Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Leyndardómar framtíðarinnar

Eldgos

Í fyrsta tölublaði blaðsins Hafnarfjörður birtist spádómur Hrannar Friðriksdóttur og Ölmu Hrannar Hrannardóttur fyrir árið 2012. Þar kemur margt áhugavert fram hjá mæðgunum sem mér finnst tilvalið að rýna aðeins í.

Heimilin

Heimilin halda áfram að skiptast í tvo hópa; þeir sem hafa það erfitt og þeir sem hafa það betra, mér finnst þetta bil alls ekki vera að breytast. Yngra fólk og skuldugra fólk mun eiga erfiðara með að ná endum saman og mér finnst munurinn heldur breikka. Engar aðgerðir verða til að lagfæra hag skuldugra heimila. Ég get ekki séð að stjórnvöld geti hjálpað skuldugum heimilum meira en gert hefur verið. Tiltrú almennings á eftir að verða meiri á framtíðina. Mér finnst Íslendingar vita núna að við komumst upp úr kreppunni, enda vitum við að kreppunni er lokið. En hjólin eru svo lengi að komast af stað aftur því þau toppuðu, sumir eru óþolinmóðir og óþreyjufullir, en flestir hafa verið mjög þolinmóðir og sjá að þetta mun ganga vel þó það taki tíma. Mér finnst fullt af fólki í landinu vera mjög raunsætt og gera sér fulla grein fyrir hvernig ástandið er. En svo eru aðrir sem búa í glerhúsum og við þurfum að passa okkur vel á því fólki, uppi á glerhúsunum standa hanar og þeir gala hátt. Mér finnst fólksflutningar úr landi ekki aukast, frekar minnka aðeins, en þeir halda áfram og mest til Noregs eins og verið hefur. Mótmæli verða ekki mikil á árinu en samt sé ég haldinn einn stóran fund þar sem almenningur kemur saman.

Það er ekkert hér sem hvaða maður sem er gæti ekki komið frá sér með því einu að hugsa fram í tímann miðað við hvernig málum hefur verið háttað hér undanfarin ár. Varðandi hópaskiptinguna þá virðast allir þegnar tilteknir í orðunum ''þeir sem hafa það erfitt og þeir sem hafa það betra''. Hvernig þetta ætti að eiga við árið 2012 á annan hátt en hvaða annað ár Íslandssögunnar er erfitt að sjá.

Varðandi fólksflutninga þá fluttust 4.835 fleiri frá landinu en til þess árið 2009. Árið 2010 var heldur skárra, eða 2.134 fleiri fluttu frá landinu en til þess. Upplýsingar um 2011 hafa ekki enn verið birta en það kæmi lítið á óvart þó að sama munstur sæjist þar líka og því lítið óvænt að spákonan spái þessu.

Restin af þessum hluta spádómsins er mest um tillfinningar fólks og hugarfar sem verður víst mismunandi eftir hópum, sem er auðvitað nokkuð sem varla er hægt að klúðra, sama hvar eða hvenær einhver gerir spádóm, það verður alltaf til hópaskipting þar sem mismunandi tilfinningar og hugsanir láta á sér kræla. Áhugavert verður svo að sjá hvort það verður einn stór mótmælafundur (þá líklegast töluvert og ásjánlega stærri en allir aðrir) sem stendur uppúr á árinu.

Atvinnumál

Það verður þung aldan hjá okkur fram á vor en þá fer að liðkast um margt. Þeir eru að fara með mig suður með sjó í Helguvík og vilja meina að þar eigi eftir að byggjast upp. Mér finnst líka að annað eigi eftir að byggjast upp þar, á Suðurnesjum, sem eigi eftir að koma okkur til góða, mér finnst það ekki bara tengjast fólkinu sem býr þar heldur sé ég hóp af hámenntuðu fólki. Ég sé ekki nákvæmlega hvað þau eru að gera en þetta er hópur af fólki sem er mikið menntað, þau eru uppi á gamla varnarliðssvæðinu. Það á eftir að verða mjög gott, eitthvað sem á eftir að stækka, það á eftir að bætast í hópinn eins og það komi fólk úr öllum áttum. Mér sýnist sumarið verða ágætt atvinnulega séð og má segja að seinni hluti ársins verði betri en hefur verði undanfarið, en hjólin okkar stoppuðu og það tekur tíma að koma stóru atvinnuhjóli af stað. Þó ég sjái betra ástand á seinni hluta ársins þá verður 2013 mun betra hjá okkur vinnulega séð. Ég er að sjá svolítið bjartari tíma yfir peningamaskínunum okkar, það er eitthvað að komast af stað þar sem hefur verið í mikilli lægð frá hruni.

Já, það er verið að flytja hana til Helguvíkur. Var það ekki þar sem eitthvað álver hefur verið í bígerð í langan tíma og tengt því gerðardómur sem féll nýlega og losaði um spennu í þessu máli og opnaði fyrir möguleikana að setja verkefnið á skrið aftur?

Svo sér hún hópa hámenntaðs fólks koma saman á gamla varnarliðssvæðinu - gott ef það er ekki bara skóli þar núna og hefur verið í soldin tíma. Restin af þessum hluta segir í sem fæstum orðum þetta: ''Ástandið mun batna eftir því sem tíminn líður''. Ég er svo aldeilis hissa, s.s. að hlutirnir skáni eftir því sem lengra líður frá efnahagshruni.

Þetta hlýtur að vera nýlunda í sögu efnahagshruna - að með tímanum komist samfélög sem lenda í svona hremmingum aftur á fætur. Ég er svo aldeilis gapandi hissa.

Stjórnmál

Tiltrú almennings á Alþingi eykst þegar alþingiskosningum verður lokið, þær verða á árinu. Mér finnst koma fram tveir nýir flokkar sem bjóða fram í alþingiskosningunum, öðrum flokknum á eftir að ganga vel. Forsetinn hættir og kona verður kjörin forseti. Það er sko ófriður í ríkisstjórninni. Þessi stjórn er ekki sammála um neitt og það breytist ekkert á nýju ári. Ég sé að Steingrímur og Jóhanna eru örþreytt. Ungur karlmaður tekur við forystu í Samfylkingunni. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki á góðri siglingu og það er stöðnun í Framsóknarflokknum. Eitthvað atvik veldur því að reiðialda gengur yfir samfélagið og það er þungt yfir þessu. Þetta atvik tengist stjórnmálaflokkunum. Stjórnin situr ekki út árið, Steingrímur verður ekki forsætisráðherra og Jóhanna gefur ekki kost á sér áfram. Ekki verður mynduð þjóðstjórn. Tvö ný framboð koma fram og Borgarahreyfingin lognast útaf. Einhver breyting verður á þingmönnum við næstu kosningar en ekki verður mikið um flokkaflakk.

Hér er loksins eitthvað sem hægt er að festa fingur á og staðreyna í árslok. Alþingiskosningar eiga að vera 2013 næst en hún spáir kosningum fyrr og þar af leiðandi falli stjórnarinnar. Miðað við hversu fallvölt stjórnin hefur verið í langan tíma mun ég þó ekki gefa mörg stig þó þetta verði að raunveruleika, þetta er hreinlega bara töluvert líklegur atburður.

Reiðialda gengur yfir samfélagið sökum einhvers atburðs tengdum stjórnmálaflokki. Hvaða ár á þessari öld hefur þetta ekki gerst? Það er alltaf eitthvað sem upp kemur sem kallar á reiði fjöldans, engin stig fást fyrir þetta. Steingrímur var að enda við að taka við nýju embætti eftir að hafa verið fjármálaráðherra, ef stjórnin á svo í þokkabót að falla 2012 þá liggur það nánast í augum uppi að Steingrímur tekur ekki við forsetaráðherrastólnum - það er engin tími til þess.

Tveir nýir flokkar bjóða fram og öðrum þeirra mun ganga vel segir Hrönn ennfremur - verður fróðlegt að sjá hvort það standist þó ég myndi ekki gefa alltof mörg stig fyrir það heldur sökum þess eins að í síðustu mánuðum 2011 komu fram ýmsar fréttir þess efnis að nýir flokkar kæmu fram, alveg nokkrir. Sjaldnast verða allar bollaleggingar um nýja flokka að veruleika þannig að hér hefur Hrönn ákveðið að tvö stykki myndu ná að bjóða fram, gott og vel, það er eflaust bara fínasta gisk.

Hvernig ''gott gengi'' nýs flokks í þeirra fyrstu kosningum er skilgreint er svo ekki beint niðurneglt og því eflaust hægt að ''túlka'' sig frá þessu á ýmsan hátt ef þess þarf. Forsetinn hættir segir Hrönn. Gott ef hann tilkynnti það ekki 1. janúar síðastliðin og viðtalið við Hrönn birtist 6. janúar. Gefum okkur það nú samt að viðtalið hafi verið tekið fyrir tilkynningu forsetans en þá situr eftir að hann er þegar búin að sitja í heil 16 ár og því ekki fjarri að hann væri orðin saddur af þessu. Svo er uppáhaldið mitt þarna í lokin - það verður breyting á þingmönnum við næstu kosningar. Í alvöru?

Sakamál – dómstólar

Sérstakur saksóknari verður öflugur á árinu. Menn verða dæmdir en ég vil ekki tjá mig um nein nöfn. Við eigum eftir að sjá hvítflibbana fara í fangelsi. Það eiga mörg mál eftir að koma uppá yfirborðið. Við höfum bara séð toppinn á ísjakanum. Icesave verður áfram í umræðunni meðan það er eftir að leysa málið. Nú fer málið fyrir dóm og ég get ekki betur séð en við eigum eftir að þurfa að borga, hversu mikið ætla ég ekki að tjá mig um. Landsmenn ganga að kjörborðinu. Miklir erfiðleikar eru framundan í SB. oftar en einu sinni á árinu. Ríkisstjórnin lifir ekki út árið.

Menn verða dæmdir já, ég ætla rétt að vona það eftir þrotlausar rannsóknir síðan 2009. Engin nöfn samt, ekkert of nákvæmt, það er ekki í stíl alvöru spámiðils. Mörg mál koma upp á yfirborðið - ég auglýsi enn og aftur eftir ári í manna minnum þar sem mörg mál komu ekki upp á yfirborðið. Icesave verður svo áfram í umræðunni. Nei hættið nú alveg, ég sem hélt að það væru allir búnir að gleyma þessu. Og við þurfum að borga! Ef það er einhverjum óljóst þá hefur alltaf legið fyrir að við þurfum að borga, alltaf. Hversu mikið við þurfum að borga er það sem allt havaríið snýst um, hvað segir Hrönn um það? Einmitt!

Kirkjan – sveitarfélög

Ég sé konu innan prestastéttarinnar láta mikið í sér heyra á árinu, ég átta mig ekki á hvað hún er að gera en hún talar mikið fyrir hönd kirkjunnar út á við. Mér finnst þessi kona vera sameiningartákn svo það á eftir að ríkja meiri friður og sátt um kirkjuna. Mér finnst eiga eftir að koma upp einhver skítur hjá Hafnarfjarðarbæ. Mér finnst ekki allt uppi á borðum þar, því miður. Ég sé sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sameinast í framtíðinni, en ég sé Reykjavík standa utan við. Þetta er ekki að fara að gerast á næsta ári heldur gæti verið á næstu fjórum árum. Kópavogsbær á eftir að lenda í fjárhagsvandræðum sem koma fram á árinu, ekki sambærilegt við Álftanes en það verða erfiðleikar í rekstri bæjarfélagsins.

Það verður fróðlegt að sjá þessa fyrirferðarmiklu konu koma upp meiri sátt og friði um kirkjuna, ég er spenntur! Og svo kemur upp skítur hjá Hafnarfjarðarbæ og ekki allt uppi á borðinu. Bíddu, ertu að tala um bæinn sem skuldar tugi miljarða, var að klára að endursemja um skuldir án þess að gera samkomulagið opinbert sem hefur ollið mikilli togstreitu í stjórninni þar í bæ? Gott ef Hrönn er ekki að negla mjög flottann nagla hér, s.s. þann að ef skilmálar endurskipulagninga skulda bæjarins verða gerðir opinberir þá getur hún sagt ''sko, ég spáði þessu, það myndi koma upp skítur'' en ef ekkert kemur upp eða breytist þá getur hún sagt ''sko, ekki er þetta uppi á borðum, ég spáði þessu''. Ekki veiti ég mörg stig fyrir svona fléttur.

Sameiningamál taka langan tíma þannig að Hrönn gefur því 4 ár í viðbót - kannski. Alltaf gaman þegar spámiðlar spá atburði, gefa honum 4 ára tímabil til að rætast án þess að tjá sum um hvenær á þessu tímabili atburðurinn mun eiga sér stað og klína svo orðunum ''gæti verið'' inn í spánna. Til hvers að vera spámiðill ef þú þarft að nota ''gæti verið'' í spánum þínum? Ég get alveg spáð og hent inn þessum frasa og verið þannig tryggður sama hvernig fer. 0 stig.

Og Kópavogur lendir í vandræðum líka, nohh. Hvaða sveitafélag hefur ekki lent í vandræðum eftir hrun eða er allavega í hættu á að lenda í vandræðum? Hvernig skilgreinurðu svo ''vandamál''? Þrengingar sem kalla á gjaldskrárhækkannir? Eitthvað meira dramatískt? Ekkert er gefið upp sem er nógu nákvæmt svo hægt sé að staðfesta hvort spáin rætist eður ei. En takið eftir, Kópavogur verður samt ekki jafn miklum vandræðu og Álftanes! Þetta er almennilegt hjá Hrönn, hún er s.s. segja að m.v. þær upplýsingar sem við höfum í dag um fjármál Kópavogsbæjar, þá mun bærinn ekki fara frá núverandi stöðu yfir í greiðsluþrot með skuldir upp á sjöfalda ársveltu og enda í þokkabót í fjárhagsgjörgæslu ríkisins. Gott ef þetta er ekki bara að fara að rætast; Kópavogsbær verður ekki í jafn slæmri stöðu og Álftanes. Sorrý Hrönn, aftur færðu 0 stig.

Kona sem hlustað verður á

Ég sé konu koma fram sem er með sítt dökkt slétt fallegt hár. Hún er að tala fyrir góða réttláta hluti og er greinilega vel menntuð. Hún talar fyrir stjórnmálaafl en er ekki leiðtogi þess, og það verður hlustað mikið á hana því hún er að tala um svo góða sanna hluti. Mér finnst hún verða sigurvegarinn þó hún fái verðlaunin ekki sjálf.

Hárið er sítt, það er dökkt, það er slétt og það er fallegt. Umræðuefnið er þekkt sem réttlátt og satt. Hún talar fyrir stjórnmálaafl án þess að vera leiðtogi og er vel menntuð. Það eina sem vantar er nafnið á henni. Verst að það fylgdi ekki. Eða nánari upplýsingar um stjórnmálaaflið, er það t.d. nýtt eða gamalt? Verst að það vantaði líka.

Verst að þessi lýsing er þess eðlis, í bæði nákvæmni og ónákvæmni, að það er eflaust hægt að finna fleiri en eina eða tvær konur sem gætu fallið undir hana sama hvernig árið fer og þannig er búið að opna fyrir þann möguleika að túlka sig inn og út úr þessum spádómi eftir að árið er liðið. Veitt stig: 0

Ungur afreksmaður

Ég sé dreng sem keppir í einstaklingsíþrótt, það er hlaðið á hann peningum, ég sé hann vinna fimm verðlaunapeninga á árinu. Þetta eru stór verðlaun og ég yrði ekki hissa á að hann stæði á verðlaunapalli á Ólympíuleikunum. Hann er ungur þessi drengur, hann er gjörsamlega óstöðvandi. Mér finnst ekki mikið hafa verið tekið eftir honum nú þegar. Sé ekkert fyrir hvað hann er að keppa, aðeins að hann er í einstaklingsíþrótt.

Bíddu nú hæg Hrönn. Þú sást áðan að hárið á ungu vel menntuðu konunni sé slétt, sítt, dökkt og fallegt en þú sérð ekki í hvaða íþrótt þessi gaur er að keppa! Var hann að hlaupa? Glíma? Kasta einhverju? Hvernig var hann klæddur? Var hárið annars ekki fallegt?

Svo er þetta góð lína; ''ekki hissa á að hann stæði á verðlaunapalli á Ólympíuleikunum.'' Ummm, ok, ertu s.s. að spá því að hann vinni til verðlauna þar eða yrðuru bara ekki hissa ef það gerist? Hvernig á ég að geta veðjað á Ólympíuleikana á lengjunni þegar þú ert svona óskýr í þessu? Annars er ég tilbúin að spá því að þessi spádómur kollfalli.

Náttúran

Veðrið – Það verður snjór áfram um allt land í vetur, hann er ekkert að fara. Ég sé mjög fallegt veður inn á milli, bjart, sól og tillur. Mér finnst vorið verða ágætt. Sumarið verður sólríkt, vindasamt og þurrt. Það sem ég sé er að þetta verður sólríkt ár.

Tvö eldgos, ég fer ekki ofan af því að það á eftir að gjósa á tveimur stöðum fyrir desember 2012, ég tel það verði Katla og Hekla. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af Heklugosinu, það verður fallegt hraungos, sem sagt fínt túristagos.

Ég hef ekki gefið Hrönn mörg stig hingað til en hér fær hún stig, alveg nokkur, samt ekki alveg strax. Hún spáir snjó um allt land áfram í vetur, ég er ekki hissa, snjór á það til að falla á veturna á Íslandi. Verst að hún tekur ekki til neitt um magn eða hversu lengi hann verður, það hefði verið flottara. Hún sér fallegt veður inn á milli! Já, gott ef það er ekki soldið bara eðli veðurs á Íslandi, að breytast hratt og mikið, snjóhríðir, slydda og viðbjóður en inn á milli gullfalleg veður. Henni finnst vorið vera ágætt. Hvað þýðir það? Hvað finnst Hrönn ágætt? Mér finnst vindur leiðinlegur en rigning og snjókoma fín, kannski er það öfugt hjá henni.

Nú kemur að stigagjöf. Hún spáir nákvæmlega 2 gosum á nákvæmlega 2 stöðum. En bíddu nú, hvað þýðir það, ''2 staðir''? Erum við að tala um 2 mismunandi eldfjöll? Eða gæti gosið úr 2 goskötlum í sömu eldstöðinni? Ég held samt að hún sé að meina 2 eldfjöll, hún tiltekur jú einmitt 2 mismunandi eldfjöll í þessari sömu setningu þannig að eðlilegast væri að skilja hana þannig. Þetta er samt flott hjá henni, hún fær viðleitnisstig í minni bók fyrir að þora að nota tölur en ekki orð eins og ''nokkur gos'' eða ''ég sé fleiri en eitt gos'' eins og sumir úr hennar röðum eiga til að nota.

Hún fær þó ekki ofurmiðilsstig eins og Lára Ólafsdóttir ''sjáandi'' sem spáði stórum jarðskjálfta í Krýsuvík kl: 23:15 þann 27. júlí 2009. Við bíðum enn eftir þeim skjálfta en Lára reyndi síðar að eigna sér litla skjálfta sem komu upp löngu síðar, töluvert langt frá Krýsuvík og svo reyndi hún líka að eigna sér gosið í fimmvörðuhálsi. Hún sagði: ''mér finnst mjög merkilegt að eldgosið á Fimmvörðuhálsi hafi byrjað klukkan 23:30, en ég sagði 23:15''. Henni fannst það merkilegt þrátt fyrir að hafa skeikað 230km, 8 mánuðum og að jarðskjálfti hafi breyst í eldgos. Close enough!

En aftur að Hrönn. Hún velur sér 2 eldfjöll, reyndar annað sem er löngu komið á tíma og hitt sem er mjög virkt og gýs nánast á korters fresti en samt, hún virðist útiloka önnur fjöll á árinu og það verði bara 1 gos í hvoru fjalli. Ég er nokkuð ánægður með þetta, þetta er mikil framför í nákvæmni m.v. margt annað í þessum spádómi. 3 stig!

Evrópa

Evrópusambandið er að stíga inn í mikla erfiðleika. Það verður mjög erfitt fyrir ríkin að standa saman og komst í gegnum þessa erfiðleika. Það tekur lengri tíma fyrir þjóðir eins og Grikki að komast úr sínum vanda en það tekur okkur. Það er mikil ringulreið í Grikklandi og fleiri ríki sem eiga eftir að glíma við mikla erfiðleika t.d. Slóvenía. Eitthvað í kringum Angelu Merkel er ekki nógu gott, gæti verið spilling en hún kemst í gegnum þá erfiðleika. Frakklandsforseti er ekki mjög sterkur í sínum stól og mér sýnist að þar gætu orðið kosningar.

Erfiðleikar í Evrópusambandinu? Ha? Síðan hvenær? Fleiri ríki að glíma við erfiðleika? Bíddu, haaa? Greyið Merkel lendir í þessu fræga ''eitthvað''. Ég þoli ekki þegar ég lendi í eitthvaðinu. Eitthvaðið gæti verið spilling segir Hrönn. Það hefur alveg gerst að stjórnmál og spilling stingi saman nefjum. En hún kemst í gegnum eitthvaðið - það er nú gott. Það gætu svo orðið kosningar í Frakklandi. Eða Færeyjum. Eða súkkúlaðiskortur í Namibíu. Gæti verið.

Að lokum

Við lestur spádómsins upplifði ég að margt af þessu sé líkleg þróun miðað við almannaróg, fréttir undanfarinna mánaða og aðra almenna þróun mála. Til dæmis var mikið talað um í fréttum að konur væru að íhuga biskupsframboð og finnst mér, þótt ég hafi enga spádómshæfileika, sú niðurstaða frekar líkleg í ljósi þeirra frétta. Það sama á við um margt annað í spádómnum eins og ég reglulega benti á. Það er samt passað upp á að hafa orðalagið eða atburðalýsinguna nógu óljósa til þess að það geti meint annað, ef illa fer.

Í sem fæstum orðum þá finnst mér þetta bara einfaldlega ósannfærandi og bera allan keim af því að þær séu, hreint og beint, einfaldlega að giska á framtíðina. Hver sem er gæti sest niður og með rökhugsun og næmni fyrir samfélagslegri þróun hnoðað saman svona spádóm. Þegar þú bætir því við að vera temmilega óljós og tvíræðin í orðavali þá ertu klár. Þetta er kannski ástæðan fyrir því að allar völvurnar og spámiðlarnir misstu af bankahruninu, hryðjuverkaárásunum í Noregi, 11. sept árásinni, Huang Nubo og fleiri stórum en (nota bene) óvæntum atburðum. Svo finnst mér alveg vanta í þennan spádóm að segja okkur hvaða frægir Íslendingar deyji á árinu. Er það ekki lengur fréttnæmt?

Tókuð þið annars eftir því þegar hún talaði um að ''þeir eru að fara með mig suður í sjó...''?

Hvaða ''þeir'' eru þetta eiginlega?

Hjörtur Brynjarsson 16.01.2012
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Rebekka (meðlimur í Vantrú) - 16/01/12 10:35 #

Þetta var nú búið að ræða um á spjallborðinu, en ég ætla að stela brandaranum.

Ég hef einnig litið framtíðina og þar sem ég bý nálægt Frakklandi hef ég fengið frekari upplýsingar um valtan stól Nicolas Sarkozy. Ég fullyrði að það verði kosið um nýjan forseta Frakklands á þessu ári, jafnvel í vor eða mjög snemma sumars.

Sarkozy mun sækjast eftir endurkjöri en mætir mörgum mótframbjóðendum, þar á meðal röggsamri og sterkri konu sem að kom að rannsókn efnahagshrunsins á Íslandi. Einnig sé ég aðra konu, yngri með ljóst hár og fallegt bros, hún er dóttir umdeilds stjórnmálamanns. Einnig munu margir karlmenn sækjast eftir forsetastólnum.

Þetta er assgoti nákvæmt hjá mér... Þessar upplýsingar fékk ég frá sérlega sterkum upplýsingaveitenda sem ég kemst í samband við með orkusendingum í gegnum bæði loft og jörð.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 16/01/12 12:25 #

Úffff, ég klikkaði þarna varðandi forsetakosningarnar í Frakklandi. Það er vitað, og hefur verið vitað í langan tíma, að þær verða 2012. Ég skaut einungis á það að hún talar um að það ''gætu'' orðið kosningar þar 2012, alveg eins og það geta verið kosningar eiginlega hvar sem er hvaða ár sem er (þ.e.a.s. ef stjórnir springa).

En að tala um að það ''gætu'' verið kosningar í landi árið 2012 þar sem löngu löngu er vitað og búið að skipuleggja þær kosningar fyrir einmitt það ár er grátlega hlæjilegt.

Ég hefði getað gert miklu meira grín að þessu. Helv...


Leibbi - 23/01/12 21:27 #

Tek undir að þetta sé kjánaleg spá fyrir fyrirsjánlegum hlutum. Sjálfur fyrirlít ég allt kukl en hef engu að síður orðið fyrir óútskýranlegri reynslu, eins og að sjá fyrir ótímabærum dauða ættingja, reynsla sem ég vil vera laus við, sýnir úr fortíð sem tengjast snertingu á hlutum og hugsanlegar sýnir í framtíð sem ég hef ekki hugmynd hvort þær muni rætast og hef engar áhyggjur af því hvort þær munu rætast. Enda held ég að allir menn með sæmilegt vit í hausnum sjái hvert við stefnum. Hversdagslegir hlutir eins og að taka upp símann áður en hann hringir og vita fyrirfram hver hringir er líklega reynsla sem allir hafa einhverntímann orðið fyrir. Að fara út úr líkamanum er líklega mín furðulegasta lífsreynsla sem hefur ekki komið oft fyrir, en væri alveg til í að prufa meir. Tengi þetta ekki neinu guðlegu afli, enda hefur upplifunin ekki reynst þannig.


Hjörtur Brynjarsson (meðlimur í Vantrú) - 24/01/12 10:12 #

Tölur fyrir 2011 eru komnar. Brottfluttir umfram aðflutta eru 1.404 og hefur því þróunin verið svona:

2009: 4.835 2010: 2.134 2011: 1.404

Verður gaman að sjá hvort að við verðum hinum megin við núllið 2012.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.