Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Grundvallaráróður

Sauður

Um jólin gluggaði ég í æfisögu Stephan G. Stephansson. Þar var vitnað í orð Stephan sem voru eitthvað á þá leið að eftir hundrað ár munu prestar stæra sig af því að jafnrétti kynjanna hafi verið kristinni trú að þakka. Sú spá hefur auðvitað ræst og nú er kirkjunnar klerkastéttin meira að segja farin að endurskilgreina sjálfa kristnina.

Hið meinta grundvallaratriði

Í nýlegri predikun, sem birtist á heimasíðu ríkiskirkjunnar, sagði Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við guðfræðideild HÍ, þetta:

Í textanum sem lesinn var hér áðan úr Galatabréfi Páls postula, segir frá því nýja sem kemur með Kristi. Skírnin inn í hið nýja samfélag með Kristi, veitir okkur rétt til að tilheyra ríki Guðs á jörðu. Í því samfélagi, segir Páll, er ekki gerður greinarmunur á því hvort að við erum gyðingar eða af öðru þjóðerni, þrælar eða frjáls, karlar eða konur, af því að við erum öll eitt í Kristi Jesú. Þó að það sé grundvallaratriði kristinnar trúar að innan kirkju Krists sé ekki gerður greinarmunur á fólki eftir kyni, kynþætti, stétt eða öðru sem kann að aðgreina okkur, þá fer fjarri að sú sé raunin.
[feitletrun höfundar]

Arnfríður virðist ekki halda því fram að grundvallaratrðið sé algert jafnrétti í samfélaginu öllu. Nei, hún gengur ekki svo langt, heldur takmarkar hún jafnréttið við það að það sé “innan kirkju Krists”. Á hverju byggir Arnfríður eiginlega þessa fullyrðingu?

Biblían sem grundvöllur

Eini rökstuðingurinn í predikuninni sjálfri er að í Galatabréfi Páls postula sé boðað jafnrétti innan kirkjunnar. Þann texta má auðveldlega túlka þannig, en Nýja testamentið er ekki einungis þessi texti.

Kíkjum til dæmis á annan kafla fyrra Tímóteusarbréfs. Þar segir höfundurinn að konur eigi að “læra í kyrrþey, í allri undirgefni” (v.1) og að hann leyfi konum ekki að “kenna eða taka sér vald yfir manninum” (v. 2). Ástæðurnar sem eru gefnar fyrir þessu eru þær að Adam hafi verið myndaður á undan Evu og að það hafi verið Eva sem braut af sér í Eden. (v. 3-4)

Það eru fleiri textar í Nýja testamentinu sem fjalla um undirgefni kvenna, en þessi eini texti dugar. Er “gerður greinarmunur á fólki eftir kyni [innan kirkju Krists]” í þessum texta? Heldur betur. Ef fullyrðing Arnfríðar er rétt, þá er hér um að ræða texta í Nýja testamentinu sem er í algerri mótsögn við “grundvallaratriði kristinnar trúar”. Það væri satt best að segja frekar undarlegt.

Arnfríður gæti eflaust sagt að versin sem hún vitnaði í “trompi” þessi vers, en það væri alveg eins hægt að segja að versin sem boða misréttið “trompi” hennar versum. Biblían dugar klárlega ekki til þess að rökstyðja það að jafnrétti innan kirkjunnar sé á einhvern hátt “grundvallaratriði kristinnar trúar”.

Hið óþekkta grundvallaratriði

Ef leitað er að einhverju öðru til að komast að því hvort þetta sé grundvallaratriði kristinnar trúar, þá er hægt að skoða hvort að kristið fólk fallist almennt á þetta. Arnfríður segir sjálf að það sé “fjarri því raunin” að jafnrétti sé raunin innan kirkjunnar, en ástandið er enn verra, þar sem fjölmennustu kirkjudeildirnar eru beinlínis ósammála þessu meinta grundvallaratriði.

Prestvígsla kvenna er fínt dæmi, því þar er klárlega um mismunum á grundvelli kyns “innan kirkju Krists” að ræða. Kaþólska kirkjan og rétttrúnaðarkirkjan leyfa konum ekki að gerast prestar. Einhverjar mótmælendakirkjur leyfa það, en stór hluti þeirra leyfa það ekki. Ég held að það sé óumdeilanlegt að innan kristindóms er sú skoðun ríkjandi, að einungis karlar eigi að fá að verða prestar. Þannig að innan kristindóms er þessu meinta “grundvallaratriði” oftar en ekki hafnað.

Svo má auðvitað líka benda á sögulegu víddina. Margar af þeim kirkjum sem leyfa konum að gerast prestar, gerðu það ekki fyrir ekki svo löngu síðan. Hvernig gat þetta verið grundvallaratriði í kristinni trú fyrir nokkrum öldum, þegar nánast allar kirkjur voru mótfallnar þessu?

Grundvallaratriðið mitt!

Það svar Arnfríðar sem mér þætti skynsamlegast, væri að viðurkenna einfaldlega að þetta sé bara grundvallaratriði í þeirri útgáfu af kristni sem hún aðhyllist. En kaþólikki getur á sömu forsendum líka sagt að það sé grundvallaratriði í hans útgáfu af kristni að það sé gerður greinarmunur á fólki eftir kyni. Ku Klux Klan-meðlimurinn getur líka sagt að í hans útgáfu af kristinni trú sé það grundvallaratriði að það sé gerður greinarmunur á fólki eftir kynþætti.

Allar væru þær fullyrðingar jafn sannar. En ég efast um að Arnfríður komi með þetta svar. Ummæli hennar virtust vera fullyrðing um að hennar útgáfa af kristni væri “hin eina sanna kristni”™.

Val á grundvallaratriðum

Ef maður athugar trúarrit kristinna manna og hverju kirkjur segjast trúa, þá er ljóst að það er alveg eins, ef ekki auðveldara, að koma með gagnstæða fullyrðinu: Að það sé grundvallaratriði kristinnar trúar að gera greinarmun á fólki eftir kyni þegar kemur að kirkjulegu samfélagi.

Ég held að þegar fólk fullyrðir að hitt eða þetta sé á einhvern hátt grundvallaratriði eða áhersluatriði í kristni, þá sé í raun og veru um einhvers konar áróðursbragð að ræða, frekar en að það sé um einhvers konar raunverulega lýsingu á einhverju fyrirbæri.

Á sama hátt og tveir Marxistar myndu hugsanlega segja að eitthvað sé “ófrávíkjanleg forsenda” í marxisma, eða að “Karl Marx myndi finnast þetta”, þá stundar kristið fólk það að eitthvað sé kjarnaatriði í kristinni trú, eða að Jesú hafi kennt það. Viðkomandi aðili trúir því eflaust að það sem hann segir sé satt, en tilgangurinn er klárlega sá að fá hinn aðilan til að skipta um skoðun.

Við skulum ekki gleypa við þeim áróðri sem Stephan spáði fyrir og munum að kirkja og kristni hafa nánast alla tíð stutt kúgun.

Hjalti Rúnar Ómarsson 10.01.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Eiríkur (meðlimur í Vantrú) - 10/01/12 13:18 #

"Oceania was at war with Eurasia: therefore Oceania had always been at war with Eurasia."

-1984


JohannV - 11/01/12 14:34 #

Ágætis grein Hjalti

Held það sé erfitt fyrir presta að horfast í augu við "mannleika" trúarstofnanna og starfsmanna þeirra. Þá meina ég að erfitt að greina aðgerðir trúarstofnanna frá öðrum í mannlegu samfélagi, jafn gallaðar (möguleiki á hatri og misrétti). Má líka segja að erfitt sé að aðgreina pólitískan tilgang frá trúarlegum.

Fynnst kirkjan hálf léleg (miðað við 1984 tilvísunina hérna að ofan) að hafa ekki leiðrétt þessa misræmi í nýja testamentinu. En þar sem fólk kunni ekki að lesa áður og fáir nenna enn, þá er það kannski óþarfi.


Kári - 14/01/12 17:09 #

Mikið óskaplega fara þær í taugarnar á mér þessar ´eftiráskýringar´ kirkjunnar manna þess efnis að hin sívaxandi mannúð og réttlæti í vestrænum þjóðfélögum síðustu örfáar aldirnar sé ´kristnum´ siðaboðskap að þakka. Ef þessi áróður klerkanna á við rök að styðjast, hví tók það þá svona langan tíma fyrir hinn ´kristna´ siðaboðskap að síast inn í meðvitund okkar vesturlandabúa? Hin sífellt máttugri mannúð í vestrænum nútímaríkjum, sem vikið er að hér að ofan, er í sögulegu samhengi algjört nýjabrum (til dæmis er velferðarríkiskonseptið ekki nema u.þ.b. einnar og hálfrar aldar gamalt fyrirbæri - og almenn framkvæmd þess hugtaks er ennþá yngri, jafnvel ekki nema rúmlega hálfrar aldar gömul). Ef við lítum yfir sögu kristinnar kirkju þá kemur í ljós að lengst af hefur hún alls ekki boðað neitt í líkingu við þær hugsjónir sem velferðarríkið, jafnréttisbarátta kynjanna og aðrar slíkar mannúðar- og réttsýnistefnur nútímans byggjast á. Á heildina séð hefur boðskapur kirkjunnar þjóna í aldanna rás verið litaður af íhaldssemi, sleikiskap við ´the powers that be´ í þjóðfélaginu, átoritetshyggju, og karlrembu sem jaðrar við kvenfyrirlitningu (sbr. þá nöturlegu staðreynd að enn í dag meina langflestar kirkjudeildir kristninnnar konum að taka prestvígslu). Svo er það auðvitað ómótmælanleg staðreynd að fólk þarf alls ekki að vera kristið til að fylgja hinum ´kristna´ siðaboðskap að málum. Allir sem eitthvað hafa lagt stund á samanburð trúarbragða vita að það er ekkert sér-kristið við þetta svokallaða ´kristna´ siðgæði; áþekkan siðaboðskap er að finna í öllum meiriháttar trúarbrögðum. Og það er ekkert sem hindrar fólk, sem er algjörlega trúlaust á nokkurn yfirskilvitlegan veruleika, í að standa fremst í fylkingu við að trúa á og berjast fyrir sífellt mannúðlegra og réttlátara þjóðfélagi. Jæja, þetta er nóg röfl í bili. Ég bið alla lesendur vel að lifa - kristna sem ókristna ;)

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.