Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dónalega ríkiskirkjan

Orðaleppurinn “ríkiskirkja” er alls ekki notaður af Fríkirkjunni í áróðursskyni né heldur til að særa einn eða neinn. Orðið er notað vegna þess að ekkert annað orð lýsir betur því starfsumhverfi og þeim starfsveruleika sem Fríkirkjan finnur sig í. Annars þyrfti að skýra merkinguna með heilli setningu sem gæti hljóðað eitthvað á þessa leið; “Það trúfélag eða sá hluti kirkjunnar sem nýtur mun meiri framlaga, stuðnings, forréttinda og verndar frá ríkinu en aðrir”.

Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur Fríkirkjunnar skrifaði þessi orð fyrir tíu árum síðan, tilefnið var það að biskup ríkiskirkjunnar, Karl Sigubjörnsson, hafði kvartað undan málflutningi Hjartar. Þetta er ekki í eina skiptið sem klerkastéttin hefur kvartað undan því að talað sé um “ríkiskirkju”.

Dónaskapurinn

Átta ríkiskirkjuprestar gengu lengra en biskupinn þeirra, og kærðu Hjört Magna til siðanefndar Prestafélags Íslands. Siðanefndin taldi að það væri “rangfærsla” að tala um ríkiskirkju. Karl Sigurbjörnsson kvartaði líka undan því að orðið ríkiskirkja hafi verið notað í fréttaskýringaþættinum Kompás og sagði að það væri “áróðursorð”.

Ríkiskirkjuprestar hafa líka kvartað undan þessu á netinu. Árni Svanur Daníelsson kallar þetta “ósið”, “dónaskap” og “uppnefni” [#]. Ríkiskirkjupresturinn Kristín Þórunn Tómasdóttir er sammála því að þetta sé “dónaskapur” og bætir því við að það sé “aumt stílbragð” [#]. Í umræðum um síðustu grein mína kallaði fyrrverandi ríkiskirkjupresturinn Carlos Ferrer þetta “orðskrípi”, “uppnefni”, “meiðandi” og sagði að tilgangurinn með orðanotkuninni væri að “koma fólki úr jafnvægi”.

Er það virkilega hræðilegt uppnefni að kalla Þjóðkirkjuna “ríkiskirkju”? Eða er Þjóðkirkjan einfaldlega ríkiskirkja?

Hvað er ríkiskirkja?

Til að svara þeirri spurningu þarf auðvitað að skilgreina “ríkiskirkja”. Ég, alveg eins og Hjörtur Magni, nota það orð yfir kirkjur sem eru í nánu sambandi við ríkið, er stjórnað meira af ríkinu en önnur trúfélög og hefur ýmis forréttindi umfram önnur trúfélög.

Samkvæmt þessari skilgreiningu er engin spurning um að Þjóðkirkjan er ríkiskirkja. Helst má nefna að í stjórnarskránni er grein sem segir að ríkið eigi að “styðja og vernda” Þjóðkirkjuna. Þegar forréttindi Þjóðkirkjunnar eru varin, þá er einmitt vísað til þess að stjórnarskráin leyfi það, sem er alveg hárrétt. Gott dæmi um þetta er frægt dómsmál Ásatrúarfélagsins gegn íslenska ríkinu, en þar voru ein rök dómaranna fyrir því hvers vegna ríkinu væri heimilt að styrkja ríkiskirkjuna sérstaklega[1] einmitt þau að stjórnarskráin leyfir það.

Ríkið stjórnar svo Þjóðkirkjunni miklu meir en öðrum trúfélögum. Það eru sérstök lög um “stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar” sem kveða á um ýmislegt um innri starfsemi Þjóðkirkjunnar. Nýlega var gerð örlítil breyting á ráðningu presta. Kirkjan réði ekki þeirri ákvörðun, eins og hjá frjálsum trúfélögum, heldur Alþingi.

Auk þess fær Þjóðkirkjan ýmis önnur forréttindi. Sem dæmi má nefna að biskup ríkiskirkjunnar fær diplómatavegabréf og Biskupsstofa fær meira að segja afslátt í ÁTVR.

Ríkiskirkjumenn

Það eru svo ekki bara einhverjir fjandmenn Þjóðkirkjunnar sem halda því fram að hún sé ríkiskirkja. Einn prófastur ríkiskirkjunnar, Gunnar Kristjánsson, segir í pistli að það eigi við rök að styðjast að Þjóðkirkjan “hafi sterk einkenni ríkiskirkjunnar enda liggur það í augum uppi þegar grannt er skoðað”[2]. Þegar dómurinn í Ásatrúarmálinu var kveðinn upp skrifaði djákni Þjóðkirkjunnar, Halldór E. Guðmundsson, að þeir sem héldu því fram að Þjóðkirkjan væri ríkiskirkja “hefðu rétt fyrir sér”[3].

Á nýlegu Kirkjuþingi var fjallað um aðskilnað ríkis og kirkju. Þar tók til máls Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við guðfræðideild Háskóla Íslands, en Hjalti er sá kirkjunnar maður sem hefur skrifað hvað mest um stöðu Þjóðkirkjunnar. Hjalti vill sjálfur ekki nota orðið “ríkiskirkja” um stöðu Þjóðkirkjunnar, en samkvæmt honum er deilt um það í alþjóðlegri umræðu, það væri “fræðileg deila um það hvort að þjóðkirkjulögin eru sjálfstæðislög eða hvort þau eru ríkiskirkjulög”[4].

Ríkisstjórnmálaflokkurinn

Það er augljóst að ýmsir ríkiskirkjuprestar nota þrengri skilgreiningu á orðinu ríkiskirkja en ég, Hjörtur Magni og ýmsir aðrir. Sömu prestar telja það meira að segja vera dónaskap að nota ekki þeirra skilgreiningu!

Ímyndum okkur að staða Sjálfstæðisflokksins væri sambærileg og staða Þjóðkirkjunnar. Í stjórnarskránni stæði að Sjálfstæðisflokkurinn væri “þjóðstjórnmálaflokkur” og þess vegna ætti ríkið að “styðja og vernda” hann. Það væri sérstök lög í landinu um starfsemi Sjálfstæðisflokksins. Sami flokkur fengi ýmis forréttindi sem aðrir stjórnmálaflokkar fengju ekki, þar með talið miklu hærri fjárstyrk frá ríkinu.

Væri eitthvað óeðlilegt að tala um “ríkisstjórnmálaflokk” í þessu ímyndaða dæmi? Og hvað myndi það segja okkur ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins hneyksluðust á því, og teldu það beinlínis dónaskap, að tala um “ríkisstjórnmálaflokk”?

Ég held að það væri eðlilegt að tala um “ríkisstjórnmálaflokk”. Þess vegna held ég líka að það sé eðlilegt að tala um Þjóðkirkjuna sem ríkiskirkju, hún er það einfaldlega.


[1] Um er að ræða jöfnunarsjóð sókna og Kirkjumálasjóð. Ríkiskirkjan fær um það bil þrjátíu prósent hærri sóknargjöld fyrir hvern meðlim frá ríkinu í þessa sjóði heldur en Ásatrúarfélagið.

[2] “Í doktorsritgerð sinni um íslenskan kirkjurétt frá 1986 (Geschichte und Gegenwartsgestalt des isländischen Kirchenrechts) heldur dr. Bjarni Sigurðsson því fram að íslenska þjóðkirkjan hafi sterk einkenni ríkiskirkjunnar enda liggur það í augum uppi þegar grannt er skoðað. Mat hans á enn við rök að styðjast formlega séð þótt lagabreytingin 1997 hafi vissulega breytt mörgu í rétta átt.” #

[3] “Fyrir þau/þá sem hafa viljað nota hugtakið ríkiskirkja um stöðu Þjóðkirkjunnar á Íslandi þrátt fyrir mótmæli mín. Dómur Hæstarétts er fallinn, ég hafði rangt fyrir mér. Eftir allt erum við ríkiskirkja og spurning hvort að ég noti ekki tækifærið og geri kröfu á kirkjuna um leiðrétt lífeyrisréttindi.” #

[4] “Ég hef sjálfur í alþjóðlegri umræðu um kirkjuskipanina hér haldið því fram að hér sé sjálfstæð samstarfskirkja, eins og ég hef kosið að kalla þetta, sem sagt sjálfstæðara kirkjuform heldur en þjóðkirkjur allavegana 19. og 20. aldarinna voru, en ég hef fengið það í hausinn að hér sé kirkjulöggjöfin svo viðamikil að ég hljóti að hafa á röngu að standa, þetta hljóti að vera ríkiskirkja. Það er sem sagt fræðileg deila um það hvort að þjóðkirkjulögin eru sjálfstæðislög eða hvort þau eru ríkiskirkjulög, en ég myndi ímynda mér að mörgum þætti að þau þyrfti að einfalda, til þess að aðskilnaðarhugtakið fengi einhverja merkingu. Sumir myndu segja að það þyrftu að vera ein trúfélagalög í landinu, það er að segja að Þjóðkirkjan heyrði undir sömu lög og skráð trúfélög.” Hjalti byrjar ræða sína ~43 mínútur í þessari upptöku

[5] Sem dæmi má benda á þessa skilgreiningu Þórhalls Heimissonar: “Ríkiskirkjur kallast þær kirkjur sem eru algerlega háðar ríkisvaldinu um alla hluti og ráða sér á engan hátt sjálfar.” # og skilgreining Karls Sigurbjörnssonar: “Þar [með orðinu “ríkiskirkja”] er átt við stofnun sem er rekin og stjórnað af ríkinu.” #

Hjalti Rúnar Ómarsson 02.02.2012
Flokkað undir: ( Ríkiskirkjan , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Kristinn - 02/02/12 12:33 #

Átti von á þessum. Góður, Hjalti Rúnar!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 02/02/12 12:47 #

Mér finnst bara frekar dónalegt að tala um ríkiskirkjuna sem þjóðkirkju Íslands. Þvílík svívirða og móðgun.


Daníel (meðlimur í Vantrú) - 02/02/12 20:18 #

Á það má líka benda að prestar eru ríkisstarfsmenn. Það hefur m.a. komið í ljós að lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eiga við um þá, þ.a.l. hlýtur kirkjan að vera ríkisstofnun, þ.e.a.s. ríkiskirkja.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?