munum við einnig reyna að gera okkur grein fyrir hvert raunverulegt verðmæti hins selda er og hvort samræmi er milli þessara tveggja talna.

[Heimildaskrá]

Brynjólfur Þorvarðarson 05.03.2012
Flokkað undir: ( Klassík , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.