Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúernishyggja

Prestar trolla

Það má segja að mild þjóðernishyggja sé einhvers konar ættjarðarást; að finnast landið sitt fallegt og gott. Menn geta hins vegar misst sig algjörlega í þessari ættjarðarást og sett sitt eigið land á svo háan stall að þeir fari að líta niður á önnur lönd og íbúa þeirra. Þá snýst aðdáun manns á eigin landi í hatur á önnur lönd. Mér sýnist það sama eiga við um trúarbrögð og þessi trúernishyggja virðist lifa góðu lífi á Íslandi.

Oflofið

Kristið fólk telur kristna trú vera góða, annars væri það varla kristið. En þeir sem ganga lengst í að dásama kristni eru þeir sem vinna við að selja öðrum kristna trú og missa vinnuna sína ef fólk fer að halda að kristni sé ekki góð. Ég er auðvitað að tala um presta og biskupa.

Oflof á kristni sem hefur lítil sem engin tengsl við raunveruleikann er mjög algengt í málflutningi presta. Miðað við orð þeirra má ætla að allt hið góða í samfélaginu, allar bestu stofnanir þess, allar bestu hugmyndirnar sem við aðhyllumst og jafnvel tilvist regnboga og kettlinga, sé kristninni að þakka. Þeir ganga svo langt að eigna kristinni trú ýmis grundvallarréttindi sem kristnir menn hafa verið á móti frá upphafi og er beinlínis mælt gegn í biblíunni, trúarriti kristinna manna. Má þar nefna eitt lítið og léttvægt einsog lýðræði.

Hér eru nokkur dæmi um oflof klerkastéttarinnar:

"Af rótum kristninnar sprettur frelsi, já og mannréttindi og allt það besta sem vestræn menning hefur fram að færa."
Karl Sigurbjörnsson

"Hið besta í evrópskri menningu sprettur af boðskap Jesú og sögunni af krossi hans og upprisu."
Karl Sigurbjörnsson

"Án kristinnar trúar getur ekkert lýðræði þrifist vegna þess að það tryggir og stendur vörð um gildi hins venjulega sjálfstæða manns sem Guð skapaði og elskar."
Sighvatur Karlsson

"Samfélag Vesturlanda, manngildishugsjón, samfélagssýn, stjórnarfar byggir á orðum og verkum Jesú Krists. Af hinum kristnu rótum, sprettur hin vestræna hugmynd um hinn frjálsa vilja og um siðferðislega ábyrgð, um rétt og réttlæti. Það er forsenda lýðræðis og mannréttinda, þar er eldsneytið sem knúði réttindabaráttu fyrri kynslóða og veitir enn afl og styrk í þágu lífsins"
Karl Sigurbjörnsson

"Við búum við lýðræði og málfrelsi. Það eru dýrmæt mannréttindi og ekki sjálfgefin, en eiga rætur að rekja til kærleika kristinna viðhorfa."
Gunnlaugur Stefánsson

Andúðin gegn hinum

Ef prestarnir trúa því virkilega sem fram kemur í orðum þeirra þá er ekki undarlegt að þeir hafi andúð gegn fólki sem hafnar kristinni trú. Því ef kristni er grundvöllur hugmynda eins og "siðferðislegrar ábyrgðar" og "rétt og réttlæti" og forsenda frelsis, lýðræðis og mannréttinda, og bókstaflega alls hins besta í okkar menningu, þá hlýtur að vera hræðilegt að vera ekki kristinn.

Svona andúð er áberandi í málflutningi presta. Sjálfur biskupinn, Karl Sigurbjörnsson, talaði til dæmis um að "guðleysi og vantrú" væru "sálardeyðandi og mannskemmandi" [1]. Það er mjög algengt að í áróðri kirkjunnar sé talað um að fólk sem trúir ekki á guð sé almennt heimskt og illt. Ummæli ríkiskirkjuprestsins Maríu Ágústsdóttur sýna vel hvað þetta er eðlileg ályktun fyrir presta:

Án elskunnar til Guðs er erfitt að koma fram við fólk af kærleika. #

Birtingarmyndir þessarar fyrirlitningar eru auðvitað fleiri. Eins og sú tilhneiging presta að halda að kristið fólk sem hefur framið illvirki sé í raun og veru ekki kristið, það sé svo illt að það hljóti að vera trúlaust eða að minnsta kosti annarrar trúar.

Fyrsta skrefið

Ef við ætlum að losna við þessa ljótu fordóma, og ef kirkjunnar fólk vill losna við þessa fordóma, þá held ég að við þurfum fyrst að losna við þessa fölsku glansmynd af kristinni trú sem prestarnir boða, að kristni sé einhvers konar forsenda og rót alls hins góða í heiminum. Það er ekki líklegt að þeir muni hætta því af sjálfsdáðum. Ég tel bestu leiðina vera að upplýsa almenning - þar með þann litla hluta þjóðarinnar sem mætir í messu - um hina sönnu sögu af kristindóminum, söguna sem það mun ekki heyra hjá prestunum. Því að saga kristninnar er nefnilega ekki öll svo falleg.


[1] "Ekkert foreldri getur varið barn sitt fyrir ágengni þess ofstækis sem helst sækir að þeim hjörtum og sálum sem ekki hafa fengið næringu trúar, ekki hafa fengið viðmið helgra sagna og helgrar iðkunar og ein megna að hamla gegn áhrifum sálardeyðandi og mannskemmandi guðleysis og vantrúar."
Predikunin "Hvernig manneskja viltu vera", flutt í Áskirkju 6. mars 2005.

Hjalti Rúnar Ómarsson 04.12.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Jón Steinar Ragnarsson - 04/12/11 22:53 #

Méf finnst það alltaf jafn skondin öfugmælavísa þegar fulltrúar trúarbragða sem boða algera sjálfsafneitun og skilyrðislausa undirgefni við yfirvöld, skuli eigna sér lýðræðishugsjónina.

Liggaliggaláið á sér engar hömlur.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/12/11 23:04 #

Jón Steinar: Jamm, og svo má auðvitað ekki gleyma því að samkvæmt kristinni trú þá er alheimurinn einræðisríki (eða í besta falli þríræðisríki).


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 04/12/11 23:56 #

Kristni og lýðræði eiga ekkert sameiginlegt. Kristin trú er alfa-male hópstjóradýrkun þar sem völdin koma að ofan og leka niður af himni eftir goggunnarröð. Lýðræði þýðir að völdin koma að neðan frá fólkinu sem stjórnar með vali hver eigi að fara með stjórn. Franskabyltingin og svo stjórnarskrá Bandaríkjanna bera þess 100% merki að vera á móti kaþólsku/lútersku einræðiskirkjum Evrópu. Baráttan var ansi hörð, ansi óvægin og ógeðfelld þar til kirkjan og einræðisherrar Evrópu sáu sitt óvægna og gáfust upp. Þetta lýðræðishjal kirkjunnar er eftiráskýring (lygaáróður) eins og mannréttindi, kvenréttindi og núna síðast réttindi samkynhneigðra.


Jón Steinar Ragnarsson - 05/12/11 02:02 #

Við skulum ekki gleyma því að Kristnin er líka vagga málfrelsisins, að sögn umboðsmanna guðs.:D

Við eigum krisninni ekki bara að þakka kettlinga og regnboga, heldur allt sætt og krúttlegt, gott og jákvætt í þessum heimi.


AD - 05/12/11 10:39 #

[Athugasemd færð á spjallið - Hjalti]


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 05/12/11 11:55 #


AD - 05/12/11 13:15 #

[Athugasemd færð á spjallborðið ]

Vinsamlegast gefið upp gild póstföng; frekari athugasemdum þar sem gefin eru upp skálduð póstföng verður eytt.

Athugasemdum á spjallborði skal svarað þar.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.