Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúir þú á líf handan Vantrúar?

Ef þú ætlar að vera kirkja, biskup, prestur eða bara óbreyttur trúaður einstaklingur er svarið við spurningunni já. Félagið Vantrú hefur breytt landslaginu og umræðunni um trúarleg og lífsviðhorfsmálefni á Íslandi eins og önnur samtök s.s. Siðmennt hafa varla megnað.

Ef ég ætti að lýsa félaginu Vantrú á hlutlausum nótum með einni setningu eða með einfaldri skilgreiningu myndi ég segja:

Vantrú er loftvarnarflauta sem lætur í sér heyra um leið og vafasömu rignir niður af himnum.

Ég skrifa þetta með feitu letri til að minna mig og aðra trúmenn, sama hvaðan þeir koma á það að við komumst ekki upp með ómelt eða óhugsað bull (=klisjur, kreddur, fegranir ... árásir á annarsþenkjandi).

Allir sem hafa verið í miðbæ Reykjavíkur á fyrsta miðvikudegi hvers mánaðar kl. 12, vita að enginn færi sjálfviljugur á loftvarnarflautukonsert. Loftvarnarflautur eiga ekki að gefa frá sér þæginleg hljóð enda eiga þær að vara við hættu.

Félagið Vantrú hefur tekið þátt í trúmálaumræðu, reyndar sparkað upp dyrum að þeirri umræðu á köflum. Í bráðum 9 ár og hefur náð að snúa niður nokkrum verkefnum íslenskrar Þjóðkirkju, nú síðast með beinni hugmyndafræðilegri aðild að verklagi Reykjavíkurborgar um aðkomu kirkju að námi grunnskólabarna.

Félagið Vantrú hefur gagnrýnt biskupa íslensku þjóðkirkjunnar, sitjandi og fyrrverandi, presta og einstaklinga harðlega hvenær sem orð og æði þeirra hefur rekist inn á áhugasvið þess. Ég ætla að fullyrða hér að það var fyrst til að benda á veikleika sitjandi biskups í ræðum hans um trú- og guðlausa.

Við trúmenn vorum ekki undir það búnir, að nokkur flautaði á okkur með þeim hætti sem Vantrú flautar. Sumir tóku rökræðuna um stund, á ýmsum vefmiðlum. Aðrir "rökræddu" úr prédikunarstólnum, öruggir fyrir athygli Vantrúarinnar nema þegar útvarp eða vefurinn birti orð þeirra. Enn aðrir skrifuðu blaðagreinar. Fáir ef nokkrir hafa enst í þeirri umræðu, enda þarf skráp til að skoða eigin trú og orðfæri og spegla það í ljósi hugmyndafræðilegra andstæðinga sem klæða sig ekki í silkihanska, þegar þeir klappa manni.

Umræðan mótar mann og ef maður leyfir, bætir hún. Ég fyrir mitt leyti þakka félögum í Vantrú, sérstaklega Birgi, Matta og Hjalta að hafa gert mig að betri manni í þeim skilningi, að ég horfi orðið alltaf um öxl (-og inn í mig) um leið og ég tjái mig um trúmál. Hvort eigið innrætið er gott skal ég hinsvegar ekki segja.

Vantrúin er hljóðmúr sem ég þurfti að komast í gegn til að hreinsa til í málfari og röksemdafærslu minni. Vantrúin er múr sem ég þurfti að þola til að hreinsa til í trú minni. Ég er staðfastari trúmaður vegna þeirra. Fyrir það get ég ekki annað en þakkað.

Ég held að Vantrúin hafi hlutverk fleinsins í holdi kirkjunnar (2 Kor. 12,7), sem getur hvort heldur veikt en líka styrkt hana. Fleinninn á ekki að vera þæginlegur, hann á að minna mann á að maður er takmarkaður, fávís, veikur, getur ekki allt. Fram hjá honum verður ekki farið. Þöggun hans eða mildun er ekki til góðs, þar sem vandi kirkjunnar er ekki Vantrúin heldur að kirkjan, biskup, prestar og aðrir trúmenn hugsa mál sitt ekki til enda, nota meiðandi mál, nota óhugsaðar eða lítt ígrundaðar klisjur eða eru á annan hátt óvandaðir ráðsmenn fagnaðarerindisins.

Næsti biskup, sérhver starfandi prestur og sérhver kristinn þátttakandi opinberrar umræðu þarf að sætta sig við að loftvarnarflautan Vantrú er tilbúin til að láta í sér heyra, hvenær sem hann eða hún slær hugmyndafræðilegar feilnótur. Fyrir það ber að þakka.


Höfundur birti þessa grein á Facebook síðu sinni. Hún birtist hér með góðfúslegu leyfi hans.

Carlos A. Ferrer 09.12.2011
Flokkað undir: ( Aðsend grein )

Viðbrögð


JR - 09/12/11 12:17 #

,,Félagið Vantrú hefur breytt landslaginu og umræðunni um trúarleg og lífsviðhorfsmálefni á Íslandi..."

Hvernig lítur sú staða í dag ? Jú, eitthvert sóðalegasta vinna sem um getur, ,,einelti" ?

Hvaða sögu vilja vantrúarfólk skilja eftir sig ?

Eins og hún er í dag ?

Vill fólk verða minnst fyrir eitthvað merkilegra ?


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 12:33 #

Ekkert einelti átti sér stað af hendi Vantrúar.

Við sendum inn kvörtun til siðanefndar háskólans vegna þess sem okkur þótti að okkur vegið í kennslu.

Við gerðum svo grein fyrir þessari kvörtun á vefnum.

Þetta er allt "eineltið".

Ég hvet þig til að kynna þér staðreyndir málsins, ekki bara þann einhliða áróður sem gagnaðili okkar hefur rekið í fjölmiðlum.


Helgi Briem (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 12:44 #

Eins og þú mundir vita JH, ef þú hefðir lesið það sem fram hefur komið um þetta mál, þá kom einelti hvergi við sögu nema sem ímyndun.

Enda stöðluð viðbrögð þjóðkirkjumanna við allri gagnrýni að ásaka gagnrýnendur um einelti.

Samviska Vantrúarmanna er alveg hrein í þessu máli.


Siggi Páll - 09/12/11 12:48 #

Einkennilegt hvað fólk á erfitt með að skilja að prestar og trúaðir ljúga. þeir hafa ítrekað gerst sekir um lygar í umfjöllun sinni um trúarlíf sklólabarna og samt heldur fólk í sinni blindni að trúaðir geti bara ekki logið.

Ég verð nú að segja fyrir mitt leiti að margir ef ekki flestir þeirra trúuðu manneskja sem ég hef umgengst í gegnum tíðina og fylgist með, stela, svíkja, ljúga og pretta fólk. Og mæta svo í sína syndaaflausn á sunnudögum.

Staðreindir ljúga ekki, tilfinningar ljúga og rökræða trúaðra fer öll fram á tilfinningum.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 12:48 #

Takk fyrir að leyfa okkur að birta þessa grein Carlos.


Carlos - 09/12/11 12:56 #

Ég kannast ekki við þá presta og þá trúaða sem þú lýsir þarna, Siggi Páll úr mínu nærumhverfi, er ég þó prestur.

Ég kannast hinsvegar við að menn (líka vígðir) geta verið breyskir, geta verið siðblindir, geta lagst lágt og geta risið upp og jafnvel stokkið yfir skugga sína.

Óháð lífsviðhorfi.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 12:56 #

Staðreindir ljúga ekki, tilfinningar ljúga og rökræða trúaðra fer öll fram á tilfinningum.

Það má kannski segja að til skamms tíma hafi þetta verið dálítið einkenni á umræðunni. En eins og Carlos bendir á í greininni eru að renna upp nýir tímar. Vafstur okkar hefur þá orðið til einhvers.


Þórður Grétarsson - 09/12/11 13:34 #

Takk fyrir afbragðsgóð grein Séra Carlos.


Johanna - 09/12/11 14:49 #

Ég held að það sé hægt að fara illa með allt. Líka Vantrú. - Alveg eins og hugtak eins og Feminismi hefur fengið á sig slæman stimpil, þá hefur Vantrú fengið á sig slæman stimpil.

Er það ekki af sömu orsökum? - Vegna þeirra aðila sem ganga of langt, fara offari o.s.framvegis.

Hvorki Vantrú né feminismi er vont. Feminismi er mótvægi við feðraveldið, karlrembu o.s.frv.

Vantrú er því mótvægi við Trúrembu (ótrúlega flott orð að eigin mati ;-) - og kannski einmitt kirkjufeðraveldi? Eða hvað?

En það sem fólk hefur upplifað bæði hvað feminista varðar og svo félagskapinn Vantrú að stundum er gengið of langt. Róttæknin fer út yfir öll mörk og eins og sumir feministar vilja helst geyma karla í gámum og nýta þá aðeins til undaneldis, þá kemur "boðskapur" Vantrúar stundum þannig fyrir sjónir að það ætti helst að troða öllum trúuðum í gám og loka fyrir. -

Eftirfarandi skrifaði ég á Facebook síðu hjá Kristni Theódórssyni, fv. félaga í Vantrú, þar sem var verið að ræða hvernig sumir (sem hér eru kölluð skemmd epli) skemma í raun fyrir málstaðnum.

Ég er aðein búin að betrumbæta það sem ég skrifaði en það hljómar einhvern veginn á þennan veg:

"Ég held að dæmið með skemmdu eplin sem skemma út frá sér virki alveg eins eða svipað hvort sem er um ritstjóra/stjórnarmann í Vantrú eða prest. Ég hef nú stundum tekið andköf yfir ummælum presta og þar sem ég er einstaklega afskiptasöm sent þeim línu eða látið mitt álit í ljós, stundum opinberlega - en stundum á spjallsíðum þar sem fólk á vettvangi kirkjunnar spjallar saman um daginn og veginn. - Ætli þú hafir ekki, Kristinn, yfirgefið Vantrú af svipuðum orsökum og ég þjóðkirkjuna. - A.m.k. að hluta til. Það er svo sorglegt hvernig þessi mál hafa þróast, Vantrú hlýtur að vera sett upp sem mótspyrna við oftrú - en vonandi ekki til þess að hæðast að hinum almenna (hófsama) trúmanni. Alveg eins og sumir prestar hafa fælt fólk frá þjóðkirkjunni þá fæla eflaust sumir Vantrúarskríbentar (jafnvel þó þeir skrifi á eigin bloggi) aðra frá Vantrú. - Það er margt gott að gerast í þjóðkirkjunni - gott starf, fullt af flottu fólki - en þeir fá minnsta athygli, það er skemmtilegra að finna presta sem eru fordómafullir, klaufalegir o.s.frv. - og halda þeirra málstað á lofti til að sverta kirkjuna. - Nú lendir Vantrú í því sama, allir félagsmenn eru dæmdir út frá orðum og orðfæri nokkurra einstaklinga. Ég vona að Siðmennt beri ekki skaða af þessu, en margir gera ekki greinarmun á milli Siðmenntar og Vantrúar, - setja alla trúlausa undir sama hatt, enn og aftur eins og margir setja alla trúaða undir sama hatt."

Hvað varðar rökræðu trúaðra og tilfinningar, þá er það að miklu leyti satt, trúin og tilfinningar eru samofin og þess vegna verða kannski svona margir særðir, sumir segja að við séum "víruð" annað hvort til að trúa eða trúa ekki.

En vonandi finnst einhver flötur þar sem hægt verður að mynda valhoppandi kærleikskeðju trúaðra sem trúlausra, - eða við hættum að aðgreina okkur sem slík - hver fær að vera í friði með sitt. Við megum segja hvað okkur finnst, en hætta að vera með árásir á hvert annað og blammeringar. -

Well kids, eigið góðan föstudag ;-)


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 15:08 #

Ég held að líkingin við femínista sé mjög góð, en ég vil draga allt aðrar ályktanir af henni.

Báðir hópar eru að ráðast á heilagar kýr, og það er aldrei hægt að gera án þess að fá yfir sig mykju.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 15:54 #

Ég held að það hafi verið Greta Christina sem skrifaði gott blogg um einmitt "öfga"femínista og "öfga"trúleysingja.

Hún benti á það að þegar einhver hópur er í minnihluta og réttaminni en annar að þá er það flokkað sem öfgar þegar þeir krefjast bara jafnréttis.

Það sé því hlutverk frumkvölana að standa óskeikulir á sínu og gefa ekkert eftir en þá geta hinir "hófsömu" unnið með meirihlutanum til að bæta stöðu hópsins. Þ.e. "öfga"fólkið tekur á sig brimið og er stimplað sem femínistatussur og herskára trúleysingja.

Við í Vantrú viljum jafnrétti, algeran aðskilnað ríkis og kirkju.

Það eru víst öfgar.


Halldór Benediktsson - 09/12/11 16:09 #

Vel sagt Johanna og Trausti.

Já Trausti það eru öfgar í þjóðfélagi þar sem normið er (var?) að vera í Þjóðkirkjunni, skírast, fermast, giftast og vera jarðaður þar og almennt þykir (þótti?) að kristin trú og kirkjan er það besta sem til er, eða það skásta allavega. En sumar öfgar eru góðar, ef ekki nauðsynlegar.

Martin Luther var öfgamaður síns tíma.


Carlos - 09/12/11 16:59 #

Ég held að miðað við Medici og Borgiapáfadæmið hafi Lúther verið róttækur, en öfgamaðurinn var Karlstadt.

Ég held ekki, að baráttumálin jafnrétti lífsviðhorfa og aðskilnaður ríkis og kirkju séu öfgar heldur er annað mannréttindi og hitt pólítísk ákvörðun sem sum lönd hafa aðhyllst (án þess að hrynja) og önnur hafa haldið í (án þess að verða að alræðisríkjum). Takið eftir orðinu sum í fyrri setningu.

Kröftug, ósvífin og jafnvel persónulega meiðandi gagrýni og árásir geta vakið ýmsa af værum blundi. Þessa dagana er sýnt leikritið "Golgotha Picknique" (http://www.francetv.fr/culturebox/golgota-picnic-michael-lonsdale-sexplique-71331) við litla ánægju franskra kaþólikka sem kalla það skandal, að ríkisstyrkt leikhús fái að setja upp leikrit sem hæðist að öllu sem kristnum er heilagt, á sama tíma og óhugsandi væri að hliðstætt leikrit upp á múslimsku fengi að verma fjalirnar.

Forsvarsmaður sýningarinnar benti á, að í landi þar sem trú og ríki eru aðskilin og trúfélagsaðild fer dvínandi, fólk tjái sig lítið um trúmál á opinberum vettvangi, hafi þó þetta leikrit fengið trúfólkið til að taka afstöðu.

Öfgar, sjokk, hneykslun kalla á viðbrögð. Ég sem prestur er ánægður þegar safnaðarmeðlimir sýna viðbrögð og spyrja sig lífsspurningar vegna áreitis sem varðar trú þeirra. Ekkert er verra en lágdeyða.

Hneykslun er aldrei þæginleg tilfinning og öfgar geta meitt. En maður getur orðið sterkari einstaklingur, ef maður tekst á við sjálfan sig í kjölfarið og lærir að lifa með breyttum breytanda.


Jon Steinar - 09/12/11 22:33 #

Ég tek ofan fyrir Sr. Carlos fyrir hreinskiptnina og heiðarleikann, fyrir utan það að gefa til kynna að alhæfingar Bjarna um Vantrú hafi öðlast einhverja réttlætingu í eftirmálanum. Finnst það lúmsk setning og óréttmæt.

Mig langar annars að vita varðandi ásakanir um að Vantrú hafi "ákotnast" námsgögnin með einhverjum vafasömum hætti. Hvílir einhver leynd eða trúnaður yfir kennsluefni á vegum Háskóla Íslands? Er eitthvað þar sem þolir ekki ljós? Er þetta ekki gagnsæ stofnun? Má ekki flokka þessi kennslugögn sem opinber gögn?

Að bera þetta saman við innbrot á vefsíður finnst mér meira en furðulegt yfirklór.

Bara svo ég komi því út úr systeminu.;)


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 23:40 #

Eftir því sem ég best veit má hver sem er sitja tíma í HÍ og kennarar birta oft glærur sínar á heimasíðum sínum sem eru ekki læstar.

En leiðréttið mig endilega ef ég hef rangt fyrir mér.


Snæbjörn (meðlimur í Vantrú) - 10/12/11 01:05 #

Já, allir tímar í háskólanum eru opnir þannig að hver sem er (jafnt fólk í sem og utan Háskólans) má sitja þá, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Margir kennarar setja öll sín gögn á opin vefsvæði, og mér finnst það til fyrirmyndar. Leynd á ekki heima í opinberum háskólum, það bíður hættunni heim á óvönduðum vinnubrögðum.


Carlos - 10/12/11 07:23 #

Ertu til í að vísa beint í orð mín, Jón Steinar, svo ég viti nákvæmlega við hvað þú átt?


Jón Steinar - 10/12/11 18:54 #

Ég biðst forláts Carlos. Við nánari athugun sé ég að ég hlýt að hafa verið að rugla saman athugasemdum eða greinum, enda var ég að lesa í gegnum nokkra þræði hérna. Það sem ég er að vísa í er ekki að finna hér og því varla þín orð. Ég er eiginlega svolítið undrandi á að finna þetta ekki aftur.

Ég bið þig innilega að afsaka þennan misskilning.


Sveinn Þórhallsson - 10/12/11 19:04 #

Jón Steinar, ertu ekki bara að tala um grein Þórðar formanni siðanefndar, þar sem hann segir:

Allir sjá að Bjarni hefur ýmsar málsbætur, til dæmis vegna þess ofurkapps sem Vantrúarmenn hafa lagt á að sækja að honum eftir að málið hófst. Þeir hafa þannig í raun að hluta gengið inn í þá mynd sem Bjarni gefur af þeim í kennslu sinni.

?


Jón Steinar - 11/12/11 03:17 #

Carlos, ég er með skýringuna á þessum miskilningi.Þetta er úr grein formanns siðanefndar, Þórðar Harðarsonar. Ég las báða þessa pistla í striklotu og einhvernvegin rann þetta saman.

Annars verð ég af dulinni illkvittni að smeygja því hér inn að ég er að lesa Dan Barker, prestinn sem missti trúna á trúnni. Hann segir það algeng viðbrögð trúmanna eftir fyrirlestra eða rökræður að kveða sér hljóðs til að láta vita að málflutningur hans hafi styrkt þá enn frekar í trúnni þvert á það sem ætla mætti.

Þetta er samt kurteislegt og síviliserað og ákveðin viðurkenning á nauðsyn aðhaldsins, svo ég er ekki endilega að segja að þetta sé meðvitað markmið þitt. Það er ákveðinn léttir eftir allt að heyra guðsmann tala á þessum nótum.


Jón Steinar - 11/12/11 03:19 #

Ég sé að Sveinn var fyrri til að sjá glöpin og þakka honum ábendinguna.


Carlos - 11/12/11 11:35 #

Gott að sjá misskilninginn leystan, Jón Steinar. Dálítið gaman að sjá þig líka ná einum af broddum eða mótsögnum þessarar greinar minnar, þegar þú vísar í

Dan Barker, prestinn sem missti trúna á trúnni. Hann segir það algeng viðbrögð trúmanna eftir fyrirlestra eða rökræður að kveða sér hljóðs til að láta vita að málflutningur hans hafi styrkt þá enn frekar í trúnni þvert á það sem ætla mætti.

sem er eiginlega það sem ég geri ... og gerðist í samskiptum okkar í gegnum árin. Í ljósi þeirra tilfinninga sem samtal okkar hefur leyst úr læðingi og sum miskurteisileg orð sem hafa fallið og sérstaklega í ljósi þess að sumir hafa verið með það á hreinu að ég sé haldinn fordómum gegn Vantrú (ég tel mig hafa eftirádóma ;) ), fannst mér rétt að skrifa a.m.k. eina hugvekju útfrá hugsuninni "virðum það sem vel er gert og virðum það sem uppúr stendur".

Afraksturinn er síðan hér fyrir ofan ...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 13/12/11 18:17 #

Svo getur verið, Carlos, að fordómarnir liti eftirádómana. Þannig verða eftirádómarnir að áframhaldandi fordómum.


Carlos - 13/12/11 19:08 #

Ekki spurning, Birgir heldur túlkunarhringur. Vítahringur?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.