Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skaðsemisrökleysan

Börn

Ef maður þarf í sífellu að gera andmælenda sínum upp skoðanir, þá bendir það til þess að maður hafi lélegan málstað að verja. Þá getur maður eflaust ekki svarað hinum raunverulegum rökum og þess vegna býr maður sér til eitthvað viðráðanlegt. Þeir sem berjast fyrir óheftum aðgangi ríkiskirkjunnar og annarra kristinna trúfélaga að opinberum skólum stunda þessa iðju.

Hin ímynduðu rök

Kirkjunnar menn virðast varla geta tjáð sig um þetta mál án þess að halda því fram að ein af ástæðum, ef ekki aðalástæðan, fyrir því að andmælendur þeirra villja ekki að prestar eða aðrir trúboðar fai óheftan aðgang að börnum sé sú að kristni sé skaðleg eða hættuleg.

Nýlega skrifaði Bjarni Jónsson, varaformaður Siðmenntar, grein í Fréttablaðið þar sem hann enn einu sinni leiðrétti þennan “misskilning”: “Til réttlætingar er sagt að enginn hafi skaðast af því að heyra guðsorð, en um það snýst ekki málið.”

Þetta virðist ekki hafa dugað, þar sem að í svargrein talar Jóhann Þorsteinsson, KFUM-ara og Gídeonmanni, um að “alvarlegasta brotið” í samskiptum skóla og kirkju sé að “líta svo á að [kirkjan] sé [nemendum] hættuleg# og talar um að Bjarni sé upptekinn af þeirri “ógn” sem stafar af kristinboðunum.

Ógnandi málflutningur embættismanna

Jóhann er auðvitað ekki sá eini sem kemur með svona fullyrðingar. Í annarri Fréttablaðsgrein sér höfundurinn ástæðu til þess að taka fram að það hafi ekki “skaðað okkur að hafa lært kristinfræði og sungið með prestinum”.

Nýleg grein í Morgunblaðinu fer strax í þennan gír í sjálfri heiti greinarinnar, “Eru prestar hættulegir börnum?”. Höfundurinn fullyrðir að “stjórnendur höfuðborgarinnar telja presta vera hættulega börnum”, en fullvissar lesendur um að ekkert barn hafi “beðið skaða af því að fá að kynnast fræðslu kirkjunnar þjóna”.

Það eru ekki bara einhverjir “trúmenn út í bæ” sem stunda þessa strámannssmíði, þeir sem hafa atvinnu af trú eru alls ekki síðri. Ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson sagði til dæmis, löngu fyrir tilurð nýju reglna Reykjavíkurborgar, að nú væri “prestum bannað að sækja heim suma leikskóla því boðskapur þeirra er talinn hættulegur börnunum.” Og svo bætti hann því við að nú væru prestar “víst hættulegir menn með hættulegan boðskap.”

Stéttarbróðir Þórhalls, Ólafur Jóhannsson, var hins vegar að tjá sig um reglur Reykjavíkurborgar þegar hann sagði þetta:

Tekist er á um kristinfræðikennslu í skólum og sterkur andróður er gegn öllu kristnu uppeldi. Fámennur en hávær hópur ofstækisfullra trúleysingja reynir að koma kristninni út úr opinberu lífi, rétt eins og hún sé pest eða plága.

Eða - trúir því einhver í alvörunni að það geri börnum illt að læra gullnu regluna og tvöfalda kærleiksboðorðið eða heyra um miskunnsama Samverjann og góða hirðinn? Hefur einhver orðið verri manneskja af því að læra um umhyggju Jesú gagnvart þeim sem minna mega sín? Er vonarboðskapur upprisunnar hættulegur?

Sumir trúleysingjar ganga svo langt í yfirgangi og afskiptasemi að þeir vilja banna bænir í kirkjum ef börn eru viðstödd. Þekkir þú barn sem hefur farið illa út úr því að vera viðstatt bænagjörð?

Auðvitað eigum við óhikað að kenna börnum trú og trúariðkun - rétt eins og við kennum þeim almenna kurteisi, borðsiði og matarvenjur, umferðarreglur eða muninn á réttu og röngu.

Í skólum þarf vitanlega að virða mörk trúfræðslu og trúboðs en kristinfræði í skólum er ekkert „hættulegri“ en íþróttir og listir, svo dæmi séu tekin um aðrar gildishlaðnar námsgreinar. #

Það eru auðitað til fleiri dæmi[1], en ég held að þessi upptalning nægi.

Raunverulegu rökin

Það er erfitt að átta sig á því hvaðan þetta fólk fékk þá flugu í höfuðið að fólk vildi ekki trúboð í skólum af því að trúin sé hættuleg. Því að rökin sem eru notuð gegn átroðningi kirkjunnar manna eru allt önnur.

Til að byrja með er bent á að opinberir skólar eigi að vera hlutlausir og fyrir alla, en ekki bara fyrir börn kristinna foreldra. Það er ekki æskilegt að skólarnir verði sérstaklega fyrir kristin börn, til dæmis með því að leiða börnin í kristinni bæn. Kirkjunnar fólk á eflaust erfitt með að svara þessum rökum, án þess að hljóma illa, til dæmis með því að stinga upp á að börn sem ekki vilja biðja verði tekin úr hópnum á meðan. Eða að segja, eins og ríkiskirkjupresturinn Örn Bárður sagði, að maður verði bara að “kyngja því að börnin þín uppgötvi að þau tilheyri minnihlutahópi ef þú hefur valið sjálfum þér og þeim lífskoðanir minnihlutans” #.

Önnur rök eru þau að þetta sé hluti uppeldis sem að foreldrar eigi að ráða. Það sé réttur foreldra að innræta þeim einhverjar trúarskoðanir, ef þeir vilja. Þetta sé svið sem að skólinn eigi ekki að sinna, á sama hátt og við teljum það ekki vera á verksviði skólans að sjá til þess að börnin aðhyllist stefnu Sjálfstæðisflokksins eða Vinstri grænna.

Gegn Sjálfstæðisflokknum

Það er hægt að ganga lengra með líkinguna við stjórnmálin. Ímyndum okkur að Sjálfstæðisflokkurinn vildi fá óheftan aðgang að leik- og grunnskólum. Myndi nokkur maður (fyrir utan einhverja örfáa sjálfstæðismenn) styðja það? Dettur einhverjum í hug að ástæðan fyrir andstöðunni væri sú að stefna Sjálfstæðisflokksins væri “hættuleg” eða “skaðleg”?

Auðvitað væri það ekki ástæðan. Sama gildir um ágang kirkjunnar manna. Þegar þeir eru sífellt að gera öðrum upp þá ástæðu, þá er ekki hægt að halda annað en að þeir séu einfaldlega óheiðarlegir. Nema að þeir nenni eða vilji ekki hlusta á gagnrýnisraddir.


[1]Enda hafa skólastjórnendur einfaldlega kannað hug foreldra eða gert það upp við sig að heimsókn í kirkju á aðventu er ekki hættuleg ungmennum # – Magnús Björn Björnsson, ríkiskirkjuprestur

Eru þessi orð Páls hættuleg fyrir börn í skólum landsins? Fela þau í sér eitthvað, sem þarf að óttast? # - Birgir Ásgeirsson, ríkiskirkjuprestur

Eiga unglingarnir að vafra í örvilnan um gangana meðan leitað er leyfis foreldra með símtölum, tölvupósti eða venjulegum bréfpósti og kannað hvort hleypa megi þessum hættulegu mönnum inn sem prestar virðast vera í augum sumra, starfsstétt, sem sinnt hefur þessum málaflokki hér á landi í þúsund ár? # - Örn Bárður Jónsson, ríkiskirkjuprestur

Ekki má færa börnum trúarlega texta. Ritningarnar Nýja testamentið og Kóraninn eru lagðar að jöfnu í tilskipunum ráðsins í nafni íslensks menningararfs og grundvallargilda. Í nafni jafnréttis á heimsvísu hafa þessi rit sjálfsagt haft jafn „skaðvænleg“ áhrif á íslenska hugsun yfirleitt. # – Pétur Pétursson, prófessor við guðfræðideild HÍ

Hjalti Rúnar Ómarsson 22.01.2012
Flokkað undir: ( Gídeon , Kristindómurinn , Skólinn )

Viðbrögð


Carlos - 22/01/12 12:16 #

[ athugasemd og svör færð á spjallborð þar sem þetta hefur ekkert með efni greinarinnar að gera ]


haukurv - 22/01/12 12:20 #

Ímyndum okkur að Sjálfstæðisflokkurinn vildi fá óheftan aðgang að leik- og grunnskólum. Myndi nokkur maður (fyrir utan einhverja örfáa sjálfstæðismenn) styðja það?

Og jafnvel þó að Sjálfstæðisflokkurinn (eða hvaða annar flokkur sem er) væri með hreinan meirihluta og megnið af flokksmönnum fyndist þetta bara fínt, þá væri þetta samt alveg jafn óeðlilegt.


Carlos - 22/01/12 12:21 #

Að fýlubombu minni slepptri og sprunginni, er ég jafnsvekktur á kollegum mínu og þú þegar þeir rökræða á þann hátt og þú gagnrýnir. Það er heimskulegt að byggja barnastarf kirkju og samstarf þess við skóla á því að það skaði engan. Menn verða að huga að mannréttindum annars hugsandi og hafa góða kennslufræði að leiðarljósi.


Kristinn - 22/01/12 12:40 #

Flott grein, Hjalti!


Ómar Harðarson - 22/01/12 13:30 #

Þetta er fín grein, en eins og alltaf, þá er veruleikinn nokkuð flóknari.

Það eru fullnægjandi ástæður í veraldlegu þjóðfélagi að komið sé í veg fyrir að trúboð eins tiltekins trúflokks sé ástundað í skólum landsins. Börn foreldra sem leggja átrúnað á önnur goðmögn, eða líta á kenningar þessa trúflokks sem trúvillu, eiga ekki að þurfa að sitja undir slíku né heldur börn foreldra sem vilja ala þau upp í skynsemi og góðum siðum án hjátrúar og hindurvitna.

Hins vegar verð ég að játa það á mig að ég er einn af strámönnunum sem Hjalti Rúnar telur ekki vera til. Ég lít svo á að guðstrú sé í sjálfu sér hættuleg. Hér á ég ekki við að hún sé hættuleg öllum heldur getur hún valdið óbætanlegum skaða þeim fáu sem eru veikir fyrir. Hún er að þessu leyti eins og brennivín, flest börn bíða engan skaða af því þótt þau smakki það á unga aldri. Fáein þeirra munu hins vegar verða fyrir óbætanlegu tjóni - og verða alkohólistar og á götunni til lífstíðar verði því otað að þeim.

Öll okkar þekkja slíka einstaklinga sem fyrir einstaka óheppni og á viðkvæmum tímum í lífi sínu hafa sogast inn í sértrúarsöfnuðina, hvort sem það eru múnistar eða lúterskir evangelistar.

Af sömu ástæðu og ég vil ekki leyfa vínsmakkanir í skólum ætlast ég því til þess trúboð sé ekki stundað þar. Ég ætlast hins vegar ekki til að koma að slíkri ákvörðun, til þess eru miklu stilltari menn og konur hæfari; fólk sem er mér ósammála en vill vernda mannréttindi annarra (og minna, ef út í það er farið).


Elsa Nore (meðlimur í Vantrú) - 22/01/12 14:41 #

Góð grein. Ég er ein þeirra sem telur trúboð vera skaðleg í skólum. Hætta er að ósætti milli foreldra og barna og andleg vanlíðan getur skaðað fjölskyldu þegar börnum eru boðuð trú í skólum sem foreldrum aðhyllist ekki. Hins vegar er ég sammála um að það sé ekki aðalmálið í þessari umræðu. Prestar verða að treysta foreldrum fyrir að sjálf sjá um trúaruppeldi barna sinna. Ef foreldrar vilja að börnin þeirra fari í kirkju, þá fara þau bara með þau sjálf.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/01/12 17:14 #

Ég færði umræður um orðið "ríkiskirkjuprestur" á spjallborðið. Reynum að halda okkur við efni greinarinnar hér.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 22/01/12 17:31 #

Ég er reyndar sammála Ómari Harðarsyni um það að:

Guðstrú er hættuleg.

Ef hún nær tökum á viðkvæmum barnsheilanum getur hún skemmt möguleikann á rökréttri hugsun og komið inn alls konar skaðlegum hugmyndum sem á stundum geta trompað eðlilega siðferðiskennd fólks til mikils skaða fyrir þjóðfélagið.

Samt sem áður hefur ekki verið notast við þessa röksemdafærslu í baráttu gegn trúboði í skólum vegna þess að hennar hefur ekki verið þörf og að hún gæti skaðað málið í hugum þeirra sem þegar eru sýktir af guðshugmyndinni.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 22/01/12 19:56 #

Er þó ekki réttara að tala um að Guðstrú GETI verið hættuleg? Á sama hátt og áfengi t.d. Svo er alltaf spurning um muninn á "hættuleg" og "skaðleg". Reykingar eru t.d. skaðlegar en varla hættulegar samkvæmt minni máltilfinningu.


Ómar Harðarson - 22/01/12 21:50 #

Ég er sammála Helga Briem um að mannréttindarökin séu fullnægjandi, og því þurfi ekki skaðsemisrökin. Þar að auki hafa þau aldrei verið lögð fram í umfjöllun mannréttindanefndar Reykjavíkur.

Hvað uppástungu Hauks Ísleifssonar um að rétt sé að segja að guðstrú GETI verið hættuleg, þá er ég ekki sammála. Áfengi er hættulegt vegna þess að eitthvert hlutfall einstaklinga verður fyrir skaða vegna ofdrykkju. Reykingar eru hættulegar vegna þess að það veldur krabbameini hjá einhverjum hluta reykingamanna. Þá er það þeim skaðlegt, en ekki er samt hægt að vita fyrirfram hverjir það verða. Sama er með trúarbrögð. Þau eru hættuleg almennt, en skaðleg aðeins sumum.


haukurv - 23/01/12 13:51 #

Orðskilningur: hættulegt

Minn málskilningur hallast að þvi sem Ómar segir, þ.e. að eitthvað sé hættulegt þýði að það séu svo og svo miklar likur á að það valdi skaða. Hvað mörk eiga svo að vera dregin varðandi hve miklar líkur á hve miklum skaða dugi til að eitthvað teljist hættulegt er svo allt önnur umræða.

Það að segja eitthvað geta verið hættulegt er dálítið að eins og að segja að það geti verið að það séu likur á að hægt sé að skaða einhvern með þessu, sem truflar dálítið smásmugulega elementið í mér :-) Réttara finnst mér að tala um að eitthvað sé hættulegt og þá kannski hvort það sé mjög, soldið eða bara lítið hættulegt...

Jæja nóg um hártoganir frá mér um þetta.


Jóhann Þorsteinsson - 24/01/12 00:58 #

Það finnst mér merkilegt að þegar Vantrúarmenn vitna í skrif mín, þessa einu grein sem ég hef sent frá mér, þá þarf alltaf að umorða eða sleppa úr einhverju af því sem ég sagði í þeirri setningu svo það sé auðveldara að gagnrýna og gera lítið úr skoðunum mínum. Þannig eru menn farnir að gera mér upp ýmsar skoðanir sem ég hef ekki sett fram og falla í þá gryfju sem þeir sjálfir gagnrýna einmitt okkur, hina kristnu um.

Ég er t.d. bara hvergi að berjast fyrir óheftum aðgangi ríkiskirkjunnar, hvergi talað fyrir því að það eigi að biðja með börnum í skólastarfi og þegar ég fjalla um að Bjarni sé upptekinn af þeirri ógn sem stafi af kristniboðunum (sem er einmitt ekki orðið sem ég notaði) þá er ég að reyna að vekja máls á því að kennsla og skólastarf er gildishlaðið.

Samskipti við trúar og lífsskoðunarfélög eru að mínu mati eðlilegur þáttur í samfélagi okkar. Þau gefa tækifæri til umfjöllunar inní skólastarfinu um hin ólíku gildi, ólíka lífssýn, ólíka menningu, ólíkar væntingar o.sv.fr.

Ekki bara eina ríkiskirkju sem má segja allt og gera allt....nei það er ekki mín ósk en ekki heldur eina trúlausa ríkisafstöðu sem kæfir alla.

Ég veit ekki hvort ég skrifa meira hér en vildi samt alla vega bregðast einu sinni við því sem hér var ritað af Hjalta því nafn mitt kemur fram....og reyndar má geta þess, fyrst Hjalti sér ástæðu til að kynna mig svo ítarlega sem raun ber að ég er jú KFUM-ari...og Gídeonmaður....en skrifaði greinina fyrst og fremst sem skólamaður...kennari að mennt og hálfnaður í mastersnáminu....en það hentaði ekki að geta þess, betra að merkja mig óvininum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/01/12 09:21 #

Jóhann, það er vísun á grein þína í pistlinum (sjá # merki). Þú skrifar:

Að fela kirkjuna fyrir nemendum, líta svo á að hún sé þeim hættuleg og starfsemi hennar brjóti á mannréttindum er í raun alvarlegasta brotið sem við sem samfélag getum framið í þessum efnum.

Þá er erfitt að sjá að þú sért ekki að gera Bjarna (sem þú ert að svara) og öðrum upp þá skoðun að kirkjan sé hættuleg börnum og því hafi verið settar reglur í Reykjavík um samskipti skóla og trúfélaga.

Ég er t.d. bara hvergi að berjast fyrir óheftum aðgangi ríkiskirkjunnar, hvergi talað fyrir því að það eigi að biðja með börnum í skólastarfi

Af hverju ertu þá að berjast gegn reglum Mannréttindaráðs Reykjavíkur?

en skrifaði greinina fyrst og fremst sem skólamaður...kennari að mennt og hálfnaður í mastersnáminu....en það hentaði ekki að geta þess, betra að merkja mig óvininum.

Þú skrifar þessa grein fyrst og fremst sem trúmaður Jóhann.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/12 13:20 #

Sæll Jóhann

Fyrst að þú last greinina, þá langar mig að athuga hvort að aðalpunkturinn hafi komist í gegn: Ætlar þú að hætta því að tala eins og þeir sem eru sáttir við þessar reglur geri það af því að þeir telji kirkjuna vera "hættulega" eða "ógn"?

Í umræðunni hefur mikið af kirkjufólki talað gegn því að það séu á annað borð settar reglur um þetta, það kalla ég "óheftan aðgang".

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?