Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Af nýju testamenti og aðalnámskrá grunnskóla

Krakkar að róla

Sigurbjörn Þorkelsson skrifaði grein í Moggann þann 11. október sl. þar sem hann harmar það að Gídeonfélagið hafi nú misst þau forréttindi að geta farið inn í tíma hjá öllum fimmtubekkingum á landinu, gefið Nýja testamentið og leitt börnin í bæn. Þó að Gídeon-félagið þykist ekki kannast við það þá er það yfirlýst markmið félagsins að reyna „ávinna menn og konur fyrir Drottinn Jesú Krist“.

Í greininni setur Sigurbjörn fram ansi nýstárlega túlkun á aðalnámskrá grunnskóla:

Nýja testamentið er meðal annars tilgreint í aðalnámsskrá grunnskóla sem námsgagn, en nú hafa borgaryfirvöld allt í einu ákveðið að flokka námsgögn úr aðalnámsskránni eftir sínum eigin geðþótta.

Þeir sem hafa áhuga geta skoðað námskrána, bæði almenna hlutann(.pdf) og auðvitað kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði(.pdf). Sigurbjörn hefði betur gert það sjálfur. Nýja testamenntið er nefnilega bara alls ekki tiltekið sem námsgagn í aðalnámskránni. Bara hreint ekki.

Reyndar er ansi erfitt að finna dæmi um það að tiltekin rit séu skilgreind sem námsgögn í aðalnámskránni enda myndi það hefta frelsi skólanna til þess að velja þau námsgögn sem kennarar telja best henta.

Vissulega er tekið fram í námskránni að nemendur eigi að þekkja til bæði gamla og nýja testamentisins. En það þýðir ekki að þessi rit séu þar með orðin skyldueign fyrir alla grunnskóla eða grunnskólanemendur. Nú þegar er notast við kennslubækur þar sem vitnað er beint í þau vers úr Biblíunni sem höfundar hafa talið viðeigandi að nemendur kynnist.

Og jafnvel þó að það væri rétt hjá Sigurbirni að Nýja testamentið væri skilgreint námsgagn þá breytir það því ekki að það eru skólarnir sem eiga að sjá börnum fyrir kennslubókum. Ekki trúboðahópar sem vilja afhenda bækur með handabandi og helst fá að halda bænastundir við afhendinguna.

Gídeonfélaginu er væntanlega frjálst að gefa öllum þeim grunnskólum sem það þiggja Nýja testamentið að gjöf. Skólarnir gætu þá deilt bókunum út til nemenda sinna eftir þörfum eins og gerist með annað námsefni.

En einhvern veginn grunar mann að það þyki trúboðunum í Gídeonfélaginu ekki ásættanlegt.

Egill Óskarsson 12.10.2011
Flokkað undir: ( Gídeon , Skólinn )

Viðbrögð


Balli - 12/10/11 21:13 #

Er ekki í lagi að krakkarnir fái að lesa þetta sjálf en séu ekki mötuð. Ástæða þess að ég frelsaðist (ekki í merkingunni að ég hafi fundið Jesú)er sú að ég fór að lesa biblíuna. Rayndar væri fróðlegt ef Gideon menn myndu segja frá þeirri slátrun sem Gídeon stóð fyrir. (sjá Dómarabókina sem er reyndar í gamla testamentinu)


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 12/10/11 21:57 #

Jú, það er í fínu lagi að þau fái að lesa allar þær bækur sem þau vilja sjálf. Það er hins vegar ekki í lagi að leyfa trúboðastarf í opinberum skólum.


Balli - 12/10/11 22:24 #

Málið er að þegar ég fékk nýja testamentið á sínum tíma þá gerði ég ekkert með það. Ef ég hefði lesið það þá hefðu augun opnast fyrr. Verð reyndar að viðurkenna að ég fékk bara bokina. Fékk einmitt ritskoðaða útfærslu af Gideon, ekki alla söguna.


Þossi - 13/10/11 15:26 #

Góður pistill. En ekki finnst mér í lagi að Nýja testamentinu sé dreift til nemenda, ekki frekar en bæklingum frá Vísindakirkjunni eða sígarettupökkum. Foreldrarnir mega þá bara miðla því til barnanna heima fyrir ef þeir vilja. Ég veit þó að ég er að predika til kórsins.


Svanur Sigurbjörnsson - 16/10/11 14:03 #

Fínn pistil Egill. Það er nú alls ekki alltaf svo að fólk verði trúnni afhuga við að lesa Biblíuna. Hér er það sem ég upplifði persónulega.

Rétt eftir ferminguna las ég Nýja testamentið sem Gideon menn gáfu mér á sínum tíma. Ég beið nokkurn skaða af því því að þær hugmyndir sem ég pikkaði upp þar á eigin spýtur og tileinkaði mér í rúmt ár voru sumar hverjar hreint ekki heilbrigðar. Ég varð talsvert undarlegur í háttum og átti erfitt uppdráttar. Ég einangraðist félagslega og ef að góður vinur minn hefði ekki veitt mér áfram félagsskap og vináttu er ég ekki viss um að vel hafi farið fyrir mér. NT er nefnilega alls ekki boðleg sem sjálfshjálparbók sem hægt er að bjóða fullorðnu fólki, hvað þá unglingum.


Sigurlaug - 17/10/11 23:50 #

Sóknarnefnd Grafarvogskirkju hyggst kæra ákvörðunina. http://visir.is/kaera-borgina-vegna-akvordunar-um-trumal/article/2011111019018


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 18/10/11 13:26 #

Þetta ætti að verða eitthvað. Sé ekki hvaða grundvöll þau hafa í lögum um grunnskóla eða Barnasáttmálanum. Og sem leikskólamanneskja verð ég alltaf fúll þegar fólk gleymir fyrsta skólastiginu.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?