Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Er samkynhneigð synd?

Samkynhneigð

Í kjölfarið af ákvörðun kirkjubyggingasjóðs Reykjavíkurborgar um að veita Íslensku Kristskirkjunni ekki styrk vegna þeirrar skoðunar Friðriks Schrams að samkynhneigð[1] sé synd, hafa ýmsir trúmenn hneykslast á Friðriki fyrir að átta sig ekki á því að samkynhneigð sé auðvitað ekki synd. En er samkynheigð synd eða ekki?

Hvað er synd?

Ég held að flestir geta sammælst um að fullyrðing um að eitthvað sé synd sé tengist að einhverju leyti því hvað álit guðs á því er, til dæmis að guð sé á móti því eða þá að guð hafi beinlínis bannað það.

Þegar maður spyr þá um hvort að samkynhneigð sé synd, þá getur maður alveg eins spurt: Hvað finnst guði um samkynhneigð?

Hvað finnst Gústa?

Spurningin um það hvað guði finnst um samkynhneigð er í raun svipuð spurningunni: Hvað finnst álfunum í Álfhóli í Kópavogi um samkynhneigð? Ímyndum okkur að einn þeirra heiti Gústi og við skulum kalla það sem Gústi vill ekki að fólk geri; gynd. Er samkynhneigð gynd?

Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að því hvað Gústa finnst? Ég held að það sé enginn leið til þess, enda eru álfarnir, alveg eins og guð, ekki til.

Að tala við Gústa

En trúmenn fullyrða að ólíkt Gústa[2], þá geti fólk átt í beinum samskiptum við andaverunar sem þeir kalla ýmist guð eða Jesú. Trúmenn ganga svo langt að kalla samskipti sín við þessar andaverur, bænina, samtal[3]. Raunin er auðvitað sú að guð talar ekki við þetta fólk, annars myndi það einfaldlega spyrja hann og hann myndi svara, og þá væri trúfólkið ekki að rífast um hver skoðun hans væri.

Guð og Gústi tala ekki við fólk, einfaldlega vegna þess að þeir eru ekki til.

Fylgjendur Gústa

Ef mikið af fólki teldi sig þurfa að fara eftir skoðunum eða boðum Gústa, þá myndi tilvistarleysi hans örugglega ekki koma í veg fyrir það að fólk myndi fullyrða um að Gústa finnist hitt og þetta alveg hræðilegt.

Eflaust kæmi upp stétt manna sem væru Gústafræðingar og myndu græða á tá og fingri við það að upplýsa fólk um hvað Gústa finnist um allt milli himins og jarðar. Þessir atvinnu-Gústafræðingar myndu auðvitað vera ósammála um skoðanir Gústa, og færu síðan að rífast um hvað Gústa finnst.

Orð Gústa

Prestar og guðfræðingar eru eflaust eilítið öðruvísi en Gústafræðingar, þar sem þeir geta vísað í bók og sagt að þeir geti komist að því hvað guði finnst með því að lesa biblíuna. Reyndar eru til þjóðsögur um álfa, en við skulum ekki pæla í þeim.

Einn galli við þessa fullyrðingu er sá að það er ekkert sem bendir til að guð (eða Gústi) hafi komið nálægt gerð nokkurrar bókar. Múhameðstrúarmenn segja að Kóraninn segi okkur frá skoðun guðs, kristnir segja að það sé biblían.

Annar galli er auðvitað sá að biblían er full af tjáningu skoðana sem nánast enginn trúmaður vill kannast við að guð hafi komið nálægt, til dæmis að það eigi að drepa samkynhneigða.

Líf Gústa

Kristnir menn geta auk þess reynt að koma með annað svar: Jesús var guð og þess vegna getum við vitað hvað guði finnst með því að komast að því Jesú fannst.

Til að byrja með getur hver sem er fulllyrt að hann sé einhver andavera holdi klædd (ég get til dæmis fullyrt að ég sé í raun og veru Gústi!). Auk þess þá gengur þessi költleiðtogadýrkun ekki af því að það er engin leið að komast að því hvað Jesú fannst um flest alla hluti. Heimildirnar okkar um hann eru einfaldlega ekki það góðar að við getum fullyrt um hvað honum fannst. Og jafnvel þó svo að allt í guðspjöllunum fjórum væri í raun ummæli hans, þá segir hann svo afskaplega lítið sem hægt er að byggja á (og ýmislegt mjög undarlegt [4]).

Þegar kemur að samkynhneigð, þá eru engin ummæli um hana eignuð Jesú í guðspjöllunum. Hvað honum fannst um samkynhneigð veit enginn, en mín ágiskun er sú að hann hafði frekar þá skoðun sem var ríkjandi á fyrstu öld.

Þeir sem segja að Jesú væri sáttur við samkynhneigð vísa oftast í ótrúlega almenn ummæli sem er hægt að nota til að réttlæta allt. Ef ég fyndi þjóðsögu þar sem álfur (sem hlýtur að vera Gústi) segir við bændur: “Veriði góð við hvort annað.”, væri þá hægt að draga þá ályktun að Gústi hefði ekkert á móti samkynhneigð? Auðvitað ekki.

Hverjum er ekki sama um Gústa?

Snjall trúmaður gæti eflaust reynt að bjarga syndahugtakinu með því að segja að guð vilji að guð geri það sem er rétt, þannig að synd er alltaf það að gera rangt og því þurfum við bara að komast að því hvort samkynhneigð sé röng til að vita hvort hún er synd. En til hvers í ósköpunum að vera að blanda einhverri andaveru í umræðuna? Af hverju þá ekki bara að segja einfaldlega að samkynhneigð sé rétt eða röng?

Ég held að viðbrögð “frjálslyndra” trúmanna við skoðunum Friðriks Schrams séu afskaplega vitlaus. Þeir hafa ekki hugmynd, ekki frekar en Friðrik, um hvað guðinum þeirra finnst. Þannig að með því að fullyrða að guði finnst samkynhneigð víst vera fín, þá er það að stunda sama leik og Friðrik, en bara með öfugum formerkjum.

Ég tel rétt viðbrögð vera þau að bregðast á sama hátt og ef einhver myndi segja manni að álfinum Gústa finnist samkynhneigð vera rétt eða röng. Maður ætti að benda viðkomandi á að hann hefur ekki hugmynd um hvað Gústa finnst, líklega af því að hann er ekki til, og spyrja síðan kurteisislega hverjum sé ekki sama um meint álit einhvers Gústa.


[1] Friðrik og fleiri segja að hneigðin sé ekki synd, heldur einungis “verknaðurinn”. Ég ætla að halda við það að tala um samkynhneigð, meðal annars vegna þess að það miklu auðveldara að tala um “samkynhneigð” í staðinn fyrir “kynlíf einstaklinga af sama kyni” eða eitthvað álíka.

[2] Reyndar eru til einstaka manneskjur sem fullyrða að þær geti talað við álfa. Sú fullyrðing er auðvitað ekki fjarstæðukenndari en sú hugmynd að fólk geti talað við guði.

[3]Nokkur dæmi: "Mundu að bæn er samtal þitt við Guð sem hefur gefið þér lífið. Samtal er á milli tveggja. Það er jafnmikilvægt að hlusta og að setja hugsanir sínar fram." #, "Spurningin sem ég stend frammi fyrir er hvernig fjalla á um bænina/samtal við Guð fyrir unglinga." #

[4] Það má til dæmis færa rök fyrir því að í einu guðspjalli segi Jesús að hjónaskilnaður sé bara leyfilegur ef konan var ekki hrein mey við giftingu! Sjá Jesús og hjónabandið

Hjalti Rúnar Ómarsson 04.10.2011
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


hilmar - 04/10/11 12:14 #

Ykkur hlýtur að leiðast skelfilega úr því þið nennið að fara að særa fram steypuna úr Jóni Val og álíka siðferðispostulum.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 04/10/11 12:33 #

Til þess er vefurinn gerður. Þýðir ekkert að okkur leiðist. Tekur ekki það langan tíma að rumpa af einni grein og birta.


Jón Ferdínand - 04/10/11 19:54 #

Þér hlýtur að þá að leiðast alveg allsvakalega Hilmar fyrst þú nenntir að koma með þetta tilgangslausa komment!


hilmar - 04/10/11 20:19 #

Allt hefur tilgang Jón. Bara það að kalla þig fram og þennan smitandi léttleika þinn, staðfestir ákveðin tilgang.


Helgi Briem - 04/10/11 20:36 #

Hérna er hentugt plakat sem sýnir hvers konar hjónabönd eru biblíunni þóknanlega


Jón Ferdínand - 05/10/11 00:19 #

Var tilgangur þinn semsagt að ''særa'' fram viðbrögð frá fólki eins og mér með þessu ''tilgangslausa'' kommenti þínu? Þú hljómar eins og tröll;)


Kristján (meðlimur vantrú) - 10/10/11 00:00 #

Hljómar frekar bara eins og Hilmar hafi verið að afneita nokkrum kunningskap við Jón Val og líka viðhorf sem hann og skoðanabræður koma með.

Svo sem ekkert hægt að sakast út í það, en menn trúarinnar (fyrirfram afsökunarbeiðni ef slíkt á ekki við þig Hilmar) eiga svo sem ekkert auðvelt með sjálfa sig þegar þeir finna sig knúna til þess að vera sammála okkur. Í þeim tilvikum kemur fersk og góð kaldhæðni ávallt sér vel;)

En mér finnst vanta komment frá einhverjum söfnuðinum af hverju álit Jón Vals eigi rétt á sér. Menn eru nefnilega greinilega í gírnum hérna og tilbúnir;)


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 10/10/11 00:05 #

Félagi minn hann Hilmar er langt í frá skoðanabróðir Jóns Vals. Þetta var bara glettileg athugasemd og ber ekkert að lesa meira í það en það sem þegar stendur.


Balli - 12/10/11 20:51 #

Sælir

Spurning um að skipta um mynd. Þetta sýnir staðlaða mynd af samkynhneigðu fólki. Veit að þetta á að vekja viðbrögð en ég held að sumir/flestir samkynhneigðir lifi venjulegu lífi (þ.e. það sama og meirihluti fólks gerir) bara smá hugsun.


Balli - 12/10/11 20:58 #

Annars er mér sama hvað fólk gerir með öðrum svo fremi sem það er með samþykki beggja aðila. Spurning um að rifja upp afhverju einkvæni er lykilatriði hjá mörgum kristnum en svo má fá sér fleiri konur ef maður er mormóni eða íslam trúar. Er guð ekki samkvæmur sjálfum sér í þessu ?

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.