Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gvuð blessi kristilega íhaldsflokkinn

Ríki og kirkja

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lagði línurnar í setningarræðu landsfundar sem lauk nú fyrir stuttu.

Trúfrelsið er misskilið. Sumir virðast halda að það snúist um að enginn megi hafa neina trú - og alveg sérstaklega ekki kristna. #

Sumir hverjir?

Vantrú er ekki pólitískt félag. Baráttan gegn hindurvitnum gengur þvert á flokkslínur og þó einhverjir haldi að í Vantrú séu bara bölvaðir kommúnistar eru margir félagsmenn hægra megin á hinum pólitíska skala.

Flestir meðlimir Vantrúar sem stutt hafa Sjálfstæðisflokkinn eru þó skiljanlega ósáttir við þá kristilegu línu sem flokkurinn hefur tekið undanfarið eins og áberandi hefur verið í borgarpólitíkinni. Hvað varð um frelsi einstaklingsins?

Vantrú hefur frá stofnum verið í fararbroddi þeirra sem gagnrýna hindurvitni og boðun þeirra hér á landi. Því fer fjarri að félagið haldið að "enginn megi hafa neina trú - og alveg sérstaklega ekki kristna". Baráttan fyrir trúfrelsi snýst nefnilega, merkilegt nokk, einnig um rétt trúaðra til að trúa því sem þeir vilja - jafnvel þó við í Vantrú teljum þá trú vera bölvaða vitleysu og áskiljum okkur rétt til þess að veita kröftugt mótvægi við boðun hennar.

X við D...örpídörp?

Úr ályktunum um innanríkismál(.pdf) voru eftirfarandi tillögur samþykktr á nýliðnum landsfundi Sjálfstæðismanna:

Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkjuna í samræmi við stjórnarskrána.

Og:

Landsfundur telur mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga.

Fyrir það fyrsta þá eru sóknargjöld ekki félagsgjöld. Sóknargjöld eru greidd beint úr ríkissjóði. Undir eðlilegum kringumstæðum ætti Sjálfstæðisflokkurinn að gera athugasemdir við slíkt, en ekki að styðja þannig fyrirkomulag.

Félagsgjöld og sóknargjöld

Hvað er þetta annað en ríkisforsjá? Það er erfitt að sjá hvernig það samræmist stefnu flokksins um svokallað "frelsi" að ríkið sé að reka sérstaklega eitt ríkistrúfélag. Eflaust eru þessar tillögur komnar frá ríkiskirkjufólkinu í flokknum.

Með þessu er verið að tryggja að ríkið ýti undir eina trú og ein trúarbrögð sem samræmist engan vegin frelsishugmyndinni. Einnig er það algjörlega gegn öllum hugmyndum um minnkaðan ríkisrekstur að flokkurinn vilji að trúfélögum, og þjóðkirkjunni sérstaklega, sé tryggð hlutdeild af skattfé almennings.

Hægri sinnaðir trúleysingjar

Bjarni Ben er sennilega að rembast við að höfða til íhaldssamra kristinna Sjálfstæðismanna. Við vitum að flokknum eru til frjálslyndir talsmenn trúfrelsis. Þeir mættu láta oftar í sér heyra og jafnvel skamma forystuna þegar hún setur fram einhverja bölvaða vitleysu eins og í þetta skipti.

Bjarni mætti sjálfur leiðrétta þennan "misskilning" en við erum ekki nógu trúuð til að telja að það muni gerast í náinni framtíð. Flokkurinn mun væntanlega halda áfram að rembast við að ná fylgi kristinna íhaldsmanna á Íslandi. Talnaspekingar Valhallar ættu að taka sér smá stund til að skoða tölur um stærð þess hóps.

Ritstjórn 21.11.2011
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 21/11/11 14:59 #

Flott grein. Einfalt og segir allt sem þarf. Skýringarmyndin sýnir þetta vel. Í dag greiða nefnilega allir skattgreiðendur sóknargjöldin fyrir þá sem greiða ekki skatt sökum lágra tekna, atvinnuleysis eða lífeyris. Þetta er bara trúarskattur sem trúlausir þurfa að taka þátt í.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 21/11/11 19:14 #

Í stjórnmálaályktun kemur einnig fram:

Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. # (pdf)

Hvaða kristnu gildi er Sjálfstæðisflokkurinn að tala um?

Er Sjálfstæðisflokkurinn að tala um Ísland fyrir árið 1990 eða eftir? Ég veit nefnilega ekki um nein "kristin gildi" sem þjóðin hefur varðveitt síðustu þúsund ár.

Voru það kristin gildi þegar samkynhneigðir voru ofsóttir? Voru það kristin gildi þegar Ísland vildi ekki fá þeldökka hermenn til landsins? Voru það kristin gildi þegar konum var drekkt á Þingvöllum?

Þetta innihaldslausa þvaður um "kristin gildi" er algjörlega óþolandi.


Halldór L. - 21/11/11 20:48 #

Frábært hvernig stóru vinstri flokkarnir eru meira til hægri en stóri hægri í þessu.

Og því miður virðist stóri hægri vera sá eini sem að eitthvað hefur eitthvað gert í sinni stefnu.


Árni Árnason - 22/11/11 01:09 #

Ég er ekki flokksbundinn sjálfstæðismaður, en myndi væntanlega skv. öllum þekktum viðmiðum vera flokkaður sem hægri maður. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á mörgum sviðum komist næst flokka, því að falla að mínum hugmyndum. Eitt hefur þó böggað mig lengi varðandi þenna flokk, og það er þetta kristilega kjaftæði. Ég fæ bara alls ekki séð að stuðningur við ríkiskirkju geti farið saman við stefnu Sjálfstæðisflokksins að öðru leyti. Stuðningur við einstaklingsframtakið og einstaklingsfrelsið jafnframt áherslum á minimal ríkisafskifti fer alls ekki saman við rekstur ríkiskirkju sama hvað ég reyni að sjá eitthvert samhengi í því. Mér finnst flokkurinn ætti að leggja áherslu á algert trúfrelsi og trúarlegt jafnrétti og láta þar við sitja.

Á sama hátt þoli ég alls ekki þetta ruglulið sem fer fyrir Reykjavíkurborg þessa dagana, en aðgerðir þeirra til þess að losa leik og grunnskóla við átroðslu krisslinga og annarra trúarnöttara er það eina sem þau hafa gert af viti og ber að þakka það.


Jón Ferdínand - 22/11/11 09:17 #

Já hann Bjarni Ben er samur við sig, ríki glanskallinn sem hann er!

Matti: Þetta er náttúrulega ekkert nema fáfræði, eins og alltaf í þessum málum þá eru það við trúleysingjarnir sem erum betur að okkur í trúarkennisetningum og sögu heldur en blessaðir kristlingarnir!


AI - 23/11/11 01:06 #

Það er eflaust smámunasemi en það er spurning hvort rétt er að kalla Sjálfstæðisflokkinn íhaldsflokk, þó vissulega sé flokkurinn kristilegri en hann ætti að vera.

x-D er kannski sá íhaldsamasti af íslensku flokkunum, og sá vettvangur þar sem fólk sem vill stýra siðum og einkalífi annarra myndi helst reyna að fá útrás. Samt myndi greining á stefnu og störfum flokksins staðsetja hann sem miðjuflokk -merkilegt nok.

Það væri ekki mikil teyging á hugtökum að kalla Sjálfstæðisflokkinn kristilegan demókrataflokk.


Björn - 23/11/11 12:05 #

Þetta er snúið mál hjá Sjálfstæðisflokknum. Margir flokksmenn eru trúaðir og íhaldssamir, en kjarninn í Sjálfstæðisstefnunni er að fólk hafi frelsi og tækifæri til að lifa lífi sínu eins og það kýs, svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Ég held að það sé fullkomnlega heilbrigt viðhorf og gott ef flokkurinn heldur sig við það.

En að halda uppi þjóðkirkju er í andstöðu við þessa hugmyndafræði. Ég tek undir að þeir sjálfstæðismenn sem flokkast ekki til íhaldsmanna og vilji frelsi í þessum málum láti betur í sér heyra.


Thor K - 25/11/11 05:08 #

Sjálfstæðisflokkurinn hýsir bæði frjálshyggjumenn og íhaldsmenn. Í orði veifar hann frelsi, og einstaklingsframtaki en á borði stendur hann vörð um hagsmuni starfandi stórfyrirtækja, gegn smáfyrirtækjum, samkeppni og nýsköpun.

Þjónkun frjálshyggjumanna við íhaldsmenn er versti skandall síðustu 200 ára.

Með trúaráherslum sínum nú virðist hann vera að reyna að sigla í kjölfarið á Republkönum í BNA, sem nýta sér ýmis mál sem þeim stendur hjartanlega á sama um til að ná fylgi almennings.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.