Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Greinargerð í siðanefndarmáli

Þórður Harðarson, formaður siðanefndar Háskóla Íslands, skrifaði þessa grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Vantrú tekur sér bessaleyfi og birtir greinina þar sem hún skiptir að okkar mati miklu máli. Textann tókum við úr Morgunblaði dagsins og uppsetning hér er á okkar ábyrgð, en við reyndum að halda okkur sem mest við uppsetningu eins og hún er í blaðinu.. Vonandi er Þórður ekki ósáttur við að greinin birtist hér á Vantrú. Myndina tókum við einnig úr Morgunblaðinu. Ef einhver er ósáttur við notkun hennar verður hún fjarlægð.


Þórður HarðarsonÞórður Harðarson
Hinn 4. febrúar 2010 lagði félagsskapurinn Vantrú fram kæru til siðanefndar Háskóla Íslands, sem beindist að kennsluefni stundakennarans Bjarna Randvers Sigurvinssonar (BRS) í námskeiði um nýtrúarhreyfingar. Vegna fjarveru formanns siðanefndar (undirritaðs) var ekki unnt að halda nefndarfund um málið fyrr en 25. mars. Fáum dögum fyrr hafði Pétur Pétursson, (PP) forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar (guðfræðideildar), þegið heimboð nefndarformanns til viðræðna um kæruna. Formaður reifaði möguleika á sáttum eins og gert er ráð fyrir í 7. gr. starfsreglna siðanefndar. Þegar formaður sýndi Pétri kennslugögn BRS virtist hann sleginn, en þar var m.a. að finna afar klámfengna vísu um mikils metinn biskup, föður hans. Þessi vísa var ekki einsdæmi. Formaður og Pétur skildu í miklu bróðerni og lýsti Pétur því yfir, að sér væri mjög létt við finna, að e.t.v. væri kostur á sáttum.

Á fyrsta nefndarfundinum 25. mars var staðfestur áhugi siðanefndarmanna á sáttum. Þá lá fyrir nefndinni bréf til formanns frá PP, þar sem sagði meðal annars: "Heill og sæll. Varðandi kæru félagsins Vantrúar út af kennsluefni í námskeiði um nýtrúarhreyfingar. Ég átti fund með Bjarna Randver, Hjalta Hugasyni og Einari Sigurbjörnssyni í dag og við erum sammála um að ræða við siðanefndina á þeim forsendum að ná sáttum eða samkomulagi [...]
Við urðum ásáttir um að það heyrði helst undir mig að ræða við nefndina (mín auðkenning), þar sem ég er nú starfandi deildarforseti, var umsjónarmaður með umræddu námskeiði og er leiðbeinandi Bjarna Randvers sem er í doktorsnámi í trúarbragðafræði..."

Siðanefndin hlaut að sjálfsögðu að starfa í samræmi við þetta bréf og leit á PP, en ekki BRS sem nánasta aðila að sáttaviðleitninni. Sú kvörtun BRS, að hafa ekki verið kvaddur á fund nefndarinnar á þessu stigi er því ástæðulaus. Sú skoðun kom raunar líka fram á siðanefndarfundinum, að kæran beindist ekki aðeins að BRS, heldur einnig guðfræðideild. Engin efnisleg umræða fór fram um kennsluefnið, enda vildi nefndin gæta hlutleysis meðan sáttatilraunir stæðu yfir. Sagt er í nýlegri Mbl-grein að Einar kannist ekki við, að fundurinn, sem PP sagði frá, hafi verið haldinn. Einnig er sagt að bréfið hafi týnst.

Í byrjun apríl þá Reynir Harðarson (RH) heimboð formanns. Hann tók ekki ólíklega í sættir, þótt síðar kæmi í ljós, að ekki voru allir samherjar hans fylgjandi þeim. Bæði PP og RH skildu, að einhvers konar tilslökun hlyti að koma til sögunnar hjá guðfræðideild eða BRS í skiptum fyrir, að Vantrú drægi kæruna til baka. Hinn 14. apríl var kæra Vantrúar til umræðu á deildarfundi guðfræðideildar. Þar mun hafa verið rætt um möguleika á sáttum.

Sama dag eða daginn eftir ræddi formaður við PP um sáttatexta og féllst hann efnislega á tillögu að inntaki textans. BRS hringdi í formann, sem sagði honum, að hann ætti að sjálfsögðu óskoraðan andmælarétt, en ekki væri tímabært að nefndin fjallaði efnislega um málið meðan fulltrúar guðfræðideildar og Vantrúar reyndu að ná sáttum. BRS virðist síðar hafa misskilið þetta þannig, að formaður hafi neitað að ræða við hann yfirleitt.

Annar fundur siðanefndar var haldinn 15. apríl. Formaður kynnti, að PP hefði fallist óformlega á sáttaleið, sem fæli í sér yfirlýsingu frá GT, gegn því að málið yrði dregið til baka. Lögfræðingur háskólans benti á andmælarétt Bjarna sem guðfræðideild þyrfti að veita honum áður en málið væri afgreitt í siðanefnd og yfirlýsing birt.

Sama dag barst tölvuskeyti frá PP til formanns, þar sem segir m.a.: "...Varðandi kæru félagsins Vantrúar á hendur Bjarna Randver. Bjarni Randver hefur lagt fram hugmyndir að samkomulagi sem mér finnst heillavænlegar. Hann er tilbúinn að endurskoða námsefnið og taka tillit til sjónarmiða Vantrúar..." Þarna kemur ljóslega fram, að BRS er aðili að sáttaviðleitninni.

Formaður siðanefndar svaraði PP næsta dag: "Að sjálfsögðu getur siðanefnd ekkert haft á móti því, að fulltrúar Vantrúar og guðfræðideildar ræðist við, ef vilji er til að beggja hálfu". Þetta sagði ég Bjarna, þegar hann hringdi í mig fyrir tveimur dögum. ... Siðanefnd taldi á fundi sínum í gær, að eðlilegt væri, að Bjarni fengi fullt tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri innan guðfræðideildar. Er þess raunar fullviss, að hann hefur fengið slíkt tækifæri. Að sjálfsögðu yrðu athugasemdir hans mikilvægt gagn í málinu fyrir siðanefnd, ef til þess kemur, að siðanefnd fjallaði efnislega um það...

PP svaraði sama dag m.a.: "...Í samræðum okkar um daginn kom það fram að siðanefnd hefði athugasemdir við ákveðnar glærur í því efni sem sent var til nefndarinnar. Ég er reiðubúinn að harma að þessar glærur hafi verið sýndar og að þær geti gefið villandi mynd af félaginu Vantrú (skáletrun mín). Ég kynnti málið á deildarfundi á miðvikudaginn og þar urðu nokkrar umræður. Næsta miðvikudag mun ég kalla saman kennarafund. Gott væri að hafa þá drög að því sáttabréfi sem nefndin leggur til að skrifað verði undir. Eins og málum er háttað nú mun ég ekki stefna þeim saman til fundar Bjarna Randveri og Reyni..."

Sama dag sendi formaður málsaðilum tillögu að sáttabréfi eftir viðræður við Reyni og Pétur: "Vísa til síðasta bréfs Péturs Péturssonar. Þar kemur fram, að kennarafundur verði haldinn í guðfræðideild á miðvikudaginn m.a. til að fjalla um hugmynd siðanefndar að sáttum. Farið er fram á drög að sáttabréfi. Eftirfarandi tillögu að sáttabréfi hef ég nú borið óformlega undir Pétur Pétursson og Reyni Harðarson og hafa báðir lýst jákvæðri afstöðu til þess:

- Meðal kennsluefnis guðfræðideildar Háskóla Íslands er námskeiðið Nýtrúarhreyfingar. Bjarni Randver Sigurvinsson hefur annast kennslu á námskeiðinu. Með bréfi dagsettu 4. febrúar 2010 barst siðanefnd Háskóla Íslands erindi frá Reyni Harðarsyni sálfræðingi fyrir hönd félagsins Vantrúar, þar sem kennsluefni, sem snerti félagið, var gagnrýnt með ýmsum hætti. Að beiðni siðanefndarinnar hafa deildarforseti og varadeildarforseti guðfræðideildar farið yfir umrætt kennsluefni. Þeir viðurkenna og harma, að kennsluefnið felur ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn. Athugasemdir Reynis Harðarsonar og samtaka hans verða teknar til jákvæðrar skoðunar, þegar og ef til þess kemur, að námskeiðið verði endurtekið. -

Samhliða var gert ráð fyrir, að Vantrú drægi kæru sína til baka.

Skemmst er frá því að segja, að PP fékk engar undirtektir á fundi í guðfræðideild (líklega 21. apríl) við hina sameiginlegu hugmynd deiluaðila og siðanefndar. Eftir á sagði PP, að hann hefði verið þvingaður til að leggja fram sáttatillöguna fyrir guðfræðideild. Engin leið er að sjá, hvers konar þvingunarmeðölum nefndin hefði getað beitt. Þvingun og sátt eru ósamrýmanleg hugtök.

Þessi frásögn ber vonandi með sér, að öll viðleitni siðanefndar og formanns hennar snerist um sáttatilraunir. Líkja má hlutverki siðanefndar í sáttaferlinu við stöðu ríkissáttasemjara í kjaradeilum. Þegar ríkissáttasemjari leggur fram sáttatillögu í kjaradeilu dettur engum í hug, að um sé að ræða djúpgrundaða efnisniðurstöðu hans á því hvað séu sanngjörn laun félaganna í ljósi ábyrgðar, starfsskilyrða, menntunar, stöðu þjóðarbúsins o.s.frv. Hann leggur fram tillöguna vegna þess, að honum hefur virst í samtölum sínum við deiluaðila, að sætt gæti tekist um hana með samþykki beggja aðila. Formaður siðanefndar vildi starfa í sama anda.

Eftir ofangreinda atburði í apríllok virtist girt fyrir frekari tilraunir til sátta milli deiluaðila. Samtímis fór af stað gagnrýni á störf siðanefndarinnar, einkum frá hópi kennara hugvísindasviðs. Þótt formaður teldi gagnrýnina tilhæfulausa, fannst honum engu að síður nauðsynlegt, að hann nyti óskoraðs trausts háskólamanna. Hann kynnti rektor þá fyrirætlun sína að segja sig frá málinu á fundi þeirra 12. maí. Var þá lokið tveggja mánaða sáttatilraunum, en fjórði og síðasti fundur siðanefndar undir stjórn undirritaðs var haldinn 8. júní. Nefndarstörfin höfðu reyndar gengið vel og naut nefndin ráðgjafar lögfræðings háskólans, reynds aðila úr stjórnsýslunni og virts prófessors á sviði lögfræði, sem sat alla fundina. BRS hefur vænt formann um að draga taum Vantrúar. Var formaður e.t.v. líklegur til hlutdrægni?

Því má svara í þremur liðum: Í fyrsta lagi þekkti formaður engan liðsmann Vantrúar, en marga kennara guðfræðideildar, t.d. hina virtu prófessora Einar Sigurbjörnsson og Hjalta Hugason (sem hafa starfað með honum í háskólaráði). Formaður þekkti í annan stað ekkert til Vantrúar við upphaf másins, en er sjálfur gamaldags þjóðkirkjumaður. Í þriðja lagi voru kæruþolendur háskólamenn eins og formaður, sem ber virðingu háskólans mjög fyrir brjósti.

Einu rökin fyrir hlutdrægni formanns koma frá samskiptavef Vantrúar, þar sem meint munnleg ummæli voru færð inn í tölvu eftir minni og síðan tekin ófrjálsri hendi, slitin sundur og tekin úr samhengi. Þetta eru marklaus gögn.

Engin leið er fyrir almennan lesanda að átta sig á þessu máli nema hafa hugmynd um kæruefnið, sem er upphaf málsins. Í kæru Vantrúar segir m.a.: "Að okkar mati hefur Bjarni Randver orðið Háskóla Íslands til minnkunar í umfjöllun sinni um trúlausa og félagið Vantrú, þar sem meðferð hans á tilvitnunum í félagsmenn, uppsetning o.fl. er hreinn áróður og skrumskæling á afstöðu okkar..."

Kannski er þungmiðjan í kærunni röð af glærum, þar sem BRS birtir óviðfelldnar og klámfengnar vísur um þekkt fólk: Forseta, tvo ráðherra, tvo biskupa og a.m.k einn prest. Kveðskapurinn er eftir látinn mann, sem ekki mun hafa gengið heill til skógar, en tengdist Vantrú. Töldu vantrúarmenn, að BRS vildi með þessu sýna nemendum sínum dæmigerðan málflutning Vantrúar. Bentu þeir á, að mikil ábyrgð væri lögð á íslenska guðfræðinga af lútersskóla að fjalla um trúarhreyfingar, sem þeir virtu e.t.v. ekki mikils. Aðrir héldu því fram, að trúarhreyfingum ætti að gera skil á vettvangi heimspeki frekar en hefðbundinnar guðfræði.

Á endanum snerist óvissan í málinu og væntanlegt verkefni siðanefndar auðvitað um það hver kunni að vera takmörk þess tjáningarfrelsis (ef einhver eru), sem háskólakennari nýtur í túlkun sinni. Sumir telja, að kennari sé alfrjáls í málflutningi sínum gagnvart nemendum. Aðrir spurðu, hvort siðlegt væri að boða t.d. nasisma eða kvenfyrirlitningu í kennarastól við Háskóla Íslands. Bent var á, að nýlega hrökklaðist frá rektor Harvardháskóla, Lawrence Summers, vegna málflutnings síns um tiltekna yfirburði karla umfram konur. Ekki hefur enn komið til þess, að siðanefnd Háskóla Íslands úrskurði um takmörk túlkunarfrelsis.

Er raunar óvíst að úr því verði og það yrði aldrei svo að öllum líkaði. Loks er að geta um niðurstöður hinnar óháðu nefndar háskólaráðs um störf siðanefndar. Ekkert kemur fram í niðurstöðum hennar, sem kalla má áfellisdóm um þau. Til dæmis er ekkert tekið undir ásakanir um hlutdrægni. Tvennt er einkum gagnrýnt:

1) Nefndin tók ekki kæruna formlega fyrir. Því er til að svara, að með því að fara í sáttatilraunir var kæran tekin fyrir. Annars hefði henni verið vísað frá.

2) Of mikið af starfi nefndarinnar (formanns) fór fram utan funda nefndarinnar. Því er til að svara, að formaður kann ekki aðra aðferð en trúnaðarsamtöl, ef leita á sátta milli aðila í viðkvæmu deilumáli. Að lokum þetta: Alltof mikið hefur verið gert úr því af hálfu Bjarna og þeirra sem hafa lagt honum lið að sjálfgefið sé að siðanefnd hefði kveðið upp þungan áfellisdóm um hann ef hún hefði fengið frið til að ljúka málinu. Allir sjá að Bjarni hefur ýmsar málsbætur, til dæmis vegna þess ofurkapps sem Vantrúarmenn hafa lagt á að sækja að honum eftir að málið hófst. Þeir hafa þannig í raun að hluta gengið inn í þá mynd sem Bjarni gefur af þeim í kennslu sinni. Þetta á þó ekki við um lýsingar Bjarna á öðrum en sjálfu félaginu. Hér við bætist að Bjarni er stundakennari og siðanefnd hefði þurft að taka tillit til þess. Þannig er fullkomlega á huldu hvernig siðanefnd hefði að lokum greint eða greitt úr ábyrgð hinna ýmsu aðila í málinu, hefði henni tekist að ljúka því. Reykjavík 6. desember 2011.


Við ítrekum að greinin er eftir Þórð Harðarson, formann siðanefndar Háskóla Íslands, og birtist í Morgunblaðinu í dag.

Ritstjórn 08.12.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Trausti Freyr (meðlimur í Vantrú) - 08/12/11 20:01 #

Áhugaverð þögn.


Sigurgeir Örn - 08/12/11 23:01 #

Mjög svo, en gott að fá þetta upp á borðið.


Arnold - 09/12/11 07:11 #

Já og fjölmiðlar virðast líka alveg hafa misst áhugan á málinu.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 10:07 #

Pétur Pétursson svarar í Morgunblaðinu í dag. Hann sakar Þórð um að ljúga.

Pétur skrifar í lok greinar sinnar:

Áminning af hálfu siðanefndar gerir út um frama viðkomandi einstaklings innan háskólasamfélagsins

Hver segir það? Er það virkilega raunin?

Ef þetta er raunin, var þá ekki rétt hjá formanni siðanefndar að leita allra leiða til að leysa málið með sáttum í stað þess að taka það til efnislegrar meðferðar hjá nefndinni?


Arnold - 09/12/11 11:07 #

Hverju lýgur Þórður að mati Péturs? Nú fer Þórður yfir málið og vitnar í tölvipósta máli sínu til stuðnings. Hverju getur Þórður verið að ljúga?


Harpa Hreinsdóttir - 09/12/11 12:34 #

Væri ekki skynsamlegt, til að gæta hlutleysis, að "taka sér einnig það bessaleyfi" að birta greinargerð Péturs Péturssonar, sem er svar og leiðréttingar á greinargerð Þórðar, á vef Vantrúar? Kannski væri ennþá skynsamlegra að hafa samband við Morgunblaðið og fá leyfi fyrir birtingunni í stað þess að stóla á "bessaleyfið", því hætta er á að einhverjir tækju upp á að kalla svoleiðis birtingar "þjófstolið efni sem dreift væri um borg og bý" :) :) :)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 12:44 #

Kæra Harpa. Þórður er sáttur við að við birtum grein hans hér, svo fleiri get séð hana en þeir sem hafa aðgang að Morgunblaðinu. Ef Pétur samþykkir, þá skulum við birta hans grein einnig. Ef hún birtist á öðrum stað á vefnum skulum við vísa á hana.

Grein Þórðar Harðarsonar í Morgunblaðinu er ekki trúnaðarsamtal við Pétur Pétursson. Þessi "hlægilega" samlíking er því fyrst og fremst barnaleg.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 13:05 #

Ef ég man rétt þá fékk prófessor við Háskóla Íslands hæstarréttardóm fyrir ritstuld, þ.e. að geta ekki heimilda á fullnægjandi hátt. Maður myndi ætla að heimildanotkun manna í hans stöðu þyrfti að vera í lagi.

Umræddur prófessor starfar eftir því sem ég best veit ennþá við HÍ.

Þannig að ég átta mig ekki á því af hverju sátt í máli fyrir siðanefnd ætti að gera út um feril stundakennara.


Arnold - 09/12/11 13:58 #

"Þetta er vægast sagt mögnuð grein og afar vel unnin. Eiginlega minntu skipulögð vinnubrögð Vantrúar og atlaga að æru stundakennarans mig helst að frásagnir af Stasi og öðrum ámóta samtökum. Þrátt fyrir broskarla." segir Harpa Hreinsdóttir á Facebook og er þá að tala um grein Barkar Gunnarssonar. Það er von að þetta svar Þórðar Harðarsonar fari í taugarnar á henni. Það afhjúpar hvað grein Barkar er ILLA unnin.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 14:01 #

Já, þegar maður hefur líkt félagsskap við Stasi er sennilega einfaldara að halda í þá skoðun heldur en að bakka með fullyrðingar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 14:22 #

Ég hef ekki enn séð grein Péturs Péturssonar á netinu.

Í greininni skrifar hann:

Lögfræðingur H.Í. hefur skorið úr um það að þessi afgreiðsla hafi verið óaðfinnanleg og í skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar Háskólaráðs kemur fram að þetta hafi verið í raun það eina rétta sem gert er í málinu af hálfu H.Í. og að með þessu bréfi hafi deildin afgreitt málið af sinni hálfu.

En hann getur þess ekki að í skýrslu rannsóknarnefndarinnar (pdf) stendur á bls. 69

Eins og rekið er í kafla 5.3.4 kemur Pétur Pétursson prófessor fyrst að málinu sem forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar þegar bréf formanns Vantrúar berst deildinni 4. febrúar 2010. Í gögnum málsins og þeim sem Bjarni Randver hefur lagt fram má sjá að Pétur Pétursson prófessor er jafnframt einn ráðgjafa og stuðningsmanna hans í upphafi málsins. Pétur Pétursson kemur að málinu á mismunandi stigum þess ýmist sem deildarforseti, umsjónarmaður námskeiðsins „Nýtrúarhreyfingar“, vinur og ráðgjafi Bjarna Randvers, auk þess að vera leiðbeinandi hans í doktorsnámi. Slík ólík aðkoma að málinu getur augljóslega skarast og stuðlað að því að fullnægjandi árangri verði ekki náð. Á það ekki síst við þegar litið er til þeirra stjórnunarheimilda sem Pétur Pétursson fór með á umræddum tíma.

Í grein sinni fer Pétur fram á að Þórður segi af sér sem formaður siðanefndar. Mér finnst að Pétur Pétursson mætti íhuga sína stöðu alvarlega.


Vilhjálmur Árnason - 09/12/11 15:17 #

Hefði ekki verið eðlileg framvinda að siðanefnd kallaði Kennara til sín og færi yfir athugasemdir Vantrúar jafnvel með bæði aðilum frá vantrú og kennara það sem málin væru rædd.

Og ef kennari lagaði ekki málflutning sinn eða færði fyrir honum gild fræðileg rök, yrði hann kærður af siðanefnd.

Það sem siðanefnd er sek um að mínu mati er að láta baknagið (ég nota orðið baknag hér allmennt og á ekki að vísa til athhugasemda vantrúar ) samkvæmt vinnulöggjöf sem er í gildi á Íslandi er bannað að láta málin þróast svona, verða að algjöru meini í stað þess að ganga strax í málið. Sennilega hefur einhverskonar misskilinn ótti ráðið för. Frestunarárátta. Sem er oftast ávísun á klúður.

venjuleg framvinda....kvörtun-aðilar hittast og ræða kvörtun. = sættir í formi þess að aðilar nálgast óskir hvors annars.


Kári Emil Helgason - 09/12/11 15:30 #

Ég veit ekki af hverju ég las þessa grein. Þetta er svo óspennandi mál. Ég vil 15 mínúturnar mínar aftur.


Harpa Hreinsdóttir - 09/12/11 16:41 #

Fyrirgefðu Matthías en ég næ þessari klausu ekki alveg: "Grein Þórðar Harðarsonar í Morgunblaðinu er ekki trúnaðarsamtal við Pétur Pétursson. Þessi "hlægilega" samlíking er því fyrst og fremst barnaleg." Ertu að svara mér eða einhverjum öðrum?

Grein Péturs Péturssonar heitir "Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar HÍ" og ég leit því svo á að þetta væri svar við grein Þórðar sem birtist í gær og leiðréttingar við þá grein. Sjálf ætla ég hvorugum þeirra að eiga "trúnaðarsamtal" á síðum Morgunblaðsins (sem ætti nú að vera nokkuð augljóst að er ekki vettvangur trúnaðarsamtala). En þú ert kannski að svara einhverjum öðrum en mér með þessum ívitnuðu orðum í upphafi.

Arnold Björnsson: Það er alveg rétt að ég líkti þessum vinnubrögðum Vantrúar sem Börkur lýsir við vinnubrögð STASI á Fb-þræði einhvers en, svo við slítum nú ekki neitt úr samhengi, ég dró þau ummæli til baka af því ég vildi ekki gera STASI rangt til (nóg er nú samt) eftir að einhver annar benti á að liðsmenn STASI hefðu í sínum aðgerðum verið í vinnu hjá stjórnvöldum en Vantrú væri aftur á móti félagsskapur áhugamanna. Í þessum sama umræðuþræði kom einnig fram (að mig minnir) að ég byggði skoðun mína ekki bara á grein Barkar heldur einnig skýrslu óháðrar nefndar HÍ þar sem bæði "aðgerðir Vantrúar" og störf siðanefndar eru rakin, ásamt fleiru.


Harpa Hreinsdóttir - 09/12/11 16:44 #

Og þetta er alveg rétt athugað hjá þér, Matthías, að þið þurfið leyfi Péturs Péturssonar en ekki Morgunblaðsins til að birta greinina hans. Ég vona að það leyfi verði auðsótt og greinin birtist á síðu Vantrúar sem fyrst.


Harpa Hreinsdóttir - 09/12/11 16:46 #

Og ég ítreka að skynsamlegt er að biðja fyrst um leyfið og birta svo en ekki öfugt eins og lesa má í formála að grein Þórðar hér að ofan: "Vantrú tekur sér bessaleyfi og birtir greinina þar sem hún skiptir að okkar mati miklu máli. Textann tókum við úr Morgunblaði dagsins og uppsetning hér er á okkar ábyrgð, en við reyndum að halda okkur sem mest við uppsetningu eins og hún er í blaðinu.. Vonandi er Þórður ekki ósáttur við að greinin birtist hér á Vantrú. Myndina tókum við einnig úr Morgunblaðinu. Ef einhver er ósáttur við notkun hennar verður hún fjarlægð."


Arnold - 09/12/11 17:08 #

Harpa, svona dóstu þessi ummæli til baka.

"Takk. Sé að ég geri STASI óleik með þessum samanburði. Enda notuðu þeir ekki broskarla í sínar skýrslur ;) En Vantrú verður eftir þetta einkum þekkt fyrir heilagt stríð, með einelti að vopni ..."


Arnold - 09/12/11 17:13 #

Og svo koma þetta skömmu síðar hjá þér Harpa.

"Sætt sveifluritið hans Matta en segir lítið um innihald athugasemdanna. Á þessi mynd kannski að gefa Vantrú "akademískt yfirbragð"? (Skoðaði nefnilega umræðu á þræði Ágústs Borgþórs þar sem yfirklór Vantrúar og yfirlýsingar um akademísk vinnubrögð þar á bæ eru rosalega fyndnar, mæli með þeim ;)"

Mér finnst þú ekkert endilega hafa efni á að gagnrýna Vantrú fyrir þeirra orðfæri.

Svo finnst mér skondið að þér Harpa finnist Vantrú þurfa að sýna báðum hliðum sömu athygli á vefnum. Ekki verður það sagt um mótaðilana, þá sem þér hugnast, að þeir hafa það í heiðri nema síður sé. Ég er hins vegar nokkuð viss um að Vantrú birtir grein Péturs ef hann leyfir það.


Harpa Hreinsdóttir - 09/12/11 19:49 #

Ég skil, Arnold. En það er þetta með samhengið, manstu, þannig að það væri kannski til bóta að vitna í það sem hinir lögðu til málanna og ég var væntanlega að svara, úr því þú ert á annað borð að rekja fésbókarkomment. Af hvers fésbók er þetta nú aftur? Og af hverju gerðir þú enga athugasemd við sama þráð, Arnold minn, ef þú þóttist vanhaldinn af mínum orðum?

Annars má ég eiginlega ekki vera að því að leika við ykkur lengur, hef öðrum hnöppum að hneppa. Svoleiðis að ég logga mig út úr þessari umræðu.


Arnold - 09/12/11 20:08 #

Kæra Harpa. Ég er bara að vekja athygli á að þeir sem kannski hafa hæðst um meintan dónaskap og hroka Vantrúarfólks eru ekki að nota neitt mykra orðfæri. Alveg óháð samhenginu að þá er málflutningur þinn litaður af svolitlu yfirlæti og vanvirðingu við þá sem þú talar um. Svona líkt og þú endar síðasta komment.

"Annars má ég eiginlega ekki vera að því að leika við ykkur lengur, hef öðrum hnöppum að hneppa. Svoleiðis að ég logga mig út úr þessari umræðu."

Þú mannst ekki lengur hvar þú sagðir þetta enda ertu búin að vera duglega og alltaf á þessum nótum. Þú getur ekki farið fram á að annað fólk hagi sér betur en þú. Ef þú berð ekki virðingu fyrir einhverjum þá getur ekki farið fram að sá hinn sami beri virðingu fyrir þér. En eins og þú segir, þú ert bara að leika við Vantrúarfólk og aðra sem eru þér ósammála.

Meintur dónaskapur Vantrúarmanner stórlega ýktur. Og það má alveg finna samskonar ummæli í ranni ykkar. Ég veit að á póstlista prestanna er ekki eins áferðar falleg umræða og þeir hafa uppi opinberlega. Það veit ég með vissu. Ég held nefnilega að nú sé komin tími til að hætta að velta sér upp úr meintum dónaskap og fara að ræða málefnið. En þeir sem eru með veikan málstað reyna gjarnan að forðast það með öllum tiltækum ráðum.


Trausti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 22:46 #

Skemmtilegur passíft-agressífur hroki sem sumt fólk hefur.

En hún má nú bara ekkert vera að þessu Arnold MINN. Ha? Að leika sér við þessi óþroskuðu börn. Hún varð skyndilega upptekin af fullorðins dóti en hafði þó samt tíma til að eiga síðasta orðið.


Arnold - 09/12/11 23:23 #

Já bara ef það væri hægt að hrökkva út úr þessu state-i og útkljá þetta mál í þokkalegu bróðerni í eitt skipti fyrir öll. Málið er bara að það hentar ekki sumum. "We brake for nobody" er soldið stemmingin á hinni hliðinni.


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 10/12/11 11:21 #

Harpa segir:

En það er þetta með samhengið, manstu, þannig að það væri kannski til bóta að vitna í það sem hinir lögðu til málanna og ég var væntanlega að svara, úr því þú ert á annað borð að rekja fésbókarkomment.

Þetta vill Harpa að Arnold geri þegar hann vitnar í komment á Facebook í umræðum hérna.

Þetta hefði Vantrú einmitt líka viljað að Bjarni Randver gerði í kennslu við Háskóla Íslands.

Það er þetta með að þekkja málefnin og að vera samvkæmur sjálfum sér...


Arnold - 10/12/11 16:03 #

Ég tek ekki texta Hörpu í sundur og raða honum að hætti Bjarna Randvers þannig að innihald og meining þess sem Harpa segir verði allt önnur en það sem Harpa ætlar að koma til skila. Ég tek fram að hún er að tala um grein Barkar. Samhengið við önnur komment skipta í raun engu um innihald þessara kommenta. Þau fá ekkert aðra merkingu þegar þau eru lesin í samhengi við hin kommentin.

En ef fólk vill sjá allan þráðinn þá getiði farið á Facebook síðu Árna Svans Daníelssonar og séð þetta þar. Ég held að hann sé með opinn vegginn.


Páll Björgvin Kristjánsson - 04/07/13 13:42 #

Trausti (meðlimur í Vantrú) - 09/12/11 22:46 # Skemmtilegur passíft-agressífur hroki sem sumt fólk hefur.

ÞH..er "Peninga-Suga" og er/var vandai RíkisSjóðs, um allar "Koppa-Grundir"... Þann, 7. júli 1993(20 ár)..Beytti ÞH. mig ótrúlegu ofbeldi, sem trúnaðarlæknir, Loftferaeftirlits Flugmálastjórnar..Ég(62), "ógeðslegur passift-agressifur hroki..Þessa Aula, sem auðvelt er að Múta"..Kveðja..Páll Björgvin Kristjánsson.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.