Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er Bergþór Ólason hættur að berja konuna sína?

Kettlingar

Spurningin „ertu hættur að berja konuna þína?“ er þekkt hér á landi sem leiðandi og ósanngjörn. Sé spurningin sett fram þannig að svarmöguleikarnir einskorðist við „já“, „nei“ eða „veit ekki“ er sá sem er spurður settur í klípu. Hafi hann aldrei beitt konuna sína ofbeldi getur hann ekki svarað spurningunni út frá réttum forsendum.

Það þarf ekki mikla þekkingu í aðferðarfræði til þess að sjá að spurningar þar sem skortir grunnforsendur fyrir því að svarendur geti gefið heiðarlegt svar útfrá raunverulegum aðstæðum eru ótækar í skoðanakönnunum.

Fyrirtækið MMR lætur slík smáatriði ekki þvælast fyrir sér og spurði nýlega þúsund íslendinga hvort þeir væru hættir að berja maka sinn - eða því sem næst. Spurningin var þessi:

Finnst þér það vera brot á mannréttindum að grunnskólanemendur fái gefins eitt eintak af Nýja testamentinu?

Morgunblaðið birti í gær frétt um málið þar sem í ljós kemur að kaupandi spurningarinnar er Bergþór Ólason fjármálastjóri Loftorku í Borgarnesi og fyrrum aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar þáverandi samgöngmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Bergþór stimplar sig inn í hóp kristilegra íhaldsmanna með þessari spurningu og fullyrðingum sínum um að hugmyndir um bann við trúboði í opinberum menntastofnunum séu eingöngu frá vinstri mönnum komnar.

Bergþór ætti kannski frekar að skamma vinstri mennina í SUS fyrir að álykta ítekað um aðskilnað ríkis og kirkju, en verði af honum má telja næsta öruggt að trúboði lúthersk evangelísku kirkjunnar væri sjálfhætt í opinberum skólum.

Spurning um spurningu

Hvað er athugavert við spurninguna og er Bergþór hættur að berja konuna sína?

Spurningin er sett þannig fram að í raun er ómögulegt að svara henni nema á einn ákveðinn veg.

Auðvitað getur það seint talist mannréttindabrot að einhverjum sé afhent bók, hvort sem um er að ræða Litlu gulu hænuna eða trúarit á borð við Biblíuna og Kóraninn. Það er heldur ekki það sem reglurnar taka á:

Trúar- og lífsskoðunarfélög skulu ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla borgarinnar á skólatíma né heldur á starfstíma frístundaheimila. Þetta á við allar heimsóknir í trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni #.

Gídeonfélagið er trúboðsfélag. Markmið félagsins er trúboð. Afhending Nýja Testamentisins með handabandi, lestri úr því og jafnvel bænastund er hreint trúboð, ekkert annað. Trúboð í opinberum menntastofnunum getur vel talist mannréttindabrot.

Mannréttindi meirihlutans

Að lokum skal bent á eitt atriði sem trúboðssinnum virðist alltaf yfirsjást. Það varðar algjöran grundvallarmisskilning á mannréttindahugtakinu. Reyndar sýnir þessi misskilningur svo furðulegan skilning á því hvað mannréttindi eru að líklegast ætti þetta fólk hreinlega að hætta að beita þessu hugtaki. Möguleikinn er einnig til staðar að þetta fólk er einfaldlega svo fáfrótt að það hreinlega veit ekki hvað mannréttindi eru.

Mannréttindi eru ekki ákveðin með meirihluta.

Ritstjórn 18.11.2011
Flokkað undir: ( Gídeon , Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Árni St. S. - 18/11/11 13:17 #

Já, það er brotið á mannréttindum barna með gjöf með trúarlegum tengingum.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 18/11/11 20:13 #

Þessi spurning getur verið misskilin á svo marga vegu.

  1. Þegar vísað er til grunnskólabarna er eingöngu vísað til þeirra sem eru í grunnskóla. Það kemur ekki fram í spurningunni að um sé að ræða gjöf sem fer fram í skólum.

  2. Á sama hátt er ekki gefið í skyn að gjöfin fari fram á skólatíma.

  3. Þótt einhverjum sé sama um ofangreind atriði þarf ekki að vera að hann telji það brot á mannréttindum að grunnskólabörnum fái bókina afhenda í grunnskólanum á skólatíma. Hann gæti hins vegar verið ósammála því hvernig afhendingin færi fram, eins og t.d. með bæn eða fullyrðingum um að allt sem er í bókinni sé satt.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?