Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hitler lifir í Reykjavík (síðdegis)

Hitler án skeggs

Samsæriskenningar eru oft skemmtilegar og geta blásið lífi í daufan veruleikann. Frásagnir af duldum skilaboðum á dollaraseðlum og kenningar um að tungllendingin hafi verið sviðsett eru skemmtiefni fyrir þá sem þykir heimurinn ekki alveg nógu krassandi. Einn angi af þessum rosalegu frásögnum tengist mýtum í kringum síðari heimsstyrjöldina.

Fjölmiðlar sem blöffa

Sögur þar sem helförinni er afneitað eru þar líklega einna þekktastar. Þar er gengið út frá því að nokkrir tugir gyðinga hafi verið teknir af lífi í útrýmingarbúðum nasista og að umfangsmiklar sögufalsanir Bandaríkjamanna og Rússa hafi kveikt þá mynd sem við höfum af þessum hörmungaratburðum. Þessar fullyrðingar eru svo studdar af allskonar ítarefni sem á að ljá afneitunarkenningunni trúverðugleikablæ.

Við þetta er ekkert að annað að athuga en að þetta er einfaldlega ósatt. Helförin var skrásett af mikilli Þýskri nákvæmni þannig að tölur um fjölda fórnarlamba eru þekkt stærð. Það er alltaf til fólk sem dregur augljósa hluti í efa og vísar í samsæri eða geimverur máli sínu til stuðnings.

Hitt væri verra ef fjölmiðlar, sem vilja láta taka sig alvarlega, færu að birta greinar eða halda úti umfjöllun um að helförin hafi verið eitt stórt blöff. Fjölmiðlamaður sem héldi slíku fram yrði fljótlega afgreiddur sem furðufugl eða skoffín.

Hitler lifði lengi vel

Það var því hálf undarlegt að hlusta á þáttinn Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um kvöldmatarleytið þann 16. janúar síðastliðinn. Stjórnendur þáttarins fóru um víðan völl eins og gengur þar til annar stjórnendanna fer að tala um Adolf Hitler. Sá æstist aðeins við og sagði ábúðarfullur að líklegt yrði að telja að Adolf Hitler hefði dáið úr hárri elli einhverstaðar í Argentínu um það bil þegar Duran Duran var að hleypa af stokkunum plötunni Rio.

Máli sínu til stuðnings minntist hann á “eina eða tvær breskar rannsóknir” sem áttu að sýna fram á þetta og þá staðreynd að sumir félagar Hitlers flúðu sannarlega til Suður Ameríku. “Afhverju ekki Hitler?” spurði útvarpsmaðurinn sig og hlustendur sína – greinilega með öndina í hálsinum.

Svona umræður eru í sjálfu sér ekkert stórskaðlegar. Það er alltaf verið að afbaka veruleikann á einn eða annan veg. Það hlýtur samt að vera svolítið furðulegt að sitja undir svona samræðum ef maður er t.d. áhugamaður um þetta tímabil í mannkynssögunni. Já eða jafnvel sagnfræðingur.

Er ekki hægt að vinsa út svæsnustu furðufréttirnar áður en þeim er sleppt lausum fyrir óseðjandi þrá okkar eftir sérkennilegum fréttum? Er ekki svolítið ábyrgðarmál að tala um þessa dramatísku tíma með þessari léttúð.

Hafþór Örn Sigurðsson 21.02.2012
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Tjörvi - 21/02/12 21:41 #

Vinsældir þessarar samsæriskenningar eiga rætur sínar að rekja til bókarinnar "Grey Wolf: The Escape of Adolf Hitler" sem kom út í fyrra.

Bókin er, eins og flestir myndu vænta, byggð á undirstöðulausum grunvelli; Það eiga s.s. ekki að vera neinar heimildir fyrir því að Dolli gamli hafi framið sjálfsmorð ásamt Evu Braun í "Führer-bunkerinum" (það þarf náttúrulega ekki að ítreka að það er algjör þvæla).

Þetta er ágætlega tekið fyrir á síðunni RationalSkepticism þar sem einnig er bent á ýmsar heimildir.

http://www.rationalskepticism.org/conspiracy-theories/did-hitler-escape-to-argentina-after-the-war-t26283-60.html


Jón Steinar - 10/03/12 06:39 #

Ég er nú enginn efasemdarmaður um helförina, en tölur um fórnarlömb voru ekki skráðar af þýskri nákvæmni, eins og hér segir. Þegar þið skrifið gegn slíkum efasemdum, þá ættuð þið að gera heimavinnuna.

Á minnsimerki í Auschwich var skráð að 4,5 millijónir hafi farist þar eða verið útrýmt. fyrir um tveim áratugum eða svo var skipt um þetta minnismerki og talan 1,5 milljónir sett í staðin. 6 milljónatalan stendur þó enn eins og eitthvað soundbite.

Þetta eru nógu demónískar tölur þótt lægri séu og nægur vitnisburður um hryllinginn, sem sannarlega átti sér stað. Að hér hafi allt verið skrásett "af þýskri nákvæmni" er bara alls ekki rétt hjá ykkur.

Þið eruð að fjalla um ábyrga upplýsingamiðlun hér. Byrjið heima.


Jón Steinar - 10/03/12 06:51 #

Það voru ekki bara Gyðingar sem voru myrtir eða dóu úr vosbúð og alls ekki voru þeir þeir einu á dauðalista þeirra þótt þeir hafi sannanlega verið fjölmennasti hópurinn. (ath. Gyðingdómur er trúarskilgreining en ekki etnísk)

Það er mikið á reiki um þessar tölur. Hverjar þær voru í heildina og hve mikið af hverjum hóp lét lífið. Um þetta eru aðeins til kenningar. Aldrei hafa verið opnaðar fjöldagrafir við fangabúðir og eru þær höndlaðar sem helgir reitir. Niðurstaða í þessa talningu fæst því aldrei.

Þetta er þó algert aukaatriði, þegar talað er um þessa principal grimmd og morðæði sem átti sér stað. Morðæði sem í grunnin átti sér rætur í trúarbrögðum þeim sem þykir göfgi hér að flokkast undir.

Þessar gyðingaofsóknir eru svo heldur ekki þær einu í sögunni, því þessi trúflokkur hefur verið hundeltur og ofsóttur um alla evrópu í hundruð ára. Allt á grunni trúarbragða. Viðmótið speglast vel í sálmum Hallgríms Pétursonar. Í dag þykir hvorki pólitískt rétt að lýsa andúð á gyðingum, sama hvað þeir verða orðaðir við, né að gagnrýna kveðskap Hallgríms, sem er réttlættur á grunni hefða, eins og Ísraelsmenn réttlæta ofríki sitt í miðausturlöndum.

Trú og hefð. Þetta er eitthvað hafið upp yfir allt, sama hversu banal það er. Þökk Vantrú fyrir að beina ljósi á fáránleka þessa.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.