Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

2012-ruglið

blíblí

Gamall kunningi minn - sem orðinn er frekar hellaður geimverunöttari - benti vinum sínum á Fésbókinni á þetta myndband í sumar. Samkvæmt myndbandinu er heimsendir á morgun.

Ég horfði auðvitað á þetta (og mæli með því að aðrir geri það líka) og komst mér til skelfingar (eða þannig) að því að við ættum aðeins nokkra vikur eftir óhult fyrir kosmískum kröftum. Gaurinn í myndbandinu heitir Alexander Retrov og hann spáði stórum jarðskjálfta 17. ágúst. Munið þið eftir honum?

Í kjölfarið eiga hlutirnir að gerast hratt.

Heljarinnar heimsendir

  • Halastjarnan Elenin, sem í raun er ekki til, heldur er um að ræða brúna dverginn Nibiru (Planet X), og sem stundum er í beinni línulegri afstöðu við sól og jörð (og olli öllum helstu jarðskjálftum síðustu missera) verður á milli sólu og jörðu þann 26. september, n.k. Semsagt á morgun. Veröldin eins og við þekkjum hana er á síðasta degi!

  • Allur Kyrrahafsflekinn mun umhverfast í jarðskjálftum upp á 12 - 16 á Richter. Á morgun. Nýja Sjáland mun hverfa af yfirborði jarðar, Japan og Indónesía og Kína sömuleiðis, svo einhver lönd séu nefnd. Vesturströnd Bandaríkjanna líka.

  • Kosmísk sprenging mun uppræta segulsvið jarðar tímabundið og skilja hana eftir óvarða fyrir geimgeislum.

  • Nibiru mun skyggja á sólu í þrjá heila sólarhringa. Eldfjöll munu gjósa. Vindhraðinn verður hátt í tvö þúsund km/klst. Hitastig verður yfir 60° á celsíus og höf og vötn munu þurrkast upp.

  • Með Nibiru koma geimverur! Undarlegast er þó að við skulum ekki vera farin að verða neitt vör við þetta dvergstirni. Jú, það er eitt gervitungl nýfallið til jarðar, en Retrov segir þau öll meira og minna vera hröpuð þegar þarna er komið við sögu. Þau hljóta þá að gera það í kvöld eða á morgun.

Upplýst trúgirni

En bíddu, átti þetta ekki allt að gerast árið 2012? Var ekki eitthvert dagatal Mayjanna sem spáði fyrir um það? Nei, það var víst falsdagsetning ættuð frá Illuminati til að villa okkur sýn, svo við yrðum ekki undirbúin undir þetta. Planið er nefnilega að NASA (sem er einkafyrirtæki ættað frá Hitlers-Þýskalandi, í eign Illuminati) ætlar að safna eftirlifendum hörmunganna í útrýmingarbúðir.

Hljómar þetta sennilega? Auðvitað ekki. Hvað fær fólk til að spinna upp svona þvælu og af hverju í ósköpunum er alltaf til nóg af fólki til að lepja þetta upp, fólki sem býr í upplýstu, vestrænu nútímasamfélagi? Af hverju þessi hörmungalosti alltaf hreint?

Og þetta er bara einn angi af vitleysunni. Hörmungarrúnkarar hafa nefnilega líka komist að því að pólskipti eru um það bil að verða á plánetunni. Retrov segir þetta verða 17. október n.k.

Fjöll á ferð

Hjá nötturunum þýða pólskipti það að skurn jarðar mun umpólast utan á möttlinum og Ísland verði komið á suðurhvelið eftir nokkurra daga hörmungar. Í alvöru þýðir hugtakið pólskipti þó að segulskaut jarðar færast til um nokkurn veginn hálfhring. Ekkert fjall mun bifast.

Í myndbandinu hér fyrir ofan hefur hörmungarúnkari beint myndbandstökuvél sinni að sjónvarpsskjá þar sem vísindamenn eru spurðir út í pólskipti og hugsanleg áhrif þeirra, með tilliti til þess að segulsviðið minnki eða hverfi tímabundið. Í svörum vísindamannsins þarna er ekkert óeðlilegt, hann talar um pólskipti sem sveiflu segulskautanna, að allur kjarni jarðar sé á ferðinni í því tilliti. Þetta skilur hörmungarúnkarinn ekki.

Lítt dramatísk pólskipti

Pólskipti þurfa ekki að þýða neitt drastískt fyrir okkur, ekki frekar en flökt segulskautsins hefur nú þegar. Það eru helst áttavitanálar sem taka upp á þeim óskunda að beinast í nýjar áttir. Þótt póllinn flökti villast ekki skip og flugvélar, enda eru hreyfingar þessar lúshægar og gögn þessa efnis uppfærð.

Enn fremur eru menn almennt farnir að notast við GPS. Ef pólskipti verða skyndilega gætu farfuglar ruglast, það er allt og sumt. Jú og einstaka göngumaður í óbyggðuðm gæti lent í að ganga í öfuga átt, þar til hann er leiddur í sannleikann um pólskiptin.

En heimskir fréttamenn sjónvarpsstöðvanna eru duglegir við að dreifa villandi upplýsingum:

Þarna er látið að því liggja að magnetíski póllinn hafi alltaf staðið nokkuð kyrr, en sé farinn að ferðast svo hratt að flugvellir þurfi að breyta nöfnum brauta sinna hraðar en auga á festir til að vélar komi rétt inn til lendingar. Hið rétta er að flugbrautir draga heiti sín af áttavitastefnu (120 gráður heitir 12, 230 heitir 23) og með tímanum úreldast þessi nöfn og þurfa breytinga við. Þar erum við að tala áratugi og þetta hefur verið í gangi frá upphafi flugsamgangna.

Segulskaut, mönduhalli og nöttarar

Þótt segulpóllin ferðist aðeins hraðar nú en áður, þá þýðir það ekki að menn séu daglega að mála ný númer á brautarendanna. Þessi frétt er því ekki um neitt og þjónar ekki öðrum tilgangi en þeim að fróa hörmungarúnkurunum.

Nöttarinn sem setti þessa frétt á Youtube klippir svo yfir í viðtöl við Inúíta. Hvað koma þeir vitnisburðir flökti á segulnorðri við? Þeirra sögur lúta að landfræðilegu norðri og eru einungis byggðar á tilfinningu eða gloppóttu minni um hvar sólin var klukkan eitthvað einhvern tiltekin dag ársins.

Að klippa úr frétt um flökt segulskautsins til þáttar um upplifaða breytingu á möndulhalla er alveg glórulaust og sýnir best hvað rúnkararnir eru fáfróðir og illa að sér um einföldustu hluti. Þetta fólk ætti að fara aftur í skóla.

Það sem er mikilvægt að huga að hér, er að möndulhalla jarðar er hægt að mæla. Ef menn ætla að vinna frétt um að hann sé á einhverri örri hreyfingu, þá er einfalt að spjalla við þá sem gert hafa mælingar í þá veru, ekki tala við eskimóa (úbbs, bannorð) sem finnst að sólin hafi verið hærra á lofti en í fyrra.

Það sem býr til alla þessa pólskiptamóðursýki núna er sú staðreynd að hið magnetíska norður hefur færst hraðar síðustu áratugi en aldirnar þar á undan. Það er allt og sumt. Og mikilvægt er að vita að þetta norður er að færast nær norðurpólnum en ekki fjær honum. Allt getur þó gerst í þessum efnum í framtíðinni og pólskipti hafa margoft orðið í jarðsögunni.

Einhverjir þarna úti hafa gaman af því að mistúlka staðreyndir í þeim tilgangi einum að halda okkur skíthræddum við hamfarir. Hvaða ömurlegu fávitar fá kikk út úr slíku?

Samfélag trúgjarnra

Gott fólk, við megum ekki láta þessa hálfbjána sem spinna upp ótrúlegar hörmungarsögur ná valdi yfir huga okkar. Nóg er af hörmungunum samt, flóð, eldgos, jarðskjálftar og fellibyljir, svo fátt eitt sé nefnt.

Heimsendaspámenn hafa alltaf verið til og munu halda áfram að slá sig til riddara út á vitneskju sem þeir draga út um boruna á sér. Þeir þrá tilbeiðslu, upphafningu og ekki síst peninga. Ekki gefa þeim kost á slíku sökum trúgirni og vegna skorts á gagnrýninni hugsun.

Hlæjum að þessu liði.

Birgir Baldursson 25.09.2011
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin , Myndbönd , Nýöld )

Viðbrögð


Einar - 25/09/11 12:13 #

Hvað er búið að spá heimsendi oft ?

Samt trúir fólk þessu eins og sannleika, þegar "ný dagsetning" kemur fram.

Stórmerkilegt.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 25/09/11 13:00 #

Það liggur við að maður dáist að hugmyndafluginu, svona í aðra röndina. En þetta hlýtur að vera einhvers konar gjörningur, amk. Retrov, svona "hvað get ég fengið marga sauði til að trúa þessu?" Verst að svarið er stærra en núll..


Dvergaxinn - 25/09/11 18:12 #

Vá! Vitiði a ðþað er til svo geysilega margt annað miklu meira spennandi að rúnka sér yfir . T.d. kemur góður matur upp í hugann og líka að keyra skemmtilegan bíl eða mótorhjól ? Jafnvel bara að horfa á Mr. Bean er meira spennandi en þetta furðulega væl. Eitt er með samsæriskenningar um stjórnvöld, en þetta jaðrar við bullið í vísindakirkjunni. Minnir helst á " The Hitchhikers guide to the Galaxy!"


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 25/09/11 22:52 #

Dvergaxinn, viltu þá ekki bara "rúnka þér yfir góðum mat"? Verði þér að góðu.

Auðvitað er það heillandi viðfangsefni hvað svona heimsendaspár eru vinsælar og ódrepandi. Sannlega segi ég að það breytist ekki fyrr en þessi kynslóð er gengin.


Gerður G. - 25/09/11 23:21 #

Það var jarðskjálfti í Japan (6.2) og á Reykjanesskaganum. Ekki að það sé neitt teng þessu, er ekki alltaf einhver eldvirkni einhvers staðar á hnettinum. Ég bíð spennt eftir morgundeginum, ég er alltaf spennt fyrir dómsdögum Ég tek nú samt með mér handklæðið svona til öryggis ef ég skyldi þurfa að húkka mér far með geimskipi...


Rebekka (meðlimur í Vantrú) - 26/09/11 05:49 #

Segir hann nokkuð nákvæmlega klukkan hvað heimurinn á að enda í dag? Ég á nefnilega að skila inn ritgerð fljótlega, vildi vita hvort það væri þess virði að klára hana...


Birgir Hrafn Sigurðsson - 26/09/11 14:38 #

Þetta er eitt það fyndnasta sem ég hef nokkurntímann séð.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/09/11 15:55 #

Heimsendir í dag? Jæja. Dagurinn er ekki búinn en.


Björn I - 26/09/11 21:08 #

Komment Reynis er eitthvað sem setja má í fleyg ummæli :)

"Auðvitað er það heillandi viðfangsefni hvað svona heimsendaspár eru vinsælar og ódrepandi. Sannlega segi ég að það breytist ekki fyrr en þessi kynslóð er gengin."

Hólí mólí segir maður nú bara, þetta er tær snilld.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 27/09/11 12:46 #

Þegar hellaði kunningi minn birti þetta vídjó á feisinu hafði einn vinur hann þar í frammi þau ummæli að þetta myndband þyrfti að sýna í öllum skólum veraldar. Honum fannst þessar upplýsingar svona mikilvægar.

Hugsið ykkur!


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 27/09/11 14:40 #

Ég geri fastlega ráð fyrir að gaurinn sé búinn að senda frá sér myndband, "Afsakið, ég hafði rangt fyrir mér. Ég vissi greinilega ekkert um hvað ég var að tala".

Eða ekki.


Eiríkur - 29/09/11 13:06 #

Takið eftir að hann segir oft "I'm being told..." (og hefur séð sýnir frá í æsku)

Gefur til kynna að staðreyndir málsins eiga ekki eftir að hafa neitt að segja. Honum verður bara sagt eitthvað annað.


Walter - 30/09/11 01:10 #

Ótrúlegt rugl. En verst er að það er til fólk sem trúir á svona þvælu og er skíthrætt undir feldi. Sæmilega upplýst fólk hefði maður haldið en það eru alltaf einhverjir sem láta mata sig, leggja jafnvel peninga inn hjá Nigerískum prinsi.


Jon Steinar - 05/10/11 17:41 #

Það má benda þessum nöttum á að í dag er afstaða jarðar gagnvart sólu og vetrarbraut þannig að sú staða hefur ekki komið upp í 25.800 ár og kemur ekki upp næstu 25.800ár. Sama er að segja um afstöðuna á morgun og hinn og hinn og hinn og....


Balli - 12/10/11 21:52 #

Málið er að árið 2012 þá endar dagatal Maya en þeir trúðu á að allt gengi í hringi svo þetta er bara endi eins dagatals og svo tekur næsti hringur við. Ekkert meira en það. Ekki orð um endalok. Varðandi skipti á segulpólum þá tekur það stuttan tíma á jarðfræðilegum mælikvarða sem gæti verið hundrað til þúsund ár, enginn veit. Hinsvegar er það sem gerist er að segulsvið jarðar minnkar sem gerir það að verkum að það nær ekki að stöðva eða beina geislum sólar frá jörðu. Hinsvegar hef ég ekki áhyggjur af því þar sem ég get ekkert gert í því og líkurnar á því að það gerist á minni lífstíð eru afskaplega litlar. Álíka einsog að loftsteinn lendi á jörðinni. Það eru líkur á því en þær eru litlar. Ég gæti frekar dáið á morgun af náttúrulegum orsökum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.